Símaves

Á mánudaginn vorum við Eygló í miklum pælingum um hvernig við ættum að skipuleggja okkur meðan við værum að þvælast í sitt hvoru lagi. Hún þurfti að hitta Svenna en ég þurfti að fara niður í ráðhús á fund. Við ákváðum að lokum að ég skutlaði henni og Gunnsteini í Kringluna þar sem Svenni myndi síðan koma. Ég kæmi síðan til baka og myndi yfirgefa fundinn ef hann liti út fyrir að standa full lengi. Þegar á leið fundinn sendi ég skilaboð til Eyglóar um stöðuna og bjóst við að fá sms ef hún vildi að ég drifi mig. Þegar fundurinn var búinn sé ég hins vegar að skilaboðin fóru ekki neitt. Ég reyndi þá allt til að koma símanum í gang en ekkert gekk. Hann náði engri tengingu.

Ég var því orðinn, eftir því sem ég vissi best, seinn að pikka þau upp í Kringlunni og hafði enga einfalda leið til að ná á þeim (allir sem voru með mér á fundi voru þá líklega farnir og ég kominn dáltið áleiðis). Þetta var svoltið óþægilegt. Ég keyrði upp í Kringlu og tók með mér smámynt í peningasímann til vonar og vara ef ég sæi þau ekki. Sem betur fer voru þau bara á Stjörnutorgi að versla handa okkur mat í Serrano þannig að ég hitti beint á þau. Eygló hafði víst sent mér einhver skilaboð um að vera ekkert að flýta mér. Ég hef alveg sérstakt óþol fyrir að láta fólk bíða eftir mér þannig að þetta reyndi á mig. Voðalega er maður háður símanum.

Ég kom símanum í gang seinna um kvöldið en í dag tók ég eftir að hann var aftur orðinn sambandslaus og hafði þar að auki hafði hann misst hleðsluna mjög snöggt og er því að klikka á fleiri sviðum. Ég hef ekki enn komið honum í gang þannig að ég þarf væntanlega að kaupa mér nýjan síma. Bömmer.

Þannig að ef þið hafið verið að reyna að ná á mér undanfarið þá gæti það hafa klúðrast út af símavesi.