Archive for október, 2009

Hvernig virkar greiðslujöfnun?

Föstudagur, október 30th, 2009

Það er nú á mörkunum að maður nenni að setja sig inn í þetta nýja greiðslujöfnunarkerfi, en líklega verður maður að láta sig hafa það. Úr því að öll húsnæðislán eru sjálfkrafa flutt yfir í þetta kerfi, er víst betra að vita út á hvað það gengur.

Það vantar ekki umfjöllunina um hvort og þá hvernig þessi breyting muni gagnast fólki í greiðsluerfiðleikum. Minna hefur farið fyrir því að rakið sé hvaða máli (ef nokkru) þetta muni skipta fyrir þá sem ekki eru í slíkri stöðu.

Nú er Mánagötuheimilið með fremur lágar húsnæðisskuldir frá Íbúðalánasjóði. Þær hafa eitthvað hækkað í takt við verðbólguna, en ekkert sem veldur neinum vandræðum. Það virðast því tveir kostir í stöðunni:

i) að hringja í ÍLS og afþakka þessa breytingu.

ii) aðhafast ekkert, fá einhverja smálækkun á greiðslubyrðinni, en borga þá það sem nemum mismuninum inn á höfuðstólinn.

– Hvor valkosturinn er skynsamlegri?

Money (b)

Föstudagur, október 30th, 2009

Orðrómurinn í fótboltaheiminum er sá að Richard Money verði næsti stjóri hjá Luton.

Hann var til skamms tíma yfir knattspyrnuakademíu Newcastle og var stjóri hjá Walsall um tíma. Lék eitt tímabil með Liverpool og varð Evrópumeistari. Mönnum ber saman um að hann sé góður stjóri sem skili árangri, en að menn megi ekki búast við leiftrandi sóknarbolta.

Jæja, aðalmálið er að komast upp um deild.

17.200

Fimmtudagur, október 29th, 2009

Óskaplega var hún pínleg uppákoman, þegar forstjóri álversins fyrir austan kom í fjölmiðla og sagði fyrirtæki sitt borga fjóra milljarða í beina skatta. Tveimur dögum síðar var vitleysan hrakin ofan í hann, enda kom á daginn að maðurinn reiknaði inn í þá upphæð skattana sem starfsfólkið hans greiðir.

Ekki lét stjórinn þessar leiðréttingar slá sig út af laginu, heldur áréttaði að fyrirtækið borgaði þetta víst… bara svona óbeint. Auk þess sem fyrirtækið borgaði líka fyrir rafmagnið sem það keypti. (Minnisblað til forsetaritara: gefa forstjórum stórra fyrirtækja fálkaorðuna fyrir að stela ekki rafmagninu úr dreifikerfinu…)

En hvað ætli álverið á Reyðarfirði sé að borga til ríkisins í beina skatta?

Það borgar vissulega talsverðar upphæðir til sveitarfélagsins, s.s. í formi aðstöðu- og hafnargjalda. En hvað með ríkið?

Ekki borgar fyrirtækið neinn tekjuskatt næstu árin, enda tiltölulega nýhafið starfsemi og á ennþá næga afskriftarliði í sínum bókum.

Jú, það borgar tryggingargjaldið af hverjum starfsmanni, eins og önnur fyrirtæki. Það rennur beint í tóman atvinnuleysistryggingasjóð.

Hvað er þá eftir? Jú – 17.200 krónur… í útvarpsgjald.

Það má nú kaupa margt fallegt fyrir 17.200 kall.

Villifé

Miðvikudagur, október 28th, 2009

Á færeyska þjóðminjasafninu gefur að líta marga merkilega gripi. Þar á meðal uppstoppað sauðfé.

Þar er um að ræða ævagamalt kindakyn sem lifði villt á eyjunum frá því að fyrsta fólkið settist þar að (væntanlega allnokkru fyrir landnám norrænna manna). Þessar sérkennilegu skepnur lifðu lengst á Suðurey og mögulega e-m smáeyjum, en á nítjándu öld var þeim útrýmt og síðustu dýrin stoppuð upp.

Menn eru nú ekkert sérstaklega stoltir af þessari útrýmingu í dag.

Frambókin í BMM

Miðvikudagur, október 28th, 2009

Bókin mín um sögu Knattspyrnufélagsins Fram hefur verið til sölu á skrifstofu félagsins frá því í vor og í fatahreinsuninni Úðafossi undanfarnar vikur. Þar sem líður að jólabókaflóði hefur hins vegar komið til tals að bókin mætti fást víðar.

Ég hafði samband við Bókabúð Máls og menningar á Laugaveginum og Pennann/Eymundsson og kannaði hvort verslanirnar væru til í að taka bókina í umboðssölu. Undirtektir voru jákvæðar á báðum stöðum, en hjá Pennanum er svo mikið umstang og pappírsvinna sem fylgir þessu að ég á alveg eftir að sjá hvað ég nenni að gera. (Sjálfur hef ég enga peningalega hagsmuni af því að bókin seljist, en vill vitaskuld að félagið nái sem mestu upp í kostnað.)

Bókabúð Máls og menningar var með mun minna skrifræði og hefur nú fengið tíu eintök til sölu. Útsöluverðið skilst mér að verði það sama og hjá Fram, 5.900 krónur. Það þýðir að gallhörðum Frömurum er bent á að kaupa sínar bækur í Safamýrinni (þá fær félagið alla upphæðina), en fótafúnir miðbæjarbúar geta snarað sér inn í búðina á Laugaveginum.

Núna fer ég að verða eins og óþolandi bókarhöfundarnir sem mæta í sífellu í búðirnar, kanna hvort staflinn hafi minnkað og tuða við staffið yfir að þeirra verk sé ekki nógu sýnilegt…

Sé líka á Gegni að Borgarbókasafninu hefur þegar tekist að glata einu eintaka sinna af Frambókinni. Er það ekki gæðastimpill ef farið er að hnupla ritinu? Tek líka eftir því að ekkert bólar á því að Landsbókasafnið sé með bókina á skrá. Varla er Oddi að klikka á skylduskilunum?

Rangur söngvari valinn…

Þriðjudagur, október 27th, 2009

…held að Júlíus Vífill hefði orðið miklu flottari leyniþjónustumaður!

Leikur ársins (b)

Þriðjudagur, október 27th, 2009

Stærsti leikur ársins gæti farið fram annað kvöld (eða reyndar strangt til tekið í kvöld, þriðjudagskvöld). Öfugt við hinn yfir-hæpaða leik Liverpool og Manchester United, hefur þessi viðureign litla athygli fengið í fjölmiðlum. Hún er þó mögulega upp á líf og dauða.

Um er að ræða viðureign Chester og Barrow í enska bikarnum. Á laugardag skildu þau jöfn. Nú verður leikið til þrautar. Ósigur gæti verið lokanaglinn í líkkistu Chester City.

Fótboltanördar sem lesa þessa síðu reglulega, vita allt um Chester. Félagið er rekið af glæpamanni. Féll niður í utandeildina ásamt okkur Luton-mönnum síðasta vor og má teljast ljónheppið að hafa ekki þá þegar verið gert upp. Eigandinn sviksami náði hins vegar að redda sér enn eina ferðina, en gat þó ekki skotið sér undan 25 stiga frádrætti. Núna, þegar meira um 40% mótsins er lokið er liðið búið að skrapa inn 15 stig. Fall niður um deild er óumflýjanlegt.

Chester City FC hefur minni rekstrarforsendur en vísitölu íslenska fjárfestingarfélagið. Liðið hefur skuldaklyfjar á bakinu, fær þúsund manns á leik en heldur úti fullri atvinnumennsku! Um daginn tilkynnti stjórn utandeildarinnar að Chester yrði að standa skil á greiðslum til tveggja félaga sem það skuldar ekki síðar en síðdegis í dag. Ella ætti liðið það á hættu að vera rekið úr deildinni og yrði í kjölfarið leyst upp.

Síðdegis var svo tilkynnt um loka-loka-sénsinn. Chester hefur tæpar þrjár vikur til að borga. Annars er þetta búið.

Það þýðir að bikarleikurinn á morgun ræður líklega úrslitum fyrir afdrif Chester. Vinni liðið, fær það bónusgreiðslu frá knattspyrnusambandinu sem fer langt með að dekka þessa bráðaskuld. Annars er ekkert nema svartnættið framundan.

Það sem gefur sögunni aukatvist, er sú staðreynd að eigandafólið hjá Chester átti áður Barrow – og setti það félag svo rækilega á hausinn að telja má kraftaverk að það sé lífs í dag. Það verður því verulega sérstök stemning á Deva Stadium í mikilvægasta leik ársins…

* * *

(Uppfært: 27.10.) Jæja, Chester tapaði 0:4. Stór nagli í líkkistuna…

Hamborgarinn og pizzusneiðin

Mánudagur, október 26th, 2009

Núna keppast menn við að rifja upp þegar Davíð Oddsson át fyrsta McDonalds-hamborgarann. Það var pínlegt augnablik.

Annað og ekki síður merkilegt atvik úr matarsögunni var þegar Íslendingar ákváðu að kenna Evrópubúum að éta skyndibita og Pizza 67 gerðist alþjóðleg keðja.

Ólafur Ragnar át fyrstu pizzasneiðina á Strikinu. Illu heilli ekki með hníf og gafli, heldur stakk hann upp í sig aðeins of heitri sneiðinni, með aðeins of seigan ostinn – og marði í sundur með framtönnunum á forsíðu danskra dagblaða.

Í mínum huga byrjaði íslenska útrásin með þessari myndatöku.

Sólstjakar

Sunnudagur, október 25th, 2009

Um daginn lauk ég við að lesa fyrstu jólabókina. Það er alltaf dálítið sérstök tilfinning.

Bókin sem varð fyrir valinu var Sólstjakar eftir Viktor Arnar Ingólfsson, sem hefur alltaf verið í einna mestu uppáhaldi hjá mér af íslensku krimmahöfundunum. Til þessa hefur Viktor Arnar skipt um söguhetjur milli bóka, en í Aftureldingu (sem nefndist Mannaveiðar í sjónvarpsgerð sinni), kynnti hann til sögunnar teymi lögreglumanna sem augljóslega áttu að koma við sögu í fleiri en einni bók.

Í Sólstjökum eru nýbúa-streitarinn Birkir Li og átvaglið Gunnar mættir aftur til leiks. Og væntanlega ekki í síðasta sinn.

Sögusvið bókarinnar er að miklu leyti sendiráð Norðurlandanna í Berlín, sem lýst er af þeirri verkfræðilegu nákvæmni sem kalla má höfundareinkenni Viktors Arnars. Eins og í Flateyjargátu og Engum sporum snýst fléttan um atburði á tveimur tímaskeiðum. Sagan rennur vel og ekki er gripið til fjarstæðukenndra tilviljanna.

Sem fyrr, er Viktor Arnar næstum því of mikið góðmenni til að skrifa blóðugar morðsögur. Samúðin með morðingjum jafnt sem fórnarlömbum er ærin, eins og í fyrri verkum. Það kemur því ekki á óvart þegar sá myrti reynist vera fúlmenni sem ekki átti neina ættingja eða ástvini á lífi. (Hey, þetta er ekki spoiler – þetta kemur fram á fyrstu 4-5 blaðsíðunum.)

Ég velti því fyrir mér hvaða áhrif sjónvarpsþættirnir uppúr Aftureldingu kynnu að hafa á þessa bók. Persóna Gunnars var leikin af Ólafi Darra í þáttunum og það er ekki laust við að myndin af honum sitji eftir í kollinum og sé jafnvel farin að móta persónuna í bókunum. Birkir Li – aðalsöguhetjan – var hins vegar skrifaður út úr sjónvarpsseríunni (líklega vegna þess að ekki hefur fundist íslenskur karlleikari af asískum uppruna). Það var skaði fyrir þættina, enda persónan með þeim frumlegri í íslensku glæpasagnaflórunni.

Sólstjakar eru ekki minnisstæðasta bók Viktors Arnars. Til þess er hún of hefðbundin miðað við sumar hinna bókanna sem hafa verið sérlega frumlegar. Þetta er þó vel skrifuð og spennandi glæpasaga sem mun væntanlega falla í kramið. Birkir Li, Gunnar og Anna réttarmeinafræðingur eru komin til að vera.

Þar sem aðalstarf höfundarins er að sjá um upplýsingamál Vegagerðarinnar, má sjá þá þá jákvæðu hlið á niðurskurðinum í samgöngumálum og þar með fækkun útgáfudaga Framkvæmdafrétta Vegagerðarinnar að kannski fáum við nýja bók strax um jólin 2010?

Schengen – til minnis

Laugardagur, október 24th, 2009

Starfsárið 1999-2000 samþykkti Alþingi þingsályktunartillögu til að fullgilda aðild Íslands að Schengen-sáttmálanum. Hana má lesa hérna.

Það er ágætt að lesa greinargerðina með tillögunni, þar sem farið er yfir eitt og annað varðandi framkvæmdina. Þar er til dæmis umfjöllun um ábyrgð á meðferð hælisbeiðna og hvernig túlka beri Dyflinnarsamninginn. Þar segir m.a.: Hvert aðildarríki getur tekið umsókn til meðferðar jafnvel þótt því sé það ekki skylt samkvæmt samningnum, enda samþykki umsækjandi það.

Er þetta ekki kjarni málsins?