Naomh Pádraig

Það er alveg merkilegt hvað er mikið vitlaust í þessarri frétt á Mbl um dag heilags Patreks. Raunar fréttin uppruninn á BB en það er lítil afsökun. Heilagur Patrekur, eða Naomh Pádraig, var líklega fæddur í Englandi eða Skotlandi. Hann var líklegast kristinn áður en hann var hnepptur í þrældóm af Írum, pabbi hans á að hafa verið djákni en afi hans prestur.

Það er villandi að segja að hann eigi að hafa útrýmt öllum snákum á Írlandi heldur á hann að hafa rekið þá á brott. Við höfum engar heimildir fyrir því að dánardagur hans, sem er oft sagður vera 17. mars 461, hafi verið haldinn hátíðlegur fljótlega eftir dauða hans. Ég held að það sé líka ósennilegt hann notið vinsælda um allt Írland fyrr en töluvert seinna því það eru margir svæðisbundnir dýrlingar sem voru í aðalhlutverki annars staðar.

Það eru annars til nokkuð margar skemmtilegar sögur af Patreki og ég mundi endurtaka einhverjar þeirra ef ég gæti flett þeim upp til að staðfesta. Reyndar var ein mjög einföld og ég segi hana eftir minni.

Guð segir við heilagan Patrek: “ég vil að þú farir og kristnir Íra”. Patrekur svarar því að Írar séu nú alveg óþolandi og ólýðandi og hann vilji ekki fara. Guð sendir þá leiðinlegan mann til að búa í næsta húsi við Patrek og Patrekur segir: “Jæja, þá er væntanlega bara eins gott að fara til Írlands”.

Þetta virkar betur með írskum hreim, jafnvel lélegum.

Raunar eru hátíðahöldin eins og þau eru í dag að miklu leyti upprunin í Bandaríkjunum og voru bara seinna flutt inn til Írlands. Það er þó enginn að lita neinar ár grænar. En mér þætti gaman að vera í Cork núna. Rölta niður götuna hans Patreks og hitta vini mína þar. En því miður hefði það verið of mikið vesen og of dýrt. Ég er hins vegar í grænum Írlandsbol í tilefni dagsins.