Archive for júní, 2009

Gönguferðin

Mánudagur, júní 29th, 2009

Það er varla að maður þori að plögga fræðslugöngu morgundagsins hérna – í fyrra komu alltof margir. Læt mig samt hafa það.

Annað kvöld (þriðjudag) verður sem sagt söguganga á vegum Orkuveitunnar í Elliðarárdalnum, fyrsta gangan mín af þremur í sumar.

Við leggjum af stað frá Minjasafninu klukkan 19:30. Þetta kvöld verður gengið um söguslóðir í neðsta hluta dalsins. Eftir viku verður gengið ofan Árbæjarstíflu. Seinna í sumar verður svo ganga um Laugardalssvæðið.

Þessi fyrsta ganga er í raun sú sama og ég stóð fyrir síðasta sumar. Gangan eftir viku verður hins vegar ný.

Djús að göngu lokinni – og jafnvel kexbiti ef vel liggur á mér…

Framkvæmdaröð

Mánudagur, júní 29th, 2009

Kristján Möller leikur jólasveininn í júní.

Á forsíðu Moggans tilkynnir hann um stórframkvæmdir í vegakerfinu (og Landsspítalabyggingu) sem lífeyrissjóðirnir lána fyrir.

Væntanlega verður þessu tekið með fagnaðarlátum. Framkvæmdafréttir eru sem ljúf tónlist í öllu krepputalinu. En auðvitað eru það engin vinnubrögð að framkvæmdaröð ríkisnins sé ákveðin á fundum með 1-2 ráðherrum og stjórnum lífeyrissjóðanna. Á Hrafn Magnússon að ráða því undir hvaða heiðar eða firði Vegagerðin borar næst?

Morðinginn

Sunnudagur, júní 28th, 2009

Óskaplega er það fyrirsjáanlegur atvinnurógur að líflækni Michael Jacksons sé kennt um að hafa drepið hann. Það er nánast klisja þegar frægir kallar deyja að lækninum sé kennt um.

Miklu frjórra er að spyrja sig: hver átti harma að hefna?

Og svarið er augljóslega Prince.

Það er rökrétt! Voru þeir ekki erkióvinir á níunda áratugnum, þar sem þeir börðust um hásæti poppsins? Annar reyndist vera Mozart, hinn Salieri…

Lífið væri svo miklu auðveldara ef við værum öll í einum stórum Matlock-þætti.

Vont frumvarp

Laugardagur, júní 27th, 2009

Frumvarp ríkisstjórnarinnar um nýjar kosningareglur Alþingis- og sveitarstjórnarkosningum er vont. Það er vanhugsað og illa rökstutt. Því miður.

Ríkisstjórn VG og Samfylkingar ákvað að gera það sama og allar aðrar ríkisstjórnir hafa gert þegar kemur að endurskoðun kosningakerfisins: að hringja í Þorkel Helgason og láta hann setjast niður og reikna. Það hefur gefið misjafna raun til þessa, en núna virðist hafa tekist óvenju illa til.

Sú hugmynd að nóg sé að fá klókan stærðfræðing til að semja kosningareglur er galin. Það er álíka skynsamlegt og ef ríkið ákvæði að reisa stórbyggingu (tónlistarhús, spítala, háskóla) og léti nægja að finna verkfræðing til að staðfesta að verkið sé tæknilega framkvæmanlegt miðað við burðarþol og staðla. Auðvitað er það ekki nóg. Áður en ráðist er í bygginguna hljóta menn að þurfa að meta þörfina, áætla rekstrarforsendur og ákveða hvernig eigi að nýta hana. Gefur það ekki auga leið?

Þorkell Helgason kann að reikna og honum er alveg treystandi til að kveða uppúr um það hvernig standa eigi að því að telja atkvæði og úthluta sætum á þingi eða í sveitarstjórnum á grunni þess. En kosningar eru bara svo mikið, mikið meira en starf talningarmanna og að slá úrslitunum inn í Excel. Fyrst og fremst eru kosningar hápunktur stjórnmálalífsins í landinu. Valið á kosningakerfi mótar það hvers konar pólitík við fáum, hvernig umræðan fer fram og hvaða möguleika ólíkar stefnur hafa til að takast á í samfélaginu.

Að öllu eðlilegu ættu stjórnvöld sem ákveða að breyta kosningakerfi að byrja á að skilgreina hverju þau vilji ná fram með breytingunum – hvernig stjórnmálakúltúr þau vilji láta þróast. Síðan væri farið til stærðfræðinganna og þeim falið að finna leiðir að því marki. En nei… íslenska leiðin er að hringja í Þorkel og leyfa honum að hræra í kerfinu eina ferðina enn.

Þessar tillögur hafa fengið titilinn „persónukjör“, enda slíkt heiti til vinsælda fallið. Einhverra hluta vegna hefur fjöldi fólks nefnilega bitið það í sig að persónukjör sé samkvæmt skilgreiningu lýðræðislegra en kerfi sem leggja minni áherslu á að velja einstaklinga.

Enginn skyldi þó blekkja sig á að þessar breytingar séu sérstaklega fallnar til að ýta undir lýðræði. Þær hafa þann helsta tilgang að losa suma stjórnmálaflokka úr ákveðnu öngstræti sem þeir eru komnir með prófkjörin sín, með því að skikka alla til að halda prófkjör og láta þau fara fram á kjördegi. Mér sýnist einsýnt að annað af tvennu muni gerast: vægi peningaaflanna munu aukast eða flokksræðið aukast til muna. Svo er bara að velja hvort mönnum hugnast betur.

Hvernig rökstyð ég þennan bölsýnislega spádóm?

Fyrir fáeinum misserum voru sett lög um fjárreiður stjórnmálaflokka, sem margir höfðu kallað eftir lengi og talið brýn. Þessi lög gera ráð fyrir því að val fulltrúa fari fram í tvennu lagi – fyrst sé skipað á lista, þar sem hver stjórnmálasamtök ráði því hvort þau stilli upp eða viðhafi einhvers konar forkosningu með þátttöku fleiri eða færri flokksmanna og stuðningsfólks. Reglur eru í gildi um fjármál, fjáraflanir og kostnað einstaklinga sem taka þátt í prófkjörum.

Þegar búið er að velja á hvern framboðslista, taka sjálfar kosningarnar við, þar sem aftur gilda sérstakar reglur um fjármál og eftirlit með kostnaði og þar eru flokkarnir í ökumannssætinu. Þetta tvöfalda kerfi liggur til grundvallar lögunum um fjárreiður stjórnmálaflokka og breytingin sem ríkisstjórnin leggur nú til leiðir sjálfkrafa til þess að lögin verði skorin upp. (Þótt ekkert bendi raunar til að ríkisstjórnin hafi áttað sig á þessu.)

Og þá eru tveir valkostir:

Úr því að ætlunin er að flytja prófkjörin inn í kjörklefann – á þá þá að leyfa prófkjörsbaráttunni að fara með inn í kosningabaráttuna? Það þýðir auglýsingar, kosningaskrifstofur og símhringingar á vegum einstakra frambjóðenda allt fram á kjördag – frambjóðenda sem eru í raun miklu háðari sínum stuðningsaðilum en heilir stjórnmálaflokkar. Hugsið ykkur aðstöðumuninn þegar milljónatugirnir sem notaðir eru prófkjörum Sjálfstæðismanna hellast inn í sjálfa kosningabaráttuna, samanborið við það lítilræði sem fólk í flestum hinna flokkanna er vant að setja í prófkjörsbaráttu!

– Varla getur það verið ætlun þessarar ríkisstjórnar að snarauka völd peningaaflanna í íslenskum kosningum? Eða hvað?

Hinn kosturinn er þá að koma prófkjörunum inn í kjörklefann, en koma í veg fyrir að frambjóðendurnir fái að reka eigin kosningabaráttu. Þannig væru hin raunverulegu völd sett í hendurnar á framkvæmdastjórnum flokkanna, kosningastjórum þeirra – og jú, Egils Helgasonar.

Stefán litli Pálsson gæti vissulega boðið sig fram fyrir Vinstri græna og ætti í teoríunni jafnan séns og hver annar, en valdamiðstöðvarnar í flokknum myndu kaupa auglýsingapláss í strætóskýlum fyrir myndir af Kötu, Ömma og Svandísi… Kosningastjórarnir gætu svo sent þingmennina á vinnustaðafund í Landsspítalanum eða Orkuveitunni, en mig á fimm manna stuðararéttingaverkstæði í Vogunum. Stjórnendur Kastljóss, Íslands í dag og Silfurs Egils myndu svo ráða mestu um hverjir ættu séns – með því að velja sér viðmælendur eftir því hver er skemmtilegastur á Ölstofunni um helgar, frekar en að þurfa að horfa á sæti fólks á framboðslistum.

Ég er rétt að byrja að telja upp allt það sem mér finnst vanhugsað og vitlaust við nýja frumvarpið, en einhvern veginn efast ég ekki um að það á eftir að fljúga í gegn lítið eða ekkert breytt. Það fellur nefnilega vel að hinni ríkjandi tísku í lagasmíð á Íslandi – að teljist sérstakur kostur á frumvörpum að þau séu eins og Reykjavík áður fyrr: byrji í bráðræði og endi í ráðaleysu.

Björgvin

Föstudagur, júní 26th, 2009

Þegar Malcolm McLaren var á hvað svæsnasta egó-flippinu sem umboðsmaður Sex Pistols, réðst hann í það að gera kvikmyndina The Great Rock´n´Roll Swindle – sem átti að segja sögu hljómsveitarinnar… án þess þó að rætt væri við Johnny Rotten.

Sú hugmynd var augljóslega galin – enda reyndist myndin drasl.

Þess vegna er ég að rifja þetta upp, að ég kveikti á því í dag að nú eru menn búnir að þrefa um Icesave-mál í tíu daga. Allan þann tíma virðist Björgvin G. Sigurðssyni hafa tekist að halda sig frá kastljósi fjölmiðlanna.

Er það að fjalla um Icesave án þess að ræða við Björgvin ekki á pari við að segja sögu Sex Pistol án samráðs við herra Rotten?

Þriðja liðið í Edinborg? (b)

Föstudagur, júní 26th, 2009

Í Edinborg eru tvö fótboltalið sem ná máli: Hearts og Hibernian. Það fyrrnefnda er tengt við prótestanta en hitt við kaþólikka – þótt í dag ráði hverfaskiptingin í raun mestu um hvorn klúbbinn Edinborgarbúar styðja.

Til skamms tíma var Meadowbank Thistle þriðja liðið í borginni. Það gaf sig út fyrir að vera liðið sem neitaði að taka þátt í þrefi trúarhópanna tveggja, svipað og Partick Thistle í Glasgow. Skoskir þjóðernissinnar hafa verið hallir undir Thistle-félögin.

Árið 1995 var Maedowbank Thistle „stolið“. Félagið var flutt í einu lagi til útborgarinnar Livingston – sem er fyrst og fremst þekkt fyrir að vera heimkynni aðal IKEA-verslunar Skota. Félagið skipti um merki, búning og nafn. Livingston, eins og það hét eftir flutninginn, sankaði að sér leikmönnum og skaust upp í efstu deild á örskömmum tíma.

Nú virðist ævintýrið senn á enda. Livingston hefur aldrei náð fótfestu og áhorfendafjöldinn hefur ekki verið í samræmi við annars þokkalegt gengi. Utan vallar hefur allt verið í skralli. Félagið hefur lent einu sinni í nauðarsamningum og skipt tvisvar um eigendur. Núna virðist allt farið aftur í sama farið og allnokkrar líkur á að félaginu verði einfaldlega slitið.

Kunni svo að fara að Livingston verði fellt út úr skosku deildarkeppninni, koma tvö félög – sem bæði eru frá Edinborg – sterklega til greina í þess stað. Annars vegar Spartans FC en hins vegar Edinburgh City FC. Síðarnefnda félagið var upphaflega stofnað sem áhugamannafélag og átti að samsvara hinu sögufræga liði Queens Park frá Glasgow. Í seinni tíð hefur það hins vegar snúið baki við áhugamennskuhugsjóninni.

Það væri skáldlegt réttlæti fólgið í því ef Edinborg City verður þriðja Edinborgarliðið í deildarkeppninni – því stuðningsmenn Meadowbank sneru sér margir hverjir til þeirra þegar gamla félaginu var stolið. Þeir eiga alveg skilið að eignast lið í deildarkeppninni á ný.

Nostalgía

Fimmtudagur, júní 25th, 2009

Hóhó… nú er ég svo sannarlega kominn í feitt!

Einhver snillingurinn er búinn að skanna inn allar Panini-leikmannamyndirnar úr enska boltanum 1984 og 1985.

Þarna má t.d. sjá Luton-liðið 85, í Adidasbúningnum sem ég er með innrammaðan uppá vegg í svefnherberginu. (Ég skil enn ekki hvernig ég gat fengið Steinunni til að samþykkja það…)

Af öðru skemmitilegu mætti nefna Stoke-liðið sama ár, sem kolféll. Coventry 84 með Bobby Gould sem framkvæmdastjóra. Og svo er boðið upp á sérstaka valkosti eins og að sjá myndir af mönnum með sítt að aftan.

Fínn nepalskur

Miðvikudagur, júní 24th, 2009

Nýi nepalski veitingastaðurinn á Laugaveginum er stórgóður. Hádegisverðarhlaðborð á 1.500 krónur er fínt verð og maturinn ljúffengur. Verst að staðurinn er svo lítill að um leið og fólk mun almennt vita af honum, verður væntanlega erfitt að fá borð.

Mér skilst að þetta sé líka hörkugóður kvöldverðarstaður. Verst að matseðillinn er svo stór að maður tapar þræðinum. Af hverju halda eigendur asískra veitingastaða svona oft að fólk vilji þurfa að velja á milli 50 rétta?

En það má amk mæla með þessum.

Taka hús

Þriðjudagur, júní 23rd, 2009

Þegar ég var á fyrsta eða öðru ári í menntó komst í tísku að tala um að „taka hús“ á einhverjum. Gott ef einhver sjónvarpsfréttamaðurinn byrjaði að nota þennan frasa og fljótlega heyrði maður þetta út um allt.

Íslenskukennarinn minn lét þetta fara í taugarnar á sér og hélt því fram að sá sem „tæki hús“ á einhverjum, hefði ekkert gott í hyggju. Þvert á móti væri hann líklegur til að brjótast inn, rífa í skeggið á húsráðanda eða það sem verra er.

Minnugur þessa, hef ég upp frá þessu látið frasann pirra mig og forðast hann eins og heitan eldinn.

Engu að síður hef ég heyrt marga góða íslenskumenn nota þetta orðalag, eins og ekkert væri sjálfsagðara. Því velti ég því fyrir mér hvað sé rétt í málinu? Eru það bara fól sem taka hús á öðru fólki eða er merkingin sakleysislegri?

Bananar

Þriðjudagur, júní 23rd, 2009

Ég skrifaði um það á dögunum að ég hafi komist í að skoða bananaræktina í gömlu gróðurhúsunum við Garðyrkjuskólann í Hveragerði. Það er mögnuð upplifun að ganga inn svona hitabeltisskóg og þræða stíga milli kaktusa og risaplantna með torkennilegum blómum og ávöxtum. Ferðamennirnir sem voru með í för áttu ekki orð – þeim fannst þetta svo merkilegt.

Mér skilst að vöxturinn sé ennþá meiri í nýrri húsunum sem notast við góða raflýsingu.

Hvers vegna er ekki samsvarandi hús í Reykjavík fyrir ferðalanga jafnt sem heimamenn? Liggur ekki beint við að koma upp svona húsi í Laugardalnum, í tengslum við grasagarðinn. Með því að spara ekki heita vatnið og rafmagnið eru nánast hægt að rækta hvað sem er í svona húsum.

Reyndar stóð upphaflega til að búa til einhvers konar hitabeltisumhverfi í Perlunni, en þau áform fóru fyrir lítið. Þar voru aðstæður líka um margt erfiðar – ekki hvað síst vegna lofthæðarinnar. Heitt loft hefur nefnilega þessa leiðinlegu tilhneigingu til að leita upp í loft.