Vídeóspólan – heimildarmynd

VídeóspólanFyrir fimm árum síðan fékk ég hugmynd að heimildarmynd sem ég hef gælt við að gera síðan. Umfjöllunarefnið er vídeóspólan og áhrif hennar á íslenskt samfélag. Þegar ég fékk hugmyndina þá var hugsunin að myndin yrði lokaverkefni mitt í hagnýtri menningarmiðlun og ég man að ég ræddi hugmyndina bæði við Eggert Þór og samnemendur mína. En það fór svo að ég gerði Rafbókavefinn í staðinn. Í fyrra endurvakti ég hugmyndina en þá tók #Kommentakerfið yfir líf mitt.

Núna hef ég ákveðið að fara af stað með verkefnið. Ég er kominn með söfnunarsíðu á Karolina Fund þar sem ég kynni verkefnið. Ástæðan fyrir því að ég er að safna fyrir þessu verkefni er aðallega að ég þarf að fjárfesta í betri tækjum. Það er aðallega það sem snýr að hljóðupptöku en síðan vantar mig helst einhvern ljósabúnað.

Ég held að hugmyndin sjálf sé mjög góð. Vídeóspólan olli byltingu á Íslandi. Menningin varð aldrei söm aftur. En vídeóspólan er kominn á endapunkt núna. Glæsileg kvikmyndasöfn fara beina leið í endurvinnsluna. Myndbandaleigur eru nær útdauðar og þar finnast varla spólur lengur.

Ég bjó til smá kynningarmyndband um verkefnið.

Ég er rasisti en…

Það er nær alltaf þannig að ef einhver byrjar setningu á „ég er ekki rasisti en“ þá er seinni hlutinn af setningunni rasismi. Sjálfur held ég að rasismi sé í okkur flestum. Þá er ég ekki að tala um rasisma í skilningnum kynþáttahatur heldur tilhneiging til að flokka fólk eftir húðlit og öðru slíku. Ég man ekki hvað ég var gamall þegar ég sá fyrst fullorðinn svartan karlmann en ég man að mér þótti það mjög óvenjulegt. Mér finnst allavega ekki erfitt að skilja hvers vegna „Negri í Þistilfirði“ varð frétt á sínum tíma. Ekki kynþáttahatur. En samt svona „við og hinir“.

Ég man ennþá þessa skrýtnu tilfinningu þegar ég kom upp úr neðanjarðarlestinni í Brixton í London árið 2005 og sá ekki einn einasta hvítan mann. Þetta var ekki hræðsla eða andúð eða neitt þannig. Þetta var bara sterk tilfinning að vera öðruvísi. Það er ákaflega hollt að upplifa það af því að maður býr í samfélagi þar sem maður tilheyrir útlitslega meirihlutanum. Í New York fékk ég síðan notalega tilfinningu þar sem maður sá engan meirihluta. Á augnabliki sá maður meiri fjölbreytni í útliti fólks heldur en ég hef séð flesta daga, ef ekki ár, ævi minnar.

Ef ég ætti að botna fyrirsögnina mína þá væri það kannski svona: Ég er rasisti en ég reyni að vera meðvitaður um (meðfæddar?) tilhneigingar mínar til að flokka fólk og passa upp á að það hafi ekki áhrif á dómgreind mína eða það hvernig ég kem fram við fólk. Þetta „við og hinir“ á auðvitað líka við um hluti eins og kyn og trú sem og almennt uppruna. Þegar ég hitti Vestmannaeying þá reyni ég  að muna að það er fyrst og fremst einstaklingur en ekki staðalmynd. Það gæti vel verið að einstaklingurinn hafi ekkert gaman af sprangi og vilji ekki fá Árna Johnsen aftur á þing.

Kannski að dæmið um Vestmannaeyinginn hljómi kjánalegt en það er ágætt af því að við könnumst við landshlutaríg – eða jafnvel bæjarhlutaríg. Í grunnskólum Akureyrar lögðum við nemendur okkar eigið landshlutabundna sjibbólet fyrir kennara til að komast að því hvort þeir væru hræðilegir Reykvíkingar.

Það er einhver þörf fyrir að sjá sig sem hluta af hópi og geta litið niður á annan hóp. Sumt er aðallega í nösunum á fólki. Það á reyndar jafnvel við um ákveðna rasista sem maður hefur rekist á í gegnum tíðina. Þeir geta úthúðað ákveðnum hópum sem óalandi og óferjandi en síðan komið manneskjulega fram við einstaklinga sem tilheyra þessum hópum. Svoleiðis fólki er líklega viðbjargandi en það þarf að tala við það.

Ég veit síðan ekki hvort ég á að gráta eða hlæja þegar ég sé fólk sem fyrir fimmtán árum var alveg miður sín yfir Pólverjum sem voru að koma hingað en eru núna farnir að tala um að Pólverjar séu í lagi og vilja helst fá þá í lið með sér gegn múslimunum. Þetta fólk hefur lært eitthvað, líklega með því að kynnast nógu mörgum einstaklingum til að átta sig á að það getur ekki dæmt þennan hóp í heild sinni, en því hefur mistekist að átta sig á því þetta eru allt bara manneskjur. Góðar, slæmar en aðallega bara venjulegar manneskjur. Ekki hópur til að alhæfa um.

Ráfað um Manhattan

Óli og bókasafnsljóniðVið höfðum lengi talað um að skreppa til New York. Hvorugt okkar hafði heimsótt Bandaríkin. Við gerðum alvöru úr þessu á fimmtudaginn, afmælisdaginn minn.

Á Leifsstöð fékk ég sérmeðferð. Nafnið mitt var á einhverjum sérstökum lista yfir fólk sem þyrfti að fara í auka leit. Hvort það var handahófskennt eða tengt mínum róttæka bakgrunni. Annars sást að ég yrði skoðaður sérstaklega af því að stóð SSSS á miðanum mínum.

Við lentum á JFK um sjöleytið og tókum leigubíl á Edison Hotel sem er alveg við Times Square. Við höfðum skoðað nágrennið og ákváðum að byrja á að fara á ekta bandarískan keðjustað, Olive Garden. Hann var svona nokkurn veginn eins og maður bjóst við. Góður matur en ekki fínn. Svona bara eins og ég. Mér fannst ég innilega vera kominn til Bandaríkjanna þegar þjónn kom með nýtt kókglas handa mér áður en ég hafði klárað það fyrsta.

Við afrekuðum ekki mikið fyrsta kvöldið. Við röltum aðeins um og komum við í verslun sem heitir Danny’s og er við hliðina á hótelinu. Hann varð fastur áfangastaður meðan við vorum í borginni. Alls konar sérstakur matur þarna. Þetta var annars lengsti afmælisdagur sem ég hef upplifað.

Hótelið var annars ágætt. Við ætluðumst ekki til mikils. Verst var reyndar klósettið sjálft sem var bara eins og öll klósett sem ég sá þarna í New York. Það var mjög lágt og með þessum undarlegu setum. Síðan er vatnsborðið óþægilega hátt í þeim.

Á föstudaginn röltum við frekar stefnulaust. Ég fékk steik í morgunmat. Á aðalútibúi New York Public Library, sem þið munið eftir úr Ghostbusters, var mjög indælt andrúmsloft. Síðan var ókeypis þráðlaust net þar líka. Við tókum síðan smá rúnt um Grand Central Station, sem þið munið eftir úr myndum eins og The Fisher King. Næsta máltíð var úr svona matsöluvagni sem seldi arabískan mat. Þar fékk ég dásamlegt falafel. Stemmingin var svoltið skemmd af undarlegum manni sem minnti mig á Adam Sandler að leika heimskan mann. Sá var mjög aðgangsharður og pirrandi í betli.

Við röltum næst að Empire State Building. Við urðum ásátt um að Eygló færi upp meðan lofthræddi ég myndi rölta um nágrennið, aðallega í stóra en mjög óskipulagða spilabúð. Eygló var mjög glöð með útsýnið úr turninum og ég var mjög glaður með útsýnið af götunni.

Við fórum aftur á hótelið til að undirbúa kvöldið. Þá fórum við á örlítið fínni ítalskan veitingastað sem var með þolanlegum en ekkert spes mat.

Þá var komið að leikhúsinu. Við höfðum farið í leikhúsið snemma um daginn og keypt miða á Vesalingana. Það voru smá vonbrigði að Alfie Boe væri ekki að syngja vegna bakmeiðsla en við keyptum samt miða. Konan í miðasölunni, sem var voðaleg New York týpa, náði að sannfæra mig um að eyða tvöfalt meiru í miða heldur en ég ætlaði. Hún sagðist vera að gefa okkur einhvern afslátt en ég var eftir á að spá hvort hún hefði platað mig. Þegar við komum inn í leikhúsið og var vísað til sætis hvarf þessi tilfinning. Við vorum á fjórða bekk. Leikararnir voru bara rétt hjá okkur og maður gat fylgst ákaflega vel með.

Uppfærslan var voðalega skemmtileg. Hún var smá umdeild í fyrra þegar svartur leikari fékk aðalhlutverið. Hann dó síðan mjög óvænt. En það voru einmitt fleiri svartir leikarar með stór hlutverk. Þar bar helst sú sem lék Éponine. Hún var alveg yndisleg. Sem minnir mig á að mér finnst Les Mis alltaf enda voða dapurlega. Ekkert fer eins og maður vildi. Mér fannst annars meira gert úr trúarlega hlut sýningarinnar en bæði í London og kvikmyndinni. Síðan fannst mér eins og uppáhaldslínuna mína vantaði en hún varðar gildi þess að drepa kónga. Já, pólitíkin minna áberandi og trúin meira áberandi. Samt gaman að sjá menn veifa rauðum fánum á Broadway.

Laugardagurinn byrjaði hægt og rólega. Við fórum á Ellen’s Stardust Diner sem margir hafa mælt með. Þar syngja þjónarnir. Það var ágætt. Maturinn minn var ekkert spes en Eygló var mjög glöð. Það var mjög þröngt þarna og smá bið til að komast að. En þjónarnir sungu einmitt lag úr Vesalingunum.

Næst var stefnan tekin á Central Park. Við röltum þar heillengi um. Það er magnað hvernig garðurinn er rammaður af með þessum háhýsum. Við enduðum á Strawberry Fields þar sem er smá minnismerki um John Lennon sem bjó þarna rétt hjá í Dakota byggingunni (sem sást ekki vel vegna framkvæmda) og var auðvitað myrtur þar. Þarna var einn maður að spila á gítar. Hann bað okkur um að syngja með sem ég gerði, en ekki of hátt samt. Þarna var líka dópaður/fullur/klikkaður náungi sem var eins og maður sá í öllum myndum sem gerðust í New York 1980-1990. Hann lét okkur í friði en ákvað að einhverjir menn með arabískt yfirbragð væru talibanar og tjáði það ítrekað.

Það voru sumsé fullt af New York týpum í New York. Kvikmyndir og sjónvarp ljúga ekki. En það var líka fullt af fólki sem var bara almennilegt og söng, eins og ég, þegar lög með Cyndi Lauper voru spiluð í hljóðkerfum verslana. Síðan hafði afgreiðslufólkið húmor fyrir því þegar ég brosti meðan það skoðaði myndina á greiðslukortinu mínu.

Við Central Park er American Museum of Natural History. Þar ráfuðum við heillengi um. Margt spennandi. Ég náði að fá gæsahúð þegar ég skoðaði nýju stóru risaeðluna og var að ímynda mér hana lifandi. Það hefði verið hægt að eyða gríðarlegum tíma þarna.

Eftir safnið fórum við á indverskan stað sem við höfðum fundið á Google Maps. Sá heitir Savoury. Hann var frekar ódýr, eitthvað síðdegistilboð, og maturinn alveg frábær. Eftir það þræddum við heim á leið aðallega skóbúðir.

Um kvöldið ráfuðum við um Times Square. Ég hafði gaman af Disney búðinni. Það er nefnilega þannig að Prúðuleikararnir eru Disney og Star Wars líka. Þannig að það var meira þar en ég bjóst við fyrir mig. Ég keypti Kermitbangsa handa mér. Það er draumur úr æsku. Síðan eitthvað fyrir drengina líka. Ég sendi síðan Eygló í H&M meðan ég fékk mér aftur falafel. Ég gæti lifað af með því að borða bara úr þessum arabísku matsöluvögnum.

Þegar við komum heim á hótelið kveiktum við á NBC til að sjá Saturday Night Life. Reyndar bara í smá tíma en nógu lengi til að sjá Larry David og Bernie Sanders.

Sunnudagurinn varð að hálftilgangslitlu ráfi. Við ætluðum að fara alveg „Downtown“ en það gekk lítið. Við enduðum með að borða á Chipotle sem er svona bandarískur Serrano nema að því leyti að maturinn er ekki góður. Ég verslaði mér föt! Síðan fékk ég afslátt af því að það var dregið uppúr mér að ég hefði haldið einu sinni með Arsenal.

Við ákváðum að gefa niðurbæjardrauminn upp á bátinn og fórum þess í stað að Austuránni. Þar var skemmtilegt útsýni. Við röltum þá áfram þar til við vorum komin framhjá höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna.

Þá þræddum við okkur í átt að Rockafeller Center. Það var voðalega notalegur staður. Þar var maður með stóra myndavél sem kallaði eftirminnilega á samferðamann sinn sem þvældis eitthvað fyrir „You’re killing my work John“. Síðan fékk ég að taka mynd af þessu fólki öllu með stóru myndavélinni. Það var reyndar hálfgert þema að ég tæki myndir fyrir fólk í New York. Ég á mikinn höfundaréttarfjársjóð sem ég ætti að fara að rukka fyrir.

En 30 Rock er auðvitað höfuðskip NBC. Við kíktum í minjagripabúð. Hún var ömurleg. Bara NBC lógóið og eitthvað Today Show. En konan þarna sá að við höfðum ekki áhuga á þessu og benti okkur á að það væri nýrri betri verslun annars staðar. Við fórum þangað. Ég rölti um og sá ekkert áhugavert. Ég ætlaði að segja Eygló það en þá var hún búin að finna Community-deildina. Ég sá þar Troy & Abed in the Morning könnu og keypti strax. Ég gleymdi meira að segja að skamma afgreiðslufólkið fyrir að reka Dan Harmon og hætta síðanmeð Community eftir að hafa ráðið Harmon aftur.

Það var lítið eftir að afreka annað en að fá sér að borða og taka leigubíl á flugvöllinn. Þar fékk ég enga aukaleit. Ég þurfti hins vegar að nota salerni sem varð til þess að ég hefði helst viljað sótthreinsa mig. Flugleiðir/Icelandair ákvað að við Eygló gætum bara ekki fengið að sitja saman á heimleiðinni. Ég notaði hins vegar hinar ýmsu töflur og Emilíönu Torrini til að vinna á flughræðslu minni. Það gekk allt vel. Við lentum klukkan sex á mánudagsmorgun og ég var kominn í vinnuna klukkan átta.

Það gekk auðvitað vel að rata nema að Broadway ruglaði mig. Stundum er Broadway ein gata og stundum tvær í einu.

New York var eiginlega eins og ég bjóst við. Auðvitað er öðruvísi að sjá þessi háhýsi sjálfur en það kom fátt á óvart. Það besta við New York er auðvitað það sem er best við Bandaríkin. Þetta er fjölmenningarsamfélag. Við getum vælt, réttilega, yfir því að amerísk menning sé að taka yfir allt en það má ekki gleyma að þessi einsleita bandaríska menning er líka alþjóðleg.

Kuldahrollurinn mikli eða kælingin mikla

The Big Chill er mín eftirlætismynd. Ég var lengi að fatta það. En ég fór einhverju sinni að pæla hvað það væri sem gæti réttlætt það að kalla mynd eftirlætis eða uppáhaldsmynd. Þarf sú mynd ekki að vera þannig að hún höfðar til manns ekki bara til styttri tíma heldur lengri. Er það ekki mynd sem maður fær alltaf eitthvað nýtt út úr?

Ég held að ég hafi búið í Búðasíðu þegar ég sá myndina fyrst. Það er þó alls ekki víst. Ég hef þá líklega verið 11 ára. Hvað hafði hún að segja mér þá? Kannski af því að hún fjallaði um hippakynslóðina sem var auðvitað fólkið allt í kringum mig. Og þá fann ég líklega helst til samkenndar með börnunum þegar ég sá hana. Síðan gæti verið að ég hafi bara verið svona skotinn í Meg Tilly.

Á framhaldsskóla- og háskólaárum mínum fann ég til augljósrar samkenndar með fólkinu eins og það var þegar það kynntist. Vinstrisinnað lið. Friðarsinnar. Maður sá sjálfan sig og aðra í persónunum. Enginn er einhver einn, allir eru allir.

Í dag er maður bara kominn í samtíð myndarinnar. Persónurnar eiga börn. Þær hafa farið leiðir í lífinu sem samræmast ekki draumum og vonum þeirra. Þá eru persónurnar ósáttar við þær leiðir sem vinirnir hafa valið. Hugmyndin um að selja sig eða sætta sig eða aðlaga sig of mikið. Að nota ekki hæfileika sína.

Þessar hugmyndir og þemu eru auðvitað nátengdar því að dauðinn er lykilatriði í myndinni. Lífið er ekki það sem þú vildir eða vonaðir en dauðinn er verri því hann er tilgangslausari en allt hitt.

Lawrence Kasdan leikstýrði og skrifaði handritið. Hann skýrir titil myndarinnar svona:

The Big Chill is about a cooling process that takes place for every generation when they move from the outward-directed, more idealistic concerns of their youth to a kind of self-absorption, a self-interest which places their personal desires above those of the society or even an ideal.

Spurningin er hvort þessi kæling sé nauðsynleg. Munu allir ganga í gegnum í hana? Ég hef lengi skoðað sjálfan mig með hliðsjón af myndinni. Ég vissi vel af því hvernig hippakynslóðin seldi sig og sætti sig við samfélagið. Þess vegna velti ég því fyrir mér hvort „mín“ kynslóð myndi gera það. Og hún gerði það og hún gerði það ekki. Ekkert er eins. En myndin er ágætur spegill.

Kaldhæðnasta persóna myndarinnar leggur til ákaflega góða ræðu um siðfræði. Hún gengur út á nauðsyn þess að geta réttlætt sjálfan sig við sjálfan sig. Eða við aðra svo sem.  Og það er það sem persónurnar eru að gera alla myndina. Síðan er maður að réttlæta sjálfan sig með því að horfa á hana.

Ísland og Íslam

Á Íslandi má enn finna fólk sem er sárt yfir Tyrkjaráninu. Það er svo sárt að því finnst ómögulegt að múslimar komi til Íslands. Það eru næstum fjögurhundruð ára sárindi. Í því samhengi er ágætt að líta til þess að á Íslandi er til brandari um að konur á Íslandi séu fallegar en konur í Bretlandi séu ljótar af því að víkingar hafi rænt öllum fallegu bresku konunum. Nú munar nokkur hundruð árum á þessum atburðum en ef maður ætlar yfirhöfuð að vera sár svona langt aftur í tímann þá skiptir það ekki öll máli. Íslendingar hafa ekki allir verið blindir á þetta. Mig minnir að einhverjir samtímamenn hafi kallað „Tyrkina“ víkinga.

Fyrir þrettán árum studdi íslenska ríkisstjórnin innrás í Írak. Sú innrás er ein af rótum þess flóttamannavanda sem nú stendur yfir. Getum við hunsað þetta þegar kemur að því að meta hvernig við ættum að bregðast við núverandi vanda? Mega Sýrlendingar vera sárir yfir einhverju sem íslensk ríkisstjórn gerði fyrir rúmum áratug? Maður myndi halda það, sérstaklega í ljósi þess að umrædd ríkisstjórn var endurkjörin strax í kjölfarið. Það má jafnvel segja að þetta sér enn frekar viðeigandi þar sem sömu stjórnmálaflokkar eru við stjórn í dag.

Chromecast og Netflix

NetflixFyrir löngu síðan keypti ég Chromecast (gömlu útgáfuna – nýja er víst með betri þráðlausri tengingu en ég hef ekki lent í veseni með það gamla). Það er svona stykki sem tengist í HDMI tengi á sjónvarpi (ekki kaupa nema að þið hafið laust HDMI tengi). Það fæst á Heimkaup (þar sem er líka hægt að kaupa #Kommentakerfið).

Chromecast þarf reyndar að fá rafmagn í gegnum micro-usb snúru. Chromecast tengist þráðlausa netinu (maður stillir það með því að tengja það fyrst við tölvu). Þegar Chromecast er tengt þá er hægt að stjórna því með Chromecast forriti í snjalltækjum eða með viðbót í Chrome vafranum.

Næst er hægt að setja upp Netflix-forrit í snjallsíma (ég þurfti að endurræsa símann til að láta það virka) eða fara bara á Netflix vefinn. Það er auðvelt að skrá sig. Ég fékk frían aðgang í mánuð og stefni á að halda áfram.

Þegar maður er kominn með áskrift að Netflix þá getur maður sent efni úr síma eða vafra með því að smella á Chromecast merkið sem birtist ef allt hefur verið rétt sett upp.

Making a Murderer – sekt og sakleysi

NetflixÁður en lengra er haldið þá ætla ég að segja að ég mun segja frá ýmsu sem gerist í þáttunum Making a Murderer. Ef þú vilt halda spennunni við áhorfið þá ættirðu alls ekki að lesa. Ég held bara líka að það sem ég skrifa sé ekkert áhugavert nema að maður hafi séð þættina.

Making a Murderer er alveg ákaflega heillandi heimildaþáttasería frá Netflix. Umræðurnar um þetta á netinu voru orðnar slíkar að ég stökk til og “reddaði” mér þáttunum. Síðan gerðist það í gær, meðan ég var að byrja á næst síðasta þættinum að Netflix varð aðgengilegt á Íslandi. Ég skráði mig strax og kláraði að horfa á þetta með fullri heimild. Sem var voða góð tilfinning.

Ég reyndi að passa mig á að falla ekki alveg flatur fyrir öllu sem kom fram því maður veit að framsetningin skiptir rosalega miklu máli sem og notkun á tónlist sem getur bókstaflega spilað með mann.

Það sem stendur eftir eru nokkur atriði.

Aðkoma lögreglumanna sem höfðu tengst fyrra máli Avery var út í hött og hefði átt að stoppa strax.

Málið gegn frændanum var mjög vafasamt. Játningin hans var ákaflega skrýtin. Það að yfirheyra strákinn án þess að foreldri væri viðstatt var slæmt. Yfirlýsingar fyrsta lögmannsins voru út í hött. Framkoma rannsóknarmannsins var stórskrýtin. Tal þessa sama rannsóknarmanns um djöfulinn var snarklikkað.

Kviðdómakerfið er fáránlegt og fjölmiðlaumfjöllun getur gjörspillt því. Það að hafa kviðdóm úr sama sveitarfélagi var vafasamt.

Saksóknarinn virtist óheiðarlegur í framsetningu sinni. Í lokaræðu sinni gegn Avery kom hann líka með fræga rökvillu sem ég kalla “falska valklemmu”.

Nálargatið á lokinu á glasinu var mjög áhugavert.

Svar saksóknara um að gögnum hefði verið sleppt í þáttunum er ekki jafn sannfærandi maður gæti haldið. Ef maður er til dæmis á því að blóði hafi verið komið fyrir inni í bílnum þá er ekkert ósannfærandi að halda að gömlum svitabol hafi verið nuddað undir húddið til að koma DNA þangað.

Helsta stefið í þáttunum, fyrir utan glæpi, sekt og sakleysi, er stéttaskipting og klíkuskapur. Það sem hafði kannski mest áhrif á mig var hve kunnugleg Avery-fjölskyldan var. Foreldrarnir minntu mig á hjón sem ég þekkti í æsku. Ekki mælskt fólk. Ekki sérlega gáfað. En viðkunnanlegt. En hér er ég örugglega að yfirfæra tilfinningar mínar. Frændinn minnti mig síðan á suma sem ég umgekkst í fyrra starfi.

Stéttaskiptingin kemur í ljós þegar öllum er sama um hvað Avery-fólkið er ásakað en það má ekkert segja um löggurnar og saksóknara. Avery-fjölskyldan er einfaldlega hvítt hyski að flestra mati.

Þó maður hafi horft á næstum því tíu klukkutíma af sjónvarpsefni þá getur maður ekkert ályktað um sekt og sakleysi. Að viti. En kannski er sekt og sakleysi ekki stóra spurningin. Kannski er spurningin um hvort málsmeðferðin hafi verið góð. Ég held að hún hafi ekki verið það. Ef við ætlum að tryggja, ef það er yfirhöfuð mögulegt, að saklaust fólk fari ekki í fangelsi þá þurfum við að passa að málsmeðferð sé alltaf góð.

Ef ég  ætti að álykta um sekt eða sakleysi þá held ég að það séu meiri líkur en minni á að frændinn sé saklaus. Ég get eiginlega ekkert sagt um Avery sjálfan.

Ég held að það sé rangt að ætla að krefjast þess að fólk sé látið laust þó heimildarmynd sé sannfærandi. Ég held ég skrifi ekki undir neinar svoleiðis áskoranir. En ég myndi styðja áskorun um að málið sé tekið upp eða skoðað betur. Síðan er réttarkerfið í Bandaríkjunum þannig að maður ætti kannski helst að gefa peninga til að þessir menn geti ráðið sér lögmenn – ef maður vill að málið verði skoðað betur.

Ein kaldhæðnislegasta niðurstaðan við að horfa á heimildaþáttaröð um morðmál er sú að svona mál ætti ekki að há í fjölmiðlum, hvort sem maður vill dæma fólk sekt eða saklaus.

Get ekki lesið teiknimyndablöð

Neil Gaiman og ég.Fyrir tveimur árum endurlas ég Sandman eftir Neil Gaiman. Ég las bókstaflega allt sem ég komst yfir og gerði útvarpsþátt. En á sama tíma var að fara af stað aukasaga af Sandman sem kallaðist Sandman Overture. Ég ákvað strax að byrja að safna þessum blöðum því það er eitthvað sem ég hef aldrei gert áður. Ég hef bara lesið svona sögur í stærri söfnum eða bókum.

Hér er annars þátturinn.

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Ég vona að ég hljómi ekki of mikið eins og Marshall McLuhan en ég er alltaf heillaður af því hvernig miðill getur breytt listformi. Takmarkanirnar sem miðillinn setur er ekki bara til ills heldur oft til góðs. Listamenn starfa inni í ákveðnum kassa – þó þeir séu ekki alltaf naktir. Ég hef áður fjallað um hvernig geisladiskar og hljómplötur setja ákveðin mörk en stafræn útgáfa brýtur þau af sér en samt er tónlist ennþá mörkuð af takmörkunum fyrri forma.

Teiknimyndasögur í hinni bandarísku hefð hafa lengst af verið mótuð af „blaðinu“. Það var nær einnota. Það kom út reglulega. Það var ódýrt. Það var stutt. En bæði með því skrifa lengri sögur, sem við getum kallað grafískar skáldsögur, og með því að safna saman sögum í heild þá breyttist formið. Það fylgdi þessu meira að segja virðing. Ég fjallaði um þetta í þætti mínum um Sandman.

Það þurfti ekki nema tvö blöð til þess að ég gæfist upp á að lesa Sandman Overture. Það voru ekki gæði sögunnar sem ollu því heldur að ég höndla bara ekki að hafa þetta svona stutt. Ég bara held ekki athyglinni. Ég er rétt að komast af stað þegar blaðið er búið.

Það má ekki gleyma að framhaldssögur voru eitt aðal bókmenntaformið á nítjándu öld. Dickens skrifaði svona. Stephen King reyndi síðan að endurvekja formið.

Fyrir stuttu fór ég í Nexus og keypti heildarsafnið af Sandman Overture. Þar er blöðunum safnað saman í eina heild, eins og búið var að gera með eldri sögurnar þegar ég las þær. Það var ekki erfitt að lesa þetta. Ég keyrði þetta í gegn. Sagan er væntanlega ekki sú besta sem Gaiman hefur skrifað en hún er alveg ótrúlega falleg. Ég efast auðvitað um eigið mat því hvernig á ég að geta borið saman eitthvað sem ég las fyrst fyrir rúmum áratug og endurlesið reglulega síðan við þessa glænýju sögu?

Það sem ég velti fyrir mér er hvort að það gæti verið að Gaiman sjálfur sé breyttur. Þegar hann skrifaði Sandman var hann að skrifa fyrir um það bil mánaðarlega útgáfu og var ekki að hugsa um að þessu yrði safnað saman. Núna er hann örugglega meðvitaður um að þetta verður lesið oftar sem heild. Er hann að skrifa fyrir þá sem keyptu stöku blöðin eða er hann að hugsa um of um heildina? Hefði ég frekar haldið athyglinni yfir eldri blöðunum ef ég hefði lesið þau svona stök?

Ég er ekki bestur í neinu – #Kommentakerfið og ég

KommentakerfiðÞannig að ef maður vill monta sig þá gerir maður það á auðmjúkan hátt.

Þegar ég var 12 ára vildi ég verða heimsmeistari í skák. Ég varð ekki heimsmeistari í skák. Ég varð ekki einu sinni Íslandsmeistari. Ekki heldur Akureyrarmeistari. En mínar einu tvær medalíur á ég úr skákinni.

Stundum er smá 12 ára strákur í mér sem vill verða bestur. En ég er ekki bestur í neinu.

En þegar ég horfi á hvað ég hef afrekað með #Kommentakerfið á síðasta hálfa árinu eða svo þá kemur í ljós að ég get heilmargt.

Ég fékk góða hugmynd um spil. Ég prufaði hana. Ég útfærði hana. Ég bætti hana. Ég hafði næga þekkingu á höfundaréttarlögum til að vita hvað ég mætti gera með hugmyndina. Fræðileg þekking mín á spilum og leikjum kom sér ákaflega vel.

Ég notaði mér þekkingu mínu á samfélagsmiðlum og netinu almennt til að safna fyrir prentun á Karolina Fund. Ég bjó til kynningarmyndband fyrir söfnunina. Ég bjó til kynningarmyndir. Ég kom mér í fjölmiðla. Ég þekkti hvaða frjálsa efni á netinu ég mætti nota (myndefni og tónlist). Ég endaði í um 150% af upphæðinni sem ég ætlaði að safna.

Ég sá sjálfur um grafíska vinnslu á spilinu og sá um öll samskipti við prentsmiðjuna. Auðvitað var öll útlitshönnun í mínímalískum stíl.

Ég setti upp vefsíðu. Ég setti upp vefverslun og er að læra á rafræna bókhaldskerfið mitt. Ég fann út hvernig maður getur tekið við greiðslukortum í vefversluninni með sem minnstum kostnaði. Þess má reyndar geta að vefverslunin og greiðslugáttin eru einu ófrjálsu hugbúnaðarlausnirnar sem ég notast við.

En það sem ég er að reyna að segja er að þó það hefðu margir getað fengið betri spilahugmyndir, hefðu getað safnað meiri peningum, hefðu getað hannað útlitið á spilinu og kynningarefninu mun betur og sett upp flottari vefverslanir þá gat ég þetta allt. #Kommentakerfið slær engin sölumet en einhvern tímann á næsta ári kemst ég í ágætan plús (sérstaklega ef þið hafið farið á vefverslunina og kaupið eintak eða farið í Spilavini eða Nexus). Síðan er ég hokinn af reynslu út af öllum mistökunum sem ég gerði.

Það er rétt að taka fram að auðvitað gerði ekki nákvæmlega allt einn. Ég fékk aðstoð og ráð. Það er líka ákaflega góður kostur að geta beðið um aðstoð. Það er síðan enn betra að hafa fólk í kringum sig sem er tilbúið að hjálpa. Takk allir.

Gulur, rauður, grænn og blár – höfundaréttur

Það eru fleiri munaðarlaus verk á íslensku en mann myndi gruna. Mörg þeirra eru barnalög. Hér er eitt sem ég man eftir úr æsku minni.

Gulur, rauður, grænn og blár,
svartur, hvítur, fjólublár.

Ég ákvað að leita að dæmum á Tímaritavefnum. Það kom mér á óvart að ekkert dæmi var um vísuna fyrren árið 1999. En ég uppgötvaði eldri vísu, eða gátu, sem hefur kannski lagt grunninn að fyrstu línunni.

Hver er sá veggur víður og hár
veglegum settur röndum:
gulur, rauður, grænn og blár
gjörður af meistarans höndum

Þessi litaupptalning er því frekar gömul og þá um leið munaðarlaus. Gátan fellur væntanlega ekki undir höfundarétt þar sem það eru meira en 70 ár síðan þetta birtist fyrst án höfundaauðkennis.

Þegar Gunnsteinn byrjaði á leikskóla lærði ég líka þennan seinnipart á litavísuna.

Brúnn, bleikur, banani.
Appelsína talandi.

Ég hef alltaf talið líklegast að þetta sé seinni tíma viðbót en hver veit nema að þetta sé upprunalega útgáfan sem hafi síðan orðið styttri þegar hún fór á flakk.

En hér er þessi vísa sem er augljóslega höfundaverk og fellur undir höfundalög. Hún er reglulega flutt á opinberum vettvangi. Hún er birt víða á vefnum. Verkið er jafnvel notuð í gróðaskyni. En höfundurinn fær engin laun. Er þetta ekki þjófnaður? Er það rétt að nota verk einhvers án endurgjalds bara af því að það eru tæknileg vandkvæði á því að greiða fyrir? Hefur fólk einhvern rétt til að nota verkið?

Auðvitað er þetta ekki þjófnaður. Sú hugmynd að við getum neglt listsköpun, hvort sem hún er einföld eða flókin, niður í að alltaf þurfi að greiða fyrir öll not er fráleit. Ég held að það hljóti að vera til einhver réttur almennings til að nota og njóta listar. Ég held að þessi hugmynd hafi fallið undir það sem í höfundalögum er kallað „einkanot“ en sá réttur er aðþrengdur hin seinni ár.