Playstation 2 úr Góða hirðinum

Um daginn var ég að rölta um Góða hirðinn með sonum mínum og við rákumst á nokkrar Playstation 2 leikjatölvur. Þær kostuðu fimmhundruð krónur. Við ræddum þetta og þótti tilboðið lokkandi. Við keyptum tölvuna og nokkra leiki á hundraðkall. Við tókum líka eitt minniskort á fimmhundruðkall.

Stóri gallinn var að það fylgdi ekki snúra í sjónvarp. Ég las mér til og sá að besti kosturinn væri að kaupa HDMI breytistykki. Ég fann eitt svoleiðis á AliExpress. Næsta skref var að bíða.

Í dag fórum við feðgar á pósthúsið og náðum í pakka frá Ali. Það var ekki bara breytistykkið heldur líka tvær fjarstýringar. Ég tók þá tölvuna og stakk öllu í samband. Og ekkert gerðist. Ég prufaði fleiri HDMI snúrur en ekkert virkaði. Ég stakk heyrnartóli í samband við hljóðtengið sem er líka á breytistykkinu og þá heyrði ég skýrt og greinilega að tölvan var í gangi og leikurinn virtist líka virka. En það er ganglítið þegar maður sér ekki neitt.

PS2 með verðmiðum úr Góða hirðinum. Aftan úr tölvunni vinstra megin sést breytistykkið. Það fær straum úr USB-tenginu á tölvunni. Einnig sjást þráðlausu fjarstýringarnar.

Lukkulega búum við á netöldinni þannig að ég fór að gúggla. Auðvitað hafði einhver lent í sama vandamáli áður og var búinn að setja lausnina á YouTube. Þarna sýnir maður hvernig maður getur breytt myndmerkinu sem PS2 gefur frá sér þannig að breytistykkið geti numið það.

Alveg frábært. Nema að ég var ekki með upprunalegu snúruna svo ég gat ekkert séð valmyndirnar til að breyta stillingunum. En þá hafði einhver annar einmitt lent í þessu sama og hann hafði kommentað með runnunni sem maður þurfti að slá inn á fjarstýringunni til þess að breyta möguleikunum.

Niður, X, (bíða) niður þrisvar sinnum, X, vinstri, X, O.

Ég sló inn töfraþuluna á fjarstýringuna og bingó. Myndin birtist. Þá er allt komið í gang og virkar.