Archive for apríl, 2009

Drekktu betur

Fimmtudagur, apríl 30th, 2009

Á morgun, föstudaginn 1. maí­, verð ég spurningahöfundur á pöbb kvissinu á Grand rokk.

Mótmæli og pólití­sk róttækni er meginþema.

Byrjar kl. 18. Allir velkomnir.

Netlöggan

Miðvikudagur, apríl 29th, 2009

Ég er orðinn netlögga.

Ókey… kannski ekki alveg netlögga – en frá og með deginum í­ dag hafa verið settar tölvuumgengnisreglur á Mánagötunni.

Ólí­na fékk tölvuleikinn um Stafakarlana í­ fjögurra ára afmælisgjöf fyrir helgi og fékk að spreyta sig á  honum í­ dag. Hún er meira að segja komin með gömlu heimilisfartölvuna inn í­ herbergið sitt – þá sömu og er notuð í­ hvert sinn sem sýna þarf efni á skjávarpa í­ Friðarhúsi.

Reglurnar segja: hámark hálftí­mi á dag í­ tölvunni.

Það er samt eitthvað skrí­tið við að þurfa að skammta fjögurra ára barni tölvutí­ma. Sjálfur komst ég fyrst í­ tölvu tólf ára í­ litla tölvuverinu í­ Melaskóla – og þótti harlagott. Kannski maður ætti að dusta rykið af Logo-kunnáttunni… þá gæti ég í­ það minnsta teiknað harlatrúverðuga hringi og einfalda þrí­hyrninga með einföldum skipunum.

Óþolinmæði

Mánudagur, apríl 27th, 2009

Þegar ég byrjaði að fylgjast með pólití­k á ní­unda áratugnum þótti engum merkilegt þótt myndun rí­kisstjórnar tæki viku til tí­u daga. Menn slökuðu bara á og brugðu sér jafnvel heim í­ kjördæmi áður en formlegar viðræður fóru fram.

Hvenær breyttist þetta á þann veg að fjölmiðlamenn byrja að fara á taugum ef ekki er tilbúinn málefnasamningur og ráðherralisti tæpum tveimur sólarhringum eftir kosningar?

Úr því­ að það er hræðilegt krí­su- og veikleikamerki að flokkar þurfi að ræða saman eftir kosningar – hver er þá tilgangurinn með kosningum? Eiga kosningar ekki einmitt að vera mæling á styrk ólí­kra stefna og þannig grundvöllur fyrir samningaviðræður?

Legg til að fjölmiðlarnir snúi sér bara að Evróvisí­on í­ staðinn. (Miðað við alla þá ógæfu sem dunið hefur yfir þjóðarbúið væri nefnilega alveg eftir öðru að við „lendum í­ að vinna“.)

Óheppinn!

Mánudagur, apríl 27th, 2009

Það er alltaf eitthvað pí­nkulí­tið fyndið við svona orðalag: „Björgvin G. Sigurðsson lenti í­ útstrikunum að þessu sinni og var hann strikaður út af 8,3% kjósenda Samfylkingar. Það mun þó ekki hafa áhrif á röðunina á lista Samfylkingarinnar í­ Suðurkjördæmi.“

Æ, strákgreyið…

Ferlegt að „lenda“ svona í­ útstrikunum…

Böðvar

Sunnudagur, apríl 26th, 2009

Ég þarf að koma mér að því­ að rölta niður á Þjóðskrá. Hvað Þjóðskránna varðar heitir Böðvar litli nefnilega ennþá „drengur Stefánsson“ og því­ réttast að kippa því­ í­ liðinn.

Böðvar fékk nafnið strax við fæðingu. Okkur Steinunni fannst þetta fallegt nafn. Það er klassí­skt, í­slenskt og „fullorðins“ – það er, ekki eins og sum krúttlegu smábarnanöfnin sem eiga eftir að verða hálfkyndug á fí­lefldum togarajöxlum. Svo skipti máli að nafnið á sér sögu í­ fjölskyldunni.

Afabróðir minn hét Böðvar Steinþórsson. Hann fékk nafnið í­ höfuðið á Böðvari Egilssyni Skallagrí­mssonar. Langamma var skáldkona og með brennandi áhuga á fornbókmenntunum.

Bauji frændi dó sama ár og ég fæddist. Um þær mundir bjuggu mamma og pabbi heima hjá honum. Mér skilst að það hafi komið sterklega til greina að ég fengi Böðvarsnafnið og Þóra systir héti þessu nafni, ef hún hefði verið strákur.

Böðvar var félagsmálamaður. Starfaði innan Sjálfstæðisflokksins og var m.a. varabæjarfulltrúi. Hann átti lí­ka sæti í­ stjórn Fram um tí­ma. Aðalfélagsstörfin voru þó á vegum Matsveinafélagsins, þar sem hann var formaður um árabil.

Lengst af var Bauji bryti hjá Skipaútgerð rí­kisins – einkum á Esjunni. Ég hafði ekki gert mér grein fyrir því­ hversu þjóðkunnur maður hann var, en sí­ðustu vikurnar hefur komið í­ ljós að ótrúlega margt fólk sem komið er yfir miðjan aldur man eftir Böðvari bryta á Esjunni. Það segir skemmtilega sögu um þjóðfélag þess tí­ma.

Formannaþátturinn

Föstudagur, apríl 24th, 2009

Á kvöld verða sjónvarpsumræður flokksformannanna. Samkvæmt öllum kosningafræðum er það mikilvægasti áfangi kosningabaráttunnar. Þar eigi úrslitin að geta ráðist.

Samt gerist það aldrei. Einhvern veginn verður formannaþátturinn alltaf vonbrigði og niðurstaðan hálfgert jafntefli. Þetta er þáttur sem er eiginlega vonlaust að vinna – en mögulega hægt að tapa.

En ég velti því­ fyrir mér hver verði fulltrúi Borgarahreyfingarinnar? Þegar hún kom fram var Herbert Sveinbjörnsson titlaður formaður hennar og fyrsta kastið gnæfði andlitsmynd af honum yfir heimasí­ðu O-listans.

Eftir landsfundahelgi Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar sendi Borgarahreyfingin hins vegar frá sér yfirlýsingu þess efnis að þar væru enginn formaður eða aðrar slí­kar vegtyllur. Tveimur dögum sí­ðar var listinn yfir stjórnarmenn horfinn af heimasí­ðunni.

ístþór Magnússon hefur þakkað sér þessa ákvörðun Borgarahreyfingarinnar. Hann telur að Herbert hafi verið lækkaður í­ tign, eftir að ístþór afhjúpaði að hann væri að sinna framboðsmálum í­ vinnutí­ma sí­num… (Leyfi mér reyndar að draga þessa kenningu ístþórs í­ efa.)

Á Fréttablaðinu í­ morgun verður Herbert hins vegar aftur fyrir svörum sem flokksforingi – og er nú titlaður formaður stjórnar Borgarahreyfingarinnar.

Það væri reyndar gott að fá að vita, hver væntanlegra þingmanna Borgarahreyfingarinnar muni taka við stjórnarmyndunarumboði ef sú staða kæmi upp eftir kosningar? Verður það Herbert, Þráinn, Birgitta eða einhver annar? Kannski þátturinn í­ kvöld gefi ví­sbendingar um það.

Ógild atkvæði

Fimmtudagur, apríl 23rd, 2009

Á hverjum Alþingiskosningum er slatti af ógildum atkvæðum. Stundum skýrast ógild atkvæði af því­ að kjósanda mistekst að gera grein fyrir vilja sí­num. Hann krossar þá við meira en einn framboðslista eða setur krossinn á stað þar sem ekki er hægt að sjá með afgerandi hætti við hvern er verið að merkja.

Algengast er þó að kjósendur sem gera ógilt merki við einn lista, en klúðri svo atkvæði sí­nu með því­ að skrifa eitthvað annað inn á seðilinn eða strikar út af framboðslista annars flokks en sí­ns eigin.

ístæða þess að svo hart er tekið á því­ að kjósendur striki út á vitlausum framboðslista eða kroti eitthvað á kjörseðilinn, s.s. „Niður með komma!“ eða „Kúkum á kerfið!“, er sú að þannig er talin hætta á að kjósandinn auðkenni akvæði sitt og kosningin sé ekki lengur leynileg.

Hvers vegna er það hættulegt? Jú, í­ teorí­unni gæti t.d. Kobbi kosningasmali borgað Unnari undirmálsmanni fyrir að kjósa Fáráðlingaframboðið. Þar sem Unnar er einn í­ kjörklefanum hefur Kobbi ekki möguleika á að kanna hvort samningurinn standi – nema þá að hann skikki Unnar til að aukenna kjörseðilinn sinn með afgerandi hætti (t.d. með því­ að kjósa F-listann en strika út fólkið í­ 13.sæti á öllum hinum listunum). Mútuþægur talningarmaður eða fulltrúi Fáráðlingaframboðsins við talninguna myndi svo fylgjast með því­ að umræddur seðill skilaði sér.

Er þetta raunhæf hætta? Myndi óprúttinn atkvæðasmali ekki getað notað aðrar aðferðir til að koma í­ veg fyrir samningsrof? Hann gæti t.d. skipað Unnari að strika svo sérviskulega og endurraða á lista Fáráðlingaflokksins að atkvæðið þekktist auðveldlega. Nútí­matækni gæti lí­ka komið að gagni. Myndavélasí­mum má hæglega smygla inn í­ kjörklefann í­ staðfestingarskyni.

Allar eru þessar girðingar lí­ka gagnslausar, þar sem Unnar undirmáls getur kosið utankjörfundar og notað rétt sinn til að strika út eða endurraða. Það gerir hann einfaldlega með því­ að skrifa nöfn frambjóðenda með eigin hendi – strika svo yfir þau eða númera upp á nýtt. Slí­kur kjörseðill er augljóslega auðkenndur og hægðarleikur að svipast um eftir honum við talningu.

Niðurstaða: Auðkennisrökin halda ekki. Það eru því­ engar skynsamlegar ástæður til að úrskurða kjörseðil ógildan þótt fólk álpist til þess að pára á vitlausan stað á seðlinum, svo fremi að krossinn sé á sí­num stað…

Southampton fallið (b)

Fimmtudagur, apríl 23rd, 2009

Southampton liggur í­ því­. Enska deildin hefur komist að þeirri óhjákvæmilegu niðurstöðu að draga tí­u stig af liðinu fyrir að fara í­ greiðslustöðvun. Öll önnur afgreiðsla þessa máls hefði leitt til þess að Luton hefði haft unnið mál í­ höndunum vegna þess hvernig við vorum meðhöndlaðir.

Þegar tvær umferðir eru eftir, er Southampton fjórum stigum frá öruggu sæti (fyrir stigafrádrátt). Takist þeim að vinna þann mun upp, verða stigin tekin af þeim núna. Að öðrum kosti byrjar liðið með mí­nus tí­u stig á næsta ári í­ gömlu þriðju deildinni.

En þar með er ekki öll sagan sögð. Southampton á enn eftir að finna nýja kaupendur. Ef þeir reynast ekki þeim mun stöndugri, er lí­klegt að félaginu mistakist að ná samningum við lánardrottna sem enska deildin getur fallist á. Það myndi þýða fimmtán refsistig til viðbótar.

Reyndar sýnist manni að Southampton hafi lí­ka brotið reglur um samskipti móður- og dótturfélags og það á miklu grófari hátt en Luton gerði og uppskar tí­u refsistig fyrir. Það ætti því­ ekki að koma á óvart þótt Southampton byrji næsta tí­mabil með amk 25 mí­nusstig. Undir slí­ku er erfitt að standa…

Kasper, Jesper og Jónatan

Fimmtudagur, apríl 23rd, 2009

Mér finnst magnað að Sjálfstæðisflokkurinn skuli tengja sig við Kasper, Jesper og Jónatan sí­ðustu dagana fyrir kosningar. Annað hvort hefur kosningastjórinn alveg rosalega svartan húmor – eða er gjörsamlega laus við að skilja í­roní­u.

Nýtt kjördæmakerfi?

Fimmtudagur, apríl 23rd, 2009

Ég hef ekki orðið var við að nein umræða hafi sprottið varðandi hugmyndir Borgarahreyfingarinnar um nýja skipan kjördæmakerfisins. Þær má lesa í­ stefnuskrá hreyfingarinnar sem birt er hér.

Þetta tómlæti gæti reyndar skýrst af því­ að nýja kjördæmakerfið er ekki útskýrt í­ einföldu máli, heldur verður maður að púsla því­ saman með því­ að lesa kaflann um lýðræðismál.

Grunnatriði í­ kjördæmakerfi Borgarahreyfingarinnar að 4000 manns skuli vera á kjörskrá fyrir hvern einn þingmann. Þannig yrðu þingmenn 49 eða þar um bil – en myndi svo fjölga sjálfkrafa (eða fækka) í­ takt við lýðfræðilegar breytingar á þjóðinni. Þetta er reyndar ekki svo galið, þótt kannski væri vissara að reikna með að fjöldi þingmanna skuli standa á oddatölu.

Athyglisverðara er kanna hvernig gert er ráð fyrir dreifingu þessara þingmanna. Hugmyndirnar reikna nefnilega með því­ að kjördæmin yrðu fjögur talsins. Með því­ að skoða tölurnar yfir kjósendur á kjörskrá sýnist mér að skiptingin yrði á þessa leið:

Norðvesturkjördæmi 4 þingmenn

Norðausturkjördæmi 6 þingmenn

Suðurkjördæmi 6 þingmenn

Höfuðborgarsvæðiskjördæmi 33 þingmenn

Þetta er verulega breytt hugsun frá því­ þegar núverandi kjördæmakerfi var hannað. Þá var reynt að búa til kerfi þar sem kjördæmin yrðu öll álí­ka stór í­ þingmönnum talið. Hér er hins vegar gert ráð fyrir einu risakjördæmi og þremur smákjördæmum.

Það má sjá af stefnuskránni að Borgarahreyfingin gerir ráð fyrir að áfram verði úthlutað jöfnunarþingsætum. Það kemur hins vegar ekki fram hversu mörg þau yrðu og hver dreifing þeirra yrði. Augljóslega hlýtur það þó að skipta máli í­ fámennu kjördæmunum, hvort allir þingmennirnir yrðu kjördæmakjörnir eða hvort hluti þeirra yrðu jöfnunarmenn. Það bí­ður lí­klega nánari útfærslu.

Þessar hugmyndir heilla mig nú ekki. Virka frekar eins og plásturslausn á núverandi kerfi, sem bæti lí­tið en komi fyrir nýjum göllum.

Það má Borgarahreyfingin þó eiga að það er virðingarvert að kynna nýjar tillögur. Og þetta sýnir lí­ka kjark. Það getur varla verið öfundsvert fyrir frambjóðendur hreyfingarinnar í­ landsbyggðarkjördæmunum að útskýra hugmyndir sem fela í­ sér stórfellda fækkun þingmanna úti á landi og risakjördæmi á suðvesturhorninu.