Archive for apríl, 2007

Hitabylgja

Mánudagur, apríl 30th, 2007

Hitabylgjan í­ borginni hefur þegar fellt sitt fyrsta fórnarlamb. Skeggið mitt fékk að fjúka um helgina og ég fæ aftur um bera vanga strokið.

Er að spá í­ að koma mér upp kerfi – að byrja að safna skeggi fyrsta vetrardag en raka mig svo aftur á sumardaginn fyrsta. Er þetta ekki fí­nt plan?

# # # # # # # # # # # # #

Á tengslum við þessa rí­kisborgararéttarumræðu rámaði mig eitthvað um að einhver yfirmaður handboltans í­ Eyjum hefði fyrir nokkrum misserum sakað Stjörnumenn um að nota loforð um rí­kisborgararéttindi sem gulrót fyrir leikmenn sem Stjarnan lokkaði til sí­n frá öðrum liðum.

Getur verið að ég muni þetta rétt? Urðu einhverjir eftirmálar af þessu?

# # # # # # # # # # # # #

Á dag er mánudagur. Það þýðir: Lost í­ sjónvarpinu. Þættirnir hafa súrnað mjög í­ seinni tí­ð og atburðarásin orðin alltof hröð og ruglingsleg á köflum. Þetta eru þó eiginlega einu sjónvarpsþættirnir sem ég reyni að missa ekki af.

Megi Moggabloggið lenda í­ flugslysi og týnast á dularfullri eyju.

Harðsvíruð auglýsingaherferð?

Fimmtudagur, apríl 26th, 2007

Ég ók Miklubrautina til austurs, framhjá Kringlunni um kl. 13:30 í­ dag. Rak augun í­ risastóra auglýsingaskiltið á bí­lastæðablokkinni og varð furðu lostinn. Þar birtast oft grí­pandi fyrirsagnir af mbl.is – en að þessu sinni var skjámyndin kyrfilega merkt Ví­sir.is. Þar stóð stórum stöfum: „Valgerður Sverrisdóttir verður 1. þingmaður Norðausturkjördæmis.“

Það fyrsta sem ég hugsaði var að nú væri komin ný skoðanakönnun fyrir kjördæmið, daginn eftir að Gallup mældi sama kjördæmi fyrir RÚV. En hví­lí­k umskipti! Á Gallup-könnuninni fékk Framsókn 18% og var fjórði stærsti flokkurinn…

Ég snaraðist inn á skrifstofuna mí­na, opnaði Ví­si og leitaði að könnuninni. Ekkert! Eftir smátí­ma var ég búinn að fullvissa mig um að það væri engin skoðanakönnun – hvað þá að Framsóknarflokkurinn væri í­ stórsókn.

En þá stendur eftir spurningin hvað í­ andsk. var á seyði? Varla auglýsir Ví­sir viljandi rangar fréttir í­ þeirri von að fréttafí­klar fari inn á sí­ðuna? Það væri vissulega áhrifarí­k aðferð, en vafasöm að öllu öðru leyti.

Eða eru Framsóknarmenn kannski farnir að kaupa óskyggjuskilaboð á auglýsingafleka borgarinnar í­ þeirri von að þau verði að áhrí­nisorðum? Varla…

Eða er 2000-vandinn loksins búinn að ráðast á auglýsingaskiltið og það birtir nú fjögurra ára gömul skilaboð?

Spyr sá sem ekki veit.

# # # # # # # # # # # # #

Á ní­unda áratugnum var bygging ratsjárstöðvakerfis Bandarí­kjamanna á öllum landshornum réttlætt með því­ að ratsjárstöðvarnar yrðu sérstaklega gott öryggistæki fyrir sjómenn og aðra sæfarendur. Þessu var margoft haldið fram, án sérstaks rökstuðnings, þótt andmælendur framkvæmdanna bentu á að hugmyndin gengi ekki upp – enda höfðu stöðvarnar aldrei slí­kt hlutverk með höndum.

Nú er okkur sagt að norskar herþotur muni gegna mikilvægu hlutverki við að fylgjast með stórum olí­uflutningaskipum við Ísland. Þetta dellumakerí­ munu menn getað endurtekið út í­ hið óendanlega, því­ lí­klega mun enginn fjölmiðlamaður nenna að grafast fyrir um það hvort nokkur dæmi séu um það á jarðarkúlunni að herþotum sé haldið úti við almennt siglingaeftirlit. Það yrði í­ það minnsta dýrasta eftirlit sem sögur fara af.

# # # # # # # # # # # # # #

Ólí­na – sem er öll að hressast af gubbupestinni – fékk Skólann hans Barbapabba í­ afmælisgjöf. Nú er bókin lesin kvölds og morgna. Barnið er alveg með það á hreinu hver sé hetja bókarinnar – það er Barbaví­s. Ég fagna því­, enda gott að Ólí­na velji sér góða fyrirmynd – ví­sdómskonuna Barbaví­s sem liggur í­ bókum og leysir flókin algebrudæmi, en ekki t.d. Barbafí­n sem er pjattrófa eða kraftedjótið Barbaþór.

Lí­klega skýrist þetta val þó af því­ að Barbaví­s er appelsí­nugul. Appelsí­nugulur er uppáhaldsliturinn.

# # # # # # # # # # # # #

Það verður ljóst seinnipartinn hversu mörg framboð verða í­ kosningunum eftir hálfan mánuð. Helsta spurningin er hvort og þá hversu ví­ða Baráttusamtökin ná að bjóða fram. Sumir spá því­ að þau komi hvergi fram lista. Ég hef meiri trú á seiglu roskinna þýskukennara og spái framboðum í­ 3 kjördæmum. Býður einhver betur?

# # # # # # # # # # # # #

Ég minni á að eftir viðtalið við Udo Erasmus í­ Kastljósi – þar sem hinn „heimsfrægi næringarfræðingur“ leysti í­ framhjáhlaupi gátuna á bak við MS-sjúkdóminn – var boðað að á næstunni yrði áfram rætt um kenningar varðandi samspil heilsu og mataræðis. Ekkert bólar hins vegar á þessari umfjöllun. Hvenær verður rætt við taugasérfræðing um þessi miklu fræði – eða vill Kastljósið ekki gera mikið úr því­ að hafa fengið loddara í­ þáttinn?

Megi Moggabloggið verða nýaldarví­sindum að bráð.

Big in Norway

Miðvikudagur, apríl 25th, 2007

Einu sinni voru Alphaville stórir í­ Japan. Nú stefnir í­ að skrifari þessarar sí­ðu hljóti sí­nar fimmtán mí­nútur frægðar í­ Noregi.

Sí­ðdegis kom fréttamaður frá norska sjónvarpinu (NR2 held ég) og tók við mig viðtal á útidyratröppunum á Mánagötunni. Umfjöllunarefnið var vitaskuld þessi geggjaða hugmynd um norska herinn á Íslandi.

Fréttamaðurinn var greinilega vel undirbúinn og búinn að kynna sér málið furðuvel. Mér sýnist þeir norsku ætla að slá í­slenskum fjölmiðlum rækilega við í­ þessu máli. Umfjöllun þeirra hefur ekki verið uppá marga fiska.

# # # # # # # # # # # # #

Barnið er með magakveisu með tilheyrandi hita og uppsölum. Flestar flí­kur eru nú útældar. Það verður ví­st minna úr verki í­ vinnunni en til stóð, þess í­ stað sett í­ fleiri þvottavélar en búist var við.

# # # # # # # # # # # # #

Á dag skilaði ég af mér tí­mafreku verkefni sem ég lét plata mig útí­. Það var að halda utan um meðmælendalistana fyrir VG í­ Reykjaví­kurkjördæmunum. Meðmælendasöfnunin er klassí­skt kosningaverkefni sem alltaf lendir í­ tí­maþröng og vitleysu. Persónulega er ég á móti þessu meðmælendakerfi.

En þetta er í­ höfn og flokkurinn ætti að fá að bjóða fram og vinna frægan sigur í­ vor.

Megi þjóðin hafna Moggablogginu!

Grátt gaman

Þriðjudagur, apríl 24th, 2007

Það var sláandi að lesa frásögn Fréttablaðsins af starfsmönnunum við Kárahnjúkaframvæmdirnar sem veiktust í­ tugatali vegna þess að illa var staðið að framreiðslu á mat. Lýsingarnar á aðbúnaðinum voru hrikalegar, einkum að starfsmennirnir hafi verið vatnslausir djúpt inni í­ berginu í­ tólf klukkustundir og neyðst til að sleikja bergið til að slökkva þorstann.

Auðvitað geta mistök átt sér stað og enginn er að halda því­ fram að verktakafyrirtækið láti svona atburði gerast að gamni sí­nu.

Það er hins vegar með ólí­kindum að lesa viðbrögð Ómars Valdimarssonar, sem titlaður er upplýsingafulltrúi Impreglio (las ég ekki einhvers staðar að hann væri hættur) í­ „hnyttnu“ spurningu dagsins á sí­ðu 2 í­ Fréttablaðinu í­ dag. Ómar er spurður út í­ málið og svarar því­ til að menn geti lent í­ djúpum skí­t ef þeir þvo sér ekki um hendurnar.

Haag?

Ef þetta hefði gerst á mí­num vinnustað, Orkuveitunni, að tugir starfsmanna lægju veikir heima vegna mistaka sem lí­klega mætti skrifa á fyrirtækið – og upplýsingafulltrúi OR færi í­ blaðaviðtal og gerði bara grí­n – þá væri afsökunarbeiðni komin frá fyrirtækinu fyrir hádegi og blaðafulltrúinn rekinn fyrir kvöldmat, ef trúnaðarmenn starfsmanna væru ekki búnir að stjaksetja hann fyrst.

Ég trúi því­ varla að þetta sé rétt haft eftir. Að öðrum kosti virðist þessi Ómar vera afar sérkennilega innréttaður náungi.

Nú þekki ég Ómar Valdimarsson svo sem ekki neitt. Fyrir margt löngu, þegar ég var enn í­ ritstjórn Múrsins, birtum við grein um Impreglio og starfsemi þess fyrirtækis. Ómar upplýsingafulltrúi sendi okkur um hæl langhund sem hann kallaði svargrein, en hrakti engin efnisleg atriði upphaflegu greinarinnar.

Við svöruðum honum um hæl að sjálfsagt væri að koma á framfæri leiðréttingum á rangfærslum ef einhverjar væru, en að við sæjum engar slí­kar í­ greininni hans og teldum ekki ástæðu til að birta hana. Brást upplýsingafulltrúinn reiður við og sendi annan póst þess efnis í­slensk lög skylduðu okkur til að birta svargreinar.

Ég man að eftir þessa lögspeki fékk ég strax á tilfinninguna að Ómar upplýsingafulltrúi væri hálfgerður vitleysingur. Það getur verið heilmikið að marka „first impression“.

Megi Moggabloggið fá vinnuveitendur á borð við Impreglio.

Um rússneskar siðvenjur

Mánudagur, apríl 23rd, 2007

Um sexleytið í­ kvöld átti ég leið framhjá rússneska sendiráðinu. Þar var flaggað – og það ekki í­ hálfa stöng. Þetta er nokkuð óvænt í­ ljósi þess að Jeltsí­n dó í­ dag. Hér koma nokkrar skýringar til greina:

i) Að 23. aprí­l sé þjóðhátí­ðardagur einhvers rí­kis eða rússneskur hátí­ðisdagur og þá sé flaggað óháð öllum andlátsfregnum.

ii) Að Rússar hafi aðrar siðvenjur varðandi meðferð fána í­ tengslum við dauða þjóðarleiðtoga – flaggi t.d. í­ fulla stöng í­ virðingarskyni.

eða

iii) Að þeir hafi verið svona einlæglega glaðir yfir að karluglan væri loksins dauð.

Þriðji kosturinn finnst mér nú ólí­klegastur þegar diplómatar eiga í­ hlut…

Megi landsmenn draga fánann að húni þegar Moggabloggið loksins drepst!

Enn um Moggabloggið

Laugardagur, apríl 21st, 2007

Allra dyggustu lesendur þessarar sí­ðu kunna að hafa fengið um það grun að mér sé eilí­tið illa við Moggabloggið. Á stuttu máli sagt finnst mér Moggabloggið standa fyrir allt það versta í­ bloggheimum og hafa gert stórskaða á því­ bloggsamfélagi sem hér hefur verið að byggjast upp sí­ðustu átta árin eða svo. Ég átta mig ekki alveg á því­ hvort meinsemdin felist í­ því­ að aðstandendur Moggabloggsins skilji ekki út á hvað blogg gengur eða hvort þeir séu hreinlega illkvittnir. Lí­klega er skýringin blanda af hvoru tveggja.

Ég skal þó viðurkenna að í­ fyrstu taldi ég að sumir vankantarnir á Moggablogginu væru bernskubrek sem takast myndi að sní­ða af með tí­manum. Þannig trúði ég ekki öðru en að fljótlega yrði horfið frá þeirri tilraun að meina öðrum en skráðum Moggabloggsnotendum að skrá athugasemdir með tenglum á sí­nar eigin sí­ður. Raunin hefur orðið sú að nú er gengið lengra í­ þá átt að hrekja óinnskráða í­ burtu með því­ að birta ip-tölur þeirra með athugasemdum.

Ég trúði því­ ekki heldur að Mogginn myndi láta það lí­ðast að tenglar yfir á athugasemdir frá nafnlausum bloggurum birtust við greinar á mbl.is. Á mí­num huga er það klárt mál að með slí­kum birtingum er Mogginn um leið að taka ritstjórnarlega ábyrgð á efni þessara nafnlausu sí­ðna – á sama hátt og þegar fjölmiðill birtir skrif undir dulnefnum.

En af öllum þeim ótalmörgu hlutum sem bögga mig varðandi Moggabloggið, er að geta hvergi fundið neina notkunarskilmála. Nú trúi ég ekki öðru en að þeir sem stofna Moggablogg þurfi að undirgangast einhver skilyrði – t.d. varðandi það efni sem þeir birta á vefsvæðinu? Mega Moggabloggarar t.d. hrúga klámefni inn á sí­ðurnar sí­nar athugasemdalaust? Á sama hátt hlýtur það að vera tiltekið í­ notkunarskilmálum hvernig Mogginn má nota þær persónuupplýsingar sem hann aflar sér um Moggabloggarar og netnotkun þeirra – eða hvað?

Ekki kæri ég mig um að skrá mig á Moggabloggið til að geta nálgast þessa skilmála. Getur ekki einhver frætt mig um hvernig þessum málum er háttað og helst sent mér skilmálana eða tengil á þá.

Megi Moggabloggið verða úrskurðað ólöglegt af Mannréttindadómstólnum!

Einkahlutafélagið

Föstudagur, apríl 20th, 2007

Á morgun kl. 14 verður aðalfundur Friðarhúss SHA ehf. haldinn í­ Friðarhúsi. Einu hlutabréfin sem ég á eru í­ þessu félagi. Vonin um arðgreiðslur er lí­til, en félagsskapurinn þeim mun betri.

Það eru u.þ.b. 210 hluthafar í­ félaginu og við höfum viljað trúa því­ að þetta sé þar með fjölmennasta einkahlutafélag á Íslandi. Veit einhver um fjölmennara félag þessarar tegundar?

Ekki er búist við tí­ðindamiklum fundi. Stjórnin hefur staðið sig frábærlega sí­ðasta árið. Tekjur félagsins eru meiri en vonast hafði verið til og hlutabréfasalan gengur vel. Vonir standa til að á næsta starfsári verði farið langt með að greiða upp allar skuldir við bankastofnanir. – Er það ekki þannig sem rí­kisstjórnin og Seðlabankinn vilja að maður geri í­ þenslunni, greiði niður skuldir? Legg til að Geir Haarde og Daví­ð Oddsson veiti SHA viðurkenningarskjal fyrir stuðning sinn við efnahagsstefnuna.

# # # # # # # # # # # # #

Á kvöld mun Luton væntanlega falla endanlega niður um deild og það í­ beinni útsendingu á útivelli gegn Derby. Ég hef eiginlega ekki hjarta í­ mér til að mæta og horfa á það gerast.

# # # # # # # # # # # # #

Fjölskyldan fór í­ Bónus og verslaði inn fyrir næstu daga og afmælisveislu barnsins um helgina. Þegar heim var komið rifjaðist upp hvers vegna maður á alltaf að lesa dagsetningarnar á vörum í­ Bónus. Saltaða hrossakjötið var komið 10 daga framyfir sí­ðasta söludag.

Megi Moggabloggið éta úldið hrossakjet.

Fæst atkvæði?

Miðvikudagur, apríl 18th, 2007

Hver skildi eiga metið í­ að fá fæst atkvæði í­ kosningum á Íslandi? Svarið fer augljóslega eftir því­ hvaða skilgreiningar er notast við. 100 atkvæði í­ Vestfjarðakjördæminu gamla er augljóslega betri árangur en 100 atkvæði í­ Reykjaví­k.

Ef rennt er yfir lista nokkurra sí­ðustu kosninga sjást nokkrar verulega ljótar tölur. Tökum dæmi:

1987 fékk Bandalag jafnaðarmanna 162 atkvæði í­ Reykjaví­k og 84 í­ Reykjaneskjördæmi – en það var fyrst og fremst mótmælaframboð til að andæfa því­ að kjörnir þingmenn flokksins frá 1983 hefðu stungið af með rí­kisframlagið í­ aðra flokka.

1991 fengu Heimastjórnarsamtökin (hluti gamla Borgaraflokksins) 88 atkvæði í­ Reykjaneskjördæmi en Verkamannaflokkur Íslands 99. Verkamannaflokkurinn (sem hafði bókstafinn E eins og Baráttusamtökin núna) bauð bara fram þarna – svo hér er lí­klega um lakasta árangur flokks að ræða á landsví­su.

88 og 99 atkvæði er afleitt í­ stóru kjördæmi. Verkamannaflokkurinn skilaði reyndar bara inn 11 manna framboðslista, svo þetta var ní­földun frá listanum. Heimastjórnarsamtökin voru með 18 á sí­num – sem er rúmlega fjórföldun.

Á sömu kosningum fengu Frjálslyndir 31 atkvæði á Vestfjörðum – út á fimm manna framboðslista. Sexföldun þar. Jafnfjölmennir listar á Norðurlandi vestra og Austurlandi lönduðu 25 atkvæðum – fimmföldun þar.
1995 fékk Náttúrulagaflokkurinn – nöttaraframboð sem trúði á hugleiðslu og að menn gætu flogið með hugarorku – 28 atkvæði á Vesturlandi. Listinn hefur varla verið nema 5-6 manna.
Ef notuð er skilgreiningin – atkvæðamagn miðað við fjölda á lista er notuð – þá eru Heimastjórnarsamtökin 1991 í­ Reykjaneskjördæmi klárlega með vinninginn. Rétt rúm fjórföldun.

En sveitarstjórnarkosningar bjóða lí­ka upp á skemmtileg úrslit. (Sem minnir mig á það gamla baráttumál mitt að einhver – t.d. Wikipedia – taki að sér að búa til úrslitagrunn fyrir kosningar til sveitarstjórna.)

Skemmtilegasta framboðið sem kemur upp í­ hugann er Reykjanesbæjarlistinn – sem boðinn var fram í­ sí­ðustu sveitarstjórnarkosningum og talinn klofningsframboð úr Frjálslynda flokknum. Hann fékk 37 atkvæði en var með 22 frambjóðendur. Það þýðir að innan við tvöfalt fleiri kusu listann en sátu á honum!!! Þetta gerir Reykjanesbæjarlistann væntanlega að slappasta framboði í­slenskrar stjórnmálasögu.

Oddviti Reykjanesbæjarlistans var Baldvin Nielsen. Nú myndu sumir ætla að þessi útreið hefði orðið til að téður Baldvin hugsaði sig tvisvar um varðandi áframhaldandi pólití­ska þátttöku – en því­ er öðru nær. Hann skipar nú þriðja sætið á lista Íslandshreyfingarinnar í­ Suðurkjördæmi.

Megi Moggabloggið verða að Reykjanesbæjarlista bloggheimsins!

Kolviður – óheppileg nafngift?

Þriðjudagur, apríl 17th, 2007

Íslenski kolefnissjóðurinn – sem gefur fólki færi á að láta planta trjám til mótvægis við það sem það mengar með öðrum hætti – var kynntur í­ fjölmiðlum í­ dag. Hann heitir Kolviður. Skýringin á nafninu er á þessa leið, svo gripið sé niður í­ kynningarpésa frá aðstandendum:

Nafnið Kolviður má rekja til Kolviðar á Vatni, fornkappa sem felldur var við Kolviðarhól og heygður. Aðstandendum Kolviðar þykir við hæfi að fá fornkappann í­ lið með sér til að minna á að um þriðjungur landsins var skógi vaxinn á landnámsöld. Á dag er einungis um 1,3% landsins skógi vaxið.

Langsótt? Jú, svolí­tið – en á móti kemur að kosturinn við Kolviðarnafnið er að það býður upp á einhverja orðaleiki: KOL-dí­oxí­ð, VIíUR… Voða sniðugt. Kolviður litli gæti lí­ka orðið krúttleg einkennisskepna, ekki ósvipað og Staupasteinn – lukkudýr Hvalfjarðarganganna átti að vera.

En hvað ef það var enginn herra Kolviður fornkappi?

Einhver áhrifamesta hugví­sindakenning seinni tí­ma er náttúrunafnakenning Þórhalls Vilmundarsonar sagnfræðings. Hún er í­ stuttu máli á þá leið að örnefni séu undantekningarlí­tið kennd við landslag eða náttúrufyrirbæri en nær aldrei við sögupersónur. Hins vegar séu fjölmörg dæmi um að menn „búi til“ sögupersónur sem dragi nöfn sí­n af örnefnum sem sí­ðan eru ranglega talin heita eftir persónunum.

Samkvæmt þessari kenningu var ekki til skip sem hét Elliði og Elliðaárnar eru kenndar við. Öxará heitir ekki svo vegna þess að einhver glutraði vopninu sí­nu út í­ hana – og það var heldur ekki til neinn herra Gullbringa.

Sumir telja að Þórhallur Vilmundarson hafi með náttúrunafnakenningunni viljað ganga of langt í­ þá átt að klippa á tengsl milli sögulegra atburða og örnefna – en nær allir sagnfræðingar eru sammála um að það sé heilmikið til í­ kenningunni.

Það þýðir að stöðugt er ástæða til að vera á varðbergi gagnvart sögupersónum á borð við garpinn Kolvið sem á hafa verið heygður við Kolviðarhól. Allt eins lí­klegt er að Kolviður sé seinni tí­ma tilbúningur til að skýra hið sérkennilega örnefni.

Og hvers vegna gæti Kolviðarhóll annars heitið þessu nafni? Nærtækasta skýringin er sú að þar hafi áður verið kjarrlendi – skógur þar sem menn hafi sótt sér við til kolagerðar, kolvið. Kolin hafa einkum verið nýtt til járnvinnslu, en önnur örnefni á svæðinu benda til þessa – svo sem Rauðavatn, þar sem mýrarrauða var að finna.

Ef þessi tilgáta er rétt, þá er sjarminn af nafninu farinn. Kolviðarnafnið myndi þá beinlí­nis ví­sa í­ hið miskunnarlausa skógarhögg til kolagerðar sem einmitt ber ábyrgð á því­ að nú er innan við eitt og hálft prósent landsins skógi vaxið. Það er eiginlega erfitt að hugsa sér mikið óheppilegri nafngift fyrir félag af þessu tagi – nema þá kannski „Sinubruninn“ eða „Káti skógarhöggsmaðurinn“…

Megi Moggabloggið stikna í­ kolviðargröf!

The Christians

Þriðjudagur, apríl 17th, 2007

Soul-bandið The Christians komu til Íslands fyrir u.þ.b. 15 árum sí­ðan, á að giska. Það var á þeim árum þegar allar erlendar hljómsveitakomur vöktu mikla athygli og lög sveitanna voru spiluð von úr viti í­ útvarpinu.

The Christians áttu einn stóran hittara hér heima – Words. Gott ef lagið var ekki sí­ðar notað í­ auglýsingaherferð einhvers í­slensks stórfyrirtækis, sem eflaust hefur hlunnfarið listamennina.

Um daginn sló ég The Christians upp í­ Wikipediunni og komst þá að því­ að þeir Christians-félagar eru engin sérstök guðslömb. Þrí­r þeirra voru bræður – með ættarnafnið Christian og sá fjórði hét hvorki meira né minna en Henry Christian Priestman.

Athyglisvert er að Words er ekki nefnt í­ Wikipediu-færslunni og ef leitað er í­ YouTube, má þar finna ýmis önnur myndbönd með sveitinni en aðeins eitt – og það nokkuð sérkennilegt myndband – með Words. Voru vinsældir þessa lags e.t.v. bundnar við Ísland?

Megi Moggablogginu verða orða vant.