Archive for janúar, 2010

Augnakonfekt (b)

Miðvikudagur, janúar 27th, 2010

Twohundredpercent er uppáhalds fótboltasíðan mín.

Hér má sjá öll mörkin frá HM 1986.

Og hér öll mörkin frá HM 1982.

Nú þarf engum að leiðast framar.

Íran

Miðvikudagur, janúar 27th, 2010

Mæli með þessari samkomu. – Friðarhús, miðvikudagskvöld kl. 20.

Spurningakeppnin

Mánudagur, janúar 25th, 2010

(Þetta blogg mun verða til þess að Palli Hilmars rífur hár sitt og skegg – en eitthvað verður hann nú að hafa til að láta fara í taugarnar á sér.)

Ég var uppi í Útvarpshúsi á dögunum og rakst þar á Örn Úlfar, Gettu betur-dómara þessa vetrar. Við Örn þekkjumst vel frá því í MR. Hann var fyrsti maðurinn til að gegna embættinu Tímavörður scholae sem við í Málfundafélaginu Framtíðinni stofnuðum af skömmum okkar – hálft í hvoru til að gera grín að tilgerðarlegum latneskum embættistitlum Skólafélagsins. Inspector fannst þetta ekkert fyndinn djókur.

Örn spurði hvort það væri ekki von á færslu um keppnina það sem af er ári? Var greinilega hálfspældur að hafa ekki fengið keppnisrýni ennþá. Undan slíkum áskorunum verður ekki vikist.

Seinni útvarpsumferðinni lýkur á mánudagskvöld og í kjölfarið verður dregið í átta liða úrslitin. Það þarf þó ekki mikla spádómshæfileika til að sjá hvaða lið verða í þeim flokki.

Spurningarnar hafa verið góðar í ár. Þær eru skemmtilegar – ekkert alltof þungar, en stigatölurnar sýna að þetta er á mjög svipuðu róli og verið hefur. Örn er spurninganörd og veit því upp á hár hvað virkar og hvað virkar ekki í svona keppni. Mistök hafa verið í lágmarki og skynsamlega tekið á óvæntum uppákomum. Um meira er ekki hægt að biðja.

Tvö lið sýnist mér skera sig úr hvað varðar styrkleika: MR og Versló. Ég yrði ákaflega undrandi ef öðrum skóla en þessum tveimur tækist að vinna, þótt auðvitað geti allt gerst. Mér sýnist Verslingarnir vera sterkari og tel þá sigurstranglegasta.

Tvö lið sýnist mér vera næstbest: MH og Kvennó. Hamrahlíð er að mig minnir með sama lið og komst í úrslitin í fyrra og var ekki svo ýkja langt frá því að vinna. Árangur MH þá sannar að auðvitað væri fráleitt að afskrifa lið þeirra. Að venju vantar MH þó nokkuð upp á skipulagið og mig grunar að Davíð Þór hafi hentað þeim betur sem spurningahöfundur en Örn Úlfar núna.

Kvennó er þó liðið sem vakið hefur mesta athygli mína. Ég held að ég fari örugglega rétt með að Kvennaskólinn hafi aldrei komist upp úr fjórðungsúrslitum í Gettu betur. Núna teflir skólinn hins vegar fram mjög sterku og efnilegu liði. Þetta eru kornungir strákar, sem munu væntanlega bæta sig mikið á næstu árum. Ef þeim tekst að búa til réttu umgjörðina í kringum þetta lið og fá góða leiðbeinendur spái ég því að Kvennaskólinn geti gert raunverulega atlögu að sigri í Gettu betur árið 2012. Það hefðu svo sannarlega þótt tíðindi fyrir fáeinum árum.

Gateshead (b)

Laugardagur, janúar 23rd, 2010

Loksins, loksins spilaði Luton fótboltaleik. Við höfum bara leikið einu sinni frá jólum – bikarleik gegn Southampton 3.jan. Leikurinn í dag, Gateshead á útivelli, var bara annar leikur okkar frá þriðja desember. Vetrtaríkið í Englandi er gjörsamlega búið að fokka upp mótinu.

Það var víst enginn glæsibragur yfir þessum sigri í dag. Eftir stendur að Luton er í sjöunda sæti – með þrjá og fjóra leiki til góða á liðin í fimmta og sjötta en með tveimur og þremur stigum minna. Nýi þjálfarinn er að stokka upp mannskapinn og að koma liðinu á sigurbraut. Við eigum ekki séns í toppsæti (Stevenage, Oxford og York) eru á of góðu rönni – en umspilið ætti að vera innan seilingar.

Þetta verður mjög stressandi vor.

Krípí

Fimmtudagur, janúar 21st, 2010

Sögunni um styttuna af Tómasi Guðmundssyni virðist ætla að ljúka. Kannski rennur nú upp nýtt tímabil líkneskjugerðar. Hver kemur næst í stytturöðinni?

Verðlaunatillagan sýnir Tómas sitjandi á bekk. Þetta er dæmi um hugmynd sem er voða sniðug á pappír, en verður eiginlega bara krípí í praxís.

Eins og stytturnar uppi við Hallgrímskirkju. Alveg sama hversu oft maður labbaði fram hjá þeim, alltaf kipptist maður við þegar stikað var yfir holtið að næturlagi (jafnvel eftir 2-3 bjóra). Legg til að einhver vaskur borgarstarfsmaður verði settur í að drösla Tómasar-styttunni inn í hús á hverju kvöldi til að skáldið hræði ekki líftóruna úr nátthröfnum.

Fimmflokkurinn

Þriðjudagur, janúar 19th, 2010

Á bloggsíðu Láru Hönnu Einarsdóttur standa yfir miklar umræður um Hreyfinguna/Borgarahreyfinguna og stöðu fjórflokksins. Kveikjan að þeim eru hugleiðingar um hvort hörmungarsaga Borgarahreyfingarinnar fyrstu mánuðina sé slík að henni hafi varanlega tekist að spilla fyrir möguleikanum á að hnekkja fjórflokkakerfinu á Íslandi – eða í það minnsta slegið öllum slíkum hugmyndum á frest í tuttugu ár. Sitt sýnist hverjum.

Ég hef tvennt þessar vangaveltur að athuga:

i) Í fyrsta lagi þarf stöðugt flokkakerfi ekkert að vera slæmt. Flokkakerfi flestra ríkja á Vesturlöndum eru býsna stöðug og erfitt að sjá að þeim löndum hafi farnast betur (eða verr ef því er að skipta) þar sem flokkar koma og fara ört. Pólitísk nýsköpun á sér þá stað innan ríkjandi flokkakerfis. Þannig dettur okkur varla í hug að halda því fram að bandarísk stjórnmál hafi verið stöðnuð og óbreytanleg í hundrað ár bara vegna þess að sömu tveir flokkarnir berjast um völdin.

ii) Í öðru lagi er ég ekki sammála því að á Íslandi sé við lýði fjórflokkur. Miklu nær er að tala um íslenska fimmflokkinn. Til hans heyra: stór flokkur hægrimanna, miðjuflokkur með sterkar landsbyggðarrætur (jafnt og þétt minnkandi), flokkur sósíaldemókrata, flokkur sósíalista með umhverfis- og feminískar tengingar & Fimmti flokkurinn.

Fimmti flokkurinn er óskilgreindasta aflið í þessari upptalningu. Í orði kveðnu stillir hann sér upp á móti hefðbundnu flokkunum fjórum, en þegar nánar er að gáð skilgreinir hann sig fyrst og fremst út frá þeim. Fimmti flokkurinn gengur sjaldnast undir sama nafni tvennar kosningar í röð (og stundum er meira en einn Fimmti flokkur í boði.

Bandalag jafnaðarmanna, Borgaraflokkurinn, Þjóðvaki, Nýtt afl, Íslandshreyfinginn og Frjálslyndi flokkurinn falla allir undir þessa skilgreiningu – þótt vissulega hafi sá síðastnefndi verið kominn nokkuð á leið með að mynda sér eigin sjálfsmynd þegar furðuleg sjálfseyðingarhvöt tók völdin. Kvennalistinn er hins vegar talsvert annars eðlis og á ekki heima í upptalningunni.

Fjórir þeirra sex flokka og hreyfinga sem hér voru nefnd komu mönnum á þing. Frjálslyndi flokkurinn meira að segja í þrígang. Engu að síður stóð flokkakerfinu engin ógn af þessum öflum. Íslenska flokkakerfið gerir nefnilega ráð fyrir Fimmta flokknum sem nær inn á þing í tveimur af hverjum þremur tilfellum, enda má reikna með því að það sé ætíð viss hluti kjósenda (a.m.k. 5%) sem mun ALLTAF kjósa framboðið sem gefur gefur sig út fyrir að vera nýtt og öðruvísi.

Út frá þessu held ég að það séu óþarfa áhyggjur hjá Láru Hönnu að þrautaganga Borgarahreyfingarinnar/Hreyfingarinnar hafi takmarkað möguleika nýrra flokka á að komast inn á þing til hliðar við þá fjóru hefðbundnu. Svo fremi að slík stjórnmálasamtök ganga inn í hlutverk Fimmta flokksins, er leiðin nokkuð greið. Ætli menn sér hins vegar að gera raunverulega atlögu að skipulagi íslenska flokkakerfisins er það annað og stærra mál.

Saga tveggja borga

Mánudagur, janúar 18th, 2010

Ég spjallaði stuttlega við gamla skólasystur frá Edinborg. Hún er hollensk, býr í Amsterdam og vinnur í einhverju óskiljanlegu upplýsingatæknidóti. Eftir að hafa skipst á fréttum af sjálfum okkur og öðrum skólafélögum (sem voru litlar) barst talið að eftirlætismilliríkjadeilu okkar allra…

Hún vildi reyndar ekki kannast við að Icesave-málið væri ofarlega á baugi í Hollandi og sagðist raunar bara hafa farið að fylgjast með málinu vegna þess að hún kannaðist við Íslending – mig.

Það kúnstuga við Icesave-málið, sagði hún, er að það sameinar þá sem eru lengst til hægri og lengst til vinstri í hollenskum stjórnmálum. Báðir hóparnir eru gallharðir á því að Ísland verði að borga. Vinstrimennirnir telja það mjög mikilvægt í viðnáminu gegn hinum hnattvædda kapítalisma að hollensk stjórnvöld standi í lappirnar og krefjist bóta. Ekki bara innistæðutryggingarinnar heldur allrar upphæðarinnar.

Hollenskir hægrimenn eru á sama máli, nema að rök þeirra eru önnur. Þeir eru alveg á móti því að sparifjáreigendur og skattborgarar í Hollandi taki á sig tapið af misheppnuðu fjármálaævintýri útlendinga. Það sé lykilatriði í kapítalismanum að menn þurfi að standa við skuldir sínar og geti ekki sent öðrum reikninginn. Hægrimennirnir eru öskureiðir út í hollensk stjórnvöld fyrir að standa ekki í lappirnar gagnvart útlendingum og verja hollenska hagsmuni. Sumir vilja skýra þessa linkind í garð Íslendinga með ESB – að enn eina ferðina eigi skattgreiðendur í „alvöru“ ESB-löndunum að taka upp veskið til að nýtt basket-case ríkið geti fengið inngöngu í sambandið.

Þetta þótti mér kúnstug lýsing og útskýrði fyrir kunningjakonu minni að á Íslandi væri þessu eiginlega öfugt farið. Auðvitað væri enginn hress með Icesave, en hatrömmustu andstæðingarnir væru þeir sem skilgreindu sig lengst til hægri og lengst til vinstri.

Við urðum sammála um hér þyrfti augljóslega að byggja brýr á milli.

i) Íslenskir hægrimenn (má ég stinga upp á sendinefnd undir forystu Vef-Þjóðviljans og Sigríðar Andersen) gætu hitt kollega sína í Thatcher-æskunni í Hollandi og útskýrt fyrir þeim hvers vegna framtíð kapítalismans og andstaðan gegn ESB verði best tryggð með því að Ísland neiti að borga. Viðmælendurnir myndu svo útskýra hið gagnstæða.

ii) Íslenskir vinstrimenn (t.d. félagi Ögmundur) myndu svo hitta hollenska hugsjónabræður og benda þeim á að leiðin til að fella heimskapítalismann felist í því að Ísland borgi sem minnst. Hinir myndu svo færa fyrir því snjöll rök hvers vegna þessu sé akkúrat öfugt farið.

Í lokin yrði svo sameiginleg ráðstefna allra aðila, þar sem komist yrði að niðurstöðu um það hvor ríkisstjórnin – sú hollenska eða íslenska – sé verri með það að svíkja málstað eigin þjóðar en draga taum útlendinga með linku, aumingjaskap og vondri samningatækni.

Stór á Íslandi…

Laugardagur, janúar 16th, 2010

Wikipediufærslan um seinni mynd kvöldsins hjá RÚV er mögnuð. Þar segir:

Fickman shot the movie in 2001, but after an unsuccessful test-screening process, the film was shelved for a number of years. Never released theatrically in the United States, Who’s Your Daddy? finally reached American audiences on DVD in January 2005, followed by a short run in Icelandic cinemas the following summer.

Núna finnst mér ég eiginlega verða að sjá þessa mynd. Margt bendir til að um sögulegan atburð sé að ræða: gæti þetta verið lélegasta bíómynd í sögu sjónvarps á Íslandi?

En hr. Flickman er greinilega stór á Íslandi – spurning hvort honum hafi verið boðið til landsins á sjónvarpsfrumsýninguna? Enn einu sinni kemur í ljós að enginn er spámaður í sínu föðurlandi.

Rangt

Fimmtudagur, janúar 14th, 2010

Ég var aldrei sérstakur aðdáandi stjórnmálamannsins Halldórs Ásgrímssonar. Raunar má segja að ég hafi verið meira og minna ósammála flestöllu því sem hann stóð fyrir í pólitík.

Aldrei fyrirleit ég Halldór Ásgrímsson þó jafn innilega og af öllu hjarta og daginn þegar hann mætti í sjónvarpið og sagði ríkisstjórnina vilja fá stoðtækjafyrirtækið Össur til að smíða nýjar fætur á Alí litla, sem missti alla fjölskylduna, fæturnar, hendurnar og var þakinn brunasárum um restina af líkamanum eftir að eitt af loftskeytunum okkar splundraði húsinu hans.

Vonandi á ég eigi aldrei eftir að fyrirlíta nokkurn íslenskan stjórnmálamann (eða nokkra aðra manneskju ef út í það er farið) jafn mikið og Halldór Ásgrímsson þennan dag.

Ég upplifi samt vott af sömu tilfinningu (á miklu minni skala þó) þegar ég les pistla eins og þennan. Hvað gengur á í kollinum á fólki sem horfir upp á einhverjar mestu náttúruhamfarir sögunnar, með óheyrilegu mannfalli, þar sem Íslendingar reyna af veikum mætti eins og aðrar þjóðir að lina þjáningar fólksins – og fer þá strax að hugsa um hvað þetta sé nú gott ímyndarmál og flott PR í einhverri helvítis peningadeilu við Breta.

Ljótt, ljótt sagði fuglinn.

Bíóráp

Miðvikudagur, janúar 13th, 2010

Ég fer í bíó á u.þ.b. tveggja ára fresti (ef frá eru taldar barnamyndir með dótturinni).

Sé þess vegna ekki fram á að eyða kvöldstund og snúast í að redda pössun til að horfa á þessa Avatar-mynd.

Ef mig langar til að fræðast um bláa karla, þá les ég bara Strumpabækurnar eftir Peyo. Þær eru velflestar upp í skáp hérna á Mánagötunni.