Gulur, rauður, grænn og blár – höfundaréttur

Það eru fleiri munaðarlaus verk á íslensku en mann myndi gruna. Mörg þeirra eru barnalög. Hér er eitt sem ég man eftir úr æsku minni.

Gulur, rauður, grænn og blár,
svartur, hvítur, fjólublár.

Ég ákvað að leita að dæmum á Tímaritavefnum. Það kom mér á óvart að ekkert dæmi var um vísuna fyrren árið 1999. En ég uppgötvaði eldri vísu, eða gátu, sem hefur kannski lagt grunninn að fyrstu línunni.

Hver er sá veggur víður og hár
veglegum settur röndum:
gulur, rauður, grænn og blár
gjörður af meistarans höndum

Þessi litaupptalning er því frekar gömul og þá um leið munaðarlaus. Gátan fellur væntanlega ekki undir höfundarétt þar sem það eru meira en 70 ár síðan þetta birtist fyrst án höfundaauðkennis.

Þegar Gunnsteinn byrjaði á leikskóla lærði ég líka þennan seinnipart á litavísuna.

Brúnn, bleikur, banani.

Appelsína talandi.

Ég hef alltaf talið líklegast að þetta sé seinni tíma viðbót en hver veit nema að þetta sé upprunalega útgáfan sem hafi síðan orðið styttri þegar hún fór á flakk.

En hér er þessi vísa sem er augljóslega höfundaverk og fellur undir höfundalög. Hún er reglulega flutt á opinberum vettvangi. Hún er birt víða á vefnum. Verkið er jafnvel notuð í gróðaskyni. En höfundurinn fær engin laun. Er þetta ekki þjófnaður? Er það rétt að nota verk einhvers án endurgjalds bara af því að það eru tæknileg vandkvæði á því að greiða fyrir? Hefur fólk einhvern rétt til að nota verkið?
Auðvitað er þetta ekki þjófnaður. Sú hugmynd að við getum neglt listsköpun, hvort sem hún er einföld eða flókin, niður í að alltaf þurfi að greiða fyrir öll not er fráleit. Ég held að það hljóti að vera til einhver réttur almennings til að nota og njóta listar. Ég held að þessi hugmynd hafi fallið undir það sem í höfundalögum er kallað “einkanot” en sá réttur er aðþrengdur hin seinni ár.