Archive for september, 2009

Hvenær lokað?

Þriðjudagur, september 29th, 2009

Björgvin G. Sigurðsson ber sig aumlega á Pressu-síðu sinni og segir það lygi að vefsíðu hans hafi verið kippt úr loftinu um það leyti sem hrunið reið yfir. Ég hef því með síðustu færslu óaðvitandi tekið þátt í því að breiða út lygi – og þykir það afar miður.

Björgvin skrifar: Því skal hið rétta enn og aftur ítrekað: vefnum var lokað síðsumars 2008, mörgum vikum fyrir efnhags- og bankahrun. Af þeirri ástæðu einni að hann var lítt uppfærður mánuðum saman og úreltur í marga staði.

Sjálfsagt er að biðjast afsökunar á þessum miklu rangfærslum. En gott væri þó að fá nákvæmari dagsetningar frá ráðherranum fyrrverandi.

Hrunið svokallaða átti sér stað í lok september. Og síðan hafði samkvæmt þessu legið niðri í margar vikur – og ekki uppfærð í marga mánuði þar á undan.

Gott og vel. Afrit Landsbókasafnsins af síðu Björgvins er frá 15. júlí 2008. Tíu dögum fyrr hafði hann skrifað tvo stutta pistla og sett inn grein eftir sig úr Morgunblaðinu. Þar á undan hafði síðan verið með virkara móti, miðað við heimasíðu stjórnmálamanns – færsla á nokkurra daga fresti og blaðagreinar veluppfærðar.

Úr því að Björgvin sakar menn um lygar – þá væri mjög til bóta að fá nákvæmari dagsetningu á því hvenær hann kippti vefnum úr loftinu. Það væri nefnilega fróðlegt að fá að vita hvaða dagsetning á almanakinu nær því að vera mörgum mánuðum eftir 4. júlí en mörgum vikum fyrir síðustu vikuna í september.

– Í leiðinni mætti gefa upp nafnið á vefhönnuðinum sem telur það nauðsynlegt að taka heimasíður úr loftinu til að hægt sé að vinna að breytingum á þeim.

Gestaþrautin

Þriðjudagur, september 29th, 2009

Fréttablaðið stingur upp á skemmtilegri gestaþraut í dálkinum Frá degi til dags í dag. Þar er vakin athygli á nýjum og frábærum vef: vefsafn.is, sem varðveitir vefskrif á íslensku. Stígur blaðamaður Fréttablaðsins bendir á að þar geti áhugamenn um góðærisbókmenntir tekið gleði sína á ný, því hægt sé að nálgast hina týndu heimasíðu Björgvins G. Sigurðssonar á Vefsafninu. Sú síða var sem kunnugt er tekin niður vegna lagfæringa í miðju efnahagshruninu.

En nú er sem sagt hægt að skemmta sér við að blaða í gömlum færslum fv. viðskiptaráðherra. Þessi er t.d. dálítið skemmtileg:

17.1.2008
Sterk staða íslenskra banka
Undanfarið hefur gefið á bátinn í fjármálaheiminum í kjölfar lausafjárkreppu erlendis og undirmálslána í Bandaríkjunum. Í því umróti og lækkunar á mörkuðum hafa sjónir beinst að stöðu íslensku bankanna sem hafa á liðnum árum fjárfest af kappi erlendis og hefur umfang þeirra margfaldast á nokkrum árum. Staða þeirra er hinsvegar traust. Þeir standa vel og er lausafjárstaða þeirra prýðileg og fjármögnun þeirra allra lokið til lengri tíma. Ég hef ásamt mínu fólki í viðskiptaráðuneytinu fundað með fjölda manns á liðnum dögum um stöðu og horfur á fjármálamarkaði og stöðu fjármálafyrirtækjanna okkar. M.a. með stjórn Félags fjármálafyrirtækja og formanni stjórnar Fjármálaeftirlitsins. En Fjármálaeftirlitið og Seðlabankinn gegna lykilhlutverki við það að fylgjast með og kortleggja stöðuna. Niðurstaða þeirrar yfirferðar er sú að íslensku bankarnir standa vel. Þá bendir margt til þess að umróti loknu náist ágætt jafnvægi í íslensku efnhagslífi þar sem verðbólga er nálægt viðmiðunarmörkum Seðlanbanka, gengi krónunnar gangi hægt og jafnt niður og að vaxtalækkunarferli hefjist innan skamms. Því eru horfur um margt góðar og miklu skiptir að bæði athafnamenn og stjórnmálamenn haldi ró sinni og tali ekki aukin eða óþarfa ótta í stöðuna sem vissulega er viðkvæm enn um sinn.

Enn um Þjóðstjórnina

Mánudagur, september 28th, 2009

Áður hefur verið fjallað á þessu bloggi um hvimleiðar sögulegar rangfærslur um Þjóðstjórnina svokölluðu frá árinu 1939. Margir hafa orðið til að stinga upp á að mynduð verði þjóðstjórn til að bregðast við kreppunni (og hér verður engin afstaða tekin til þess hvort það sé góð eða vond hugmynd). Hvimleiðara er hins vegar þegar menn draga inn í þá umræðu ríkisstjórnina frá 1939.

Páll Ásgeir Ásgeirsson, félagi minn í F.F.D.G.B., bloggar t.a.m. á þessum nótum í dag og fékk að því tilefni frétt á DV-vefnum. Þar kallar segir Páll Ásgeir að 1939-stjórnin sé eina þjóðstjórn Íslandssögunnar og hafi verið mynduð vegna yfirvofandi stríðsógnar. Það er raunar sama staðhæfing og lesa má á íslensku Wikipediunni.

Hið rétta er að 1939-stjórnin var ekki þjóðstjórn, miðað við hefðbundnar skilgreiningar þess hugtaks. Og það er hrein eftiráskýring að heimsstyrjaldarógnin hafi ráðið mestu um myndun hennar.

Ríkisstjórn Alþýðuflokks, Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks kallaði sig að sönnu Þjóðstjórn – en það gerir hana ekki að þjóðstjórn, ekki frekar en að eflaust má deila um hvers mikil viðreisn eða nýsköpun fólst í samnefndum ríkisstjórnum, hvort Frjálslyndi flokkurinn sé frjálslyndur og hvort Hreyfingin sé stöðnuð.

Þjóðstjórn (með litlu þ-i) vísar í það þegar starfandi stjórnmálaflokkar víkja hefðbundnum átakamálum til hliðar á krísutímum, yfirleitt vegna utanaðkomandi ógnar – s.s. stríðsreksturs eða meiriháttar áfalls. Slík stjórn þarf að innihalda flesta eða alla flokka og spanna allt stjórnmálalega litrófið.

Stjórnarmyndunin 1939 uppfyllir ekki þessi skilyrði. Bakgrunnur hennar var sá að í kosningunum 1937 hélt Stjórn hinna vinnandi stétta (sem aftur má deila um hvort var réttnefni) velli. Framsóknarmenn styrktu sig, en samstarfsflokkurinn – Alþýðuflokkurinn – kom verulega laskaður út úr kosningunum og meirihlutinn stóð tæpt. Kommúnistar kölluðu á þessum árum eftir samfylkingu vinstri manna, sem varð til þess að Alþýðuflokkurinn klofnaði 1938 og Sósíalistaflokkurinn varð til.

Við stofnun Sósíalistaflokksins voru dagar ríkisstjórnarinnar í raun taldir. Þá þegar byrjuðu Framsóknarmenn að leita leiða til að styrkja stjórnina – og þar var það svo sannarlega ekki heimsstyrjaldarótti sem réð för. Það tókst á árinu 1939 þegar Sjálfstæðisflokkurinn kom að myndun nýrrar stjórnar.

Þjóðstjórnin svokallaða var því alls ekki til kominn vegna óvenjulegra og þrúgandi ytri ógna eða til marks um að stjórnmálamenn þess tíma væru að víkja til hliðar gömlum væringum við nýjar aðstæður. Þvert á móti var hún rökrétt afleiðing af þeirri pólitísku þróun sem átt hafði sér stað misserin á undan. Með myndun stjórnarinnar vakti fyrir Alþýðuflokksmönnum (og fleirum) að einangra sósíalista. Og ástæða þess að Framsókn og íhaldið mynduðu ekki bara tveggja flokka stjórn var djúpstætt persónulegt hatur leiðtoga þeirra – ekki hvað síst í kjölfar þingrofsmálsins 1934.

Þjóðstjórnin 1939 var því ekki þjóðstjórn frekar en að hægt sé að nota það heiti um Nýsköpunarstjórnina. Reyndar er Nýsköpunarstjórnin nær því að falla undir þjóðstjórnarskilgreininguna, því hún spannaði stærri hluta pólitíska litrófsins. Styrkur Framsóknarmanna var þó slíkur að óverjandi er að tala um Nýsköpunarstjórnina sem þjóðstjórn.

Ég segi því enn og aftur: heimtið þjóðstjórn allra flokka ef þið viljið og teljið það verða þjóðinni til heilla – en í Óðins bænum, ekki blanda 1939-stjórninni inní þá umræðu.

RJF

Sunnudagur, september 27th, 2009

Jæja, núna eru Svisslendingarnir búnir að handtaka Polanski og ætla að framselja hann til Bandaríkjanna.

Er hér ekki komið nýtt verkefni fyrir RJF-hópinn. Nú er Fischer látinn og Aron Pálmi frjáls. Polanski til Reykjavíkur er rakið baráttumál.

Úðafoss

Laugardagur, september 26th, 2009

Til þessa hefur Frambókin mín ekki verið til sölu annars staðar en á skrifstofu Fram. Núna hefur orðið breyting á þessu.

Það er nefnilega hægt nú að kaupa bókina í Úðafossi á Vitastíg. Mér finnst það frábærlega svalt að bókin sé til sölu í fatahreinsun.

Og það meira að segja bestu fatahreinsun bæjarins…

Endurkoma (b)

Laugardagur, september 26th, 2009

Klukkan þrjú í dag ætlaði ég að setjast niður og skrifa bloggfærsluna um að Mick Harford yrði að hætta sem knattspyrnustjóri Luton. Við vorum þá 2:0 undir gegn Cambridge og manni færri í hálfleik.

Eftir hlé spýttu strákarnir hins vegar í lófana. Skoruðu fjögur mörk gegn einu og unnu 3:4. Gæti þetta reynst leikurinn sem snýr genginu við hjá okkur?

Við höfum farið illa af stað í haust. Erum í sjötta sæti (reyndar bara tveimur stigum frá næstefsta liði) og tíu stigum á eftir Oxford sem er að leika best allra. Það verður erfitt að brúa þetta bil – en þó ekki útilokað. Fyrsta skrefið er þó að hrista af sér liðin í öðru til ellefta sætinu, sem eru öll í hnapp.

Sigur gegn Stevenage á þriðjudagskvöld er nánast lífsnauðsyn.

Frost er úti fuglinn minn

Föstudagur, september 25th, 2009

Frétta- og upplýsingavefnum Kaninku hefur borist tilkynning frá AMX, sem er fremsti fréttaskýringarvefur landsins í stafrófinu. Hún er á þessa leið:

„Ritstjórar AMX harma að þurfa að flytja dyggum lesendum sínum þær leiðinlegu fregnir að ákveðið hefur verið að afleggja dálkinn Fuglahvísl. Ástæðan er sú að Þóru Kristínu Ásgeirsdóttur hefur verið sagt upp störfum hjá Morgunblaðinu. Í ljósi þess að megnið af færslum fuglahvíslaranna hefur gengið út á að tuða yfir störfum Þóru Kristínar, sér ritstjórnin ekki fram á að hafa ímyndunarafl til að halda dálknum úti lengur.“

Góðar fréttir & vondar

Föstudagur, september 25th, 2009

Ég færi ykkur góðar fréttir og vondar fréttir.

Góðu fréttirnar eru að Davíð Oddsson var ráðinn ritstjóri Morgunblaðsins. Vondu fréttirnar eru að þetta gerðist fimmtán árum of seint.

Í tuttugu ár höfum við Íslendingar mátt búa við fjölmiðlamarkað þar sem nær öll blöð sem e-ð hefur kveðið að hafa verið í eigu hægrimanna og haldið sjónarmiðum þeirra á lofti. Stóran hluta þessa tíma hefur Morgunblaðið haft drottnunarstöðu og verið ritstýrt af mönnum sem staðið hafa fyrir sömu pólitík og forysta Sjálfstæðisflokksins. Þegar Davíð Oddsson studdi innrásina í Írak, stóðu Styrmir Gunnarsson og Ólafur Stephensen klappandi á hliðarlínunni.

Á sama tíma reyndi Morgunblaðið að leika það leikrit að væri frjálst og óháð – að tími hinna pólitísku blaða væri liðinn o.s.frv. Fjölmargt fólk á vinstravængnum – uppgefið á blaðaútgáfu liðinna áratuga – ákvað að spila með.

Síðasta einn og hálfa áratuginn má segja að hægrimenn hafi fengið að eiga hið pólitíska svið einir hér á landi. Skýringarnar á því eru einkum tvær: annars vegar ákváðu vinstrimenn að eyða tíu árum í að þrefa um innri skipulagsmál sín – hvort þeir ættu að vera í einum, tveimur eða þremur flokkum. Hins vegar leyfðu þeir hægrimönnum að ráða dagblaðamarkaðnum í þeirri sjálfsblekkingu að við værum í raun öll á sama báti.

Þess vegna er það svo grátlegt að Davíð Oddsson skuli nú fyrst vera að taka við Morgunblaðinu. Ef hann hefði verið ráðinn fyrir fimmtán árum væri þjóðfélagið líklega í mun betri stöðu í dag.

Fimmtudagsgáta

Fimmtudagur, september 24th, 2009

Hvað á þetta fólk sameiginlegt:

* leikkonan Elizabeth Taylor

* söngvarinn Lenny Kravitz

* Christoph Schneider (trymbill í Rammstein)

* kvikmyndaleikstjórinn István Szabó

Og giskiði nú.

Frátekið borð

Miðvikudagur, september 23rd, 2009

Gulli hárgreiðslumaður, sem starfaði í Kirkjustrætinu, er látinn. Fór nokkrum sinnum til hans þegar ég var í Menntó, enda stofan steinsnar frá MR.

Um tíma vorum við Gulli líka fastagestir á sama kaffihúsinu. Þegar ég var á öðru ári í MR sótti ég nefnilega talsvert Kaffi Ingólfsbrunn – hálfgerða búllu í kjallara Miðbæjarmarkaðarins. Þar var aldrei neinn og kaffið vont og staðið – en þeir hikuðu ekki við að selja 17 ára unglingum bjór og það kunni maður að meta.

Stundum sátum við félagarnir þarna laust fyrir hádegið og þá vildi það henda að vertinn snaraði sér framfyrir barborðið og setti spjald á eitt borðið með áletruninni „frátekið“. Þetta fannst manni alltaf jafn kyndugt á mannlausum veitingastaðnum. En skömmu síðar kom Gulli og fékk sér hádegismat. Hann klikkaði aldrei á því að láta taka frá borð.