Archive for júlí, 2009

Þjóðernisofstæki?

Fimmtudagur, júlí 30th, 2009

Menn hafa fyrir satt að á krepputímum sé hætta á að öfgafull þjóðerniskennd grípi um sig.

Mér skilst að í kvöld hafi verið klappað á Laugardalsvelli þegar fréttir bárust af því að KR væri komið 2:0 yfir gegn útlensku liði!

Hér er þjóðerniskenndin augljóslega komin út í háskalegar öfgar.

Rauða hættan

Fimmtudagur, júlí 30th, 2009

Gamli blaðamannsjaxlinn Robert Scheer skrifar greinarstúf um komu kínverskrar sendinefndar til Washington á dögunum. Erindið var að snupra Bandaríkjastjórn fyrir að standa sig ekki í efnahagsmálum… það eru fleiri en Íslendingar sem eiga í vandræðum með lánardrottna.

Þessi klausa er skemmtileg:

For those who recall the rhetoric of the Cold War, the idea that we would someday be cooperating with Chinese Communists because they had humbled us economically rather than militarily is a startling turnabout. How did they get to be better capitalists than us, and being that they are good capitalists, why are we still spending hundreds of billions a year on high-tech military weapons to counter a potential Chinese military threat when the weapons they are using are all market-driven deployments?

Enn af Chester City (b)

Miðvikudagur, júlí 29th, 2009

Fastir lesendur þessarar síðu ættu að muna eftir fleiri en einni og fleiri en tveimur færslum um Chester City – liðið sem féll með okkur úr deildarkeppninni síðasta vor. Félagið er í eigu manns sem er nánast ótíndur glæpamaður (jafnvel á mælikvarða íslenskra útrásarvíkinga).

Gjaldþrot og jafnvel endalok félagsins hafa lengi virst í kortunum. Atburðir síðustu sólarhringa benda til að sú verði líklega raunin.

Það er vika í að utandeildarkeppnin (BSP) hefjist. Chester hafði fengið keppnisleyfi, enda laust úr greiðslustöðvun síðan í júní. Lið fá ekki að hefja keppni í BSP meðan þau eru í greiðslustöðvun.

Þegar kom að fyrstu æfingarleikjum Chester fyrir tímabilið, kom hins vegar babb í bátinn. Enska knattspyrnusambandið neitaði þeim um leikheimild, sem þýðir að öllum aðildarfélögum sambandsins er bannað að leika við Chester að viðlögðum þungum refsingum. Fyrst hélt félagið því fram að um smávægileg mistök við útfyllingu pappíra væri að ræða og málinu yrði kippt í liðinn snarlega. Síðan hefur hver dagurinn liðið og nú er ljóst að Chester mun ekki ná einum einasta æfingarleik áður en mótið byrjar. Og fái félagið ekki leikheimildina á næstu átta dögum getur það ekki mætt til fyrsta leiks.

Annað og verra áfall reið yfir félagið þegar dómstóll ógilti nauðarsamninga þess í gær eða fyrradag. Til að nauðarsamningar fáist samþykktir þurfa eigendur 75% krafna að fallast á þá. Það virtist auðsótt í þessu tilviki, þar sem Vaughan – gamli eigandinn – skráði klúbbinn á son sinn og var sjálfur skráður eigandi að 75% krafnanna. Þessu hefur dómstóllinn nú hafnað og skattayfirvöld eru nú í aðstöðu til að hafna nauðarsamningum, eins og þau munu gera samkvæmt prinsipi.

Það þýðir að Chester telst aftur komið í greiðslustöðvun og flókin lagaleg klemma er komin upp. Ef stjórn BSP-deildarinnar lítur svo á að um nýja greiðslustöðvun sé að ræða, getur hún gripið til þess að senda liðið beint niður um eina til tvær deildir, í það minnsta. Þá mun liðunum í deildinni einfaldlega fækka um eitt í vetur. Önnur leið er sú að leyfa Chester að spila – en fyrir liggi að félagið muni falla niður um deild óháð árangri vetrarins.

Kjósi deildin að líta svo á að um sömu greiðslustöðvun sé að ræða og að deildin hafi sjálf gert mistök með því að veita keppnisleyfið, er sá möguleiki fyrir hendi að heimila félaginu að hefja leik – en setja skilyrði um að nauðarsamningar náist t.d. innan 2-3 mánaða, að öðrum kosti yrði liðið látið hætta keppni. Það er ólíkleg niðurstaða.

Þá er sá möguleiki fyrir hendi að félagið skipti um eigendur á þeirri rúmu viku sem til stefnu er og að samningar náist við skattinn. Það er langsótt en ekki útilokað.

Hvað sem öðru líður eru stuðningsmenn Chester City ansi aumir um þessar mundir.

Brunahanar

Þriðjudagur, júlí 28th, 2009

Reykvískir brunahanar eru gulir og rauðir. Þannig hefur það verið lengi. Ég veit reyndar ekki hversu lengi (það væri gaman að vita það) – en ef ég ætti að giska myndi ég segja frá því fljótlega uppúr stríði. Fyrirmyndin er þá væntanlega bandarískir brunahanar sem mér skilst að hafi snemma fengið þennan lit.

Utan Reykjavíkur er algengt að sjá bláa brunahana. Það skilst mér að sé smkv. Evrópustaðli sem segir að brunahanar skuli vera ljósbláir.

Núna er ég staddur í Neskaupstað. Þar eru brunahanarnir rauðir. Sannast sagna gleymdi ég að tékka á því á Eskifirði og Reyðarfirði hvort hanarnir séu eins á litinn þar – eða hvort þetta sé einhver langsótt vísun í rauða fortíð bæjarins… Skoða það betur á morgun.

En hvernig er þessu almennt háttað á landinu? Eru rauðir brunahanar víðar en á Norðfirði? Er blái liturinn að taka yfir? Hvernig er þetta á helstu stöðum? – Athugasemdakerfið er opið.

# # # # # # # # # # # # #

Luton kynnti í kvöld nýjan búning og aðalstyrktaraðila félagsins.

Aðalbúningurinn verður appelsínugulur í stað þess að vera hvítur og svartur. Það er gleðiefni.

Sponsörinn er easyJet – sem þykja mikil tíðindi í utandeildarboltanum. Þar eiga menn ekki því að venjast að alþjóðleg stórfyrirtæki séu aðalauglýsendur. Það bendir allt til að stjórnendur Luton ætli að leggja mikið í sölurnar að komast upp í fyrstu tilraun. Hættan er sú, að þegar menn reyna slíkt er alltaf sá möguleiki fyrir hendi að það mistakist og að félagið standi enn verr að ári. En stemningin er frábær – þúsund fleiri ársmiðar seldir en í fyrra og æfingaleikirnir búnir að fara ágætlega…

Miltisbrandur

Mánudagur, júlí 27th, 2009

Muniði eftir miltisbrandsfárinu sem braust út eftir ellefta september, þegar vesturlönd kokgleyptu þá hugmynd að bin Laden sæti við og sendi umslög með hvítu dufti tilviljanakennt út um heimsbyggðina?

Í kjölfarið hljóp þungarokkshljómsveitin Anthrax apríl og sendi tilkynningu um að hún ætlaði að breyta nafninu.

Núna hafa Grímur Atlason og félagar í „Grjóthruni í Hólshreppi“ hálftíma til að tilkynna um nýtt nafn áður en spásagnarskjálftinn ríður yfir…

Blondie

Sunnudagur, júlí 26th, 2009

Nú er spurt:

Hvert er besta Blondie-lagið?

Ég vel Picture This.

(Eitthvað segir mér að þetta sé ekki í fyrsta sinn sem ég efni til þessarar kosningar…)

Málinu reddað!

Föstudagur, júlí 24th, 2009

Aldrei fór það svo að íslenska þjóðin eignaðist ekki sinn eigin banka!

…reyndar held ég samt að fæstir hafi búist að sá banki yrði í Danmörku. En nú má sem sagt ljóst vera að ríkið verði innan tíðar eigandi hins danska FIH Erhvervsbank. Þetta gæti reyndar orðið lausin á öllum okkar vandræðum!

Áætlun mín er bæði pottþétt og skotheld. Hún er á þessa leið:

1. Nú á íslenska ríkið sem sagt danskan banka í útlandinu.

2. Næst látum við danska bankann opna útibú á Íslandi.

3. Allir Íslendingar hlaupa til og setja peningana sína inn á reikning í nýja FIH-ríkisbankanum.

4. Eigendur bankans taka allar innistæðurnar og eyða þeim (til dæmis í að borga allar þessar skuldir).

5. Bankinn fer á hausinn.

6. Við sendum reikninginn á danska innistæðutryggingasjóðinn.

Málinu reddað!

Túlkunaratriði

Fimmtudagur, júlí 23rd, 2009

Eitt af því fyrsta sem foreldrar lítilla stráka eru varaðir við, er að litlu dýrin noti hvert tækifæri til að míga framan í gesti og gangandi – t.d. þegar verið er að skipta um bleyjur. Til að sporna við þessu hafa slyngir kaupsýslumenn meira að segja markaðssett sérstaka „typpahatta“ – minnugir þess að á skal að ósi stemma…

Nú er Böðvar orðinn rúmlega fjögurra mánaða, en hefur aldrei pissað á föður sinn. Þetta má skýra á þrjá vegu:

i) að ég sé óvenjulega snjall  og gefi hvergi höggstað á mér

ii) að sonurinn sé óvenjulega snjall og hafi vit á að gerast ekki föðurmígur

eða

iii) að sonurinn sé óvenjulega heimskur og kunni ekki elstu trixin í bókinni

Flensa hryðjuverkasvínanna

Fimmtudagur, júlí 23rd, 2009

Frank Furedi, fastapenni á Spiked skrifar fantagóða grein um svínaflensu og viðbrögð vestrænna yfirvalda við henni. Þar segir m.a.:

The principal problem with officialdom’s response to swine flu is that it is driven by the belief that this is a security problem rather than a health problem. Once health risks become converted into the moral language of security and existence they acquire an intensely menacing and malevolent character. Consequently, the risks associated with a flu epidemic cease to be constrained by objective epidemiological thinking.

Og síðar í greininni:

Today, the various individuals and institutions that make up the fear market forcefully demonise flu. For example, a promo ad for a course on ‘Pandemics and Bioterrorism’ at the prestigious Massachusetts Institute of Technology claims that ‘swine flu is only the most recent of the challenges posed by threats of bioterrorism and global pandemics’. The casual manner in which the threat of bioterrorism is introduced into the discussion of swine flu, in a circular linked to one of the most prestigious scientific institutions in the world, provides disturbing evidence that fearmongering has become a respectable pursuit today.

Frank Furedi er eiginlega alltaf góður.

Ákveða sig, takk!

Miðvikudagur, júlí 22nd, 2009

Það er fátt sem fer meira í taugarnar á mér í rökræðum en þegar fólk notar ólík rök máli sínu til stuðnings – sem stangast á innbyrðis. Þegar svo stendur á, verða menn að gjöra svo vel að velja.

Dæmi: Búhú, fótboltaliðið mitt tapaði leiknum! Þetta er allt samsæri, KSÍ-mafían er á móti okkur og vill koma liðinu niður um deild. Dómararnir hata okkur allir sem einn og við fáum aldrei víti… auk þess sem þjálfarinn klúðraði þessu alveg með því að nota Gumma sem bakvörð þótt allir viti að hann ætti að spila hafsent og ef Svenni hefði ekki þurft að fara útaf á 70.mínútu hefðum við örugglega unnið!

Hér stendur valið augljóslega á milli tveggja orsakaskýringa: samsæris EÐA taktískra mistaka þjálfarans/óheppni. Ákveða sig, takk!

Í deilunum um Icesave ber talsvert á þessu vandamáli.

Menn geta teflt fram ýmsum rökum gegn Icesave-samningunum. Til dæmis að:

i) Hér sé ekki um frjálsan samning að ræða, heldur kúgun tveggja stórþjóða á smáríki. Kúgun sem endurspegli sögu þessara ríkja sem nýlenduvelda og þá staðreynd að Íslendingar hafi verið komnir í ræsið og ekki getað borið hönd fyrir höfuð sér.

og

ii) Að samninganefnd Íslands hafi ekki staðið sig í stykkinu, verið illa mönnuð, vanbúin og klúðrað því að draga fram pottþétt rök okkar í málinu. Því sé um að gera að hafna samningunum, skipa nýja samninganefnd og koma aftur með nýjan og betri díl.

Það er hægt að rífast fram og til baka um þessar fullyrðingar. Það getur meira en verið að Bretar og Hollendingar séu níðingar sem hafi ekki boðið upp á neinar alvöru samningaviðræður. Það getur líka vel verið að íslenska samninganefndin hafi fokkað þessu upp – en fjandinn hafi það, önnur röksemdafærslan útilokar sjálkrafa hina!

Þeir sem telja Hollendinga og Breta vera fól sem láti stjórnast af annarlegum hvötum – hljóta jafnframt að álíta að framganga samninganefndarinnar hafi litlu máli skipt og því tilgangslítið að setjast aftur að samningaborðinu. Og hinir, sem telja reynsluleysi og aulagang íslensku nefndarinnar hafa ráðið mestu um niðurstöðuna, hljóta jafnframt að viðurkenna að viðsemjendurnir gefi færi á heiðarlegum samningum á jafnréttisgrundvelli. Er það ekki nokkuð augljóst?

Það er um að gera að fólk haldi áfram að gagnrýna Icesave – en þá verða menn líka að velja útgangspunktinn. Annað hvort er vondi kallinn Svavar Gestsson EÐA Gordon Brown, ekki báðir.