Archive for mars, 2010

Opið bréf til mannsins á tökkunum

Laugardagur, mars 27th, 2010

Kæri maður á tökkunum

Einhverjir hefðu eflaust stílað þetta bréf á útvarpsstjóra, yfirmann dagskrárdeildar sjónvarps eða menntamálaráðherra. Sjálfur kýs ég að hjóla beint í aðalmanninn – þann sem hefur valdið. Þig.

Ég geri mér grein fyrir því að það getur varla verið gaman að vera maðurinn á tökkunum meðan á barnaefninu stendur. Flestir foreldrar þurfa að afplána nokkur misseri af barnatímum, rétt á meðan grísirnir eru á tilteknum aldri. Maðurinn á tökkunum þarf hins vegar ár eftir ár að þola sama efnið, sömu skríparaddirnar og sömu óþolandi stefin. Við þetta bætist að þættirnir íbarnatímanum eru styttri en í fullorðinsefninu, svo það þarf enn oftar að ýta á takka og skipta um spólur.

En þótt þetta sé varla skemmtilegasta verkefnið, er ástæðulaust að gera það illa, sem leiðir mig að erindinu – tónlistarmyndböndunum.

Tónlistarmyndbönd eru snjöll leið fyrir ykkur mennina á tökkunum til að stilla af dagskránna. Frekar en að varpa upp stillimyndinni í 3-4 mínútur til að fylgja auglýstri dagskrá er rakið að spila eitt tónlistarmyndband… hverjum finnst það ekki skemmtilegt?

Í myndbandasafni sjónvarpsins eru vafalítið mörghundruð tónlistarmyndbönd sem ætluð eru börnum. Jafnvel þótt við teldum bara með þau sem tekin hafa verið upp af RÚV í gegnum tíðina, er um fjölmörg lög að ræða.

Hvers vegna í ósköpunum – og nú spyr ég þig sem fagmann – spilið þið sömu helvítis 4-5 lögin aftur og aftur og aftur og AFTUR??? Heiðar í Botnleðju hef ég aldrei hitt og Halla félaga hans varla nema einu sinni eða tvisvar. Samt er mér eiginlega farið að vera illa við þessa ágætu drengi, þökk sé gegndarlausri ofspilun RÚV á laginu um strákinn sem læsist inni í skólanum sínum. Ég held fjandakornið að það lag sé spilað annan hvorn dag.

Ég er ekki ofbeldishneigður maður. Hef meira að segja starfað talsvert innan friðarhreyfingarinnar. Samt langar mig stundum til að stjaksetja Róbert bangsa, sem syngur um tilþrifalítil ævintýri sín í sjónvarpinu 3-4 sinnum í viku.

Flestar útvarpsstöðvar eru með spilunarlista fyrir dagskrárgerðarfólkið sitt að velja úr. En spilunarlisti upp á bara 4-5 lög líðst varla í Guantanamo, hvað þá í samfélagi frjásra manna.

Mér detta þrjár skýringar í hug á þessari óáran:

i) Einhver starfsmaður RÚV er óeðlilega hrifinn af söng prinsessunnar í Tannpínulandi m. Birgittu Haukdal og getur einfaldlega ekki hlustað nógu oft á þessi eftirlætislög sín. – Ég legg þá til að viðkomandi verði færður til í starfi.

ii) Stjórnendur barnaefnisins líta á það sem hlutverk sitt að búa börnin undir líf í síbyljuveröld og spili þess vegna sama efnið undir drep. – Ég legg til svipaða lausn og hér að ofan.

iii) Stjórnendur útsendingarinnar hlusta aldrei á efnið sem þeir eru að senda út, heldur eru með eigin tónlist í æpoddnum og leysa krossgátur í vinnunni.

Þrátt fyrir kreppu og niðurskurð hlýtur fjandakornið að mega splæsa í starfsmann sem tæki dagpart í myndbandasafninu og tíndi til nokkra tugi gamalla barnalaga sem hægt væri að spila mili liða. Mæli sérstaklega með Hatti og Fatti. Þeir voru fínir.

Þú ræður þessu, það vita allir.

Kv,

Stefán

Lesning dagsins…

Miðvikudagur, mars 24th, 2010

…er bakþankar Fréttablaðsins.

Ný stefna SA

Þriðjudagur, mars 23rd, 2010

Hlustaði á Vilhjálm frænda minn Egilsson útskýra það í Kastljósinu að andstaða Samtaka atvinnulífsins gegn skötuselsfrumvarpinu snerist fyrst og fremst um náttúruvernd og hversu skaðlegt það verði fyrir orðspor Íslands á alþjóðavettvangi að stjórnmálamenn skuli ekki fara eftir ráðleggingum vísindamanna varðandi nýtingu auðlindanna.

Þetta er athyglisverð stefnubreyting.

Ég vænti þess SA láti þessa stefnu gilda á öðrum sviðum auðlindanýtingar. Eftirleiðis munu samtökin tæplega krefjast þess að ráðherrar snúi við umsögnum stofnanna, s.s. varðandi mat á umhverfisáhrifum.

En þótt Jón Bjarnason valdi Samtökum atvinnulífsins vonbrigðum í þessu máli, getur Vilhjálmur þó huggað sig við að Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra starfar í samræmi við þessa nýtilkomnu stefnu SA og mun gera áfram.

Ölfusárbrú

Þriðjudagur, mars 23rd, 2010

Framkvæmdafréttir Vegagerðarinnar komu heim í gær – skemmtilegar að vanda.

Þar er fjallað um mögulegar útfærslur á nýrri brú yfir Ölfusá, ofan við byggðina á Selfossi. Tvær veglínur eru í boði en einnig tveir hönnunarkostir: bogabrú og stagbrú.

Stagbrúin er í stuttu máli hár turn eða mastur, en út frá honum eru strengd stálstög til að halda brúargólfinu uppi. Þetta væri ofursvalt.

Stagbrúin á veglínu 1 fær mitt atkvæði!

Gemsar

Mánudagur, mars 22nd, 2010

Þurfti að ná tal af tilteknum þingmanni og fór því inn á Alþingisvefinn – gerði ráð fyrir að finna þar númerið hjá ritaranum á skrifstofu þingflokksins eða e-ð álíka.

Sá hins vegar að viðkomandi gaf upp heimasíma- og farsímanúmerið á upplýsingasíðu þingmannsins. Einhvern veginn hafði ég ímyndað mér að þessar upplýsingar lægju ekki alveg svona á lausu svo ég rúllaði í gegnum síður annarra þingmanna.

Í ljós kom að langflestir þingmenn gefa upp heimasíma, farsíma og jafnvel 1-2 númer í viðbót.

Nokkrir þingmenn létu heimasímann nægja.

Kristján Möller og Jóhanna Sigurðardóttir gefa upp númer sem mér sýnist vera síminn í ráðuneytinu. Árni Páll og Guðlaugur Þór gefa ekki upp neitt símanúmer, einir manna.

Þetta er athyglisvert.

Mikill vill meira

Laugardagur, mars 20th, 2010

Tæpur áttaþúsund kall… betur má ef duga skal.

Koma svo!

Lok, lok og læs

Föstudagur, mars 19th, 2010

Skrifaði pistil á Smuguna í dag um fólkið sem lokaði landinu. Lesið!

Samsæriskenning

Fimmtudagur, mars 18th, 2010

Heyrði skemmtilega pólitíska samsæriskenningu í dag um það hvers vegna skýrsla rannsóknarnefndarinnar hafi dregist svo mjög.

Samkvæmt henni er skýringin einföld: Icesave. Stjórnvöld hafi einfaldlega lagt allt kapp á að ná samningum við Breta og Hollendinga áður en skýrslan kæmi út.

Ástæðan? Jú, menn sjái fram á að viðsemjendurnir muni líka kynna sér skýrsluna og þegar þar verði ljóstrað upp um vanhæfni og mistök íslenskra stjórnvalda muni samningsstaða okkar versna til mikilla muna.

Alltaf gaman að velta fyrir sér samsæriskenningum…

Proffi

Miðvikudagur, mars 17th, 2010

„Hann er algjör proffi“ – sögðum við krakkarnir í Vesturbænum um menn sem þóttu sérdeilis snjallir. Í okkar huga vísaði það að vera prófessor til andlegs atgervis, frekar en að merkingin væri endilega sú að viðkomandi væri launaður starfsmaður háskólastofnunar og embættismaður í ofanálag. Þannig var enginn háskóli í Smjattpattabyggð, þótt Baunabelgur prófessor væri þar mestur vísdómsmaður.

Nú hefur komið í ljós að málskilningur nokkurra þingmanna úr stjórnarandstöðunni er sá sami og okkar krakkanna á Hjarðarhaganum. Eins og þetta lagafrumvarp ber með sér.

Þau Vigdís Hauksdóttir, Birgitta Jónsdóttir, Eygló Harðardóttir, Gunnar Bragi Sveinsson, Höskuldur Þórhallsson, Margrét Tryggvadóttir, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Sigurður Ingi Jóhannsson og Þór Saari hafa nú flutt frumvarp um að lagastofnun Alþingis verði komið á laggirnar.

Þarna eiga sem sagt að vinna fimm lögfræðingar – þar af a.m.k. tveir prófessorar. Þetta bendir til verulega sérkennilegs skilnings á hugtakinu prófessor, sem virðist vera notað hér í merkingunni súper-doktor eða e-ð álíka. Nema þá að hugsunin sé sú að einhverjir prófessorarnir við Háskólann eigi að dútla við þetta á kvöldin og um helgar – sem væri reyndar í ósamræmi við mánaðargamla gagnrýni Ríkisendurskoðunar á að prófessorar séu að harka í aukavinnu út um allan bæ.

Enn önnur skýring er að þessi klaufalega villa þingmannanna sé sett þarna inn af ásettu ráði. Frumvarpið gengur jú út á að stofna batterí til að stoppa lagafrumvörp með augljósum klaufavillum – og hvernig rökstyðja menn þörfina á slíku betur en jú einmitt með því að leggja fram frumvarp með augljósri klaufavillu? Snjallt!

Grindvíkingar sproksettir (b)

Miðvikudagur, mars 17th, 2010

When Saturday Comes er eitt allra skemmtilegasta enska fótboltablaðið. Ég skoða vefinn þeirra amk einu sinni í viku.

Meðal fastra efnisflokka er „Merkið“ – þar sem fjallað er um skrítin og skemmtileg merki knattspyrnufélaga. Að þessu sinni er íslenskt merki tekið til umfjöllunar, merki Grindavíkur.

Það kemur þó ekki til af góðu. Raunar gerir blaðamaðurinn stólpagrín og telur þetta andlausasta og fúlasta merki sem sögur fara af: And this one takes the absolute biscuit. For a historic fishing town surrounded by lava fields and home to the famous Blue Lagoon volcanic spa and Icelandic Salt Fish Museum, this badge is a ringing mockery. The letter G, somewhat enlarged, is apparently all the designers could come up with.

Það er eiginlega ekki hægt annað en að taka undir þetta…