Archive for apríl, 2010

Tölfræði og íþróttir

Fimmtudagur, apríl 29th, 2010

Einhvers staðar sá ég því haldið fram að fótbolti geti aldrei orðið ein af stóru íþróttunum í Bandaríkjunum af tveimur ástæðum. Annars vegar væru ekki nógu mörg leikhlé til að íþróttin passaði fyrir bandarískt sjónvarp. Og hins vegar væri ekki hægt að smætta leikinn niður í tölfræðiupplýsingar.

Bandarískar íþróttir (ruðningur, hafnarbolti, íshokký og karfa) eiga það nefnilega sameiginlegt að hægt er að safna geysilegu magni af tölfræðiupplýsingum sem í raun gæfu mjög glögga mynd af styrkleika liða og leikmanna. Þetta er miklu erfiðara með fótboltann. Það þarf t.d. ekkert að segja svo mikið um fótboltaleik þótt annað liðið hafi verið með boltann 60% af tímanum eða fengið sjö horn á móti einu.

Fyrir íþróttasagnfræðinörd eins og mig er erfitt annað en að dást að því hversu langt Bandaríkjamenn geta gengið í að velta sér upp úr tölfræði. Þessi frétt Mbl í dag er þó einhvers konar met:

Montreal tókst hið ómögulega

Montreal Canadiens skráði nafn sitt í sögubækurnar í bandarísku NHL íshokkídeildinni í gær með 2:1 sigri á útivelli gegn Washington Capitals í fyrstu umferð úrslitakeppninnar.

Montreal var í áttunda sæti eftir deildarkeppnina en Washington var með besta árangurinn í því efsta. Washington náði yfirhöndinni í einvíginu og komst í 3:1 en Montreal vann næstu þrjá leiki og tryggði sér sæti í undanúrslitum. Aldrei áður hefur lið í áttunda sæti unnið þrjá leiki í röð í stöðunni 3:1 í úrslitakeppni. Úrslitin í Austurdeild NHL deildarinnar hafa komið á óvart því þrjú efstu liðin í deildarkeppninni eru úr leik eftir fyrstu umferð.

Jahá… sjáum til hvort ég hafi ekki örugglega náð þessu. Montreal hefur sem sagt brotið blað í sögunni, hvorki meira né minna, með því að verða FYRSTA ÁTTUNDASÆTISLIÐIÐ TIL AÐ VINNA EINVÍGI Í ÚRSLITAKEPPNI 4:3 EFTIR AÐ HAFA LENT 1:3 UNDIR.

Við lifum svo sannarlega á sögulegum tímum.

Palestína

Miðvikudagur, apríl 28th, 2010

Plögg:

Fregnir frá hernumdu svæðunum
– rabbfundur SHA um Palestínu og Ísrael

Miðvikudagskvöldið 28. apríl kl. 20 efna Samtök hernaðarandstæðinga til fundar í Friðarhúsi, Njálsgötu 87.

Gestur fundarins, Sigríður Víðis Jónsdóttir blaðamaður, er vel að sér um samskipti Ísraels og Palestínu og er nýkomin úr ferð um svæðið. Hún mun ræða um upplifun sína af hernáminu, aðskilnaðarmúrnum, landtökubyggðunum og ástandinu í Hebron. Meðal þess sem hún kynnti sér í ferðinni voru verkefni sem Rauði kross Íslands hefur stutt og ísraelsku samtökin Machsom Watch, sem fylgjast með framferði hersins og fræða samlanda sína um stöðu mála.

Allir velkomnir. Heitt á könnunni.

Orðsifjar

Þriðjudagur, apríl 27th, 2010

Pólitíska frétt gærdagsins er vafalítið sú að Einar Skúlason hafi lagst í sjósund. Eyjan segir frá því með fyrirsögninni: Einar synti ósmurður yfir Fossvoginn á rúmu korteri.

Þetta vekur hugrenningatengsl.

Eins og lesa má um hér, merkir orðið Kristur í raun „hinn smurði“. Er því ekki rökrétt að álykta að „hinn ósmurði“ sé í raun anti-kristur? Maður spyr sig…

(Jæja, þá er maður búinn að guðlasta og segja ódýran brandara á kostnað Framsóknarmanna í sömu færslu – hvað er langt í að Stefán Bogi mæti öskuvondur í athugasemdakerfið?)

Fundurinn

Mánudagur, apríl 26th, 2010

Á morgun (þriðjudag) kl. 16:30 mæti ég á fund. Það er formlegur stofnfundur félags – Hagstundar, félags stundakennara á háskólastigi.

Að mínu mati er þetta hið mikilvægasta félag og auðvitað ættum við ekki að þurfa að stofna það nú, árið 2010. Svona félag ætti að eiga sér áratuga sögu og vera föst og mikilvæg eining innan háskólakerfisins.

Í sjálfu sér væri auðvelt fyrir mig að leiða málefni stundakennara hjá mér. Ég hef gripið í stundakennslu annars lagið síðustu árin, frekar mér til skemmtunar og endurmenntunar en nokkuð annað. Ég er ekki að reyna að lifa af þessu – og ef háskólinn þarf ekki á mínu kennsluframlagi að halda eitthvert árið, þýðir það bara aðeins meiri frítími í önnur verkefni.

En þótt hagsmunirnir brenni ekki á mér persónulega, finnst mér þetta vera barátta sem skiptir máli. Háskólinn er að talsverðu leyti rekinn af okkur stundakennurunum sem erum lang-lang-lang ódýrasti starfskraftur skólans. En þrátt fyrir að framlag þessa hóps sé svo mikilvægt fyrir stofnunina, fer lítið fyrir þakklæti. Skólinn stendur sig ekki í stykkinnu varðandi grunnupplýsingagjöf. Öll samningamál eru í ólestri. Vinnuaðstaðan er engin. Kjörin eru afleit. Við erum ekki einu sinni tryggð í vinnunni. Hvað gerist t.d. ef óður nemandi gengur í skrokk á stundakennara eða kennarinn fær skjávarpa í hausinn?

Ég reikna með að halda áfram að grípa í stundakennslu við HÍ á næstu árum (ef menn vilja þá hafa mig) og mér mun áfram finnast gaman að sinna þessu starfi. En ég vil sjá breytingar – breytingar í þá átt að þessi vinna sé metin að verðleikum. Þess vegna mæti ég á fundinn.

Kosningataktíkin?

Föstudagur, apríl 23rd, 2010

Mig minnir að það hafi verið í borgarstjórnarkosningunum fyrir fjórum árum sem ég bloggaði um þá taktík Framsóknarmanna að nota helst ekki nafn flokksins síns í auglýsingum og prentefni. Þess í stað var kvittað undir allar auglýsingar með „exbé“. Færslan vakti nokkra athygli og ég lenti í smáorðaskaki við sára Framsóknarmenn sem sökuðu mig um skæting og útúrsnúninga.

Að þessu sinni sýnist mér Sjálfstæðismenn í Reykjavík hins vegar ætla að setja ný viðmið í pólitískum feluleik – plottið virðist ganga út á að nefna helst hvorki flokkinn né listabókstaf hans á nafn, nema í smáa letrinu neðst.

Í sjálfu sér hef ég ekkert fyrir mér í þessu annað en tvö lítil dæmi – en það eru reyndar einu dæmin sem ég hef rekist á um fundarboð eða kynningarefni frá Sjálfstæðisflokknum fyrir þessar kosningar:

Um daginn fjallaði ég t.d. um auglýsingu frá Sjálfstæðisflokknum um fund sem haldinn var upp í Háskóla. Þótt giska mætti á það af lista framsögumanna hverjir stæðu fyrir samkomunni, var ekkert merki um slíkt. Enginn fundarboðandi skráður og ekki vísað í neina vefsíðu. Á fésbókarsíðu sem stofnuð var um sama atburð og í fréttatilkynningunni sem sett var inn á vef Háskólans var heldur ekki múkk um þetta. Skrítið – en gæti verið mistök.

Í dag fékk Steinunn svo inn um lúguna bréf. Ekki var getið um sendanda á umslaginu og límmiðinn með nafninu hennar gaf ekki á nokkurn hátt til kynna að um fjölpóstsendingu væri að ræða. (Það held ég reyndar að sé lögbrot – en látum það liggja á milli hluta.)

Sjálft bréfið er hvorki með haus né fót sem gefur vísbendingar um senanda. Það er undirritað af sex konum sem ekki bera neina titla. Enginn þeirra er þjóðþekkt fyrir störf sín á sviði stjórnmálanna, en þeir sem eru vel að sér í þeim fræðum sjá þó strax að þetta eru framákonur í Sjálfstæðisflokknum.

Bréfið er boð á leiðtoganámskeið fyrir konur. Lýst er kostum námskeiðsins og farið yfir dagskránna og praktísk atriði. Það er ekki fyrr en í sjöundu og næstsíðustu málsgrein að fram kemur að Sjálfstæðiskonur í Reykjavík standi fyrir námskeiðinu – og skráningarnetfangið endar á xd.is. Ég hef aldrei séð annað eins sendibréf frá stjórnmálaflokki.

Nú er ég kannski að lesa of mikið í tvö afmörkuð dæmi – en miðað við þetta, sýnist mér að upplegg kosningastjóra Sjálfstæðisflokksins fyrir komandi kosningar sé á þá leið að reyna að komast í gegnum nokkuð eðlilega kosningabaráttu án þess að nefna flokkinn á nafn. Ég spái því að óhræsinu – fálkamerki íhaldsins – verði gefið algjört frí þetta vorið.

…kannski ekki svo galin taktík?

Einkennislag uppgjörsins

Fimmtudagur, apríl 22nd, 2010

Núna eru allir skúrkarnir úr hruninu að grenja sig alhvíta aftur, svo vísað sé í skáldið. Fullt af dægurlögum fjalla um iðrun og afsökunarbeiðnir. Þau eru flest væmin og vemmileg og passa því engan veginn sem einkennislag uppgjörsins mikla á Íslandi 2010.

En ég hef nú dottið niður á lagið sem fangar kjarna málsins. Það er nægilega hrátt. Textinn einfaldur og hnitmiðaður – og lagið þessutan helvíti fínt. Steinliggur undir fréttaannálnum um áramótin:

Nick Cave & the Bad Seeds flytja Thirsty Dog.

Ég reikna með mínum hluta af stefgjöldunum inn á tékkareikninginn.

Belle Starr

Fimmtudagur, apríl 22nd, 2010

Í dag barst með póstinum (nokkrum dögum of seint vegna öskufalls) bókapakki frá Danmörku með nokkrum teiknimyndasögum sem vantaði í safnið. Úff, hvað maður sér það núna á Visa-kortinu hversu skynsamlegt það hefði verið að taka þessi innkaup 2006 en ekki 2010.

Nema hvað – fyrsta bókin var lesin upp til agna í kvöld. Það var jafnframt önnur þeirra tveggja sem ég batt minnstar vonir við í upphafi. Það voru sem sagt tvær nýlegar Lukku Láka-bækur (frá 1995 og 1998): Belle Starr og Marcel Dalton. Þær eru nr. 106 og 109 á frummálinu (af 115).

Fyrir lesendur þessa bloggs sem geta stautað sig í gegnum frönsku, má lesa aðeins meira hér og hér. (Ath. franskan mín er jafnvel enn verri en þó mætti ætla af þessari síður.)

Sagan um Belle Starr hefði getað orðið efniviður í stórgóða Lukku Láka-bók. Glæpadrottningin á sér magnaða sögu, sem listamenn hafa á síðustu árum fundið sér ærinn efnivið í. Þess í stað er dregin upp fáránleg Al Capon-mynd af henni sem kerlingunni sem stýrir hannyrðaklúbbi kirkjunnar út á við en stjórnar bankaránum þess á milli.

Styrkur gömlu Lukku Láka-bókanna voru hinar djúpu og beittu sögulegu vísanir. Ekkert slíkt er sjáanlegt í þessari bók. Í staðinn er gripið til þess að neim-droppa með því að kynna allar frægustu aukapersónur bókaflokksins til sögunnar: Daltónarnir, Billi barnungi, foringi riddaraliðssveitarinnar, Mamma-Dagga og Jesse James… öllu er troðið inn í fléttuna sem er frekar þunn. Stór hluti bókarinnar gerist í réttarsal, en hugrenningartengslin við Rangláta dómarann eru henni verulega í óhag.

Samt held ég að Þorsteini Thorarenssyni hefði tekist að gera þetta að góðri bók…

Hlauptu drengur, hlauptu!

Þriðjudagur, apríl 20th, 2010

Flótti Samfylkingarmanna undan Blairismanum harðnar enn. Um helgina bloggaði ég um makalaust uppgjör Jóhönnu Sigurðardóttur við þetta tímabil.

Eiríkur Bergmann Einarsson setur þó einhvers konar met í baksnúningi við fortíðinni. Í þessum Pressupistli fjallar hann um Frjálslynda demókrata sem séu í raun bresk útgáfa gamla Alþýðuflokknum!!!!!

Muuuu….

Eru ENGIN takmörk fyrir því hvað sumir kratar treysta á að við hin höfum lélegt minni?

Bíðið spennt, á morgun megum við líklega búast við greininni: „Ég vissi alltaf að Blair væri svikahrappur – mér leist aldrei á svipinn á þeim manni“ eftir Björgvin Guðna Sigurðsson.

Sopið kálið?

Mánudagur, apríl 19th, 2010

Smugan vekur athygli á kyndugu fundarboði sem blasað hefur við fólki á göngum Háskólans. Það er vissulega skringilegt að sjá rektor og formann Stúdentaráð á samkomu sem gæti helst verið súpufundur í Valhöll. Það er líka furðulegt að Sjálfstæðisflokkurinn kjósi að auglýsa fundi sína á þann hátt að hvergi sé getið um fundarboðanda.

En það var eitt í viðbót skrítið við þessa auglýsingu – og það fór alveg framhjá blaðamanni Smugunnar:

Á auglýsingunni er Áslaug Friðriksdóttir titluð borgarfulltrúi.

Nú er það vissulega ekkert ólíklegt að Áslaug Friðriksdóttir verði borgarfulltrúi í vor – þótt til þess þurfi flokkurinn að ná sama árangri og fyrir fjórum árum. En eins og Gísli Marteinn hefði getað varað meðframbjóðanda sinn við… þó að það sé LÍKLEGT að maður verði kominn með nýjan titil innan fáeinna vikna eða mánaða – þá er varasamt að byrja of snemma að prýða sig með slíkum nafnbótum.

Samir við sig

Mánudagur, apríl 19th, 2010

Það er afar athyglisvert að fylgjast með breskum stjórnmálum þessa daganna. Frjálslyndir demókratar eru óvænt og skyndilega komnir á fljúgandi siglingu – ekki hvað síst vegna þess að vart má á milli sjá hvort fólk hefur meiri skömm á Íhaldsflokknum eða Verkamannaflokknum. Það eru meiri líkur en minni á að útkoman úr kosningunum verði samsteypustjórn – því jafnvel þótt Lib.dem. nái ekki öllu því fylgi sem bjartsýnustu kannanir spá þeim, þá stefnir í að þeir verði það skammt á eftir hinum flokkunum að þeir geti ekki látið sér nægja að styðja við minnihlutastjórn.

Þetta yrðu gríðarleg tíðindi í breskri pólitík.

Og það mátti treysta því að Verkamannaflokkurinn myndi bregðast við á þann ömurlega hátt sem hans er von og vísa. Línan frá forystunni er sú að atkvæði greitt Frjálslyndum demókrötum sé atækvæði greitt terroristum og glæpamönnum – því flokkurinn sé ekki nógu árásargjarn eða refsiglaður.

Ef maður byggi í Bretlandi væri valið líklega ekki erfitt. Lib.Dem. í Englandi, Plaid Cymru í Wales og SNP í Skotlandi.