Archive for desember, 2009

Að éta handritin

Fimmtudagur, desember 31st, 2009

Gunnar Smári skrifar lipran pistil í Fréttablaðið í dag. Þar kemur fyrir hnyttin klausa á þá leið að við séum ekki bara komin af þeim sem skrifuðu handritin – heldur líka þeim sem átu þau.

Þetta er auðvitað skemmtileg líking og ágætur djókur. En eins og svo margir aðrir góðir djókar, einn af þeim sem sagnfræðingar hafa eyðilagt.

Íslendingar misstu nefnilega aldrei álit á sagnaarfinum. Reyndar var smekkur manna misjafn eftir tímabilum hvað af gömlu skrifunum væru merkileg og hvað ekki – en eftir stendur að þau voru alltaf meðhöndluð af virðingu.

En hvernig stóð þá á því að landsmenn fóru að taka gömlu skinnhandsritin og breyta þeim í skinnbætur eða naga við hungri? Jú, oftrú á nútímavæðingu.

Þegar fram liðu stundir eignuðust Íslendingar pappír og notuðu meðal annars til að skrifa upp gömlu skinnbókarhandritin. Pappírinn var nútímalegur og meðfærilegur. Skinnið þungt, illlæsilegt og ómeðfærilegt. Þess vegna freistuðust margir til að hugsa sem svo að þegar búið væri að skrifa upp skinnhandritin á pappír, hefðu gömlu handritstægjurnar ekkert gildi lengur – og mætti sem best nýta í bætur eða til átu.

Sagan um handritaát Íslendinga er því ekki til marks um virðingarleysi fyrir þjóðararfi eða lágt menningarstig. Hún er frekar dæmisaga um hvernig menn geta átt það til að ofmeta gildi tækninýjunga og verið of fljótir til að henda því gamla í þeirri trú að það sé orðið úrelt.

PDW

Mánudagur, desember 28th, 2009

Luton vann Eastbourne FC síðdegis, 4:1. Stuðningsmennirnir fagna stigunum þremur, en eru ekki ánægðir með frammistöðuna að öðru leyti. Það vefst líka talsvert fyrir mönnum að fagna innilega sigri á móti svona smáliðum.

PDW, uppáhalds pistlahöfundurinn minn á besta Luton-spjallborðinu orðar þetta ansi vel (en af lítilli hógværð): „…it was a decent work out against the plucky part timers, from a club I didn’t even know existed until last year. Always presumed the preferred contact sport down Eastbourne way was Necrophilia.“

Skelfing

Mánudagur, desember 28th, 2009

Hlustaði á tvöfréttir á Bylgjunni. Þær byrjuðu seint og illa. Hef aldrei áður heyrt nafn fréttalesarans, sem líklega hefur verið að sjá um sinn fyrsta fréttatíma.

Hafi verið einhver stórtíðindi í fréttum fóru þau alveg fram hjá mér. Öll athyglin fór í að fylgjast með því hvort lesarinn fengi hjartaáfall af stressi.

Skelfingulostnari fréttamann hef ég séð eða heyrt frá því að ég varð þess aðnjótandi fyrir mörgum-mörgum árum að sjá Egil Helgason stjórna sínum fyrsta 11-fréttatíma í Sjónvarpinu.

Það er nokkuð sem  mætti vera til á Jútúb.

Arðrændir unglingar?

Laugardagur, desember 26th, 2009

Lenti í skoðanaskiptum við Andrés Jónsson á blogginu hans fyrr í dag. Kveikjan að því voru vangaveltur hans um hvernig best væri að standa að opinberum styrkjum til íþróttafélaga. Þetta leiddi hugann að gamalkunnri mýtu varðandi rekstur íþróttahreyfingarinnar: að rekstur meistaraflokka væri að miklu leyti greiddur með æfingagjöldum yngstu iðkendanna, sjálfboðavinnu unglinga og opinberu fé sem upphaflega hefði átt að renna til ungviðisins.

Þessi hugmynd hefur verið langlíf og var síðast viðruð í ótal netskrifum í tengslum við strípiklúbbsmál KSÍ-starfsmannsins í Sviss.

Þegar ég var að vinna heimildavinnuna fyrir 100 ára sögu Fram, rakst ég að sjálfsögðu á skrif í þessa veru og var forvitinn að komast að komast að því hvenær umræðan hefði byrjað sem og hvað hæft væri í henni. Sú rannsókn náði einungis til þessa eina félags, en ég hef í sjálfu sér enga ástæðu til að ætla annað en að þróun mála hafa í aðalatriðum verið eins hjá öllum stærri Reykjavíkurfélögunum og væntanlega víðar.

Fyrirfram bjóst ég við því að bras við fjáraflanir, smásníkjur og rukkun æfingagjalda væru jafngömul fyrirbæri og rekstur yngri flokka í hópíþróttum. Sú var þó ekki raunin.

Ef saga íslenskrar knattspyrnu er skoðuð, kemur í ljós að fótboltaiðkun ungmenna (lesist: drengja) var lengst af furðuútgjaldalítil. Rekstur keppnisflokkanna var líka ódýr. Þjálfarar voru ýmist ólaunaðir eða fengu greitt til málamynda og þá varla fyrir útlögðum kostnaði. Keppnisferðir út á land voru fátíðar og ferðast spart. Félagið lagði til búninga – sem oft og tíðum voru gefnir af vinum og velunnurum klúbbsins.

Ekki var um að ræða eiginleg æfingagjöld – eða þá að um var að ræða mjög lágar upphæðir. Ætlast var til þess að yngri félagarnir greiddu hálft félagsgjald eða þaðan af minna, en innheimtan á því var losaraleg. Upphæðin var sömuleiðis lág og vægi félagsgjalda fór stöðugt minnkandi í reikningunum. Eftir 1960 má segja að félagsgjöld skipti ekki lengur teljandi máli í bókhaldinu – en innheimta þeirra varð frekar að prinsipatriði, einkum í huga sumra eldri félagsmanna.

Litlar heimildir eru um að vænst hafi verið mikillar sjálfboðavinnu af yngri iðkendunum, enda í sjálfu sér ekki mikið um fjáraflanir. Helst að reynt væri að hvetja sem flesta til að selja happdrættismiða ef efnt var til slíks.

Á þessum árum datt engum í hug að halda því fram að yngri flokkarnir væru arðrændir af meistaraflokknum, enda var fjárstreymið í hina áttina. Miðasala á leiki meistaraflokks var það sem rak knattspyrnudeildina að mestu leyti.

Framarar voru (eins og aðrir íþróttamenn) aldrei ríkir, en þeir voru ekkert sérstaklega blankir heldur. Upp úr 1970 fer reksturinn hins vegar að þyngjast verulega. Fyrst í handboltanum sem var útgjaldameiri íþrótt en með færri borgandi áhorfendur. Undir lok níunda áratugarins fer að verða vart við sömu þróunina í fótboltanum.

Margir samverkandi þættir ollu þessu.

Sífellt erfiðara var að fá þjálfara til að starfa í sjálfboðavinnu, á sama tíma og kröfurnar til gæða þjálfunarinanr fóru vaxandi. Það þótti ekki lengur verjandi að halda úti sextíu stráka æfingu með einum leiðbeinanda með flautu sem skipti í lið og lét „ruslið“ æfa á bílaplaninu. Þjálfunarkostnaður allra flokka fór vaxandi.

Í meistaraflokkunum varð sífellt algengara að einstök félög réðu þjálfara með engin persónuleg tengsl við viðkomandi lið, sem þar af leiðandi gerðu fullar launakröfur. Fyrsti slíki þjálfarinn hjá Fram var Keflvíkingurinn Hólmbert Friðjónsson undir lok áttunda áratugarins. Laun slíkra þjálfara þóttu há – en teldust varla merkileg í seinni tíð. Um svipað leyti fór aðeins að bera á því að bestu leikmenn fengju smásporslur fyrir að æfa með liðum sínum.

Með sívaxandi útgjöldum varð ljóst að íþróttadeildirnar yrðu ekki reknar með miðasölu á meistaraflokksleikjum einvörðungu. Viðbrögðin voru tvíþætt. Annars vegar var reynt að auka tekjurnar með óhefðbundnum fjáröflunum (Framarar sáu t.d. um mestalla dreifingu fyrir bókaklúbbinn Veröld, sem margir muna eftir). Hins vegar var farið að miða æfingagjöldin hjá yngri iðkendunum við raunverulegan rekstrarkostnað þeirra. Gjöldin hækkuðu jafnt og þétt – auk þess sem möguleikar flokkanna á að fá styrki frá móðurdeildunum til keppnisferða minnkuðu og við tók tími rækju- og klósettpappírssölu.

Þegar þetta tvennt féll saman: að sögur bárust af einstaka leikmönnum í efstu deild karla sem fengu borgað fyrir að spila, æfingaferðum meistaraflokka til útlanda og launuðum þjálfurum – á sama tíma og farið var að senda síhærri gíróseðla fyrir æfingagjöldum barnanna, er ekki skrítið þótt margir hafi orðið reiðir.

Það þarf þó ekki að liggja lengi yfir reikningum knattspyrnudeildar Fram (né væntanlega annarra félaga ef því er að skipta) til að sjá að yngri flokkarnir voru svo sannarlega engin gullnáma. Rekstur þeirra með æfingagjöldum og opinberum stuðningi hefur yfirleitt staðið undir sér með herkjum.

Síðustu tíu árin eða svo hefur svo fjárhagur yngri og eldri flokka verið aðskilinn og reksturinn raunar verið á sitthvorri kennitölunni. Ekki er að sjá að sá aðskilnaður hafi haft nokkur áhrif á æfingagjöld eða kostnað við íþróttaiðkun barna og unglinga. Ef eitthvað er má segja að rekstur yngri flokkanna hafi orðið erfiðari og þeirra sneið af kökunni minnkað í kjölfarið.

Umræðan um opinberu framlögin er flóknari. Þar fær maður þó á tilfinninguna að margir telji að íþróttafélögin fái sendar risastórar ávísanir frá ríki og borg til frjálsra afnota – sem hið opinbera ætlist til að fari í kaup á búningum fyrir sjötta flokk stúlkna, en óprúttnir íþróttaforkólfar kjósi að nota í launagreiðslur til þeldökkra körfuboltakarla.

Veruleikinn er sá að opinberu framlögin eru að langmestu leyti tengd mannvirkjum (sem meistaraflokkarnir njóta vissulega góðs af). Að öðru leyti eru framlögin rækilega eyrnamerkt og hanga saman við iðkendur, æfingatíma o.fl.

Misjafn smekkur

Fimmtudagur, desember 24th, 2009

Björn Bjarnason velur fallegustu jólasöguna: „Litla stúlkan með eldspýturnar er fallegasta jólasagan fyrir utan jólaguðspjallið hjá Lúkasi. Öll börn hafa gott af að kynnast boðskap hennar og ekki síður hinir fullorðnu.“

Svona er smekkur manna ólíkur. Sjálfum hefur mér alltaf fundist þessi saga andstyggileg. Hún segir í stuttu máli frá fátæku barni sem frýs í hel fyrir hunda og manna fótum án þess að nokkur komi því til bjargar. En allt fer jú vel – því stúlkan fær himnaríkisvist hjá ömmu sinni.

Pie in the Sky, when you die! – söng Joe Hill um svona hugmyndafræði og gaf henni ekki háa einkunn.

Reyndar getum við Björn verið sammála um að allir hafi gott af því að lesa ævintýrið um Litlu stúlkuna með eldspýturnar – en ólíkum forsendum þó. Mér finnst nákvæmlega ekkert fallegt við þessa sögu. Þvert á móti.

Uppgjöf skynseminnar

Miðvikudagur, desember 23rd, 2009

Fyrir tíu árum – um áramótin 1999/2000 vildu fjölmargir vitleysingar halda aldamót. Fólk sem kunni að reikna varði ómældum tíma í að reyna að útskýra fyrir fáráðunum að aldamótin yrðu ekki fyrr en að ári.

Núna virðist allt þetta góða fólk hafa gefist upp.

Að minnsta kosti hef ég ekki orðið var við neinar greinar þar sem sett er spurningamerki við allar greinarnar og upprifjanirnar á „besta eða merkilegasta hinu og þessu“ áratugarins.

Heimur versnandi fer.

Stólaleysi

Mánudagur, desember 21st, 2009

Fréttamoli Dv.is um deilur Þráins Betrhelssonar og Þórs Saari bendir til fádæma skilningsleysis á störfum þingsins. Ekki er ljóst hvort misskilningurinn liggur hjá Þór Saari, blaðamanni DV eða báðum.

Í molanum segir:

„Þór Saari, þingmaður Hreyfingarinnar, er ekki ánægður með sinn gamla félaga, Þráin Bertelsson, þessa dagana.

Þór vildi að Egill Helgason, Eva Joly og fleiri fengju að sitja fundi allsherjarnefndar sem áheyrnarfulltrúar þegar fjallað er um rannsóknarskýrslu hrunsins. Hann leitaði til Þráins, sem situr einmitt sem áheyrnarfulltrúi, um að víkja fyrir Evu eða einhverjum framangreindra. Svarið var nei.“

Úr þessum fáeinu línum má lesa þann skilning að það sé stólafjöldinn í fundaherbergjum þingnefnda sem ráði því hverjir og þá hversu margir mega sitja fundina. Þannig sé það guðvelkomið að Egill Helgason sitji glaðbeittur á öllum fundum… ef aðeins takist að losa fyrir hann stól.

Auðvitað er þetta hreinasta firra. Þingnefndir eru skipaðar þingmönnum og áheyrnarfulltrúar minni stjórnmálahreyfinganna á þingi eru og verða þingmenn. Þótt Þór Saari kunni að eiga þann draum að fólk utan úr bæ sitji þessa fundi, þá verður hann að eiga það mál við einhvern annan en Þráinn Berthelsson.

Málaferlin

Fimmtudagur, desember 17th, 2009

Um daginn varð ég fyrir þeirri ógæfu að fésbókarvinur skellt inn á síðuna sína tengli á hið vemmilega lag I feel like Buddy Holly með smjörpungnum Alvin Stardust. Það er hörmulegt lag – en jafnframt lag sem er alltof auðvelt að fá á heilann.

Í örvinglan minni fór ég að lesa mér til um lagið og höfund þess, Mike Batt – sem er einhver hataðasti maður Bretlands fyrir að bera ábyrgð á tónlistarfyrirbærinu The Wombles. Ábyrgð Vamblanna á tónlistaróþoli er ekki minni en mannsins sem samdi Fugladansinn.

Í Wikipediu-færslunni um Mike Batt kemur hins  vegar fram frábært kjúríosítet. Einhverju sinni setti hr. Batt inn á hljómplötu verkið „Mínútuþögn“ – sem var nákvæmlega það: einnar mínútu þögn.

Verkið var augljóslega skírskotun í hið kunna tónverk 4 mínútur og 33 sekúndur eftir John Cage. Ekki fór hins vegar betur en svo að afkomendur John Cage kærðu Mike Batt fyrir tónverkastuld (þá væntanlega fyrir að stela u.þ.b. fimmtungnum af þögninni hans Cage). Málinu lauk með því að Batt endaði á að borga háar skaðabætur.

Gott á´ann!

Álftanes+Reykjavík

Miðvikudagur, desember 16th, 2009

Árið 1997 var sameining Reykjavíkur og Kjalarness samþykkt í almennri atkvæðagreiðslu. Kjalnesingar voru þá afar illa staddir fjárhagslega og ljóst að sveitarfélagið yrði ekki á næstu árum fært um að standa undir þeirri þjónustu sem íbúar á höfuðborgarsvæðinu gerðu kröfur um.

Þrátt fyrir skuldabyrðina, höfðu Kjalnesingar ekki sýnt því áhuga að sameinast Mosfellsbæ þótt eflaust hafi margir talið það rökréttasta kostinn. Lönd sveitarfélaganna liggja saman og Kjalnesingar sóttu ýmsa þjónustu til nágranna sinna. Þessi tregða á sér eflaust margar skýringar, ein þeirra er sú að stærðamunurinn hafi ekki verið nægilega mikill. Kjalnesingar hafi þannig séð fram á að verða jaðarsvæði í tiltölulega fámennu sveitarfélagi sem ætti erfitt með að reka svona útstöð.

Þótt öfugsnúið kunni að virðast, var Reykjavík það stór að tilhugsunin um að láta hana gleypa sig varð Kjalnesingum mun bærilegri en ef um nágrannana úr Mosfellssveitinni hefði verið að ræða. Reykjavík var sömuleiðis það öflug að hún gat leyft sér að ráðast í slíka sameiningu af myndarskap án þess að þurfa strax að hugsa um að skapa sér tekjur á móti með skipulagningu nýrra hverfa og stórframkvæmdum.

Maður hlýtur að velta því fyrir sér hvort sama staða kunni nú að vera að koma upp varðandi Álftanes.

Álftnesingar eru búnið að reiða sér hurðarás um öxl. Skuldirnar eru slíkar að eitt og óstutt mun sveitarfélagið ekki geta staðið undir þeim nema með því að bjóða íbúum sínum upp á mun lakari lífsgæði en nágrannasveitarfélögin næstu árin. Á sama hátt er ljóst að sameining við Garðabæ eða jafnvel Hafnarfjörð hugnast íbúunum illa – ef til vill vegna þess að stærðarmunurinn er ekki nógu mikill.

Þrátt fyrir erfiða lausafjárstöðu nú um stundir og talsverðar skuldir bundnar í fyrirtækjum sínum, ætti Reykjavík að vera það sveitarfélag sem helst væri í stakk búið til að taka á sig hið erfiða bú Álftnesinga og halda á sama tíma áfram að tryggja íbúunum viðundandi þjónustu. Til skemmri tíma litið hefði þetta lítið annað í för með sér heldur en viðbótarútgjöld fyrir höfuðborgina – en til lengri tíma gæfi það ýmis tækifæri varðandi skipulagsmál.

Er þetta ekki kostur sem vert væri að athuga af fullri alvöru – og þyrftu stjórnmálaflokkarnir ekki að þora að ræða þennan möguleika upphátt?

Útvapsmómentið

Miðvikudagur, desember 16th, 2009

Hlustaði á morgunþátt Bylgjunnar á leiðinni með dótturina á leikskólann – sem aldrei skyldi verið hafa.

Gissur fréttamaður var að ræða við þáttarstjórnendur og uppfræddi þau um að ABBA yrði að líkindum hleypt inn í frægðarhöll rokksins á nýju ári. Öll þrjú voru mjög ánægð með það, enda tónlist ABBA með eindæmum grípandi og skemmtileg.

Gissur: Svo er reyndar önnur hljómsveit sem kemur til greina. The Stooges. Hún var svona svar Breta við ABBA, en það man enginn eftir neinu lagi með þeim.

Jahá.