Dapurleg örlög Ole Lund Kirkegaard

Svona í ljósi barnabókaumræðu þá er kannski rétt að tala um barnabækur. Ég les eiginlega á hverju kvöldi fyrir Gunnstein. Við klárum Kalla og sælgætisgerðina annað kvöld eða kvöldið þar á eftir.

Ég er kominn með næstu bók. Það er Fúsi froskagleypir eftir Ole Lund Kirkegaard. Ég hlakka dálítið til enda voru þessar bækur mjög góðar í minningunni.

Mér datt í hug að lesa mér aðeins til um hann Ole Lund og varð dapur að lesa um andlát hans. Reyndar lést hann um einum og hálfum mánuði eftir að ég fæddist þannig að flestir hafa samt væntanlega jafnað sig. En hann var víst 38 ára þegar hann dó (sumsé jafngamall mér í dag). Hann varð úti á leiðinni heim af kránni. Mér datt í hug örlög sögupersónu landa hans HC Andersen þegar ég las þetta.

Ég fann í fljótu bragði enga frétt í íslensku blöðum um andlátið árið sem hann lést. Ég veit ekki hvort hann þótti ekki nógu merkilegur á þessum tíma eða fréttirnar hafi bara ekki borist hingað. Rúmu hálfu ári eftir andlát hans var skrifað um hann í Vísi eins og hann væri enn lifandi.

Ég hlakka samt til að lesa bókina.