Fluttur í Odda

Á morgun flyt ég um set. Reyndar bara með bækurnar mínar og önnur lærdómstól. Ég hef fengið úthlutað aðstöðu á þriðju hæðinni í Odda. Vona að ég nýti mér það sem skyldi og að duglegheitin flæði frá mér.

Mér þykir vænt um Odda, þetta er mín bygging. Ég held að ég hafi síðast setið áfanga í húsinu haustið 2005 en samt eyði ég frítíma mínum á Háskólasvæðinu yfirleitt þar. Árnagarður er svona númer tvö en samt nenni ég eiginlega ekkert að vera þar. Áður en Tommi fékk sjálfur aðstöðu á þriðju hæðinni þá mátti næstum alltaf treysta því að hann væri á annarri hæðinni. Þá gat maður sagt við fólk sem maður var að mæla sér mót við að það ætti bara að hitta mig hjá Tomma. Þjóðfræðinemar eru líka yfirleitt þarna á svæðinu þó þeir séu oftar í kennslustundum annars staðar.

Augljóslega má rekja rætur væntumþykkju minnar til Odda til þess þegar ég var í bókasafns- og upplýsingafræði. Oddi 201 var aðalstofan en Anne Clyde var með fyrirlestrana yfir okkur í 101 og tölvutíma í 301. Alltaf á sama stað á mismunandi hæðum. Við Eygló rifjuðum upp í gær það þegar við aumir BA-nemarnir vorum að fara í tölvustofuna og sáum þar þetta afgirta svæði, ekki bjóst ég við að enda þar innan dyra.

Reyndar ná tengsl mín við Odda aftur á síðustu öld. Þar fékk ég fyrst að leika mér frjáls á internetinu án þess að þurfa að hafa aðra yfir mér. Ég fékk notendanafnið og passwordið hennar Hafdísar og vafraði um. Malkavian web page var uppáhaldið mitt þá og hún er ennþá til núna cirka 13 árum seinna! Það er ending. Ég prufaði líka ircið og endaði á #Queen sem ég sótti reglulega þar til ég hætti að neta að irca sirka 2002. Á rásinni kynntist ég stelpu sem hét, og heitir vonandi enn, Eygló. Ekki sú Eygló sem ég kynntist seinna á ircinu, sú er nokkrum árum yngri en ég á meðan þessi var eldri.

Þetta varð allt í einu trip down memory lane. Alveg óvart. En ég flyt vonandi á morgun í þessa byggingu sem höfðar svona sterkt til mín.  Ég ætlast reyndar til þess að fólk noti tækifærið og heilsi reglulega upp á mig, ég ætla ekki að úldna í lærdómnum þarna uppi.  Ég hef þegar tilkynnt Telmu að það megi nota mig sem félaga þegar hún röltir um með barnavagninn.