Þú ert hommi!

Ég man þegar ég var í Gagganum líklega um 14 ára) og ein bekkjarsystir mín, köllum hana Siggu, kallaði mig homma. Ég hafði þá þegar áttað mig á því að það væri í raun ekkert að því að vera hommi og tók því þessu ekkert illa. Ég vissi samt að hún var að reyna að móðga mig og ákvað að snúa þessu upp á hana og benti henni á að ég hefði fyrir nokkru heyrt hana tala um Pál Óskar og syrgja það að allir hommar væru svo agalega sætir. Ég sagði að hún hefði í raun verið að kalla mig sætan og þakkaði henni hólið.

Ég sá á svipnum hennar að hún fattaði ekkert hvað ég var að fara, hún gat einhvern veginn ekki tengt þetta saman. Um leið hvarf skemmtun mín af þessu hnyttna tilsvari. Ef Sigga hefði skilið hvernig ég hafði snúið þessu við þá hefði hún orðið fúl við mig en hún varð bara ringluð. Væntanlega hefði hún orðið reið ef ég hefði bara sagt á móti að hún væri “tík” eða “hóra” en það hefði bara ekki verið minn stíll.

Lexían sem ég lærði þennan dag var að það er ekkert gaman að eiga við fólk sem er mikið heimskara en maður sjálfur því það fattar almennt ekki þegar það hefur tapað. Rétta svarið við því þegar einhver kallar mann homma í von um að móðga mann er því augljóslega “whatever”. Síðan getur maður snúið sér að einhverju áhugaverðara.