Archive for ágúst, 2009

Sónninn

Sunnudagur, ágúst 30th, 2009

Ég á við hvimleitt vandamál að stríða. Spurning hvort hinir ljónskörpu lesendur þessarar síðu geti komið til aðstoðar?

Hér á Mánagötunni eru þrjár íbúðir. Ein í kjallara, við á miðhæðinni og efri hæðin hjá Siggu og Benedikt. Upp á síðkastið hefur farið að bera á leiðinlegum són – einsleitu og háu hljóði sem varir frá 4-5 sekúndum og upp í svona hálfa mínútu í senn. Hljóðið berst úr þeim hluta íbúðarinnar þar sem baðherbergið er (baðherbergin í íbúðunum þremur eru hvert ofan á öðru). Það er erfitt að átta sig á því hvaðan það berst nákvæmlega. Það kemur ekki úr blöndunartækjum, heldur virðist frekar vera innan úr veggjunum eða úr loftinu. Í kjallaranum heyrist ekki neitt. Við heyrum ágætlega í þessu en á efstu hæðinni er hávaðinn mjög mikill og Sigga farin að slökkva á heyrnartækinu sínu vegna þessa.

Svo virðist sem hljóðið hafi byrjað að láta á sér kræla í vor en verður stöðugt tíðara og hærra. Það er mest á kvöldin, en lætur minna bera á sér yfir miðjan daginn. Á kvöldin er nánast hægt að kalla það fram að vild með því að skrúfa frá krönum og/eða sturta niður. Að deginum lætur það ekki eins vel að stjórn.

Okkur datt í hug að þetta gæti verið afleiðing af millirennsli milli heits og kalds vatns – en píparinn sem kom í heimsókn í dag (þegar ekkert heyrðist) sagði að um slíkt gæti varla verið að ræða, þar sem blöndunartækin væru ekki sjóðheit eins og þegar slíkt gerðist.

Hver djöfullinn getur eiginlega verið á ferðinn?

Stefánslögmálið

Sunnudagur, ágúst 30th, 2009

Ég hef sett fram nýtt lögmál, sem ég reikna með að muni bera nafn mitt og halda því á lofti hér eftir. Lögmálið er stuttu máli á þessa leið:

Í hvert sinn sem maður ræsir út iðnaðarmann til að finna skýringu á tokennilegu hljóði sem alla er að æra og ráða niðurlögum þess, má treysta því að hljóðið heyrist ekki rétt á meðan iðnaðarmaðurinn er á svæðinu. Þetta gildir sérstaklega ef hann hefur verið kvaddur til á sunnudegi.

Verkefni fyrir menntamálaráðherra

Laugardagur, ágúst 29th, 2009

Hvernig væri að afnema reglugerðina sem virðist vera í gildi þess efnis að laugardagsmynd Sjónvarpsins verði að fjalla um hunda?

Rauði fáninn

Laugardagur, ágúst 29th, 2009

1.maí 1927:

Samkvæmt lygafregnum borgarblaðana um Kína, þá hefir kommúnistum verið útrýmt úr Kína minnst 15 til 20 sinnum nú síðustu þrjá mánuðina. Í Shagghaj eru allir kommúnistar drepnir annanhvorn dag, og í örðum borgum viku til hálfsmánaðarlega. „Það er tunguni tamast, sem hjartanu er kærast.“ Kommúnistar verða aldrei vegnir með orðum.

Lifi Sovjet-Kína.

Matseðillinn

Föstudagur, ágúst 28th, 2009

Þá er það opinbert…

…matstofa Orkuveitunnar býður upp á mest geðklofa matseðil í heimi:

28.ágúst

Soðin bjúgu með uppstúf

Sushi og sashimi

Gosbrunnurinn?

Miðvikudagur, ágúst 26th, 2009

Stúdentafélag Háskóla Íslands var um tíma nokkuð öflugt félag og átti pening í sjóði.

Árið 1975 lagði félagið sjálft sig niður og færði rektor félagssjóðinn að gjöf. Sú gjöf var hins vegar skilyrt…

…hún átti að fara í að byggja gosbrunn sem umlykja skyldi styttuna af Sæmundi fróða!

Er ekki 34 ára undirbúningstími fullmikið af því góða? Ég vil fá gosbrunninn!

Stefán Group

Miðvikudagur, ágúst 26th, 2009

Í dag voru framkvæmdastjórnmál iðkuð á Mánagötunni. Stórafrek dagsins fólust í því að Steinunn náði í pappírsbleðil, skrifaði á hann nöfn allrar famelíunnar (í þeirri röð hversu lengi hver og einn hefur búið í húsinu) og festi í útidyragluggann. Þar með getur Böðvar vænst þess að fá póst eins og aðrir á heimilinu.

Við sama tilefni tók Steinunn niður gamla miðann, sem hún hafði skrifað sumarið 2005. Þá hafði hún gripið lítið auglýsingaspjald frá SPRON og skrifað á bakhliðina nöfnin okkar. Fyrir vikið sneri bakhliðin/framhliðin alltaf inn í íbúðina.

Auglýsingaspjaldið var í sömu stærð og hvert annað nafnspjald. Það var líka sett upp eins og fínt bissneskort. Merki „fyrirtækisins“ stóð uppi í horninu: StefánGroup. Og vinstramegin var skrifað svörtum og grænum stöfum: Stefán Pálsson framkvæmdastjóri.

Boðskapurinn var skýr: hjá SPRON eru labbakútar eins og þú trítaðir eins og fínir menn, framkvæmdastjórar hjá xxxxGroup og ég veit ekki hvað!

Ekki féll ég fyrir þessum auglýsingapósti, þótt hann hafi fengið að hanga uppi í andyrinu heima hjá mér í fjögur ár – með þeim afleiðingum að ég hef þurft að segja þessa sögu ótal oft þegar fólk hefur spurt mig útí spjaldið.

En úr þessu geymi ég kannski helv. merkimiðann. Hann gæti þá orðið safngripur á góðærissafninu sem ég ætla rétt að vona að einhver góður maður sé að leggja drög að…

9 dagar

Þriðjudagur, ágúst 25th, 2009

Skoðaði yfirlitið í heimabankanum í gær og rak augun í að búið var að bakfæra tíuþúsund króna færslu sem ég borgaði fyrir þjónustu um miðjan mánuðinn. Við bakfærsluna stóð að það væri „samkvæmt 9 daga reglu“.

Ég hafði samband við fyrirtækið og benti þeim á að hafa samband við bankann útaf þessu. Þar á bæ könnuðust menn ekkert við þessa 9 daga reglu.

Og því spyr ég eins og flón: út á hvað gengur 9 daga reglan?

Jón Baldvin & verðtryggingin

Mánudagur, ágúst 24th, 2009

Saga verðtryggingarinnar á Íslandi er í hugum margra tengd Ólafi Jóhannessyni, enda var hún eitt lykilatriðið í Ólafslögum, sem við hann eru kennd. Ólafur sagði lögin hafa verið samin við eldhúsborðið heima hjá honum. Það getur ekki staðist… ég hef séð eldhúsborðið á Aragötunni, þar er ekki pláss fyrir mikla lagasmíð.

En þótt lagabálkurinn beri nafn Ólafs Jóhannessonar, hafa ekki allir verið jafnánægðir með þá nafngift.

Vorið 2007 vék Jón Baldvin Hannibalsson að Ólafslögum í ritdómi:

Loks er þess að geta, að umfjöllun höfundar um svokölluð “Ólafslög” (sjá bls. 177-78) þarfnast endurskoðunar. Ólafslög, þar sem kjarni málsins var verðtrygging fjárskuldbindinga, þótt að öðru leyti væru þau um “efnahagsmálapakka”, miðað við þáverandi aðstæður verðbólgu og misgengis, átti uppruna sinn í frumvarpi, sem við Vilmundur Gylfason verkstýrðum af hálfu þingflokks Alþýðuflokksins og var lagt fram um jólaleytið 1978 sem skilyrði fyrir áframhaldandi stjórnarsamvinnu.

Verðtryggingarkaflinn var að mestu verk Jóns Sigurðssonar, forstöðumanns Þjóðhagsstofnunar, síðar þingmanns og ráðherra Alþýðuflokksins (og bróðursonar Haraldar Guðmundssonar, guðföður velferðarríkisins íslenska). Greinargerðin og rökstuðningurinn með frumvarpinu var höfundarverk Gylfa Þ. Gíslasonar, fv. ráðherra Alþýðuflokksins í Viðreisnarstjórninni. Eini maðurinn, sem eftir því sem best er vitað hafði ekkert til málanna að leggja um svokölluð Ólafslög, var Ólafur Jóhannesson sjálfur. (feitletrun mín)

Þetta er ekki sagt Ólafi til hnjóðs, heldur aðeins til að halda til haga sögulegum staðreyndum. Svona getur verið auðvelt að koma á kreik sögusögnum um sögulegar staðreyndir, sem síðan verða að goðsögnum, sem seinni tíma menn glepjast til að trúa.

Tveimur árum síðar, vorið 2009, hafði orðstír verðtryggingarinnar beðið nokkurn hnekki. Þá bloggar Jón Baldvin að nýju um Ólafslög:

Á fundi Framsóknarfélaganna í Reykjavík á Grand Hótel sl. mánudagskvöld sagði Gunnar Tómasson hagfræðingur að verðtryggingin væri mestu hagstjórnarmistök Íslandssögunnar. Ef veitt væru Nóbelsverðlaun fyrir vitlausar hugmyndir í hagfræði, (sem gerist alltaf öðru hverju) ætti höfundur hennar Nóbelsverðlaunin skilin.

Þetta var réttur staður og stund til að kom þessum skilaboðum á framfæri því að skv. lögbókinni er Ólafur Jóhannesson, fv. formaður Framsóknarflokksins, höfundur verðtryggingarinnar. Verðtryggingin var leidd í lög snemma árs 1979 og lögin jafnan kennd við höfund sinn – kölluð Ólafslög – enda kvaðst Ólafur hafa samið frumvarpið »við eldhúsborðið heima hjá sér«. Þótt bæði ég og aðrir hafi véfengt höfundarrétt lagaprófessorsins að þessari frumvarpssmíð, hefur það lítinn árangur borið.

En þótt Ólafi Jóhannessyni, Fljótamanni og formanni Framsóknarflokksins, hafi áreiðanlega gengið gott eitt til með setningu Ólafslaga, var lausnin ekki gallalaus. Reyndar átti þetta ævinlega að vera tímabundin ráðstöfun.

Merkilegt hvað þáttur Ólafs heitins í setningu verðtryggingarlaganna jókst samkvæmt þessu á tveimur árum…

Dómarinn (b)

Mánudagur, ágúst 24th, 2009

Horfði á Frakkaleikinn á Eurosport, til að losna við hlutdræga íslenska þuli sem láta ákafann rugla dómgreindina. Lýsendurnir á Eurosport voru líka góðir og vel undirbúnir. Það fór samt ekki á milli mála að hjarta þeirra sló með Íslandi.

Það litla sem ég sá af lýsingunni á RÚV, voru menn að tuða yfir rússneska dómaranum. Það er ómaklegt.

Lýsendurnir á Eurosport gáfu þeirri rússnesku fína einkunn. Þeirra niðurstaða var á þá leið að hún hefði brugðist rétt við öllum helstu atriðum. Vítin tvö sem íslenska liðið fékk á sig voru bæði réttmæt. Í báðum tilvikum var um að ræða klaufaleg brot íslensku stelpnanna, sem líklega verður að skrifa á stress og taugaveiklun.

Frakkarnir voru bæði fljótari og teknískari en okkar stelpur, en íslenska liðið sterkara og grimmara. Niðurstaða lýsendanna var á þá leið að ef hægt væri að finna að einhverju varðandi dómgæsluna, þá væri það helst hversu mikið sumir íslensku leikmennirnir hefðu fengið að komast upp með.

Við getum í það minnsta ekki kvartað yfir dómaranum og kennt henni um úrslitin – þótt auðvitað hefðum við öll viljað ná sigri eða jafntefli útúr leiknum.