Archive for desember, 2007

Stóra stjórnmálagetraunin 2008

Mánudagur, desember 31st, 2007

Jæja, þá er komið að því­! Nú skal efnt til stjórnmálagetraunarinnar 2008 – en úrslit í­ henni verða (eðli málsins samkvæmt) ekki tilkynnt fyrr en á gamlársdag að ári.

Athugið: Ekki er ætlast til þess að svarað sé í­ athugasemdakerfið – heldur með því­ að senda póst á netfangið skuggabaldur @ hotmail. com – Skilafrestur svara er til 7. janúar og mun ég þá kynna helstu ágiskanir lesenda, nafnlaust að sjálfsögðu.

Spurt er í­ þremur liðum:

i) Gera má ráð fyrir því­ að á almanaksárinu 2008 muni amk. einn þingmaður hverfa af þingi – ýmist til annarra starfa eða af öðrum orsökum. Hvaða þingmaður mun hverfa fyrstur úr hópnum?

ii) Sömuleiðis má gera ráð fyrir því­ að skipt verði um meirihluta í­ amk einni borgar- eða bæjarstjórn á landinu á árinu 2008. Á hvaða kaupstað mun fyrsti meirihlutinn springa?

og

iii) Það er ekki árviss viðburður að sitjandi þingmenn skipti um stjórnmálaflokka, en það gerist þó öðru hvoru. Hvaða þingmaður (ef einhver) mun segja skilið við þingflokkinn sinn á árinu?

Rétt svar við hverri þessara spurninga gefur eitt stig.

(Ath. að ekki verða veitt stig fyrir þá spurningaflokka sem detta dauðir niður – t.d. fæst ekkert stig fyrir að giska á að enginn þingmaður skipti um lið á árinu.)

Þar sem hætt er við að fleiri en einn verði jafnir, eru allir þátttakendur beðnir um að senda inn svar við bráðabanaspurningunni:

iv) Hvaða þingflokkur mun nota flesta varamenn á almanaksárinu 2008?

Og munið – svör eiga að berast í­ tölvupósti, ekki í­ athugasemdakerfið.

Mistök rithöfundarins

Mánudagur, desember 31st, 2007

Á Fréttablaðinu í­ morgun er klausa um rithöfund sem hótaði ví­st að hætta að blogga ef hann seldi ekki tiltekið upplag af bókinni sinni. Þetta var hugsað sem góðlátleg hótun til vina og vandamanna.

Mér dettur í­ hug margir bloggarar sem gætu gripið til þessa ráðs – undir öfugum formerkjum þó – þ.e. með því­ að lofa að hætta að blogga ef fólk keypti svo og svo mikið af bókunum þeirra.

Ég gæti kannski notað þetta sem söluhvetjandi aðferð þegar kemur að útgáfu Frambókarinnar?

Kaþólskari en páfinn

Sunnudagur, desember 30th, 2007

Það er merkilegt hvað ungir í­slenskir hægrimenn geta verið dyggir varðhundar fyrir Margrét Thatcher og pólití­ska arfleið hennar – og eru þar mun harðví­tugri en Bretar sjálfir.

Ungur hægrimaður, Hans Haraldsson, gerir gamlan pistil eftir mig að umtalsefni á sí­ðunni sinni.  Meðal þess sem hann gagnrýnir mig sérstaklega fyrir, er að halda fram þeirri fásinnu að stjórn hví­ta minnihlutans í­ Suður-Afrí­ku hafi notið sérstaks stuðnings Breta. Á athugasemdakerfinu bætir einhver félagi Hans því­ við að þetta sé til marks um „algjöra vanþekkingu á pólití­skri og efnahagslegri sögu Suður-Afrí­ku“.

Það er alltaf kúnstugt þegar menn gerast kaþólskari en páfinn í­ vörn fyrir skoðanabræður sí­na.

Fyrir einu og hálfu ári, skömmu eftir að David Cameron tók við völdum sem formaður íhaldsflokksins, ferðaðist hann til Afrí­ku. Þar vakti mikla athygli þegar formaður breskra íhaldsmanna baðst afsökunar á stuðningi stjórnar Thatcher við Apartheid-stjórnina.

Einhver hefði betur hnippt í­ hr. Cameron og bent honum á að hann væri að misskilja breska samtí­masögu í­ grundvallaratriðum – og að sagnfræðinemi á Íslandi hefði sýnt fram á að íhaldsflokkurinn þyrfti ekki að skammast sí­n fyrir neitt.

– – –

Reyndar er kí­milegt að lesa röksemdafærslu Hans Haraldssonar í­ heild sinni, því­ eftir að hafa svarið fyrir tengsl, stuðning eða samskipti Bandarí­kjamanna og Breta við minnihlutastjórnina í­ Suður-Afrí­ku, hefst hann handa við að útskýra að slí­k tengsl hafi verið nauðsynleg – enda kalda strí­ðið verið í­ fullum gangi og snúist um framtí­ð siðmenningarinnar.

Er þetta ekki dálí­tið eins og hjá bóndanum sem var beðinn um að skila hamri, en svaraði því­ til að hann hefði aldrei séð hamarinn, auk þess sem hann ætti hamarinn sjálfur – og hann hefði verið brotinn þegar hann fékk´ann?

Klóak

Sunnudagur, desember 30th, 2007

Jón ömmubróðir minn er búinn að taka saman skemmtilegt kver með ýmsum upplýsingum um forfeður okkar og -mæður. Þar kemur t.d. fram að Þóra Jónsdóttir (langömmusystir mí­n og fyrsta menntaða hjúkrunarkona landsins) var mikill töffari – og lét koma fyrir fyrstu skólplögninni á ísafirði.

Langafi – sem ég man eftir sem smákrakki – var í­ gróðabralli með Einari Ben og lenti með honum á heljarinnar fyllerí­i á skipi á leið til Íslands, sem hélt áfram eftir að allir innanborðs voru settir í­ sóttkví­ við heimkomuna (að sögn til að hindra að Sigurður Eggertz gæti tekið þátt í­ bæjarstjórnarkosningum). Meðan á þessu stóð var gefið út blað (langafi var ábyrgðarmaður) og ágóðinn notaður í­ að kaupa meira brenniví­n. Og það sem meira er – smkv. Gegni eru eitt eða tvö eintök til!!!  Nú liggur leiðin á Þjóðdeildina.

# # # # # # # # # # # # #

Matthew Spring skoraði beint úr aukaspyrnu í­ uppbótartí­ma á útivelli gegn Port Vale í­ uppgjöri botnliðanna í­ dag og tryggði okkur 1:2 sigur. Erum fjórðu neðstir og tveimur stigum frá því­ að losna úr fallsæti.

Næsti leikur er úti gegn Yeovil. Eftir hann verða lí­klega flestir bestu menn liðsins seldir fyrir slikk til að létta á launakostnaðinum. Við verðum með vængbrotið lið gegn Liverpool næsta laugardag.

# # # # # # # # # # # # #

Alla vikuna hef ég heyrt auglýsingar um flugeldasýningu Rásar 2 og björgunarsveitanna.

Getur einhver útskýrt fyrir mér lógí­kina í­ að útvarpsstöð standi að flugeldasýningu? Er hægt að hugsa sér lélegra útvarpsefni?

Helv. Valsmenn

Laugardagur, desember 29th, 2007

Við feðgarnir mættum á leik Vals og Fram í­ úrslitum deildarbikarsins. Þar rifjaðist einu sinni enn upp hvers vegna mér er svona illa við að tapa fyrir Valsmönnum. Urgh!

# # # # # # # # # # # # #

Luton áfrýjaði einu rauðu spjaldanna úr sí­ðustu umferð. Dómstóllinn brást við með því­ að lengja leikbannið um einn leik – í­ refsingarskyni fyrir ástæðulausa áfrýjun.

Þetta er galið! Ekki minnist ég þess að hafa nokkru sinni heyrt um aðáfrýjanir úrvalsdeildaliða fái slí­ka afgreiðslu – og er þar þó oft langt seilst í­ að reyna að hnekkja dómum.

Það er óþolandi hvað ólí­kar reglur virðast gilda fyrir stóru og rí­ku liðin annars vegar en litlu klúbbana hins vegar.

Ljótt, ljótt sagði fuglinn.

Orð í tíma töluð

Laugardagur, desember 29th, 2007

Hrós dagsins fær Pétur Rassmusen, sem gerir í­ Mogganum í­ dag enn eina tilraunina til að uppræta þann misskilning að „ligeglad“ merki á dönsku að vera alltaf kátur og gúddí­ fí­ling.

Þetta er alltaf jafnhvimleið villa hjá Íslendingum.

Húsvarsla

Föstudagur, desember 28th, 2007

Hún var sérkennileg sjónvarpsfréttin í­ kvöld af hrelldum í­búum fjölbýlishúss við Austurbrún. Rumpulýður virðist hafa farið um gangana, sparkað í­ hurðir, hent frá sér logandi sí­garettum og látið dólgslega. Sögunni fylgdi að óreglufólk byggi í­ húsinu.

Þetta slæma ástand var rakið til þess að enginn húsvörður væri í­ húsinu.

Þegar leið á fréttina var svo rifjað upp að kona hefði látist og verið dáin í­ í­búð sinni í­ nokkra daga. Allt var þetta borið undir formann Félags eldri og embættismann frá borginni: hvort það væri ekki algjör skandall að enginn væri húsvörðurinn í­ ljósi alls þessa?

Ég verð að viðurkenna að mér finnst samhengið nú ekki augljóst.

Hugmynd mí­n um húsverði er karl (eða kona) með stóra lyklakippu sem veit hvar rafmagnstaflan er, kann að skipta um öryggi, saltar hálkublettinn fyrir framan útidyrahurðina og man sí­manúmerið hjá lyftuviðgerðarmanninum. – Þessi staðalmynd húsvarðarins er ekki öryggisvörður sem snýr niður sí­garettureykjandi hávaðaseggi.

Nú væri örugglega mjög þægilegt fyrir í­búa hússins að hafa húsvörð í­ fullu starfi og með búsetu í­ blokkinni. Úr því­ að þetta er 72 í­búða hús mætti slumpa á að kostnaðurinn við það yrði svona 60 þúsund á ári pr. í­búð. (Miðað við c.a. 4,25 milljónir í­ laun og launatengd gjöld + kostnaður við húsvarðarí­búð.)

En hvernig á slí­kur húsvörður að koma í­ veg fyrir rúmrusk? Er hugmyndin kannski að ráða varðmann frá Securitas?

Og enn verður málið undarlegra þegar farið er að flækja inn í­ það sorglegu dauðsfalli – eða öllu heldur, dapurlegri aðkomu að látinni manneskju. Hvers vegna á það að vera húsvarðarmál að banka uppá hjá öllum í­búum á hverjum degi og/eða sannreyna með öðrum hætti að þeir séu lifandi?

Auðvitað finnst okkur það ömurlegt þegar fólk deyr eitt. Við viljum jú öll deyja í­ hárri elli, södd lí­fdaga í­ hlýju rúmi með fjölskylduna allt um kring. En þannig er það bara ekki alltaf.

Þegar fréttir berast af svona atburðum, eru viðbrögð fólks furðu oft á þá leið að kerfið hafi brugðist – að rí­kið, borgin eða bara einhver annar hafi átt að búa til eitthvað kerfi eða tæknilausn sem kæmi í­ veg fyrir að svona lagað geti gerst. Ég á bágt með að fallast á þær kröfur.

Auðvitað geta tæknilausnir stundum komið að gagni. Öryggisfyrirtæki bjóða upp á neyðarhnappa og það eru alveg rök fyrir því­ að rí­kið bjóði sem flestum upp á slí­ka þjónustu – jafnvel ókeypis. Sumir vilja hins vegar ekkert af slí­kum hnöppum vita – og það verður að virða.

En þegar fólk deyr af eðlilegum orsökum án þess að það uppgötvist í­ nokkra daga, er ekki við neina öryggishnappa að sakast. Því­ þéttara sem félagslegt öryggisnet fólks er, því­ styttri tí­mi lí­ður þar til andlátið uppgötvast. Sumir geta legið í­ viku – en aðrir uppgötvast innan fárra klukkutí­ma.

Og það er lí­ka rangt að draga sjálfkrafa þá ályktun að fólk sem liggur dáið í­ marga sólarhringa heima hjá sér hljóti að vera vinasnautt og óhamingjusamt. Fjölmargir lifa sí­nu lí­fi án þess að  þess að vera í­ daglegu sambandi við tiltekinn ættingja eða vin.

Þó að sveitarfélög/rí­ki/félagasamtök sjái fólki fyrir húsnæði á  hagstæðum kjörum á ekki að fela í­ sér að þau taki fulla ábyrgð á lí­fi þess og dauða. Það má jafnvel færa fyrir því­ rök að það geti falist í­ því­ visst frelsi að geta hagað lí­fi sí­nu á þann hátt að geta dáið einn og óafskiptur… Því­ hinn valkosturinn er sá að eitthvert opinbert apparat ákveði að daginn sem tilteknum aldri er náð, sé litið á mann sem dauðvona á hverri stundu. Er hægt að hugsa sér meiri sjúkdómsvæðingu en það?

Bandaríkjahatur

Föstudagur, desember 28th, 2007

Ræða Höllu Gunnarsdóttur sem flutt var í­ lok friðargöngunnar á Þorláksmessu er loksins komin inn á Friðarvefinn. Það mun væntanlega ekki kæta Egil Helgason, sem lætur friðargönguna fara í­ taugarnar á sér. Um daginn skrifaði hann e-ð á þessa leið: „Vandinn við þessar göngur er að þetta er allt á einn veginn, gamla Bandarí­kjahatrið.“

Á ljósi þess að í­ göngunni eru ekki hrópuð slagorð eða borin skilti og borðar – þá hlýtur Bandarí­kjahatrið að koma fram í­ ávörpunum. Um aðra kosti getur varla verið að ræða. Það er því­ væntanlega vissara að vara viðkvæma við því­ að lesa:

Ræðu Höllu Gunnarsdóttur frá því­ í­ ár,

ræðu  Falasteen Abu Lideh frá árinu 2006

& ræðu séra Bjarna Karlssonar frá árinu 2005.

Já – ægilegt fólk þessir friðarsinnar…

Ivanov

Föstudagur, desember 28th, 2007

Fórum á sýningu Þjóðleikhússins á Ivanov í­ kvöld. Ég skemmti mér vel – en það er ekkert að marka, ég ver nefnilega svo sjaldan í­ leikhús að ég heillast jafnvel af billegustu trixunum.

Er enn að melta sýninguna. Sumt var mjög vel gert. Hilmir Snær var mjög góður og Ólafur Darri kostulegur í­ sí­nu hlutverki.

Fannst samt hálfsérkennilegt hvernig uppfærslan stökk á milli þess að vera klassí­skt dramatí­skt leikhús yfir í­ sketsa-grí­n. Þótt leikkonur slái í­ gegn í­ gamanþáttum í­ sjónvarpi er alveg óþarfi að láta þær endurtaka sjónvarpskarakterana á fjölunum.

En jújú – ég er bara sáttur.

# # # # # # # # # # # # #

Næsta leikhúsupplifun verður væntanlega Skoppa og Skrí­tla með barninu. Hún mun lí­klega þora að horfa á þær, en hún er ótrúleg skræfa blessunin. Við gáfum henni Dýrin í­ Hálsaskógi í­ jólagjöf.

Hún hélt skelfingu lostin á mynddisknum – en labbaði svo með hann fram á gang og lagði hann á gólfið. Ég spurði hvort hún vildi að ég setti diskinn hátt upp í­ hillu og hún kinkaði kolli. Það reyndist þó ekki nóg og hún varð ekki róleg fyrr en diskurinn var kominn upp í­ lokaðan skáp.

Sumir eru bara hræddir við Mikka ref.

# # # # # # # # # # # # #

Flott hjá Framstelpunum að komast í­ úrslit í­ skúnkabikarnum – og þá sérstaklega að vinna á aukakasti á lokasekúndunni. Það sér maður ekki á hverjum degi.

Undir eðlilegum kringumstæðum væri maður ekki spenntur fyrir úrslitum deildarbikarsins, en andstæðingarnir eru jú Valur… Kannski ég dragi pabba með mér í­ Höllina?

Magnað!

Miðvikudagur, desember 26th, 2007

Luton náði jafntefli gegn Bristol Rovers, 1:1, á útivelli.

Þetta væri ekki í­ frásögur færandi nema vegna þess að við misstum mann útaf eftir 16 mí­nútur og lentum í­ kjölfarið undir.

Eftir 42 mí­nútur kom önnur brottvikningin.

Snemma í­ seinni hálfleik jöfnuðum vil.

Þegar fimmtán mí­nútur voru til leiksloka fékk þriðji Luton-maðurinn rauða spjaldið – og við lukum leik átta á móti ellefu!

Þetta er frábært afrek! Skí­tt með það þótt önnur úrslit hafi verið óhagstæð og við því­ færst aðeins niður töfluna… Bristol-menn hljóta að vera rasandi.