Kolbrún Bergþórsdóttir og trúleysingjarnir

Kolbrún Bergþórsdóttir í Mogganum í dag:

Guð og Hawking
Hawking Veit hann allt?
Fjölmiðlar heimsins brugðust skjótt við á dögunum og tilkynntu að nú væri ljóst að Guð hefði ekki skapað heiminn. Þetta höfðu þeir eftir breska vísindamanninum Stephen Hawking, sem mun vera einn gáfaðasti maður heims. Stór hópur jarðarbúa komst í nokkurt uppnám vegna þessara tíðinda.

Manneskjan er þannig gerð að hún vill vita af því að einhver hafi stjórn á hlutunum. Hún ræður ekki við allt sjálf og er stöðugt að gera vitleysur. Þess vegna er gott að vita af Guði. Ólíkt manninum veit Guð víst alltaf hvað hann er að gera.

Nú er fullyrt að þyngdarlögmálið hafi skapað heiminn en ekki Guð. Þá spyr maður eins og hrekklaus sál: »Er Guð þá ekki líka þyngdarlögmál eða er þyngdarlögmálið ekki bara í Guði, af því að Guð rúmar allt?« – Og ef svo er þá sér maður ekki að nokkuð hafi breyst.

Manneskjunni er hollt að trúa. Fólk sem trúir ekki á neitt er óhamingjusamasta fólk sem maður kynnist. Það þykist yfirleitt vera ógurlega gáfað og lætur sér þykja vænt um fáa og læsist inni í eigin vanlíðan. Nú skal því ekki haldið fram að þetta eigi við um Hawking. En það er rétt að hafa í huga að gáfað fólk veit ekki allt – ólíkt Guði.