Allar færslur eftir Kisumamma

106910384880850264

Ég hef varla farið út úr húsi í dag. Vissulega þessa daglegu göngu (þegar veður leyfir) með fröken og svo smá skrepp, en annars einn af þessum dögum þar sem maður er algjör innipúki. Hafði mig upp í að senda kennaranum mínum bréf í dag og tilkynna um að ég væri hætt. Þá er öllu fargi af mér létt í sambandi við námið. Það er alveg ótrúlegt hvað mér finnst ég vera frjáls núna. Eiginlega skrýtið, því ég sinnti náminu aldrei á daginn en það munar að það hvíli ekki á manni að maður eigi eftir að gera eitthvað. Og nú get ég horft á sjónvarp án samviskubits. Ég er að verða hinn mesti sjónvarpspúki. Á mánudögum er það Survivor alveg fast. Eins og flestir aðrir held ég mikið upp á Rupert en hins vegar er það algjör nýlunda að það eru margir aðrir sem ég get unnt þess að vinna. Eiginlega líkar mér bara illa við Jon, svo eru nokkrir á gráu svæði, en ég kann mjög vel við Lill, Rubert, Söndru og Christu, og í raun ágætlega við Burton. En ég get varla gert upp á milli Ruperts og Lill, þau eiga bæði skilið að vinna. Það verður fróðlegt að sjá hvaða stefnu þetta tekur.

Ég fékk heimsókn í dag og það telst til mikilla tíðinda. Kristín kom með Svein Áka, langt síðan börnin okkar hafa hist þó svo við séum í Nikolaj og Julie klíkunni. Sveini Áka leist vel á margt dót og skoðaði margar bækur af áhuga og tók held ég sýnishorn af flestum dýrahljóðunum sínum. Það flottasta var án efa fíllinn, enda fæst börn sem taka hann. En honum var ekkert alltaf vel við Sóleyju. Framan af var hún í göngugrindinni og var hvað eftir annað nánast búin að aka hann niður. Þegar hún hætti í grindinni vildi hann gjarnan fá smá salíbunu í henni en er líklega of stór. Samt hefði verið gaman að sjá það. Þegar hann fór heim kyssti hann Sóleyju bless og það var skandall að hafa ekki myndavélina tilbúna því þetta var ósköp sætt. Það lá líka við að hún kyssti á móti en svo var meira freistandi að klípa í hann og reyna að ná bókinni sem hann var með.

Og svo fékk ég líka Eyþór frænda í heimsókn. Hann er að fara í dönskupróf. Og þar sem við náðum svo góðum árangri síðast (hann fékk 9.8 þegar ég aðstoðaði hann í haust) þá kom hann aftur til að taka þetta með trompi. Arnheiður kom með og Sóley var í sínum versta ham og gólaði bara á hana. Hún er að verða svolítið uppástöndug, en það var reyndar gífurleg seinnipartsþreyta í henni og hún fór reyndar í rúmið upp úr sjö og var sofnuð hálf átta. Svo það er ekki von að maður láti eins og flón.

106902661543560925

Loksins kom svona ekta helgardagur, þar sem var ekkert stress og æðibunugangur. Tókum loks af skarið með að festa upp krækjur í þakskeggið fyrir komandi jólaseríu. Það hefur staðið til ansi lengi og tók ekkert langan tíma þegar það var gert. Í leiðinni sinntum við smá vetrarverkum, sem hefði mátt gera fyrr, settum inn hjólin og garðhúsgögnin. Gott að vera búinn að því.

Lentum í vöfflukaffi hjá tengdamömmu, ekki ónýtt það. Sóley er alltaf að fá að smakka góðgæti, um síðustu helgi voru það pönnukökur í lange baner og nú vöfflur. Það veitir ekki af því hún er í fitubúðum. Já, Fat camp er orðið að nýju hugtaki. Núna er það notað um litlar stúlkur sem bæta ekki nógu hratt á sig. Svona er það. Mér finnst Sóley ljómandi braggarleg og það gekk ágætlega að gefa henni að borða. Svo kemur þessi Salómonsdómur í ungbarnaeftirliti, hún er ekki að fylgja sinni kúrfu, gjöra svo vel að fita barnið. Þannig að það eru máltíðir allan daginn núna, og matartímar hafa breyst í tortúr, þar sem henni er gefið að borða eins og einhverjum aligrís og ekki hætt fyrr en flæðir út. Nú á að skora feitt.
Bjarni kom svo í mat í Fat camp en slapp betur en Sóley. Hálfgerður jólailmur í húsinu samt, hér var eldaður léttreyktur hryggur og minnir á gamla tíma. Mummi gerði tilraun að hætti Jóa Fel og eldaði nautalundir í Teriyaki sósu í forrétt.

Besti bitinn fór samt í Prins Valíant. Það átti nefnilega að gera vel við dömuna í Fitubúðunum og við keyptum lambalund. Geri ég þá ekki þau leiðu mistök að gleyma lambabita, nota bene hráum, uppi á bekk. Svo heyrir Mummi urr og hvæs úr eldhúsinu og þá var það Prins að vernda bráðina fyrir aggressívum köttum. Og þá var ekki hægt að bjóða fröken upp á hana, svo kettirnir (lesist: Prins) fengu lambalund í kvöldmat. Það reddaðist þó með dömuna því það leyndist annar biti inni í ísskáp.

Sunnudagskvöld eru bestu kvöld vikunnar. Það eru nefnilega Nikolaj og Julie kvöld hjá mér og Kristínu. Sannkölluð dönskunördakvöld. Þættirnir tóku nýja og óvænta stefnu í kvöld og ekki gott að segja hvernig fer í lokaþætti þessarar seríu næsta sunnudag. Það verður auðvitað að halda lokahóf til að slútta þessu almennilega. Pabbi hennar Kristínar var í heimsókn og þess vegna teygðist á heimsókninni. Hann hefur nefnilega gaman af því að spana mann út í rökræður og ekkert nema gaman að því. Svo viðkvæmu málin voru aðeins rædd í kvöld, trúmál og miðlar og sýndist sitt hverjum. Mummi hefði sómt sér vel í þessum hóp.

106893664157716557

Og þá kemur vonandi fallega færslan sem á erfiða fæðingu. Það var í fyrsta lagi hillan sem kom í hús í dag og Mummi fékk heiðurinn af að setja saman. Hún kemur svona ljómandi vel út, allir DVD diskarnir hýstir þarna og pláss fyrir meira. Stofan þurfti aðeins á breytingu að halda til að nýju hillurnar kæmust fyrir en hún tekur býsna lengi við. Næstum eins og geymslan sem einnig gengur undir nafninu Svartholið.
Nú er ég að hlusta á Til eru fræ – þá dettur mér annars vegar afi í hug – það er bara indælt, en svo minnir þetta mig líka á Dúdda og Ágústu og það er frekar sorglegt.

Í dag fórum við í sveitina. Það telst bara til tíðinda af tveimur ástæðum. Annars vegar vegna þess að á leiðinni þangað fór ég að spá í hvernig það væri, ef ég gæti altíeinu og óforvarandis keypt mér hús, hvort myndi ég kaupa húsið hennar ömmu (aðallega fyrir Mumma og Önnu Steinu) eða fá mér hús í sveitinni. Þetta er svo erfitt val að ég er nánast þakklát fyrir að þessar aðstæður koma ekki upp.

Hins vegar var það heimferðin. Hún var eins og klippt út úr fallegri náttúrulífsmynd. Það var svona týpískt Akureyrarvetrarveður, frost og stilla. Það óvenjulega var tunglið. Þegar við vorum komin svo sem eins og að Gröf (það þekkja allir Eyjafjarðarsveit, er það ekki?) blasti það við, svona eins og til hliðar við nyrstu fjölinn í firðinum (vestan megin). Það var ógnarstórt, svolítið gult og smá skýjahula yfir. Mumma fannst þetta vera eins og Death Star (2). Þegar nær Pollinum dró, var tunglið eins og í mynni fjarðarins og speglaðist í Pollinum, eins og Vaðlaheiðin og Akureyrin sitt á hvað. Ég held að ég hafi sjaldan séð tunglið og umhverfið flottara en þarna og ekki nema fyrir hörðustu sálir að falla ekki í stafi. Eða þannig.
Popppunktur bjargaði svo kvöldinu. Ég gerði nefnilega þau leiðu mistök að byrja að horfa á Breakfast club – á þetta ekki að vera eitthvað meistaraverk? Alveg klénar persónur og Emilio vægast sagt ekki sannfærandi íþróttastjarna. Yfir Popppunkti voru svo pönnukökur að hætti Mumma (Hafdísar og Vilkó), gerist ekki betra. Verst var að það var hörmungarsveitin Vínyl sem vann, mínir menn að þessu sinni voru Á móti sól – þó ég sé ekki mikið fyrir gleðisveitir. Og Felix átti mismæli ársins þegar komið var að liðnum Hljómsveitir „sprautar“ sig!! Viljandi eður ei.

106893459092176595

Ætlar allt að mislukkast núna? Ég er búin að gera tvær tilraunir til að skrifa skýrslu dagsins og fæ bara publish unsuccesful eða eitthvað álíka. Það er óvinátta í uppsiglingu.

106884142958621808

Skemmtilegur seinnipartur í dag. Eftir ungbarnasund, þar sem unga frökenin hélt áfram að sýna sundkennaranum óvinsemd, var farið í stutta heimsókn til langömmu og svo í verslunarleiðangur. Og það kom í ljós að það væri auðveldlega hægt að eyða nokkrum hundraðköllum. Ég veit ekki hvort það var sjálfstjórnin eða plássleysið sem kom í veg fyrir meiri háttar kaup, hallast þó að því síðast talda. VISA kortið var að minnsta kosti sem hinn auðmýksti þjónn til þjónustu reiðubúinn. Við keyptum samt eitt húsgagn í tveimur eintökum. Duttum niður á svo ágæta hillu sem fær að hýsa DVD diskana okkar. Skúffurnar taka ekki lengur við. Hillan var sem sagt keypt í tvíriti en kemur ekki í hús fyrr en á morgun, það er ágætt, ég nenni ekki að setja saman húsgögn í kvöld.

106876799460456985

Í gærkvöldi fór ég allt í einu að spá í hvað Óli bróðir myndi segja um þessa tilraun mína. Ég hef víst tjáð mig ansi hreint út um blogg og bloggara…og það ekkert á jákvæðu nótunum. En hey – þetta er að vísu drengurinn sem þykist ekki vera bloggari – hann er bara að skrifa dagbók!

En vissulega, hvað er ég að spá, eftir að hafa verið ótæpilega á móti þessu? Réttlætingin mín er að einhverju leyti sú að ég þykist ekki vera í leit að athygli (!) eða að vonast til þess að komast að í einhverri útvalinni blogg-klíku. Ég ætla sem sagt ekki að fara að vísa í hina og þessa bloggara sem ég les og vonast til þess að þeir geri það líka við mig. Enda les ég frekar fá blogg. Eiginlega bara fólk sem ég þekki eða kannast við (nú þegar), nema þegar forvitnin um fræga fólkið kitlar mig og ég les Dr Gunna, Jón Ólafs. eða Brian May. Með öðrum orðum, ef ég fer skyndilega að vitna í Stefán Pálsson eða álíka fígúrur, þá má reka allt þetta gamla nöldur ofan í mig. Ekki fyrr.

106867977162795613

Talandi um sósíalísk ekspíríments. Ég er ein af þessum örfáu sem las ekki Ísfólkið á sínum tíma…og það þrátt fyrir að Sverrir Páll mælti með því í íslenskutíma. Ójá. En þegar amma gamla var farin að lesa þetta sá ég mitt óvænsta og byrjaði líka. Það er skemmst frá því að segja að ég veit ekki hvort ég á að elska bækurnar eða hata þær. Í augnablikinu er ég stödd í bók 35 svo eitthvað hafa þær, amma gafst upp í bók 20 eða þar um bil svo ég er lengra leidd en hún. Ég hugsa að ég hafi seríuna nú af en ég held að ég nenni aldrei að lesa þær aftur. Bækurnar eru vægast sagt misgóðar og ég er hrifnust af þeim sem leggja áherslur á persónur en fara ekki á of mikið flakk í undarlegum annars heims pælingum. Já spáið í því – ég ekki að fíla undarlegar annars heims pælingar. Svona getur þetta verið.

106867731936906739

Jæja. Það er ekki ónýtt að hlusta á Villa Vill. Fantagóð tónlist í gangi þessa stundina, áðan voru það Palli og Mónika og núna Villi. Ekkert nema snilld. Og vil ég þá nota tækifærið og minna á nýja diskinn með Óskari (og segja þá eflaust einhverjir Sunnlendingar „Óskari who?“, en þeir um það. Hann er ómissandi eign á hverju heimili. Ég hef enn ekki náð mér af þeim ótíðindum að heyra að það yrðu útgáfutónleikar í Reykjavík en ekki hér (að minnsta kosti að svo stöddu). Skandall og ekkert minna.

106859241287885115

Jæja. Nú fer í gang smá sósjal ekspiríment. Þetta er leyndó eins og er og ég ætla að sjá til hvort ég segi nokkrum frá þessu. Best að gefa þessu nokkra daga og athuga hvort ég springi nokkuð á limminu strax.