Archive for nóvember, 2009

Sorg

Sunnudagur, nóvember 29th, 2009

Stubbur er týndur.

Uppáhaldsbangsi Ólínu til margra ára fékk að fara niður í bæ til að fylgjast með því þegar kveikt var á Oslóartrénu. Og núna er hann týndur.

Stubbur er bleikur/rauður teletöbbí (Pó). Hann er merktur Ólínu, en líklega ekki með símanúmeri.

Nú er ekki gaman.

* * *

Uppfært: Komið hefur í ljós að Stubbur sást undir ljósastaur neðst á Túngötu – við hótelið á horni Aðalstrætis um kl. 17. Klukkutíma síðar var hann ekki þar lengur, svo væntanlega hefur einhver gripið hann með sér í millitíðinni. Hótelið kannaðist ekki við að hafa fengið hann í sínar hendur og ekki Hjálpræðisherinn heldur.

Til sjónvarps? (b)

Laugardagur, nóvember 28th, 2009

Önnur umferð aðalhluta ensku bikarkeppninnar er leikin um helgina. Í dag lék Luton við Rotherham á útivelli – strembinn leikur gegn liði sem er á góðu róli einni deild ofar.

Náðum 2:2 jafntefli og tryggðum okkur þannig heimaleik, væntanlega annan miðvikudag. Það kvöld verða þessar viðureignir:

Millwall : Staines
Stockport : Torquay
Barnet : Accrington
Barrow : Oxford
Aldershot : Tranmere
Luton : Rotherham

Við fyrstu sýn hlýtur viðureignin okkar að vera sú álitlegasta fyrir ITV þegar kemur að því að velja sjónvarpsleik. Það ætti að koma i ljós á morgun, skömmu áður en dregið verður í þriðju umferð. Þá er bara að krossa fingur…

Millwall v Staines
Stockport v Torquay
Barnet v Accrington
Barrow v Oxford
Aldershot v Tranmere
Luton v Rotherham

Hálendingurinn 2010 – stund ákvörðunar: VI.hluti (b)

Föstudagur, nóvember 27th, 2009

Það er víst ekki eftir neinu að bíða með að ljúka úttektinni á liðunum á HM 2010, enda spenntir lesendur þegar farnir að fabúlera í athugasemdakerfinu um hvaða lið verði fyrir valinu.

28. Suður-Afríka

HM í ár er haldið í Afríku vagna þess að Sepp Blatter þurfti að tryggja sér atkvæði. (Ekki þar fyrir að það var svo sem sjálfsagt að Afríka fengi keppnina.) Ástæðan fyrir því að Suður-Afríka varð fyrir valinu en ekki t.d. Marokkó eða önnur Norður-Afríkulönd með sterkari fótboltainnviði var hins vegar snobbið fyrir Mandela.

Suður-Afríka verður vafalítið langslakasta gestgjafaliðið í sögu HM. Reyndar verður allt gert til þess að koma þeim áfram þegar dregið verður í riðla. Líklega mun það ekki skila öðru en að eitthvert tiltölulega slakt lið mun slugsast áfram í staðinn.

Niðurstaða: Suður-Afríka verður ekki uppáhaldslið, en vonandi bíða þeir ekki algjört afhroð

29. Suður-Kórea

Lið Suður-Kóreu á HM 1986 var skemmtilegt og minnisstætt. Kóreumenn hafa verið tíðir gestir í úrslitakeppninni, þótt árangurinn hafi verið misjafn. Fjórða sætið 2002 er eitt besta dæmi um lið sem nær að spila yfir getu. Þeir hljóta að hafa klárað heppniskvótann þá.

Niðurstaða: Suður-Kórea verður ekki uppáhaldslið, hef í sjálfu sér enga skoðun á þeim

30. Sviss

Svisslendingar urðu heimsmeistarar unglinga á dögunum og þjóðin er enn í sigurvímu. Taktík þeirra gengur venjulega út á að pakka í vörn og vona að marktækifærin verði til af sjálfu sér. Það er ferlega full fótbolti.

Niðurstaða: Sviss verður ekki uppáhaldslið, alveg óþarfi að fá meira en þrjá leiki með þeim.

31. Uruguay

Sagnfræðingar eru alltaf sökkerar fyrir þeim sem gera e-ð fyrstir allra. Heimsmeistararnir og gestgjafarnir 1930 hafa því sérstaka stöðu meðal knattspyrnuþjóða heims – dáldið eins og Grikkir á Ólympíuleikunum. Ég vil nú þegar hefja baráttu fyrir því að Uruguay haldi HM 2030.

Í mörg ár efti 1950-titilinn var Uruguay í hópi sterkustu landsliða, en síðustu áratugina hefur þetta verið erfiðara. Á HM 1990 hélt maður að allt væri að fara að smella. Uruguay voru mínir menn, með Enzo Fransescoli, sem var um tíma besti fótboltamaður í heimi. Sousa var líka frábær. En árangurinn á Ítaliu varð sár vonbrigði.

Uruguay er langt frá því að vera jafngott núna og fyrir tuttugu árum, en þetta er þétt lið sem getur sótt hratt. Það er sjálfsagt að stefna á fjórðungsúrslitin og þegar þangað er komið – tja, hver veit?

Niðurstaða: Uruguay  verður uppáhaldsliðið. Hvar kaupi ég treyju?

32. Þýskaland

Enginn sannarlega góður maður getur haldið með Þýskalandi.

Niðurstaða: Þýskaland verður ekki uppáhaldslið, mætti þó gera gagn með því að fella út England eða Brasilíu

Hálendingurinn 2010 – stund ákvörðunar: V.hluti (b)

Fimmtudagur, nóvember 26th, 2009

Hver verður Hálendingurinn 2010? Komið er að fimmtu grein af sex og spennan vex sífellt (sem er reyndar lygi – enda nennir varla nokkur maður að kommenta á nýjustu greinarnar…)

Núna er röðin hins vegar komin að fimm Evrópulöndum…

23. Portúgal

Brons á HM fyrir 45 árum og silfur á EM á heimavelli er það eina sem tilkall Portúgala til stórveldistitils í heimsknattspyrnunni byggist á. Að öllu eðlilegu ætti Portúgal að vera flokkað einhvers staðar á milli Belgíu og Úkraínu á afrekalistanum, en þökk sé öflugum einstaklingum (Figo og Ronaldo) hafa menn hneigst til að ofmeta liðið.

Sú var tíðin að Portúgal var skemmtilegt lið á stórmótum sem reyndi að sækja. Í dag eru þeir leiðindavarnarlið sem gerir út á föst leikatriði.

Niðurstaða: Portúgal verður ekki uppáhaldslið, má falla út hið fyrsta.

24. Serbía

Nú vandast málin. Fyrir nokkrum árum setti ég mér þá vinnureglu varðandi stórmót í fótbolta að ég myndi alltaf byrja á að horfa til þess hvort einhver leikmaður Fram eða Luton væri í leikmannahópnum. Á grunni þess hélt ég með Trinidad & Tobago (sem hafði Carlos Edwards innanborðs) á HM 2006.

Enginn núverandi Framari eða Luton-maður verður á HM 2010. En í þjálfarateymi Serbíu er Raddy Antic. Mark hans fyrir Luton gegn Manchester City er líklega ástæða þess að ég held með Luton en ekki e-m öðrum labbakútum á Englandi.

Ég hef því tilneigingu til að halda með hverjum þeim sem Raddy vinnur hjá – og þess vegna er rosalega erfitt að halda ekki með Serbum. En samt…

Niðurstaða: Serbía verður ekki uppáhaldslið, en með Raddy við stjórnvölinn vil ég sjá þá í fjórðungsúrslitum

25. Slóvakía

Það næsta sem við komumst því að sjá nýtt landslið á HM. Slóvakar eru með hörkulandslið en engar stjörnur. Einu Evrópuliðin sem ég get haldið með í seinni tíð eru lið eins og þetta – skítblankir Austur-Evrópubúar sem berjast með hjartanu,

Niðurstaða: Slóvakía verður ekki uppáhaldslið, en ég mun samt fylgjast vel með árangri þeirra

26. Slóvenía

Öskubuskuævintýrið á HM. Slóvenía er smáþjóð sem fer nú á sitt þriðja stórmót á furðuskömmum tíma. Allir Íslendingar hljóta að halda með Slóveníu – en vera þó meðvitaðir um að hvað sem öðru líður getur smáþjóð aldrei náð lengra en í 16-liða úrslitin eða þar um bil.

Niðurstaða: Slóvenía verður ekki uppáhaldslið, en mætti að ósekju komast áfram úr riðlunum.

27. Spánn

Spánverjar áttu svo sannarlega skilið að verða Evrópumeistarar 2008. Líklega verða þeir öflugasta lið Evrópu að þessu sinni og í fínum séns að taka titilinn – sem yrði mjög góður árangur hjá liði með besta árangur þriðja sæti 1950.

Hef samt aldrei verið sérstakur Spánverjaaðdáandi og sé ekki fram á að geta klappað fyrir liði þeirra.

Niðurstaða: Spánn verður ekki uppáhaldslið, en gæti unað þeim meistartatitls betur en mörgum.

Og þar með hefjast umræður:

Hálendingurinn 2010 – stund ákvörðunar: IV.hluti (b)

Miðvikudagur, nóvember 25th, 2009

Áfram heldur hin strangvísindalega yfirferð liðanna á HM í Suður-Afríku. Að þessu sinni verður tekinn fyrir hópur skemmtilegra liða sem flest hljóta að teljast minni spámenn.

18. Mexíkó

Mexíkó er kerfisbundið vanmetið þegar kemur að HM. Ef árangur liðinna ára er skoðaður kemur í ljós að þetta er lið sem fastlega má búast við í fjórðungsúrslitin. Staða þess á heimslistanum er í samræmi við það. En vegna þess að flestir leikmenn Mexíkó spila í heimalandinu, reikna fæstir með stórafrekum.

Reyndar eru alls kyns vandamál búin að hrjá mexíkóska landsliðið og spurning hvað sænski skúnkurinn Sven Göran Eriksson hefur náð að valda miklu tjóni. Giska á sextán liða úrslit og naumt tap þar.

Niðurstaða: Mexíkó verður ekki uppáhaldslið, styð þá samt til allra góðra verka.

19. Nígería

Sem fyrr segir, má ætla að afrísku liðin muni njóta þess að leikið verði í Suður-Afríku. Nígería er ekki eins sterkt um þessar mundir og fyrir fimmtán árum síðan. Gætu sloppið upp úr riðlinum en varla meira en það.

Niðurstaða: Nígería verður ekki uppáhaldslið, mættu þó koma manni þægilega á óvart

20. Norður-Kórea

Hóhóhó… hér er þátttökuland með sögu. Norður-Kóreuliðið 1966 olli straumhvörfum með því að sýna að lið frá þriðja heiminum gætu átt erindi á HM. Því miður varð ekkert úr því að Norður-Kórea keppti á HM 1970, þrátt fyrir að vera áfram langbesta lið Asíu – því þeir gáfu viðureign gegn Ísrael af pólitískum ástæðum.

Furðulegar fregnir berast frá Kóreu þess efnis að verið sé að reyna að fá Sven Göran Eriksson í þjálfarateymið. Það má aldrei gerast.

Sama hvernig fer hjá Norður-Kóreu að öðru leyti, þá VERÐUR lið þeirra að lenda í riðli með Bandaríkjunum. Það yrði móðir allra knattspyrnuleikja!

Niðurstaða: Norður-Kórea verður ekki uppáhaldslið, en ég mun fylgjast grannt með þeim

21. Nýja-Sjáland

Slakasta liðið á HM og líklega fá dæmi á seinni árum um jafnlétta leið nokkurs landsliðs á úrslitakeppni. Nýsjálendingar eru fámenn þjóð og fótbolti varla nema fjórða vinsælasta hópíþróttinn. Stig yrði stórafrek. Megi Óðinn gefa að það verði gegn einhverjum montnu stórliði.

Niðurstaða: Nýja-Sjáland verður ekki uppáhaldslið, mættu samt stríða andstæðingum sínum

22. Paraguay

Paraguay var ekki eftirminnilegt á HM 1986, en komst þó upp úr riðlakeppninni. Síðar tengdi maður Paraguay aðeins við hinn kostulega markvörð Chilavert, sem tók aukaspyrnur við mark andstæðinganna (sem maður hafði aldrei séð áður). Lið þeirra er nær alveg laust við þekkt nöfn.

Þetta er hins vegar flott fótboltalið sem fór vandræðalaust upp úr sterkri Suður-Ameríkuforkeppni. Þeir geta sótt mjög hratt upp völlinn og ógna sífellt. Hættan með svona lið er samt að þegar komið verði í úrslitakeppnina, pakki það í vörn.

Niðurstaða: Paraguay verður ekki uppáhaldslið, gætu þó alveg orðið spútniklið

Og hefjast þá umræður.

Nornin

Miðvikudagur, nóvember 25th, 2009

Fyrir nokkrum mánuðum lenti ég í smáritdeilu við Gísla Martein Baldursson. Hann hafði skrifað frekar kjánalega grein um Margréti Thatcher sem gekk efnislega út á að einu sinni hefði Thatcher verið æði umdeild, en í seinni tíð væru nú eiginlega allir á því valdatími hennar hefði bara verið helvíti fínn…

Þetta fannst mér mögnuð skrif í ljósi þess að Gísli Marteinn hefur búið í Skotlandi. Mín reynsla er sú að þar í landi sé Thatcher um það bil miðja vegu á milli svínaflensu og manna sem drepa smádýr sér til skemmtunar í vinsældum.

Held að þetta myndskeið nái ágætlega stemningunni norðan landamæranna…

* * *

Uppfært: Kannski Gísli ætti að skella sér á fótboltaleik ytra. Það er t.d. alltaf stemning á pöllunum hjá Celtic þegar þetta lag er sungið…

Hálendingurinn 2010 – stund ákvörðunar: III.hluti (b)

Miðvikudagur, nóvember 25th, 2009

Nú er komið að kanónum á HM, þremur liðum sem stefna væntanlega á heimsmeistaratitilinn sjálfan. Leynist uppáhaldslið í þessum potti? Hvar er Valli?

12. Frakkland

Ég hélt með Frökkum á EM 1996, aftur á HM tveimur árum síðar, líka á EM 2000 og loks í leiðindakeppninni í Japan og Suður-Kóreu 2002. Hin ömurlega spilamennska Frakkanna á síðasttalda mótinu var slík svik að það verður aldrei fyrirgefið. Til að bæta gráu ofan á svart eru Frakkarnir með rugludall sem trúir á stjörnuspeki sem þjálfara, sem þýðir að unnendur vísinda hljóta að óska þeim ófarnaðar.

Niðurstaða: Frakkland verður ekki uppáhaldslið, má detta út fyrr en síðar

13.Holland

Afstaða mín til Hollendinga mótast nokkuð af því að þeirra stærsta stund var EM sigurinn 1988. Þá hélt ég hins vegar með sovéska liðinu og kunni Hollendingum litlar þakkir fyrir að sigra Dassajeff og félaga í úrslitaleiknum. Þrátt fyrir þessa forsögu verður ekki fram hjá því litið að Hollendingar leika yfirleitt einna skemmtilegasta boltann af stóru þjóðunum. Á móti liðum eins og Frökkum, Þjóðverjum og Brasilíu er ekki spurning hvar hjartað myndi slá.

Niðurstaða: Holland verður ekki uppáhaldslið, en ég myndi una þeim betur en flestum öðrum að fara alla leið

14. Hondúras

Menn dönsuðu af gleði á götum úti í Hondúras þegar liðið komst á HM í fyrsta sinn frá 1982. Ætli sá eini sem bölvaði úrslitunum hafi ekki verið brottrekni forsetinn? Fátt hjálpar herforingjastjórnum eins vel til að halda völdum og velgengni á fótboltavellinum.

Hin augljósa sögulega vísun hér er vitaskuld fótboltastríðið milli Hondúras og El Salvador sem braust út eftir leik þeirra í forkeppni HM 1970. En ég sem friðarsinni get auðvitað ekki lofsungið slíkt framferði. Hondúras á samt allt gott skilið sem smáríki með gríðarlega fótboltahefð (ætli það mæti ekki fleiri á landsleiki Hondúras sem spilaðir eru í Bandaríkjunum en á leiki bandaríska landsliðsins?)

Niðurstaða: Hondúras verður ekki uppáhaldslið, en ég myndi fagna því ef þeim tækist að stela stigi af einhverri stórþjóðinni

15. Ítalía

Hmm… getur nokkur heiðvirður vinstrimaður óskað þess að sjá Ítali verja heimsmeistaratitilinn og Berlusconi brosa út að eyrum í heiðursstúkunni? Hélt ekki. Ítalir eru auðvitað frábær knattspyrnuþjóð, en manni finnst samt eitthvað rangt við að þeir geti státað af fjórum titlum. Það er líka alltaf eitthvað fúlt við lið þar sem aðalgaurinn er markvörðurinn (segi ég sem hélt með Sovétmönnum útaf Dassajeff.)

Niðurstaða: Ítalía verður ekki uppáhaldslið, mætti helst falla út áður en í undanúrslitin er komið (því þá væri þeim nefnilega trúandi til að fara alla leið)

16. Japan

Slöppustu gestgjafar sögunnar (þangað til Suður-Afríka slær það met). Japan er álíka óspennandi og Ástralía. Það er krúttlegt þegar fátæk þriðja heims þjóð kemur á óvart á HM og nær að skjóta vondu, ríku Evrópubúunum skelk í bringu – en hver á að gleðjast yfir því þegar eitt ríkasta samfélag heims mætir sem underdog á móti skítblönku Austur-Evrópulandi?

Svo er það svo æpandi augljóst á leikjum með Japan, að áhorfendurnir eru túristar sem kunna ekkert að haga sér á fótboltaleikjum. (Eru þetta staðalmyndir og sleggjudómar? You bet!)

Niðurstaða: Japan verður ekki uppáhaldslið, tilvalið fallbyssufóður

17. Kamerún

Þeir eru til sem halda því fram að Péle hafi drepið afríska knattspyrnu með jinxinu 1990, þess efnis að 1998 yrði lið frá Afríku heimsmeistari. Aðrir benda á að Péle hafi alltaf talað út um rassgatið á sér og enginn hlusti á hann.

Hvað sem því líður, hefur Kamerún aldrei tekist að standa undir árangrinum 1990. Þeir eru þó mögulega öflugasta knattspyrnuþjóð álfunnar – ásamt Ghana. Í ljósi þessa – og að keppnin fer nú fram í Afríku, þá er þetta stóri sénsinn fyrir Kamerún. Eitthvað segir mér þó að þetta endi allt í tárum.

Niðurstaða: Kamerún verður ekki uppáhaldslið, eiginlega stendur mér alveg á sama um liðið

Og enn er mælendaskrá opin…

Hálendingurinn 2010 – stund ákvörðunar: II.hluti (b)

Mánudagur, nóvember 23rd, 2009

Áfram heldur hið æsispennandi val á eftirlætisliði Stefáns á HM 2010. Þessi bloggsyrpa hefur þegar vakið mikla athygli fótboltanjarða. Aðrir lesendur þessarar síðu rífa hár sitt og skegg – eins og ég gerði raunar sjálfur í kvöld yfir Kastljósviðtalinu við siðblinda útlenska bankamanninn. Nema hvað, vindum okkur þá í lið 6-11:

6. Chile

Ef ég hefði lent í Mastermind-sjónvarpsþættinum þegar ég var tólf ára, hefði saga HM í fótbolta orðið fyrir valinu. Allir þeir sem hafa stúderað sögu HM eru pínkulítið veikir fyrir HM í Chile 1962. Ef Heimsmeistarakeppnirnar væru James Bond-myndir, þá er HM í Chile George Lazenby – gaurinn sem almúginn lítur á sem labbakút, en innvígðu sérfræðingarnir snobba dáldið fyrir.

Chile 1962 er „týnda heimsmeistarakeppnin“. Hún fór ótrúlega lágt. Brasilía var sigurstranglegust og vann, þó ekkert sérlega afgerandi. Evrópsku liðin sem náðu einhverjum árangri voru frá Austurblokkinni, sem dró enn úr áhuga vestrænna fjölmiðla og fleira mætti telja til. Í fljótu bragði man ég ekki eftir neinni berulega bitastæðri bók um Chile-keppnina.

Dugar nördalegur áhugi á 46 ára gamalli heimsmeistarakeppni til að halda með Chile? Njah, þetta er svo sem ágætlega skemmtilega spilandi lið. Verða líklega hraðir og ógna fram á við, en munu alltaf tapa gegn stóru strákunum í sextán liða úrslitum eða þar um bil.

Niðurstaða: Chile verður ekki uppáhaldslið, en mætti mér að meinalausu fara upp úr riðlunum.

7. Danmörk

Um miðjan níunda áratuginn var danska liðið eitt það magnaðasta sem fram hefur komið, ekki hvað síst ef smæð landsins er höfð í huga. Danmörk í dag á hins vegar lítið sameiginlegt með liðinu fyrir aldarfjórðungi. Undir eðlilegum kringumstæðum myndi ég samt hneigjast til að halda með Dönum… smáþjóðarelementið og allt það – EN ég bý á Íslandi. Um leið og íslensku lýsendurnir fara að blaðra um frændur okkar Dani, danska dýnamítið og flytja hundruðustu hnyttnu fréttina af því hvað dönsku stuðningsmennirnir séu sniðugir, á ég eftir að fá grænar bólur.

Niðurstaða: Danmörk verður ekki uppáhaldslið, verður helst að falla út í riðlakeppninni geðheilsu minnar vegna.

8. Ghana

Það er merkileg staðreynd varðandi afrísku knattspyrnuna að Ghana hefur um áratugi verið eitt helsta stórveldi álfunnar. Engu að síður tókst landinu alltaf að mistakast að komast á HM, þangað til síðast.

Ghana hefur líklega sterkustu knattspyrnuinnviði álfunnar og hefur um langt skeið verið með afburða ungmennalandslið. Sjálfseyðingarhvötin er þó oft rík hjá liðum sem þessum. Þannig ætti ekki að koma á óvart þótt leikmenn verði komnir í kjaradeilu við knattspyrnusamband sitt í miðju móti. Ef ég ætlaði að veðja á Afrískt lið, kæmi Ghana líklega helst til greina.

Niðurstaða: Ghana verður ekki uppáhaldslið, en assgoti væri þó skemmtilegt ef við sæjum fyrsta afríska liðið í undanúrslitum.

9. Grikkland

Hahaha… enn ein gömul kærasta! Fyrir EM 2004 átti ég við mikinn valkvíða að stríða og hafði enn ekki ákveðið uppáhaldslið þegar flautað var til fyrsta leiks. Þegar fimm mínútur voru liðnar af upphafsleik Portúgala og Grikkja ákvað ég að Grikkir skyldu vera mínir menn. The Rest is History…

Bjútíið við Grikkland er hversu mikið þeim verður úr litlu. Liðið hefur engar stjörnur að heitið geti og gerir sér fyllilega grein fyrir því. Það er alltaf betra en þegar veikari liðin setja allt sitt traust á fræga kallinn í hópnum. Að þessu sögðu, hafa Grikkir litlu flugi náð frá 2004 og brandarinn farinn að verða nokkuð gamall.

Niðurstaða: Grikkland verður ekki uppáhaldslið, en ég mun fagna sérhverjum 1:0 sigri þeirra og vil endilega sjá þá komast upp úr riðlinum.

10. England

Þegar líður að stórmótum í fótbolta togast á í mér tvö andstæð sjónarmið. Í aðra röndina vona ég að England komist ekki í úrslitakeppnina, til að maður sé laus við óværuna. Í hina röndina vil ég að tjallar komist á EM og HM, til að þeir geti talað sig upp í óraunsæjar væntingar og upplifað sár vonbrigði þegar allt fer á versta veg. Ástæðan er einföld: íslenskir íþróttafréttamenn!

Englendingadekrið hér heima er með hreinum ólíkindum. Stöð tvö sport sýnir sérhvern skítaleik enska landsliðsins og jafnvel vináttuleiki á sama tíma og stórleikir fara fram í forkeppninni. Ég má ekki einu sinni til þess hugsa hversu hátt hlutfall ungra íslenskra karlmanna kemur til með að hala með Englendingum á þessu móti.

Niðurstaða: England verður ekki uppháldslið, raunar má segja að mótið hefjist ekki fyrir alvöru fyrr en Englendingar verða sendir heim – helst þannig að einhverjir lykilmanna þeirra bresti í grát og skæli eins og smábörn fyrir framan vægðarlausa myndatökumenn.

11. Fílabeinsströndin

Fílabeinsströndin var með flott lið á síðasta HM. Gætu alveg náð fínum árangri núna líka – en hey, ég er ekki að fara að halda með Didier Drogba á fótboltavellinum.

Niðurstaða: Fílabeinsströndin verður ekki uppáhaldslið, mega þó mín vegna alveg komast eitthvað áfram.

Og nú hefur mælendaskrá verið opnuð…

Nýja félagið

Mánudagur, nóvember 23rd, 2009

Um daginn kom ég að því að stofna félag. Og það sem meira er, ég tók meira að segja sæti í fyrstu stjórn þess – vinnustjórn sem sitja mun þar til haldinn hefur verið skikkanlegur aðalfundur á vormisseri. Þetta er félagið „Hagstund: hagsmunafélag stundakennara á háskólastigi“.

Fyrstu viðbrögð mín, þegar ég var beðinn um að slást í hópinn, voru á þá leið að málið varðaði mig ekki neitt. Ég hef vissulega gripið í stundakennslu, bæði í sagnfræðinni og við Raunvísindadeild, en ég hef alltaf litið á það sem hálfgert hobbý – ágætis leið til að halda mér í æfingu og skemmtilega tilbreytingu frá „alvöru“ vinnunni minni. Launaseðlarnir frá Háskólanum hafa svo sem ekki gert mikið til að breyta þessu viðhorfi mínu. Stundakennari með MSc-gráðu fær 1.600 krónur á tímann og ef ég man rétt er ætlaður álíka langur tími til undirbúnings og kennslustundin sjálf.

Háskólinn er að miklu leyti rekinn af mönnum eins og mér, sem líta á stundakennslu sem hálfgerða sjálfboðavinnu sem gaman er að grípa í með öðru. Þetta gerir skólanum kleift að borga lítið fyrir vinnuna og sleppa því að veita þessum starfskröftum nokkur sérstök réttindi eða aðstöðu. Það má því segja að ég sé hluti af vandamálinu.

Þegar ég hugsaði málið betur sá ég að auðvitað gengur ekki að þetta sé svona. Þótt við hobbý-stundakennararnir séum í öruggu skjóli vinnuveitenda úti í bæ, er ótækt að hópur fólks þurfi að reyna að hafa ofan af fyrir sér í þessu ati á skítakaupi. Réttleysið er líka óþolandi. Hver er t.d. staða mín sem stundakennara ef ég flýg á hausinn í miðri kennslustund og brýt í mér hvert bein? Er ég tryggður af Háskólanum? Nei, svo sannarlega ekki.

Háskólinn borgar ekki launatengd gjöld af launum stundakennara. Stundakennarar hafa ekki veikindarétt. Stundakennarar hafa engan trúnaðarmann eða fulltrúa gagnvart Háskólanum. Stundakennarar fá litlar eða engar upplýsingar um réttindi sín, skyldur, vinnuaðstöðu eða hvernig best sé að snúa sér varðandi tæknileg efni. Stundakennarar fá ekki einu sinni jólakort frá rektor.

Þess vegna er ég í Hagstund. Bendi á heimasíðuna og hvet aðra hobbý-kennara til að ganga í félagið. (Við verðum að minnsta kosti að þvinga fram jólakortin…)

Gólfefni

Mánudagur, nóvember 23rd, 2009

Fékk fyrirspurn í vinnunni í morgun tengda reykvískum gólfum. Gat ekki svarað með góðu móti.

Hvenær fóru Íslendingar að leggja parket í húsum sínum og/eða hvenær fór það að tíðkast að hylja ekki timburgólf með teppum og mottum? Hangir þetta e.t.v. saman við hitaveitulagningu?

Hefur e-ð verið ritað um gólfefnasögu Íslendinga?

Þessu tengt: hvenær varð það alsiða meðal Íslendinga að fara úr skónum þegar farið er inn í annarra manna hús? Víða erlendis þykir slíkt sérkennileg hegðun í meira lagi.

Þrömmuðu Reykvíkingar á sokkaleistunum um heimili gestgjafa sinna alla tuttugustu öldina? Spyr sá sem ekki veit.