Author Archives: Óli Gneisti Sóleyjarson

Stories of Iceland – Nýtt hlaðvarp (podcast)

Stories of Iceland

Ísland er kind. Sættið ykkur við það.

Eftir miklar vangaveltur og vesen varðandi Vídeóspólu-heimildarmyndina þá er ég loksins kominn með góða aðstöðu til upptöku. Það er í fundarherbergi í kjallara blokkarinnar okkar. En ég get ekki haldið áfram að taka upp viðtöl strax því að það eru núna háværar framkvæmdir í gangi. Það er slæmt að bjóða einhverjum í viðtal þegar hætta er á að borar yfirgnæfi viðmælandann.

Þannig er ég svona fræðilegu skapandi tómi. Ég hef gert nokkra útvarpsþætti og hef því verið nokkuð spenntur að prufa að gera svona hlaðvarpsþætti. Vandinn var auðvitað að finna nálgun sem er ekki löngu kominn. Síðan tók ég upp puttaferðalang og sagði honum endalausar sögur af Íslandi og þá var hugmyndin komin.

Í hlaðvarpsþáttunum Stories of Iceland ætla ég að fjalla um íslenska sögu, menningu og þjóðfræði á ensku. Þættirnir eru ætlaðir útlendingum sem hafa áhuga á Íslandi og ég ætla að reyna að fara aðeins dýpra og vera með aðeins öðruvísi vinkil en þessi hefðbundna landkynning.

Fyrsti þátturinn kallast Troublemaker-Valley og er umfjöllunarefnið Svarfaðardalur og sögur tengdar honum.

Illugastaðir 2017

Við tókum eina máltíð úti við

Miðvikudaginn 26. júlí lagði ég af stað í leiðangur. Fyrsti áfangastaður var Vopnafjörður þar sem fjölskyldan beið. Ég keyrði af stað en ekkert áhugavert gerðist fyrr en rétt utan við Borgarnes þar sem ég sá mann á puttanum. Ég hafði ekki tekið upp puttaferðalang í mjög langan tíma enda yfirleitt með fjölskyldufylltann bíl.

Þetta var rétt rúmlega tvítugur franskur strákur á leið til Akureyrar. Rétt eftir að ég hafði tekið hann upp í þá stoppaði Vegagerðin okkur. Reyndar var þar á ferðinni drengur með skilti sem stóð á Stop. Ekki draumastarfið en hann hafði allavega síma og stól. Við biðum meðan Vegagerðarbíll leiddi bílaröðina sem kom á móti okkur. Þetta var til að takmarka grjótkast. Þegar Vegagerðarbíllinn hafði snúið við þá sneri drengurinn í stólnum skiltinu sínu við og þá stóð Go.

Spjall okkar náði um heim og geima. Ég var ekki lengi að segja honum frá fjölskyldutengslum mínum við Frakkland og hann tók það ekkert nærri sér. Fljótlega fórum við að tala um franska pólitík og ég talaði illa um Le Pen sem var ekkert sérstaklega djarft enda var puttaferðalangurinn, eins og hann útskýrði seinna, barn franskrar móður og föður frá Kongó. Ég veðjaði sumsé réttilega á að hann væri ekki stuðningsmaður Front National. Það gladdi mig svolítið þegar puttaferðalangurinn spurði mig um svart fólk á Íslandi. Ég gat sagt honum frá blámönnum, Hans Jónatan, bandarískum hermönnum og fyrsta skiptinu sem ég sá fullorðinn svartan mann. Hann sagði mér líka frá því þegar hann fór í heimaþorp föður síns þar sem börnin bentu á hann og kölluðu, á sinni tungu, „hvítur, hvítur“.

Ég uppfræddi þann franska um íslenskan mat. Þar á meðal benti ég honum á að eina mögulega ástæðan fyrir því að borða hákarl væri að geta sagt einhverjar karlmennskusögur af sjálfum sér. Ef hann vildi borða ekta mat heimamanna þá ætti hann að fá sér hamborgara með frönskum á milli eða djúpsteikta pylsu. Ég nefndi líka að lambakjöt væri líka boðlegt og þá sérstaklega hangikjöt.

Ég skutlaði franska drengnum á tjaldstæðið á Akureyri en byrjaði þá fljótlega að heyra undarleg hljóð úr bílnum. Ég þorði ekki að keyra mikið lengra og gladdist í hjarta mínu að bíllinn væri leiðinlegur á Akureyri. Ég gat nefnilega hringt í Svavar frænda sem reddaði mér inn á verkstæðið með litlum fyrirvara. Þar kom í ljós að undir bílnum var óhóflegt magn af steinum og tjöru. Því var sópað undan og ég gat haldið áfram ferðinni, óendanlega þakklátur frænda og hans fólki.

Eftir að hafa borðað hamborgara með frönskum á milli dreif ég mig austur. Það var tíðindalítið ferðalag. Það var þoka á heiðum og ég varð hálfringlaður þegar ég kom niður að þorpinu því vegurinn hafði ekki verið tilbúinn síðast þegar ég kom. Það var mikil gleði hjá drengjunum þegar ég kom og líka hjá mér. Ég hafði alveg saknað þeirra. Eygló var líka glöð að sjá mig en ekki jafn óstjórnlega og þeir tveir.

Ég eyddi fimmtudeginum á Vopnafirði, fór í sund og hitti tengdafólk. Ég hafði reyndar náð að missa af besta veðri sumarsins þarna fyrir norðan og austan og var einmitt að missa af besta veðrinu fyrir sunnan. Á föstudag fórum við síðan af stað í átt að Illugastöðum þar sem við höfðum leigt sumarbústað. Það gekk allt vel. Drengirnir þægilegir ekkert óhóflega margir ferðamenn á veginum. Við hentum dótinu okkar inn á Illugastöðum og, eftir að hafa hlustað á ofurjákvæðni Gunnsteins, þá drifum við okkur til Akureyrar þar sem við keyptum nauðsynjar í Bónus. Kvöldmaturinn var síðan snæddur á Bryggjunni.

Laugardagur í sumarbústað var leti. Við byrjuðum á sundi og afrekuðum síðan sem minnst. Við lærðum líka aðeins á heita pottinn. Þegar hér var komið við sögu þá var jákvæðni drengja farin að minnka. Skortur á netsambandi var þar ofarlega á kvörtunarblaði. Það var víst ekki hægt að vita hve mörg myndbönd Unspeakable væri búinn að setja á YouTube meðan við vorum þarna í menningarleysinu. Ég endaði sjálfur á því að sogast inn í einhvern breskan þátt um matráðskonu sem stal lottómiða. Það var hálfdapurlegt hvað ég var farinn að taka þetta allt nærri mér. Við Eygló enduðum síðan kvöldið á að horfa á laugardagsmyndina á RÚV saman.

Sunnudagur byrjaði á sundi og síðan lagði Eygló til að við myndum fara til Grenivíkur. Ég reyndi að fá skýringu á þessari undarlegu hugmynd en hún vildi bara sjá þorpið. Ég veit ekki hvers vegna. En þarna fórum við. Við komust þangað og keyrðum um þorpið allt og stoppuðum síðan við skólann þar sem ætlunin var að drengirnir myndu hreyfa sig aðeins. Gunnsteinn var mjög glaður en Ingimar hafði vaknað eitthvað pirraður og samþykkti enga skemmtun. Á meðan á þessu stóð keyrðu þorpsbúar allir framhjá okkur og störðu. Mér leið svolítið eins og ég væri í Stephen King bók.

Til að reyna að gleðja Ingimar skruppum við í Jónsabúð til að kaupa ís. Hann vildi ekki koma með þannig að við Gunnsteinn fórum einir inn. Ég valdi trúðaís handa Ingimari og ætlaði að sigra hann þannig. Það var hins vegar óstjórnlega rangt hjá mér. Hann vildi velja ísinn sjálfur. Eygló náði að hugga hann og fá hann til að velja nýjan ís meðan sá gamli byrjaði að bráðna. Reyndar fékk trúðaísinn ekki að verða að mauki því að Ingimar var til í að fá smá auka ís þegar hann var búinn með sinn útvalda. Gunnsteinn fékk líka af honum.

Ein helsta gleðin við að fá trúðaís er auðvitað að fá flautu til að gera fullorðna brjálaða. En þegar Gunnsteinn ætlaði að losa sína flautu gekk það ekkert. Ingimar var fljótur að bjóða fram sína þjónustu, sagðist geta gert þetta og stóð við. Þetta var síðan endurtekið á hinni flautunni. Ingimar er greinilega harðhentastur.

Við enduðum á Akureyri þar sem við bættum aðeins við nauðsynjar og fórum aftur á Bryggjuna sem var greinilega orðin eftirlætisstaður hjá drengjum, og svo sem okkur líka.

Mánudagurinn var hefðbundinn með sundi og síðan komu Hafdís og fjölskylda í heimsókn og grill. Það var alveg ógurleg gleði hjá krökkunum en þó voru Sunna og Gunnstein sérstaklega ánægð að leika saman. Við reyndum að fara í mínígólf staðarins en það gekk ekkert rosalega vel af því að flugurnar reyndu að éta okkur. Sérstaklega okkur Hafdísi og börnin á meðan Mummi og Eygló sluppu mun betur. Ég var næstum búinn að missa mig yfir helvítisflugunum.

Á þriðjudag var farið í Mývatnssveit (eftir hið daglega sund), sem hljómar reyndar ekki sem góð ákvörðun miðað við ævintýri mánudagsins. Við borðuðum á Daddapizzu sem var mjög gott en ekki ódýrt nema á mælikvarða Mývatnssveitar. Við fórum síðan og röltum um Dimmuborgir. Gunnsteinn var voðalega glaður fyrst að sjá jólasveinahelli en þolinmæðin var ekki algjör meðan við gengum rúmlega tveggja kílómetra hring. Ég hafði ekki komið í Dimmuborgir lengi og þótti voðalega skrýtið að sjá þetta svona túristavætt. Það skánaði aðeins þegar við vorum komin þarna lengra inn.

Eftir Dimmuborgir komum við við í Samkaup og keyptum okkur ísa. Það var erfið ákvörðun hvað ætti að gera næst en við ákváðum að Fuglasafnið yrði fyrir valinu. Ég reyndi auðvitað að ljúga því að drengjunum að þeir væru að ruglast og þetta væri í raun flugnasafn – sem væri auðvitað miklu meira viðeigandi. En Fuglasafnið sló í gegn. Það boðaði líka gott þegar önd rölti á undan okkur inn. Ingimar heillaðist af haferni en Gunnsteinn var meira að pæla í heildinni. Eftir þetta var bara farið beint í bústaðinn.

Miðvikudagur byrjaði á hinu hefðbundna sundi en síðan fórum við á Akureyri að hitta Rósu og Lindu í Kjarnaskógi. Ég skrapp reyndar fyrst á nýopnaðan skyndibitastað sem heitir Aleppo. Það er var voðalega indælt að sjá aðeins koma fjölbreytt líf í göngugötu heimabæjarins. Í Kjarnaskógi var nýr leikvöllur prufaður eftir að við höfðum náð að hrekja vinnuvélar á brott. Síðan var völundarhús skoðað. Það er líklega ekki nýtt en líklega er ekki langt síðan það náði boðlegri hæð. Eftir það var farið inn í Hrafnagil að hitta Hafdísi og fjölskyldu aftur.

Á fimmtudag höfðum við stór plön um að fara í Ásbyrgi og Axarfjörð og jafnvel að Dettifossi. Það var hins vegar voðalega lítil stemming fyrir langferð þannig að við enduðum með að dúlla okkur, eftir sundið, og að síðan fórum við í stutta ferð að Goðafossi. Við fórum alveg að fossinum sem stendur auðvitað fyrir sínu. Það er skrýtið að vera umvafinn ferðamönnum þarna. Við versluðum aðeins á Fosshól og það voru mistök. Það var rándýrt og nær ekkert var verðmerkt. Þá kom í ljós að mjólkin sem við keyptum þarna var ónýt.

Eins og venjulega tókum við kvöldið í pottinum, allavega við strákarnir. Við vorum sammála um að lágmarkshitinn væri full hár þannig að við tókum okkur til og stilltum pottinn á næturhita. Hægt og rólega fór hitastigið niður í tæpar 29° sem var notaleg tilfinning. Heiti potturinn þarna var reyndar af frekar leiðinlegri tegund. Hann er mjög óreglulegur sem er ætlað til þess að maður geti setið og legið í ýmsum stellingum en aðallega varð það til þess að maður rann auðveldlega til og misteig sig þegar maður var á ferðinni. Þar að auki var óþolandi vesen að þrífa hann enda rann vatnið ekkert almennilega úr honum heldur festist bara í öllum þessum kimum.

Við tókum föstudagsmorgun í sundlauginni, við strákarnir. Ég synti reyndar nær ekkert enda þurfti athyglin að vera á Ingimari. Við bjuggum í annað skiptið til „hatt“ úr kleinuhringjum og pylsu. Það vakti mikla lukku. Reyndar hafði Eygló fengið hláturskast þegar ég fór fyrst inn í þetta daginn áður. Eftir að hafa þrifið og drifið allt draslið í bílinn keyrðum við til Akureyrar. Bryggjan varð fyrir valinu. Reyndar hafði Ingimar fyrst sagt flatt nei við því en að lokum áttuðum við okkur á því að hann vildi endilega fá franskar og vissi ekki að það væri alveg hægt að panta þær þarna. Þegar hann var upplýstur um stöðu fransknanna þá tók hann gleði sína á ný og samþykkti Bryggjuna.

Drengirnir voru yndislegir í bílnum. Við tókum bara eitt pissustopp enda var gulrót við enda leiðarinnar til Reykjavíkur, KFC í Mosfellsbæ. Maturinn þar er vissulega alveg ágætur, og það fást franskar, en aðallega er það leiksvæðið sem heillar.

Það var mikil gleði að komast heim nema að blokkin er að missa græna litinn og orðin full hvít sem er full ljótt.

Fröken Fix – heilasprengja upprunans

Í hversdagslegu dúlli mínu á Tímarit.is þá rakst ég á nokkuð sem sprengdi heilann minn, en þó ekki bókstaflega. Svo virðist sem að meðfylgjandi mynd sýni hina upprunalega Fröken Fix. Hún var persónugerving þvottaefnis.

Þessi auglýsing er frá árinu 1939 en þvottaefnið Fix var fyrst auglýst árið 1935 með frasanum „Fröken Fix“. Elstu auglýsingarnar má t.d. finna í Kirkjuritinu, Sovétvininum og nasistablaðinu Íslandi. Myndin fylgdi þó ekki með fyrr en seinna.

Nasistar (þjóðernis)hreinsa með aðstoð Fröken Fix

Fröken Fix

Samhæft Kodi og Android tónlistarkerfi

Ég keypti mér síma um daginn. Fyrir valinu varð Moto G5 Plus sem ég pantaði mér frá Amazon. Frábær sími, glæný týpa með Android 7 og kostaði rétt um 32 þúsund með gjöldum og sendingarkostnaði.

Að vanda þá þurfti ég að pæla í því hvernig best væri að spila tónlist í honum. Ég er með tónlistarsafnið mitt á flakkara sem er tengdur við Raspberry Pi 3 sem keyrir Kodi. Þó ég noti Spotify reglulega þá er þetta alltaf besta safnið. Þarna eru t.d. allar sólóútgáfur meðlima Queen en margar þeirra vantar á Spotify.

Ég hef lengi notað forritið Yatse til að tengja Kodi við símann minn. Þaðan getur með bæði hlustað og horft á efni úr Kodi í símanum. Yatse getur bæði streymt efni úr Kodi en líka hlaðið því niður. Hér áður fyrr var þetta ekki sérstaklega mikils virði af því að minniskortin voru ekki nógu stór fyrir mikið efni. Núna er ég með 128GB kort þannig að ég geti sett mikið af tónlist þarna inn. Þá minnkar þörfin á að nota streymiþjónustur eins og Spotify.

Ein ástæðan fyrir því að ég nota sjaldan Yatse til að hlusta á tónlist í símanum er að viðmótið er ekki neitt sérstaklega þægilegt fyrir tónlistarspilun. Lukkulega er það þannig að tónlistarsafnið mitt er vel skráð og öll lýsigögn í lagi. Það þýðir að þó að Yatse búi ekki til þægilegt skrárkerfi fyrir tónlistina þegar það hleður henni inn á minniskortið þá getur gott tónlistarforrit lesið lýsigögnin beint og gert efnið aðgengilegt. Í lýsigögnunum hjá mér er ég t.d. með innbyggð plötuumslög þannig að þau birtast vandaræðalaust.

Síminn minn er svo indæll að það fylgdu ákaflega fá forrit frá framleiðandanum. Þarna eru aðallega bara aðal Android forritin. Mér finnst Google Play Music ekki spennandi þannig að ég er að prufa Pi Music Player (ótengt Pæinu í Raspberry Pi held ég). Mér lýst ágætlega á það.

Ég skipti nýlega út fimm diska og einnar kassettu bílgræjunum mínum og setti í staðinn ódýran Aliexpress spilara. Hann er lélegur að mörgu leyti, og ég mæli ekkert með honum almennt, en hann getur skammlaust spilað tónlist í gegnum (Pi Music Player) Bluetooth. Ég nota því forritið MacroDroid, sem framkvæmir sjálfvirkt fyrirfram skráðar skipanir fyrir ákveðnar aðstæður, til þess að ræsa tónlistarspilarann og setja af stað tónlist þegar ég tengist bílgræjunum með Bluetooth.

Það er hægt að gera svipað með önnur tæki. Þannig get ég sagt MacroDroid að kveikja á tónlistinni þegar ég er búinn að ræsa íþróttaforritið mitt og tengja Bluetooth heyrnartólin mín. Maður gæti líka bætt við skipunum þannig að maður gæti sagt spilaranum hvaða tónlist hann ætti að spila. Raddstýringar eru orðnar nógu góðar til að maður geti sagt spilaranum nöfn á spilarlistum eða plötum á ensku en ég er ekki viss um að ég komist upp með að segja honum að spila Ekki verður á allt kosið með Ný Dönsk.

Ég er sumsé á því að framtíðin sé bara núna en ekki alveg á íslensku.

Stjórnarráðið: Hvað er spunnið í opinbera vefi?

Stjórnarráðið var að opna nýjan vef. Í þeirri aðgerð var framinn helsti glæpur sem hægt er að fremja í vefbreytingum. Öllum vefslóðum var breytt og almennt er engin sjálfkrafa aðgerð sem sendir fólk áfram á rétta síðu. Allir hlekkir sem vísuðu á ákveðnar síður hjá íslenskum ráðuneytum eru núna ónýtir.

Ég var ekki hissa þegar ég sá að Sjá, sem hefur séð um „Hvað er spunnið í opinbera vefi?“, segist hafa séð um „að framkvæma notendaprófanir á honum í þróunarferlinu og eins aðgengisúttekt“. Ástæðan er sú að verkefnið „Hvað er spunnið í opinbera vefi?“ er að miklu leyti gagnslaust.

Ég var nefnilega örlítið í þessum málum fyrir nokkrum árum og fór meira að segja á einhverja fyrirlestra hjá þessu fólki. Það sem ég sá var að röðunin á topplistann þeirra var algjörlega galin. Vefir sem uppfylltu yfirborðskennd skilyrði gátu fengið háa einkunn þrátt fyrir að þeir væru illa uppfærðir og illa skipulagðir. Síðan átti þetta að teljast einhver gæðastimpill.

Ég var aðeins að skoða vefinn hjá „Sjá“ og tók hérna skjáskot af einni síðu. Þarna eru margt að. Byrjum á titlinum, sumsé á flipanum. Þar stendur bara Pistlar. Það hjálpar ekki þeim sem er með ótal flipa opna í vafranum sínum. Það hjálpar ekki þegar þú ert að leita í niðurstöðum leitarvéla (Google bjargar þessu reyndar en aðrar leitarvélar sýna bara „Pistlar“).

Ef þið lítið á dagsetninguna þá er hún DESEMBER 1, 2015 (sem sýnir vanvirkni vefsins). Þarna hefur mánaðarheitið verið þýtt en dagsetningin er sýnd á bandvitlausan hátt. Þetta ætti auðvitað að vera 1. desember 2015. Það er ótrúlega einfalt að gera þetta rétt í WordPress sem er vefumsjónarkerfið sem þarna er notað.

Neðst á skjáskotinu sjáið þið síðan að ef þið viljið lesa meira þá smellið þið bara á „Continue reading“. Ég get ekki sagt að það sé til fyrirmyndar. Neðst á síðunni er svo hægt að smella á „Older posts“. Það er ákaflega einfalt að laga svona. Ótrúlega einfalt raunar.

Það sem ég meina er: Hvernig ætti fólk sem getur ekki einu sinni séð um eigin vef sagt öðrum til verka?

Annars þá var svolítið kaldhæðnislegt að ég lenti í svolitlum vandræðum með að finna upplýsingar um verkefnið „Hvað er spunnið í opinbera vefi?“ af því að það er búið að henda öllum síðunum, eða allavega slóðunum. En þá er auðvitað hægt að kíkja á Vefsafnið.

Tónleikasaga mín

Í tilefni þess að ég fór á Rammstein í gær skráði ég hjá setlist.fm hvaða tónleika ég hefði farið á í gegnum tíðina. Týr er á toppnum með 12 tónleika en verst er að ég hef ekki séð þá í nærri átta ár. Ég þurfti að bæta við nokkrum tónleikum þeirra þarna (og um leið nokkrum tónleikastöðum á Íslandi).

Ég ákvað að telja fræga íslenska tónlistarmenn með þannig að Emilíana og Sigur Rós eru þarna. Það vantar reyndar þegar ég laumaðist inn á Emilíönu og Fjallkonuna 1995/6 í Sjallanum og eina tónleika með henni í Háskólabíó. En tónleikar Sigur Rósar árið 1999 á Vopnafirði voru þegar skráðir inn en ég var fyrstur til að skrá að ég hefði verið þar. Ég er ekki hissa enda voru bara svona tuttugu manns þar.

Eyðurnar í tónleikasókn eru greinilegar þarna uppúr 2009 og síðan aftur uppúr 2013. Þið getið giskað hvað veldur.

Maí 20, 2017: Rammstein, Korinn, Kópavogur
Nóv 11, 2016: Nik Kershaw, Harpa – Eldborg, Reykjavík
Okt 14, 2016: Placebo, Store Vega, Copenhagen, Danmörk
Ágú 6, 2016: Muse, Laugardalshöll, Reykjavík
Maí 19, 2016: Emilíana Torrini, Harpa – Eldborg, Reykjavík
Nóv 4, 2012: Sigur Rós Airwaves 2012
Okt 11, 2008: Queen + Paul Rodgers, S.E.C.C., Glasgow, Skotland
Okt 4, 2008: Týr, Nasa, Reykjavík
Okt 3, 2008: Týr, Græni Hatturinn, Akureyri
Okt 2, 2008: Týr, Paddy’s Irish Pub, Keflavík
Júl 9, 2008: Týr, Bryggen, Copenhagen, Danmörk
Maí 27, 2007: Uriah Heep, Laugardalshöll, Reykjavík
Maí 27, 2007: Deep Purple, Laugardalshöll, Reykjavík
Okt 4, 2006: Týr, The Rock, Copenhagen, Danmörk
Júl 30, 2006: Sigur Rós, Klambratún Park, Reykjavík
Júl 27, 2006: Emilíana Torrini, Nasa, Reykjavík
Júl 27, 2006: Belle and Sebastian, Nasa, Reykjavík
Nóv 27, 2005: Sigur Rós, Laugardalshöll, Reykjavík
Júl 23, 2005: Europe, G! Festival 2005
Júl 23, 2005: Týr, G! Festival, Norðragøta, Færeyjar
Júl 5, 2005: Foo Fighters, Reykjavík Rocks 2005
Jún 30, 2005: Duran Duran, Reykjavík Rocks 2005
Jún 7, 2005: Iron Maiden, Egilshollin, Reykjavík
Mar 28, 2005: Queen + Paul Rodgers, Carling Academy Brixton, London, England
Júl 7, 2004: Placebo, Laugardalshöll, Reykjavík
Jún 26, 2004: Týr, Grand Rokk, Reykjavík
Des 11, 2003: Týr, Nasa, Reykjavík
Nóv 23, 2003: Týr, Tjarnarbíó, Reykjavík
Nóv 22, 2003: Týr, Hvíta húsið, Selfoss
Nóv 21, 2003: Týr, Grand Rokk, Reykjavík
Ágú 26, 2003: Foo Fighters, Laugardalshöll, Reykjavík
Apr 6, 2002: Týr, Smáralind, Kópavogur
Jún 15, 2001: Rammstein, Laugardalshöll, Reykjavík
Ágú 14, 1999: Sigur Rós, Mikligarður, Vopnafjörður

Dapurleg örlög Ole Lund Kirkegaard

Svona í ljósi barnabókaumræðu þá er kannski rétt að tala um barnabækur. Ég les eiginlega á hverju kvöldi fyrir Gunnstein. Við klárum Kalla og sælgætisgerðina annað kvöld eða kvöldið þar á eftir.
Ég er kominn með næstu bók. Það er Fúsi froskagleypir eftir Ole Lund Kirkegaard. Ég hlakka dálítið til enda voru þessar bækur mjög góðar í minningunni.
Mér datt í hug að lesa mér aðeins til um hann Ole Lund og varð dapur að lesa um andlát hans. Reyndar lést hann um einum og hálfum mánuði eftir að ég fæddist þannig að flestir hafa samt væntanlega jafnað sig. En hann var víst 38 ára þegar hann dó (sumsé jafngamall mér í dag). Hann varð úti á leiðinni heim af kránni. Mér datt í hug örlög sögupersónu landa hans HC Andersen þegar ég las þetta.
Ég fann í fljótu bragði enga frétt í íslensku blöðum um andlátið árið sem hann lést. Ég veit ekki hvort hann þótti ekki nógu merkilegur á þessum tíma eða fréttirnar hafi bara ekki borist hingað. Rúmu hálfu ári eftir andlát hans var skrifað um hann í Vísi eins og hann væri enn lifandi.
Ég hlakka samt til að lesa bókina.

Netflix: I Am Your Father

Myndin I Am Your Father fær varla mjög háa einkunn en hún er samt áhugaverð. Umfjöllunarefni hennar er David Prowse, maðurinn sem var Svarthöfði undir grímunni en hvorki rödd hans né andlit sáust – aðrir leikarar fengu þau verkefni.

Í myndinni er fjallað um feril Prowse og aðkomu hans að Star Wars. Það kemur í ljós að þetta er ekki sérstaklega falleg saga og, samkvæmt þeirri söguskoðun sem kynnt þarna, er það ekki honum að kenna. Það er einstaka sinnum sem menn eru ósammála honum um hvað hefði gerst en bæði ná kvikmyndargerðarmennirnir að finna gögn sem styðja útgáfu Prowse og þeir fá einhverjar sögur staðfestar af sökudólgunum sjálfum.

Helsti galli myndarinnar er hve mikið annar leikstjórinn er að trana sér fram í myndinni. Það er yfirleitt bæði óþarft og endurtekningarsamt. Myndin er líka teygð alltof mikið. Hún hefði virkað betur ef hún hefði verið stytt um svona hálftíma.

En ég sá ekki eftir því að hafa horft á hana. Það er samt leiðinlegt að Lucasfilm hafi komið í veg fyrir að við gætum séð það sem hefði verið hápunktur myndarinnar.

Látbragð verður til

Mér finnst þetta fyndin mynd.Ég er þá búinn að gefa út mitt annað spil. Það heitir Látbragð og er, eins og hið frumlega nafn gefur til kynna, látbragðsleikur. Ég held að hugmyndin hafi fyrst kviknað þegar ég fór að velta fyrir mér hvort það væri í raun og veru til spil sem héti Actionary.

Þetta hefur væntanlega verið árið 2009 og ég var niðursokkinn í leiki því ég var að klára meistararitgerð mína í þjóðfræði sem fjallaði um leiki. Ég er í raun skemmtilega týpan af leikjafræðingi, sumsé ekki hagfræðingur.

Fyrir þá sem ekki vita þá er Actionary bara Pictionary þar sem orðin eru leikin í stað þess að teikna þau. Ég hafði oft heyrt því haldið fram að málið væri ekki svo einfalt og þetta væri alveg sérstakt spil. Google leiddi í ljós að Actionary var ekki til.

En ég fór að hugsa hvort það þyrfti ekki alvöru látbragðsleik. Spil sem væri búið til í kringum hugmyndina að leika. Þannig að ég fór að setja upp lista með kvikmyndum, sjónvarpsþáttum, leikritum, bókum, fólki og málsháttum.

Árið 2009 gáfu tveir fyrrverandi vinnufélagar mínir af Stöð 2, þeir Steini og Ölli, út spilið Spurt að leikslokum. Ég fylgdist með útgáfunni og árið 2010 fórum við í umræður um að gefa út látbragðsspil. Það varð ekkert úr því en það var gott að spjalla við þá og ráðin frá þeim komu sér vel seinna meir.

Árið 2015 ákvað ég nefnilega að gefa út spil í gegnum söfnun á Karolina Fund. Það varð #Kommentakerfið en mögulega hefði Látbragð getað komið út þá strax.

Í ár var spurningin hvort ég ætti að gefa út #Kommentakerfið 2016 eða Látbragð. Ég endaði með að fara í gegnum listana mína og ákvarða hvaða flokkar yrðu notaðir – leikritin duttu út enda oft sömu titlar bæði í bókum og kvikmyndum. Ég sleppti því að safna á Karolina Fund í þetta skipti enda ekki jafn stór grunnfjárfesting núna.

Núna á miðvikudaginn í síðustu viku fékk ég síðan upplagið af spilinu í hendur. Á fimmtudaginn kom ég spilinu í Spilavini, Nexus og Heimkaup. Núna er bara að sjá hvernig markaðsherferðin gengur.

Placebo í Kaupmannahöfn – haust 2016

Á Ráðhústorgi

Í vor fann ég rosalega fyrir því að ég hefði ekki séð neina hljómsveit sem er í verulegu uppáhaldi hjá mér lengi. Ég fór og skoðaði hverjir væru á ferðalagi og hverjir væru bráðum að fara á ferðalag. Þá kom upp að Placebo væri að fara af stað á tuttugu ára afmælistúr. Við fórum á Placebo þegar þeir komu til Íslands árið 2004 og ég hefði alveg verið til í að fara á venjulega tónleika með þeim en á afmælistúrnum átti að leggja áherslu á eldri lög. Eins og yfirleitt þá er maður meira tilfinningalega tengdur eldri lögunum, bæði af því að maður hefur þekkt þau lengur og líklega af því að maður er líklegri til að taka lög inn á sig þegar maður er yngri.

Það hentaði ágætlega að afmælistúrinn byrjaði í Danmörku. Í Árósum á fimmtudagskvöld og í Kaupmannahöfn á föstudagskvöld. Þar sem ég á fleiri vini í Árósum en Köben var ég dálítið að spá í að fara þangað. En vinnulega hentaði auðvitað betur að taka föstudagskvöldið. Ég keypti tvo miða og bauð Eygló að koma með.Við pöntuðum svo pössun að austan.

Eygló fékk ágæta samloku á Leifsstöð

Eygló fékk ágæta samloku á Leifsstöð

Á fimmtudaginn í síðustu viku var þá kominn tími á ferð. Tengdamamma komin að passa drengi sem virtust ekkert ætla að sakna okkar. Ég fékk ætan hamborgara á Leifsstöð en Eygló fékk grillaða samloku sem var góð á bragðið. Í flugvélinni lenti ég fyrir aftan konu sem hallaði sætinu sínu svo harkalega aftur að hún klessti á hnéið mitt þannig að ég vaknaði upp af ljúfum draumi. Ég eyddi næsta eina og hálfa klukkutíma í að pota í stólbakið hennar og hrista stólinn hennar þar til hún gafst upp og færði sætið fram. Fólk sem hallar sæti sínu aftur í svona þröngum sætaröðum á ekki heima í mannlegu samfélagi.

Við drifum okkur í gegnum Kastrup og tókum lestina í borgina. Reyndar enduðum við á fyrsta farrými án þess að hafa borgað fyrir slíkt en ég var alveg tilbúinn með “ég er heimskur útlendingur” ræðuna mína ef einhver myndi gera athugasemd.

Eygló á Just Thai

Eygló á Just Thai

Í Kaupmannahöfn bað ég Eygló að treysta mér og ég óð af stað í áttina að hótelinu okkar Copenhagen Island Hotel sem ég hafði aldrei áður heimsótt. Áttavitinn minn er auðvitað traustur. Við fleygðum af okkur farangri og ákváðum að vera löt og kíkja bara í verslunarmiðstöðina Fiskitorgið sem er bara við hliðina á hótelinu. Þar náði Eygló að sannfæra mig um að fara á tælenskan stað sem heitir Just Thai og er með hlaðborð. Það var alveg hroðalega gott.

Síðan var það bara að fara aftur á hótelið og fara að sofa. Copenhagn Island Hotel segist vera með módern innréttingar. Það þýðir greinilega að bandarískur uppafjöldamorðingi frá níunda áratugnum sá um að velja húsgögn og liti. En það var fínt. Eina sem ég get sagt slæmt um herbergið er að sturtan var ekki góð fyrir hávaxinn mann og ljósarofinn á rúmgaflinum var illa staðsettur þannig að ég vaknaði ítrekað við að ég hafði sjálfur óvart kveikt ljósin.

Við aðlöguðumst dönskum tíma bara alls ekki og vorum glöð að vera ekki í morgunmat. Þegar við vorum að koma okkur á fætur rakst ég á undarlega tilkynningu frá tónleikastaðnum. Þar stóð að þeir vissu ekki betur en að Placebo myndi spila um kvöldið. Ég hugsaði með sjálfum mér að þarna væri fólk sem tæki tillit til fólks með kvíða og hjálpaði þeim með því að birta svona ítrekanir. En síðan skoðaði ég betur. Brian Molko söngvari Placebo hafði víst horfið af sviði kvöldið áður í Árósum eftir að spilað tvö lög og röflað samhengislaust. Við ákváðum að fylgjast vel með fréttum dagsins.

Við rafhjólið

Við rafhjólið

Eftir að hafa horft á þátt af Travel Man með Richard Ayode náði ég að sannfæra Eygló um að leigja okkur hjól í Kaupmannahöfn. Við tókum meiraðsegja með hjálma til að vera svoltið öðruvísi. Fyrirtækið heitir bycyklen.dk og þetta eru rafhjól. Þau eru hins vegar mjög þung og því ekkert sérstaklega skemmtileg. En þau dugðu vel. Ég sá líka út að það væri betra að kaupa mánaðaráskrift heldur en að borga fyrir hvert skipti. Ég gat líka fengið tvö hjól í einu.

Það vildi svo vel til að rétt við hótelið okkar var stöð með hjólum. Við ákváðum því byrja á að hjóla alveg út á Kóngsins nýja torg og rölta síðan til baka í átt að hótelinu okkar. Við skildum eftir hjólin á stöð sem var fyrir framan Magasín norðursins. Við fórum síðan þar inn og fengum okkur að borða. Ég fékk einhverja voðalega fansí og óspennandi samloku. Eygló var spenntari fyrir Magasín en ég þannig að ég lagði til að hún fengi að fara þar ein á laugardeginum.

Við gosbrunninn á Ráðhústorgi

Við gosbrunninn á Ráðhústorgi

Við röltum Strikið í átt að Ráðhústorgi. Eygló keypti föt á drengina í H&M á meðan ég missti lífsviljann. Games og Faros Cigar eru ennþá skemmtilegustu búðirnar þarna (Games í Jorcks Passage og Faros bara rétt handan við hornið þegar maður kemur út úr Jorcks Passage). En ég keypti svo sem ekkert. Við komum við á Lagkökuhúsinu og ég fékk mér snigil sem mér finnst vera hápunktur danskrar matargerðarlistar. Eygló fékk sér flødebollespøgelse.

Rúta og flutningabílar Placebo

Rúta og flutningabílar Placebo

Síðan var það heim á hótelið og að safna orku fyrir tónleika – og að athuga hvort tónleikarnir yrðu ekki örugglega. Við plottuðum leiðina á Vega, þar sem tónleikarnir áttu að fara fram, og fundum okkur góðan indverskan stað í nágrenni við hann. Ég náði að sannfæra Eygló um að hjóla þangað. Það gekk þolanlega en leiðarkerfið á spjaldtölvu hjólsins var eilítið ruglandi. Eftir að hafa skilað hjólunum kíktum við á röðina við Vega og sáum rútur og flutningabíla sem tilheyrðu væntanlega Placebo.

Eygló á Taj Diner

Eygló á Taj Diner

Þegar við komum þar sem indverski staðurinn átti að vera þá var þar ekkert skilti sem benti til þess að þetta væri staðurinn sem ég var að leita að en það var samt indverskur staður þar. Við fórum þangað og sáum að það var allt fullt af Indverjum. Líklega góðs viti. Við pöntuðum mat og smá saman komust við að þeirri niðurstöðu að þarna væru líklega vinir og vandamenn að fagna opnuninni með eigendunum. Við fengum alveg fínan mat.

Eygló leyfði mér að reyna að finna betri leið frá veitingastaðnum að Vega heldur en Google Maps hafði sagt okkur að fara. Ég var voðalega feginn þegar það gekk upp. Það var hleypt inn í hollum og við vorum fljótlega komin inn. Við fórum upp í tónlistarsalinn. Þar benti Eygló mér á að það væru svalir sem við gætum kannski athugað. Við gerðum það og sáum að þar var hallandi sætaröð. Við fengum staðfest að við mættum sitja þar sem við settumst því þar. Frábært útsýni yfir sviðið.

Takkasímar bannaðir

Takkasímar bannaðir

Vega er voðalega kósí stærð. Tekur eitthvað um tvöþúsund manns. Við sem fórum þarna vorum öfunduð af þeim sem ætluðu að fara á Placebo seinna í túrnum á stærri stöðum. Það var líka reykingabann á Vega sem var stór plús. Kaupmannahöfn hefur reyndar skánað mikið reykingalega séð en það er ennþá sígarettufýla í loftinu.

Á tónleikum

Á tónleikum

Upphitunarhljómsveitin var The Mirror Trap. Ég hafði hlustað dáltið á hana og vissi að hún væri mjög fín og það stóðst. Þeir sögðu ekkert um ástandið á Molko en nefndu að við ættum að skemmta okkur á Placebo. Ég var samt enn óstyrkur.

Rétt fyrir níu byrjaði nýlega útgefið, en þó gamalt, myndband við Every Me, Every You að spila. Eygló hélt þá að myndböndin kæmu kannski bara í staðinn fyrir tónleika. Það kom líka svona niðurtalningarmyndband með klippum úr tuttugu ára sögu Placebo (þar vantaði reyndar nær alveg gamla trommarann þeirra). Síðan byrjuðu hljóðfæraleikarnir að koma á sviðið og að lokum Stefan. Þá byrjuðu þeir á síendurteknu upphafsstefinu á Pure Morning. Mér fannst það standa í einhverjar mínútur en spennan ýkir það væntanlega. Loks kom Molko á svið við töluverðan fögnuð tónleikagesta.

Placebo

Placebo

Þeir héldu áfram með Pure Morning og fóru síðan í Loud Like Love. Eftir það sögðu þeir, líklega Molko, “We Made It”. Hvort það var almenn vísun um að þeir hefðu komist til að halda tónleika eða að þeir hefðu náð að spila fleiri lög en kvöldið áður veit ég ekki. Brian talaði smá áður en þeir spiluðu nýja lagið Jesus Son en mín tilfinning var að hann hafi verið af kvíðinn til að tjá sig vel. Eygló sagði að ég hefði verið taugaóstyrkur fyrir hönd Brian alveg fram á fjórða lag.

David Bowie og Placebo

David Bowie og Placebo

En tónleikarnir keyrðu af stað. Fyrsti hápunkturinn var þegar þeir spiluðu Without You I am Nothing þar sem David Bowie fékk að syngja með af bandi og sást á myndbandi bak við hljómsveitina. Þó fyrrihlutinn hafi verið æði þá náðu þeir að toppa allt með seinnihlutanum sem byrjaði með Slave to the Wage. Mér fannst síðan Special K svo frábært. Manni fannst eins og allir væru að syngja með. Eygló segir að ég hafi ærst við að heyra Nancy Boy. Það var fyrsti smellurinn þeirra og er bara svo yndislegt lag að mér finnst að þeir ættu að fá Nóbelinn fyrir það. Það voru tvö uppklöpp og þeir enduðu á Running Up That Hill sem er upphaflega með Kate Bush en kom út á Covers plötunni þeirra.

Lagalisti:

Lagalistinn á Vega

Lagalistinn á Vega

Pure Morning
Loud Like Love
Jesus’ Son
Soulmates
Special Needs
Lazarus
Too Many Friends
Twenty Years
I Know
Devil in the Details
Space Monkey
Exit Wounds
Protect Me from What I Want
Without You I’m Nothing
36 Degrees
Lady of the Flowers
For What It’s Worth
Slave to the Wage
Special K
Song to Say Goodbye
The Bitter End

Fyrra uppklapp

Teenage Angst
Nancy Boy
Infra-red

Seinna uppklapp.

Running Up That Hill

Þess má geta að ég sá mynd af áætluðum lagalista frá kvöldinu áður og þar var lagið Meds inni. Það hefði verið of viðeigandi miðað við heilsuvandræði Brian og ég giska að það sé ástæðan fyrir að því var sleppt.

Þetta var innilega þess virði. Eygló vildi kíkja á eitthvað “eftirpartí” en ég var alveg búinn þannig að við röltum bara heim á hótel.

Eygló á gömlum slóðum

Eygló á gömlum slóðum

Eftir að hafa farið aftur á Just Thai á Fiskitorginu fórum við á gamlar slóðir Eyglóar frá því í tíundabekkjarferðalaginu hennar. Hún fékk mig með á lúmskan hátt – hún stakk upp á hjólatúr. Við fórum sumsé að Bellehöjfarfuglaheimilinu og röltum síðan í kringum einhverja tjörn þarna. Nostalgíutúrnum lauk með því að fara á bakaríið sem hún heimsótti á hverjum degi í útskriftarferðinni.

Eftir þetta hjóluðum við á Kóngsins nýja torg þar sem ég skildi Eygló eftir þannig að hún gæti fengið útrás fyrir magasínblæti sitt. Þessir hjólatúrar voru stórskemmtilegir og það er bara ekkert mál að hjóla þarna. Ég var reyndar stundum smá óviss með vinstri beygjurnar og síðan var leiðsöguforritið dáltið ruglandi. Sjálfur fór ég bara og skilaði hjólinu rétt við hótelið og kom aftur við í lágverðsversluninni Aldi þar sem ég keypti fjórar sódavatnsflöskur á fimmtán danskar. Afgreiðslumaðurinn spurði mig hvaðan ég væri og þegar ég sagðist vera frá Íslandi þá klappaði hann höndunum fyrir ofan höfuðið og sagði “húh”. Ég held að ég hafi aldrei verið glaðari með fótbolta en akkúrat þá. Á hótelinu kannaði ég úrvalið á danska Netflix.

Eftir að hafa sent mér mörg villandi skilaboð komst Eygló loksins aftur á hótelið. Hún hafði þá treyst leiðbeiningum Google um hve lengi hún væri að labba en herra Google hélt að hún væri hjólandi.

Vafasamur maður á Shezan

Vafasamur maður á Shezan

Við fundum pakistanska staðinn Shezan á Istegade og borðuðum kvöldmat þar. Hann var góður en ekki jafn góður og dómarnir höfðu gefið til kynna. Sem fyrr þá dáðist Eygló að því hve duglegur ég væri að nota dönskuna mína á meðan hún treysti mest á ensku. Ég sagði henni að hún þyrfti að segja Hafdísi systur minni það.

Við höfðum ætlað að eyða kvöldinu í Tívolí en því var aflýst vegna rigningar. Í staðinn fórum við á hótelið eftir að hafa athugað hvort það væri nokkuð spennandi í bíó.

Eins og allir góðir foreldrar sem eru í fríi frá börnum sínum þá notuðum við aftur tækifærið á sunnudagsmorgni til að sofa út. Við tékkuðum okkur út alveg á síðustu mínútu og skildum farangurinn eftir á hótelinu.

Senjóríta á Senorita

Senjóríta á Senorita

Hádegismaturinn var borðaður af hlaðborði á notalengum stað sem heitir Senorita. Reyndar átti ég eftir að sjá eftir Tacokjötsáti mínu því ég var aumur í maganum það sem eftir var dagsins. Ekkert hræðilegt og líklega ekkert að matnum nema að hann var fullkryddaður fyrir maga minn sem var mögulega þreyttur á sterkum mat í öll mál.

Við galloppuðum á Galloppen

Við galloppuðum á Galloppen

Eygló vildi næst rölta að Tívolí og þegar þar kom þá plataði hún mig inn þó við hefðum varla nema klukkutíma þar. Hápunkturinn frá mínu sjónarhorni var þegar við spiluðum Gallopen alveg eins og Richard Ayoade. Hápunktur Eyglóar var væntanlega þegar hún sveiflaðist um tugi metra upp í loftinu á nornapriki á meðan ég stressborðaði ristaðar möndlur.

Til að vera róleg síðustu tvo klukkutímana fórum við á Fiskitorgið og skoðuðum búðir. Þar keypti ég það eina sem ég keypti fyrir sjálfan mig, Chromecast Audio sem ég ætla segja við hátalarana í svefnherberginu.

Hótelið næst, síðan lestarstöðin, næst troðfull lest með miða sem við höfðum óvart keypt of snemma þannig að þeir voru útrunnir. Mér leið illa. Á Kastrup byrjuðum við á því að elta uppi Global Blue Tax Free dæmið og voru send fram og til baka. Í leiðinni lentum við á meinhæðnum tollverði sem nennti greinilega ekki túristum sem ekki vissu hvað þeir væru að gera.

Þegar við vorum komin inn á fríhafnarsvæðið reddaði ég mér bara kóki til að sötra á meðan Eygló reyndi að finna sér eitthvað til að kaupa. Ég endaði með að bíða eftir henni sitjandi á gólfinu við hliðið okkar. Lukkulega var fyrst hleypt inn pakkinu á Saga Class og síðan fólkinu aftast í vélinni þannig að við, sem höfðum sæti við innganginn (og neyðarútganginn) máttum hvort eð er ekki fara inn fyrren síðast.

Kominn aftur á Leifsstöð.

Kominn aftur á Leifsstöð.

Ég naut þess að hafa pláss fyrir fæturna mína í vélinni. Eygló fékk síðan það hlutverk að benda villuráfandi farþegum á að þó dyrnar væru lokaðar þá væri salernið ekki endilega upptekið. Við hlið mér sat ágæt kona að öðru leyti en því að hún át endalaust einhverjar hnetur. Ég hefði líklega dáið ef ég hefði ofnæmi en í staðinn fékk ég bara meiri óþægindi í magann (of dramatískt?).

Það var lukkulega lítið að gera á Leifsstöð. Ég keypti nammi fyrir vinnuna og beið síðan bara eftir töskunum. Á leiðinni út greip Tollurinn mig ekki. Ég veit ekki hvernig ég á að taka þessu sinnuleysi Tollsins í minn garð. Ætli þeir séu svona klárir og sjái bara á mér að ég er ekki smyglaratýpan?

Hérna eru síðan fleiri myndir.