Argumentum ad Hitlerium

Ég hef undanfarið rekist á bloggara sem hafa verið að tala um það að Hitler hafi fyrstur farið í herferð gegn reykingum. Yfirleitt er þetta orðað á svona ónákvæman hátt. Það sem er aldrei minnst á er að þýskir vísindamenn voru í forystu í því að rannsaka skaðsemi reykinga áður en Hitler komst til valda. Það var því nokkuð eðlilegt að í Þýskalandi hafi fyrst farið fram herferð gegn reykingum. Það hefði alveg eins getað gerst án þess að nasistar hefðu komist til valda en við getum aldrei vitað slíkt fyrir víst.

Það sem er hins vegar ljóst er að það varð ekkert eðlilegt áframhald á rannsóknum á skaðsemi reykinga vegna arfleiðar Hitlers.  Vísindamenn vildu ekki byggja á því starfi sem var unnið af vísindamönnum sem störfuðu á tímum nasista, jafnvel þeim rannsóknum sem voru unnar áður en Hitler komst til valda. Þetta var reyndar til umræðu í kúrsinum sem ég var í síðustu viku, þeir sem vísa í rannsóknir þýskra fræðimanna frá þessum tíma eru litnir hornauga. Reyndar er undantekningin sú að Bandaríkjamenn voru alveg tilbúnir að nýta sér þá þekkingu sem varð til varðandi vopnatækni í Þýskalandi nasismans. Það er semsagt líklegt að rannsóknir á skaðsemi reykinga hefðu fyrr komist á það stig sem þurfti til að fá reykingabönn ef ekki hefði verið fyrir Hitler.

En grunnpunkturinn er augljóslega sá að það að draga Hitler inn í umræðu um reykingabönn segir ekkert til um gildi þeirra. Við getum alveg eins sagt að Hitler hafi verið mikið fyrir að leggja vegi og því séu vegir eitthvað verri fyrir vikið.  Hitler lét framleiða bíla og þar af leiðandi ætti ekki að framleiða bíla. Hitler var grænmetisæta og þess vegna eru grænmetisætur slæmar. Þetta hefur bara ekkert gildi í rökræðum.