Danmörk kvödd

Síðustu dagar hafa einkennst af niðurpökkun og þrifum en þó höfum við bæði lagt land undir fót og fengið gesti. Um síðustu helgi fórum við á Fjón. Áttum fyrst alveg frábæran dag í Egeskov slot, vorum þar sannir túristar. Mæli virkilega með ferð þangað fyrir þá sem eiga leið um nágrennið. Þarna var eitthvað fyrir alla. Höfðingjasleikjan ég fékk að skoða sjálfa höllina, við vorum reyndar öll hrifin af henni. Skottunni var reyndar meinilla við uppstoppuð dýrahöfuð og tók þó steininn úr þegar við komum að uppstoppuðu ljóni sem lá uppi í rúmi. Hún var sannfærð um að þetta væri lifandi ljón (eðlilega) og þurfti að láta halda á sér. Hún var fullvissuð um að ljónið svæfi, ekki kunni ég við að segja henni að það væri dautt. Annars höfðu dæturnar sérlega gaman af gríðarmiklu leiksvæði, þar sem foreldrarnir fóru illa með þær í hringekjum (eða hvað maður kallar svona prik á palli sem hægt er að snúa), Strumpan hafði líka gaman af því að fara í göngu á hengibrúm sem liggja á milli trjátoppa … móðirin kyngdi lofthræðslunni og lét sig hafa að fara með. Sömuleiðis átti Strumpan stórleik þegar hún tók að sér forystuhlutverk í völundarhúsi, gafst upp eftir rúmlega hálftíma rölt og faðirinn kom okkur á leiðarenda, þó með aðstoð korts. Hann fékk líka eitthvað fyrir sinn snúð, því innan um gamla bíla mátti líka sjá flugvélar. Það kórónaði auðvitað allt að við hrepptum dásemdarveður, 23 stiga hita en enga sól.

Við gistum á gistiheimili sem flokkast sennilega sem bændagisting, hún var að minnsta kosti staðsett í sveit rétt utan Odense og þar voru ýmis dýr búsett. Fengum stórt og gott herbergi, heimabakaðar bollur og kanelsnegle í morgunverð og hund og kött til að knúsa, auk þess sem það var góð aðstaða utan dyra, hengirúm og alles 🙂 . Mælum því óhikað með þessum stað (sem heitir Plougheld, svo ég klári nú meðmælin). Renndum til Odense eftir mat og keyrðum fram hjá því sem áður hét Nordisk landboskole og hýsti mig í þrjár vikur árið 1994. Ég skrækti upp yfir mig af fögnuði þegar við keyrðum hjá, svo dætrum mínum dauðbrá í aftursætinu. Hefði auðvitað átt að snarast út úr bílnum og láta taka af mér mynd fyrir framan húsið. Fundum indverskan take away stað, dömurnar léku sér við kettlinga fyrir utan á meðan við biðum eftir matnum.

Daginn eftir fórum við í heimsókn til Mette og Mads. Hún er með mér í LC, býr á Fjóni (í bæ rétt utan við Nyborg sem heitir Ørbæk) en er í tannréttinganámi í Árósum. Þau eru bændur og rækta epli, jarðarber, sólber, kirsuber og fleira og við fengum smá rúnt um plantekruna og tíndum haug af jarðarberjum. Vorum að auki leyst út með kartöflum, belgbaunum og þeirra eigin epla- og sólberjasafa. Frábær heimsókn, ekki síst að fá svo innsýn í landbúnað talsvert langt frá því sem maður þekkir á Íslandi.

Við komum heim seinni part sunnudags, fengum til okkar gesti í kvöldmat, gamlan nemanda minn út MA (hún er ein af þessum góðu sem maður er alveg til í að eiga samskipti við) og kærustuna hennar. Strumpan varð mikið spennt þegar hún komst að því að kærastan væri lögga og ræddi það mikið hvað hún hefði stefnt að því en væri núna hætt við.

Aðfaranótt þriðjudags komu svo tengdó og fór vel á því að þau yrðu síðustu gestirnir okkar, þar sem þau voru líka þau fyrstu. Dömurnar nutu þess í botn að hafa þau í heimsókn og það munaði heilmikið um að hafa þau að sinna þeim þegar foreldrarnir voru uppteknir við þrif og vinnu. Tengdamamma lét sig auðvitað ekki muna um að aðstoða við þrifin. Þau buðu okkur svo út að borða á fimmtudagskvöld, Strumpan fékk ósk sína uppfyllta, en það hafði verið aðal málið að fara eina lokaferð á Jensens bøfhus. Allir ánægðir eftir þá ferðina. Þau yfirgáfu svo pleisið í gær, á leið í bústaðinn í Svíþjóð. Við í góðum gír að þrífa og pakka, allt gengur frekar vel og ekkert stress. Skruppum meira að segja í dag á fornar slóðir og skoðuðum staðinn sem við gistum á með Árnýju og Hjörvari fyrir 8 árum. Strumpan náði svo einni vinkonugistingu svona í blálokin og við hjónin áttum góða kvöldstund yfir sushi.

Á morgun leggja þau feðgin í lestarferð til Kaupmannahafnar og á mánudag með flugi til Akureyrar. Ég verð örlítið lengur á ferðinni, fer til Skagen og gisti í tvær nætur og sigli svo áleiðis á þriðjudag.

Hvað stendur upp úr og hvers mun ég sakna? Ég ætla að eyða siglingunni í almenna nostalgíu og þunglyndi og skelli kannski inn status með uppgjöri eftir árið þegar heim er komið.

Hátíðarhöld

Strumpan kvaddi bekkinn sinn fyrir viku og var leyst út með alls kyns gjöfum auk teikninga með kveðjum frá öllum í bekknum. Ein til að mynda af henni sem hafmeyju, þar sem teiknarinn hafði skrifað að þetta væri „en tro kopi af dig“ … sá hafði verið með afmælisveislu heima og býr svo vel að hafa sundlaug og daman hafði heldur betur notið sín þar. Við tók svo róleg helgi með smálegri pökkun. Á mánudag fór Strumpan svo á útilífsnámskeið, að sjálfsögðu haldið í hinum enda bæjarins, með tilheyrandi skutlingi. Námskeiðið stóð alla vikuna og vildi svo vel til að það var brakandi blíða allan tímann. Því lauk með gistingu með foreldrunum. Ég fórnaði mér fyrir málstaðinn, enda í sumarfríi og hef enga löggilda afsökun. Eins og stundum áður þegar maður er ekki að nenna einhverju, reynist það skárra en maður þorði að vona. Það er þó óneitanlega skrýtið að taka þátt í svona viðburði þar sem maður þekkir engann og ekki er maður jafn fljótur að blanda geði eins og krakkarnir. Það hitti reyndar svo vel á að tvær bekkjarsystur Strumpunnar voru þarna líka en það skemmtilega var að þarna var líka nágrannastúlka, sem Strumpan hafði skelft með málæði miklu í sumarferð hverfisins í Djurs Sommerland. Þær hafa ekki átt neina samleið síðan, hin stúlkan ekki í hverfisskólanum. Þarna náðu þær svona ljómandi saman og léku sér líka eftir að námskeiðinu lauk á daginn. Ég spjallaði því lauslega við þessa foreldra en fæ engin verðlaun fyrir að vera partýljón, verður oft hugsað til sumra vinkvenna minna sem taka svona aðstæður með trompi. Þetta var allt afskaplega danskt, grillað á báli, farið í kvöldsund og það sem stóð upp úr voru tjöldin, eins konar indíanatjöld sem rúmuðu 10 manns hvert. Sérlega jákvætt fyrir mig með mína náttúrufóbíu að gista í tjaldi með engum botni. Lifði það af en verð að viðurkenna að ég átti alltaf von á svona „Snúðs og Snældu mómenti“ þar sem Snúður flýr tjaldið þegar járnsmiðurinn mætir á svæðið. Ég hélt að ég yrði kannski Snúður dagsins og myndi sofa uppi í tré, en það slapp til. Ekki get ég samt mælt með þessu nema sem öðru vísi upplifun, ég svaf illa og vaknaði öll skæld og snúin. Strumpan er agalega sár að komast ekki á svona námskeið að ári, ég reyndi að hugga hana með því að það væru vissulega útilífsnámskeið heima líka en hún vill bara fá nákvæmlega svona námskeið aftur og planar að vera allt næsta sumar í Danmörku.

Á mánudaginn héldum við annars upp á afmæli ömmu, hún hefði orðið 100 ára. Steiktum pönnukökur í tilefni dagsins. Á þriðjudag fengum við gesti í mat, Viðar frænda og hans fjölskyldu og í bónus voru Harpa systir hans, með mann og bónusdóttur. Áttum skemmtilega kvöldstund og vakti ekki sísta lukku að frændi, sem borðaði vel af matnum, komst að því að rétturinn hefði innihaldið döðlur, sem eru í litlu uppáhaldi. Það er líka gaman að því að Skottan kallar hann samviskusamlega Óla og sér þar klárlega einhvern frændasvip.

Um helgina ætlum við að leggja í lítið ferðalag. Ég á heimboð á Fjóni hjá einni LC systur minni svo við ætlum að keyra á Fjón í fyrramálið og gerast landkönnuðir og sækja þau svo heim á sunnudag. Síðasti séns að sjá og gera eitthvað nýtt áður en við förum heim.