Látbragð verður til

Mér finnst þetta fyndin mynd.Ég er þá búinn að gefa út mitt annað spil. Það heitir Látbragð og er, eins og hið frumlega nafn gefur til kynna, látbragðsleikur. Ég held að hugmyndin hafi fyrst kviknað þegar ég fór að velta fyrir mér hvort það væri í raun og veru til spil sem héti Actionary.

Þetta hefur væntanlega verið árið 2009 og ég var niðursokkinn í leiki því ég var að klára meistararitgerð mína í þjóðfræði sem fjallaði um leiki. Ég er í raun skemmtilega týpan af leikjafræðingi, sumsé ekki hagfræðingur.

Fyrir þá sem ekki vita þá er Actionary bara Pictionary þar sem orðin eru leikin í stað þess að teikna þau. Ég hafði oft heyrt því haldið fram að málið væri ekki svo einfalt og þetta væri alveg sérstakt spil. Google leiddi í ljós að Actionary var ekki til.

En ég fór að hugsa hvort það þyrfti ekki alvöru látbragðsleik. Spil sem væri búið til í kringum hugmyndina að leika. Þannig að ég fór að setja upp lista með kvikmyndum, sjónvarpsþáttum, leikritum, bókum, fólki og málsháttum.

Árið 2009 gáfu tveir fyrrverandi vinnufélagar mínir af Stöð 2, þeir Steini og Ölli, út spilið Spurt að leikslokum. Ég fylgdist með útgáfunni og árið 2010 fórum við í umræður um að gefa út látbragðsspil. Það varð ekkert úr því en það var gott að spjalla við þá og ráðin frá þeim komu sér vel seinna meir.

Árið 2015 ákvað ég nefnilega að gefa út spil í gegnum söfnun á Karolina Fund. Það varð #Kommentakerfið en mögulega hefði Látbragð getað komið út þá strax.

Í ár var spurningin hvort ég ætti að gefa út #Kommentakerfið 2016 eða Látbragð. Ég endaði með að fara í gegnum listana mína og ákvarða hvaða flokkar yrðu notaðir – leikritin duttu út enda oft sömu titlar bæði í bókum og kvikmyndum. Ég sleppti því að safna á Karolina Fund í þetta skipti enda ekki jafn stór grunnfjárfesting núna.

Núna á miðvikudaginn í síðustu viku fékk ég síðan upplagið af spilinu í hendur. Á fimmtudaginn kom ég spilinu í Spilavini, Nexus og Heimkaup. Núna er bara að sjá hvernig markaðsherferðin gengur.