Illugastaðir 2017

Við tókum eina máltíð úti við

Miðvikudaginn 26. júlí lagði ég af stað í leiðangur. Fyrsti áfangastaður var Vopnafjörður þar sem fjölskyldan beið. Ég keyrði af stað en ekkert áhugavert gerðist fyrr en rétt utan við Borgarnes þar sem ég sá mann á puttanum. Ég hafði ekki tekið upp puttaferðalang í mjög langan tíma enda yfirleitt með fjölskyldufylltann bíl.

Þetta var rétt rúmlega tvítugur franskur strákur á leið til Akureyrar. Rétt eftir að ég hafði tekið hann upp í þá stoppaði Vegagerðin okkur. Reyndar var þar á ferðinni drengur með skilti sem stóð á Stop. Ekki draumastarfið en hann hafði allavega síma og stól. Við biðum meðan Vegagerðarbíll leiddi bílaröðina sem kom á móti okkur. Þetta var til að takmarka grjótkast. Þegar Vegagerðarbíllinn hafði snúið við þá sneri drengurinn í stólnum skiltinu sínu við og þá stóð Go.

Spjall okkar náði um heim og geima. Ég var ekki lengi að segja honum frá fjölskyldutengslum mínum við Frakkland og hann tók það ekkert nærri sér. Fljótlega fórum við að tala um franska pólitík og ég talaði illa um Le Pen sem var ekkert sérstaklega djarft enda var puttaferðalangurinn, eins og hann útskýrði seinna, barn franskrar móður og föður frá Kongó. Ég veðjaði sumsé réttilega á að hann væri ekki stuðningsmaður Front National. Það gladdi mig svolítið þegar puttaferðalangurinn spurði mig um svart fólk á Íslandi. Ég gat sagt honum frá blámönnum, Hans Jónatan, bandarískum hermönnum og fyrsta skiptinu sem ég sá fullorðinn svartan mann. Hann sagði mér líka frá því þegar hann fór í heimaþorp föður síns þar sem börnin bentu á hann og kölluðu, á sinni tungu, “hvítur, hvítur”.

Ég uppfræddi þann franska um íslenskan mat. Þar á meðal benti ég honum á að eina mögulega ástæðan fyrir því að borða hákarl væri að geta sagt einhverjar karlmennskusögur af sjálfum sér. Ef hann vildi borða ekta mat heimamanna þá ætti hann að fá sér hamborgara með frönskum á milli eða djúpsteikta pylsu. Ég nefndi líka að lambakjöt væri líka boðlegt og þá sérstaklega hangikjöt.

Ég skutlaði franska drengnum á tjaldstæðið á Akureyri en byrjaði þá fljótlega að heyra undarleg hljóð úr bílnum. Ég þorði ekki að keyra mikið lengra og gladdist í hjarta mínu að bíllinn væri leiðinlegur á Akureyri. Ég gat nefnilega hringt í Svavar frænda sem reddaði mér inn á verkstæðið með litlum fyrirvara. Þar kom í ljós að undir bílnum var óhóflegt magn af steinum og tjöru. Því var sópað undan og ég gat haldið áfram ferðinni, óendanlega þakklátur frænda og hans fólki.

Eftir að hafa borðað hamborgara með frönskum á milli dreif ég mig austur. Það var tíðindalítið ferðalag. Það var þoka á heiðum og ég varð hálfringlaður þegar ég kom niður að þorpinu því vegurinn hafði ekki verið tilbúinn síðast þegar ég kom. Það var mikil gleði hjá drengjunum þegar ég kom og líka hjá mér. Ég hafði alveg saknað þeirra. Eygló var líka glöð að sjá mig en ekki jafn óstjórnlega og þeir tveir.

Ég eyddi fimmtudeginum á Vopnafirði, fór í sund og hitti tengdafólk. Ég hafði reyndar náð að missa af besta veðri sumarsins þarna fyrir norðan og austan og var einmitt að missa af besta veðrinu fyrir sunnan. Á föstudag fórum við síðan af stað í átt að Illugastöðum þar sem við höfðum leigt sumarbústað. Það gekk allt vel. Drengirnir þægilegir ekkert óhóflega margir ferðamenn á veginum. Við hentum dótinu okkar inn á Illugastöðum og, eftir að hafa hlustað á ofurjákvæðni Gunnsteins, þá drifum við okkur til Akureyrar þar sem við keyptum nauðsynjar í Bónus. Kvöldmaturinn var síðan snæddur á Bryggjunni.

Laugardagur í sumarbústað var leti. Við byrjuðum á sundi og afrekuðum síðan sem minnst. Við lærðum líka aðeins á heita pottinn. Þegar hér var komið við sögu þá var jákvæðni drengja farin að minnka. Skortur á netsambandi var þar ofarlega á kvörtunarblaði. Það var víst ekki hægt að vita hve mörg myndbönd Unspeakable væri búinn að setja á YouTube meðan við vorum þarna í menningarleysinu. Ég endaði sjálfur á því að sogast inn í einhvern breskan þátt um matráðskonu sem stal lottómiða. Það var hálfdapurlegt hvað ég var farinn að taka þetta allt nærri mér. Við Eygló enduðum síðan kvöldið á að horfa á laugardagsmyndina á RÚV saman.

Sunnudagur byrjaði á sundi og síðan lagði Eygló til að við myndum fara til Grenivíkur. Ég reyndi að fá skýringu á þessari undarlegu hugmynd en hún vildi bara sjá þorpið. Ég veit ekki hvers vegna. En þarna fórum við. Við komust þangað og keyrðum um þorpið allt og stoppuðum síðan við skólann þar sem ætlunin var að drengirnir myndu hreyfa sig aðeins. Gunnsteinn var mjög glaður en Ingimar hafði vaknað eitthvað pirraður og samþykkti enga skemmtun. Á meðan á þessu stóð keyrðu þorpsbúar allir framhjá okkur og störðu. Mér leið svolítið eins og ég væri í Stephen King bók.

Til að reyna að gleðja Ingimar skruppum við í Jónsabúð til að kaupa ís. Hann vildi ekki koma með þannig að við Gunnsteinn fórum einir inn. Ég valdi trúðaís handa Ingimari og ætlaði að sigra hann þannig. Það var hins vegar óstjórnlega rangt hjá mér. Hann vildi velja ísinn sjálfur. Eygló náði að hugga hann og fá hann til að velja nýjan ís meðan sá gamli byrjaði að bráðna. Reyndar fékk trúðaísinn ekki að verða að mauki því að Ingimar var til í að fá smá auka ís þegar hann var búinn með sinn útvalda. Gunnsteinn fékk líka af honum.

Ein helsta gleðin við að fá trúðaís er auðvitað að fá flautu til að gera fullorðna brjálaða. En þegar Gunnsteinn ætlaði að losa sína flautu gekk það ekkert. Ingimar var fljótur að bjóða fram sína þjónustu, sagðist geta gert þetta og stóð við. Þetta var síðan endurtekið á hinni flautunni. Ingimar er greinilega harðhentastur.

Við enduðum á Akureyri þar sem við bættum aðeins við nauðsynjar og fórum aftur á Bryggjuna sem var greinilega orðin eftirlætisstaður hjá drengjum, og svo sem okkur líka.

Mánudagurinn var hefðbundinn með sundi og síðan komu Hafdís og fjölskylda í heimsókn og grill. Það var alveg ógurleg gleði hjá krökkunum en þó voru Sunna og Gunnstein sérstaklega ánægð að leika saman. Við reyndum að fara í mínígólf staðarins en það gekk ekkert rosalega vel af því að flugurnar reyndu að éta okkur. Sérstaklega okkur Hafdísi og börnin á meðan Mummi og Eygló sluppu mun betur. Ég var næstum búinn að missa mig yfir helvítisflugunum.

Á þriðjudag var farið í Mývatnssveit (eftir hið daglega sund), sem hljómar reyndar ekki sem góð ákvörðun miðað við ævintýri mánudagsins. Við borðuðum á Daddapizzu sem var mjög gott en ekki ódýrt nema á mælikvarða Mývatnssveitar. Við fórum síðan og röltum um Dimmuborgir. Gunnsteinn var voðalega glaður fyrst að sjá jólasveinahelli en þolinmæðin var ekki algjör meðan við gengum rúmlega tveggja kílómetra hring. Ég hafði ekki komið í Dimmuborgir lengi og þótti voðalega skrýtið að sjá þetta svona túristavætt. Það skánaði aðeins þegar við vorum komin þarna lengra inn.

Eftir Dimmuborgir komum við við í Samkaup og keyptum okkur ísa. Það var erfið ákvörðun hvað ætti að gera næst en við ákváðum að Fuglasafnið yrði fyrir valinu. Ég reyndi auðvitað að ljúga því að drengjunum að þeir væru að ruglast og þetta væri í raun flugnasafn – sem væri auðvitað miklu meira viðeigandi. En Fuglasafnið sló í gegn. Það boðaði líka gott þegar önd rölti á undan okkur inn. Ingimar heillaðist af haferni en Gunnsteinn var meira að pæla í heildinni. Eftir þetta var bara farið beint í bústaðinn.

Miðvikudagur byrjaði á hinu hefðbundna sundi en síðan fórum við á Akureyri að hitta Rósu og Lindu í Kjarnaskógi. Ég skrapp reyndar fyrst á nýopnaðan skyndibitastað sem heitir Aleppo. Það er var voðalega indælt að sjá aðeins koma fjölbreytt líf í göngugötu heimabæjarins. Í Kjarnaskógi var nýr leikvöllur prufaður eftir að við höfðum náð að hrekja vinnuvélar á brott. Síðan var völundarhús skoðað. Það er líklega ekki nýtt en líklega er ekki langt síðan það náði boðlegri hæð. Eftir það var farið inn í Hrafnagil að hitta Hafdísi og fjölskyldu aftur.

Á fimmtudag höfðum við stór plön um að fara í Ásbyrgi og Axarfjörð og jafnvel að Dettifossi. Það var hins vegar voðalega lítil stemming fyrir langferð þannig að við enduðum með að dúlla okkur, eftir sundið, og að síðan fórum við í stutta ferð að Goðafossi. Við fórum alveg að fossinum sem stendur auðvitað fyrir sínu. Það er skrýtið að vera umvafinn ferðamönnum þarna. Við versluðum aðeins á Fosshól og það voru mistök. Það var rándýrt og nær ekkert var verðmerkt. Þá kom í ljós að mjólkin sem við keyptum þarna var ónýt.

Eins og venjulega tókum við kvöldið í pottinum, allavega við strákarnir. Við vorum sammála um að lágmarkshitinn væri full hár þannig að við tókum okkur til og stilltum pottinn á næturhita. Hægt og rólega fór hitastigið niður í tæpar 29° sem var notaleg tilfinning. Heiti potturinn þarna var reyndar af frekar leiðinlegri tegund. Hann er mjög óreglulegur sem er ætlað til þess að maður geti setið og legið í ýmsum stellingum en aðallega varð það til þess að maður rann auðveldlega til og misteig sig þegar maður var á ferðinni. Þar að auki var óþolandi vesen að þrífa hann enda rann vatnið ekkert almennilega úr honum heldur festist bara í öllum þessum kimum.

Við tókum föstudagsmorgun í sundlauginni, við strákarnir. Ég synti reyndar nær ekkert enda þurfti athyglin að vera á Ingimari. Við bjuggum í annað skiptið til “hatt” úr kleinuhringjum og pylsu. Það vakti mikla lukku. Reyndar hafði Eygló fengið hláturskast þegar ég fór fyrst inn í þetta daginn áður. Eftir að hafa þrifið og drifið allt draslið í bílinn keyrðum við til Akureyrar. Bryggjan varð fyrir valinu. Reyndar hafði Ingimar fyrst sagt flatt nei við því en að lokum áttuðum við okkur á því að hann vildi endilega fá franskar og vissi ekki að það væri alveg hægt að panta þær þarna. Þegar hann var upplýstur um stöðu fransknanna þá tók hann gleði sína á ný og samþykkti Bryggjuna.

Drengirnir voru yndislegir í bílnum. Við tókum bara eitt pissustopp enda var gulrót við enda leiðarinnar til Reykjavíkur, KFC í Mosfellsbæ. Maturinn þar er vissulega alveg ágætur, og það fást franskar, en aðallega er það leiksvæðið sem heillar.

Það var mikil gleði að komast heim nema að blokkin er að missa græna litinn og orðin full hvít sem er full ljótt.