Archive for maí, 2009

Stjórnmálagetraun

Laugardagur, maí 30th, 2009

Tryggvi Þór Herbertsson er þingmaður Sjálfstæðisflokksins og hefur talað fyrir niðurfærslu skulda. Rök hans eru meðal annars þau að erlendir lánardrottnar hljóti að skilja að útilokað sé að ætlast til að Íslendingar standi undir skuldaklifjunum og sjá að skynsamlegra sé að afskrifa vænan hluta skuldanna frekar en að láta allt fara í kaldakol.

Þetta er ágætt sjónarmið.

Fyrir fjórum árum síðan, í júní 2005, lýstu voldugustu iðnríki heims því yfir að til stæði að fella niður stóran hluta af skuldum nokkurra fátækustu þjóða heims. Ákvörðuninni var fagnað af alþjóðlegum hjálparsamtökum og fjölda þjóðarleiðtoga. Tryggvi Þór Herbertsson, forstöðumaður hagfræðistofnunnar Háskólans, var líka beðinn um álit. Og nú er spurt – hvert var svar Tryggva?

i) Að þetta væri besta hugmynd sem fram hefði komið, frá því byrjað var að selja brauð í sneiðum

eða

ii) Að vissulega gætu skammtímaáhrif þessarar ráðstöfunar verið talsverð, en málið væri þó alls ekki einfalt og jafnvel betur heima setið en af stað farið. Til dæmis gætu langtímaáhrifin orðið þau að þessi ríki fengju ekki lán seinna meir

Og giskiði nú!

Kolröng frétt í DV

Föstudagur, maí 29th, 2009

DV í dag birtir langa frétt um viðskipti Frjálsrar miðlunar (fyrirtækis dóttur Gunnars Birgissonar og eiginmanns hennar) við Orkuveituna. Þar er á nokkrum stöðum vikið að Minjasafninu – og í öllum tilvikum tekst blaðinu að fara rangt með.

Blaðamaðurinn, Ingi F. Vilhjálmsson, hefur á liðnum dögum skrifað um viðskipti Frjálsrar miðlunar við Kópavogsbæ og Lánasjóðinn – þar sem Gunnar Birgisson, faðir annars eigandans, kunni að hafa beitt áhrifum sínum fyrirtækinu í hag. Gunnar er bæjarstjóri í Kópavogi og fv. stjórnarformaður LÍN.

Að þessu sinni beindi DV sjónum sínum að viðskiptum Frjálsrar miðlunar við Orkuveituna. Þau munu vera upp á 4,6 milljónir á árabilinu 2002-2009. Ég veit ekkert um þessi viðskipti og hef engar forsendur til að meta hvort þau séu mikil, lítil, reikningarnir háir eða lágir og hvort eðlilega hafi verið staðið að samningsgerðinni. Að mestu mun þetta snúast um ljósmyndavinnu, s.s. fyrir ársskýrslur, bæklinga og aðra útgáfu.

Mistök blaðamannsins felast hins vegar í því að reyna að færa „skandalinn“ úr fyrri fréttum óbreyttan yfir á OR-viðskiptin – það er, að í þessu tilviki eins og hinu fyrra hafi faðir annars eigandans kippt í spotta til að tryggja viðskiptin. Í yfirfyrirsögn segir meðal annars: „Verk frá Orkuveitunni voru fengin í gegnum föður annars eigandans sem starfað hefur frá fyrirtækinu.“

Þetta er meiriháttar klámhögg.

Guðmundur Egilsson, vinur minn og forveri í starfi safnvarðar á Minjasafni Orkuveitunnar (þá Rafmagnsveitunnar), fór á eftirlaun árið 1998. Hann hefur síðan gripið í smávægileg verkefni sem verktaki, enda þykir honum ákaflega vænt um safnið sem hann hefur öðrum mönnum fremur staðið að því að byggja upp. Síðastliðin tíu ár hefur Guðmundur því ekki haft nokkur einustu áhrif á það hverja Orkuveitan kýs að skipta við. Sú hugmynd að hann valsi um og skipi yfirmönnum í Orkuveitunni að fela einstökum fyrirtækjum samninga er geggjuð sem mest má vera.

Að blaðamaðurinn sjái einhver líkindi með aðstöðu bæjarstjóra og stjórnarformanns ríkisstofnunnar annars vegar – en safnvarðar á eftirlaunum hins vegar er í sjálfu sér nógu fráleitt.

Það veikir auðvitað þessa delluhugmynd enn frekar að verkefni þau sem Frjáls miðlun hefur unnið fyrir Orkuveituna, tengjast Minjasafninu ekki á nokkurn hátt. Til að búa til einhver tengsl, eru tvö atriði þó tínd til í fréttinni – sem hvorugt stenst nánari skoðun.

Annars vegar er staðhæft að á Minjasafninu sé „meðal annars að finna möppu með ljósmyndum sem Frjáls miðlun tók á sínum tíma“. Þetta er einfaldlega rangt. Slík mappa er ekki á Minjasafninu og hefur ekki verið þar – enda geymir Minjasafnið eðli málsins samkvæmt fremur gamla gripi og ljósmyndir en glæný ljósmyndaverkefni frá auglýsingastofum útí bæ.

Hins vegar er í greininni að finna alvarlega ásökun, þar sem segir: „Guðmundur mun meðal annars hafa lagt hart að Guðjóni Magnússyni, sem er yfir umsýslu og almannatengslum hjá Orkuveitunni, að ráða Frjálsa miðlun til að skrásetja alla muni Minjasafnsins fyrir um fimm árum, samkvæmt heimildum DV. Ekki var þó ráðist í þessa skráningu á endanum.“

Þessi fullyrðing er algjörlega út í hött. Ég var ráðinn í starf safnstjóra árið 1998 og upp frá því hefur ákvörðunin um hvernig standa skyldi að skráningu safnkostsins verið í mínum höndum. Um aldamótin tókum við sem stýrt höfum minjavarðveislu hjá stóru orkufyrirtækjunum (Orkuveitunni, Landsvirkjun og Rarik) þá ákvörðun að minjaskráningin skyldi vera samræmd. Þá þegar stefndum við að því að koma okkur inn í Sarp, miðlægt skráningarkerfi Þjóðminjasafnsins fyrir íslensk minjasöfn.

Innleiðing kerfisins tafðist um nokkur misseri, þar sem beðið var eftir nýrri uppfærslu á Sarpi, en aldrei var hvikað frá markmiðinu um sameiginlega skráningu – helst í Sarpi. Allar vangaveltur um að til hafi staðið að semja við Frjálsa miðlun um skráningu um 2003-04 eru því úr lausu lofti gripnar, eins og ég hef fengið staðfest í dag.

Ég hef sem fyrr segir engar forsendur til að meta samninga OR við Frjálsa miðlun. Það er væntanlega einstaklingsbundið hvort menn telji 4,6 milljónir yfir sjö ára tímabil mikið eða lítið og ekki veit ég hvernig þessar upphæðir líta út í samanburði við önnur ljósmyndaverkefni á tímabilinu. En hitt veit ég, að sú tilgáta blaðamannsins að verkefnin séu tilkomin vegna þrýstings frá Guðmundi Egilssyni er gjörsamlega galin. Guðmundur má ekki vamm sitt vita og hefði aldrei lagt sig niður við slík brögð – fyrir utan að hann hefur einfaldlega ekki verið í neinni aðstöðu til slíkra hluta. Svona vinnubrögð í blaðamennsku eiga ekki að sjást.

Hassið og vísitalan

Fimmtudagur, maí 28th, 2009

Hass og spítt eru ekki hluti af vísitölunni, þrátt fyrir að vitað sé að ýmsir kaupi hvort tveggja. Hækkanir á þessum ólöglegu efnum ættu því að koma fram í verðbólgumælingunni. Svo er þó ekki. Aðalástæðan er sú að þótt fólk kaupi vissulega hass, þá finnst ríkisvaldinu að það eigi ekkert að vera að því og vill ekki viðurkenna þennan ósið með því að telja hann með í vísitölunni.

En er þá eitthvað því til fyrirstöðu að ríkið ákveði að sleppa búsinu úr vísitölunni líka?

Hvað varð um BBC?

Þriðjudagur, maí 26th, 2009

Nú er illa farið með góðan dreng!

Fjölvarpið ákvað að bæta tveimur sjónvarpsstöðvum við úrval heimilisins. Fúlu viðskiptafréttastöðinni Bloomberg og klámmyndastöð. Í staðinn er BBC Entertainment orðin lokuð.

Það eru fúl skipti að fá sveitta fjármálaspekúlanta og berrassaðar stelpur (og sveitta friðla þeirra – sem eru reyndar ekki ósvipaðir fjármálaspekúlöntum í útliti) í staðinn fyrir þá ágætu gamanþætti og krimma sem BBC Entertainment býður uppá.

Ljótt, ljótt sagði fuglinn!

Svínaflensan

Þriðjudagur, maí 26th, 2009

Heilbrigðisyfirvöld bera sig borginmannlega varðandi svínaflensuna. Talað er um strangar viðbragðsáætlanir, samráðsfundi sérfræðinga og geypimagn af lyfjum sem liggi á lager sjúkrahúsanna. Reglulega má heyra viðtöl við faraldursfræðinga sem ræða um spænsku veikina og hvort stóri skellurinn komi í haust.

Á sama tíma hangir uppi blað á hverjum einasta leikskóla Reykjavíkur, undirritað af borgarstjóra eða formanni leikskólaráðs. Þar kemur fram að verið sé að spara í rekstrinum og þess vegna eigi að skipta út bréfþurrkum fyrir handklæði.

Allir sem hafa átt barn á leikskóla vita að þær stofnanir eru öflugasta dreifingarmiðstöð samfélagsins fyrir hvers kyns pestir. Ef heilbrigðisyfirvöld væru í alvörunni hrædd um að svínaflensan geti orðið næsta spænska veikin, þá myndu þau vitaskuld leggja blátt bann við þessari sparnaðaraðgerð borgarinnar. Meðan það er ekki gert, hlýtur maður að fá á tilfinninguna að læknarnir séu bara að spila með í fjölmiðlasirkusnum, gegn betri vitund.

Gaman væri reyndar að vita hversu marga Tamiflu-skammta má kaupa fyrir bréfþurrku-sparnaðinn. Eitthvað segir mér að sá útreikningur sé ekkert sérstaklega þjóðhagslega hagkvæmur.

Almáttugur

Þriðjudagur, maí 26th, 2009

Loksins, loksins!

Eftir langa mæðu er búið að virkja öryggismyndavélakerfið á Minjasafninu. Það eykur öryggi safnsins. Við höfum tvívegis orðið fyrir innbrotum og erum alltaf smeykir við að það geti endurtekið sig.

Annar kostur er sá að nú getur hver sá sem vinnur á starfstöðinni minni fylgst með á tölvuskjánum þegar bílar renna í hlað, hópar nálgast eða stakir túristar eru að villast í námunda við safnið.

Mér finnst ég vera Óðinn – alsjáandi í hásæti mínu…

Misskilin umhyggja

Mánudagur, maí 25th, 2009

Forsvarsmaður Stúdentaráðs Háskólans skrifaði grein í Fréttablaðið í morgun, til að svara athugasemdum Hildar Lillendahl varðandi gjaldskyld bílastæði við HÍ.

Í stuttri grein kom stúdentaleiðtoginn því að í tvígang að baráttan gegn stöðumælum tæki sérstaklega mið að hagsmunum fatlaðra námsmanna. Það er ekki í fyrsta sinn sem þessu er haldið fram.

Nú get ég alveg haft einhverja samúð með þessari baráttu Stúdentaráðs – sjálfur hef ég verið bílandi námsmaður (og kennari) við Háskólann og finnst eins og öðrum ekkert gaman að eyða allri minni smámynt í stöðumæla. En fötluðu stúdentana getur Stúdentaráð ekki falið sig á bakvið.

Fatlaðir ökumenn fá þar til gert spjald til að setja í glugga bifreiða sem þeir aka eða ferðast með. Þetta spjald gefur þeim rétt til að leggja í stæðum sem eru sérmerkt fötluðum OG að leggja gjaldfrjálst í öllum stöðumælastæðum.

Það þýðir að út frá ferlimálum fatlaðra, væri það sérstakt fagnaðarefni ef stöðugjöld yrðu tekin upp á Háskólasvæðinu. Þannig myndu fatlaðir ökumenn fá aukinn forgang að miklu fleiri bílastæðum en nú er.

Þetta mætti SHÍ-oddvitinn gjarnan hafa í huga fyrir næstu grein…

Frídagar

Föstudagur, maí 22nd, 2009

Sigmundur Ernir vill láta hnika uppstigningardegi til um einn dag, svo hann verði á föstudegi og launafólk fái þriggja daga helgi.

Frekar en að eyða orkunni í að hnika uppstigningunni til um einn dag, ætti Sigmundur að reyna að færa upprisuna til sem þessu næmi. Ef páskadagur væri á mánudegi og annar í páskum á þriðjudegi fengjum við fimm daga páskahelgi.

Trúi ekki öðru en að Karl Sigurbjörnsson yrði liðlegur í málinu – þótt það fæli í sér að breyta orðalagi á stöku stað úr „reis upp á þriðja degi“ í „á fjórða degi“.

Annars skil ég ekki tuðið yfir fimmtudagsfrídögum. Mér finnst sjálfum miklu betra að fá svona frídaga inn í miðri viku. Þá er eins og það séu tveir föstudagar í einni og sömu vikunni…

Hnattvæddar fréttir

Föstudagur, maí 22nd, 2009

Frétt dagsins er á Moggavefnum og fjallar um Icesave.

Reyndar er ekki svo mikið á fréttinni sjálfri að græða. Hún er óskiljanlegur grautur af tölum, auk þess sem reikningurinn virðist ekki ganga upp. Þessi klausa er hins vegar fróðlegust:

Hollensk stjórnvöld hafa greitt 106 milljónir evra, jafnvirði 18,5 milljarða króna, til einstaklinga og sveitarfélaga, sem áttu innistæður á Icesave-reikningum Landsbankans þar í landi. Þetta kom fram í hollenska útvarpinu í gær að sögn kínversku fréttastofunnar Xinhua. 

Er hægt að hugsa sér betra dæmi um hnattvæðingu frétta? Kínversk fréttastofa er aðalheimild íslensks netmiðils um hvað sagt er í hollenska ríkisútvarpinu! Magnað.

Góðar fréttir fyrir Framara

Fimmtudagur, maí 21st, 2009

Það var ánægjulegt að heyra í sjónvarpsfréttunum í kvöld að borgin sé á höttunum eftir fimm milljarða láni til mannaflsfrekra framkvæmda. Slíkar fréttir eru góðar í þessu atvinnuástandi og jákvætt að borgin treysti sér til þess að ráðast í slíkt átak.

Fyrir okkur Framara er það sérstaklega jákvætt að samkvæmt fréttinni kæmist bygging skóla og leikskóla í Úlfarsárdal aftur á dagskrá. Uppbygging félagssvæðis Knattspyrnufélagsins Fram í Úlfarsárdal hangir nefnilega að miklu leyti saman við uppbyggingarhraða skólamannvirkja á svæðinu.

Hugmyndin er að íþróttahús félagsins muni jafnframt þjóna skólanum í hverfinu. Það þýðir að ekki má líða langur tími frá því að skólinn tekur til starfa uns íþróttahúsið þarf að vera nothæft.

Ýmis réttlætisrök eru fyrir því að borgin reyni, þótt fjárhagurinn sé þröngur, að gera vel við íbúa þessa nýjasta hverfis – sem og Grafarholtsins. Fólkið sem byggt hefur í Úlfarsfellinu greiddi hærra lóðarverð til borgarinnar en íbúar nokkurra annarra hverfa. Það er því sérstaklega blóðugt fyrir hverfið að innviðirnir séu svo veikir sem raun ber vitni og keyra þurfi börn langar vegalengdir í skóla.

Í þessu hverfi – og í Grafarholtinu – er væntanlega líka talsvert hátt hlutfall fjölskyldna sem á nú í verulegum vandræðum vegna húsnæðisskulda. Kreppan kemur misjafnlega niður á einstökum hverfum. Gömlu og grónu hverfin finna miklu síður fyrir henni en nýju byggðirnar. (Reyndar væri fróðlegt að sjá tölfræðilega samantekt á þessu.)

Í ljósi þessa, finnst mér eðlilegt að borgin leggi sitt af mörkum til að létta íbúum skuldsettari hverfanna lífsbaráttuna með því að leitast við að styrkja sérstaklega þjónustu á borð við félags- og menningarmiðstöðvar, bókasöfn, sundlaugar og íþróttasvæði í slíkum hverfum. Það er t.d. forkastanlegt að Grafarholtið sé orðið nærri tíu ára gamalt og með íbúafjölda á við Ísafjarðarbæ, en ENGA íþróttamiðstöð.

Úthverfin eiga að fá forgang í þessu árferði – við í gömlu hverfunum eigum að bíða að sinni!