Archive for maí, 2010

HM og amerískar íþróttir (b)

Mánudagur, maí 31st, 2010

Ég veit ekki sérstaklega mikið um bandarískar hópíþróttir – en þessi bloggfærsla er stórskemmtileg:

Liðunum á HM í fótbolta líkt við bandarísk íþróttafélög.

Ef ég væri…

Mánudagur, maí 31st, 2010

…aðeins hrokafyllri menntamaður, þá myndi ég líklega freistast núna til þess að útskýra muninn á myndlíkingunum „glerhúsi“ og „fílabeinsturni“.

 

En sem betur fer er ég alþýðlegri en svo.

Samlíkingar

Mánudagur, maí 31st, 2010

Ókey, mér sýnist að Guðmundur Steingrímsson sé búinn að taka að sér að vera Michael Hesseltine…

En hver verður þá John Major? Og verður jafnvel einhver Kenneth Clarke?

Spádómur fyrir talninguna

Laugardagur, maí 29th, 2010

Spái því að í kvöld muni Besti flokkurinn fá í það  manni meira – jafnvel tveimr – í fyrstu tölum en þegar öll atkvæði hafa verið talin.

Rökin eru þessi: ég reikna með að í fyrstu tölum verði bara óbreyttir seðlar. Að þessu sinni verður hins vegar strikað út sem aldrei fyrr.

Innan Framsókn og VG eru ennmargir sem eru ekki búnir að sætta sig við úrslit oddvitavalsins. Hjá íhaldinu er augljóslega full ástæða til útstrikana og hjá krötunum verða útstrikanir í heiðurssætinu. Ég hef hins vegar ekki heyrt af neinum sérstökum útstrikunum varðandi BF.

Samkvæmt þessu ættu tölurnar að geta breyst allnokkuð þegar líður á nóttina.

Áleitin spurning

Föstudagur, maí 28th, 2010

Stóra spurning þessa föstudagskvölds:

Er Tora Torapa besta Svals og Vals-bókin? Hún hefur eiginlega allt: Sveppagreifann, Ító Kata, Þríhyrninginn, Samma frænda og Zorglúbb – langsótt heimsyfirráðaplott – sæta stelpu OG helvítis gormdýrið er víðs fjarri.

Já, maður spyr sig…

Fólkið

Miðvikudagur, maí 26th, 2010

Ég hef alltaf verið  tvístígandi gagnvart sveitarstjórnarkosningum. Sveitarstjórnarmál hafa aldrei vakið sama áhuga minn og landsmálin – og listarnir sem í boði eru yfirleitt umtalsvert veikari. Sveitarstjórnarmálin hafa þó einn kost umfram landsmálin: þar nota menn listann.

Flokkarnir leggja fram langa framboðslista til þings, en flest nöfnin eru upp á punt. Annað hvort nærðu kjöri inn á þing – eða ekki. Sá sem nær kjöri sem þingmaður er kominn í rúmlega fullt starf og situr í nefndum og ráðum um allar trissur, næsti maður á lista fær kannski símtal eftir þrjú ár þar sem hann er beðinn um að hlaupa í skarðið í hálfan mánuð og sá sem er í sætinu þar fyrir neðan gerir ekki neitt.

Það er eitthvað rangt við það að nýta ekki krafta fólks sem er sannarlega reiðubúið að vinna.

Í sveitarstjórnarmálunum er þetta öðruvísi. Þar fá ansi margir af listanum verkefni (einkum ef flokkurinn þeirra lendir í meirihluta). Þannig þarf það ekki vera svo ýkjamikill munur á því að vera aðalmaður eða varamaður. Varamenn þurfa sífellt að fylgjast með og vera inni í öllum málum – og jafnvel fólk lengst niðri á lista getur lent í að stýra stórum nefndum. – Þetta hefur mér alltaf fundist dálítið sjarmerandi.

En einmitt vegna þessarar tilhögunnar, hefur mér fundist furðulegt þegar framboð í sveitarstjórnum apa það upp eftir landsmálapólitíkinni að auglýsa bara oddvitana sína eða efsu 2-3 sætin. Í þessum kosningum eiga menn einmitt að vera duglegir við að kynna fólkið sem ekki er í öllum umræðuþáttunum í fjölmiðlunum, en mun samt hafa stóru hlutverki að gegna eftir kosningar.

Mér sýnist í fljótu bragði að ENGINN flokkur í Reykjavík hafi sent mér bækling með myndum, nöfnum og upplýsingum um alla frambjóðendur sína. Og mér finnst það ömurlegt. Ég veit að: Hanna Birna, Sóley, Jón, Dagur, Einar og Ólafur leiða sína framboðslista – en hvað með sætin þar á eftir?

Ég er svo sem löngu ákveðinn í að kjósa VG í kosningunum. Menn þurfa ekki að fylgjast mikið með pólitík til að vita að þar skipa Sóley Tómasdóttir og Þorleifur Gunnlaugsson tvö efstu sætin. Þau hafa setið í borgarstjórn og flestir hafa því getað myndað sér skoðun á þeim nú þegar. Fyrir fjórum árum voru Svandís Svavarsdóttir og Árni Þór Sigurðsson í tveimur efstu sætunum. Ég held að það sé ekkert á þau Sóleyju og Þorleif hallað þótt maður viðurkenni að toppsætin tvö voru sterkari þá en núna.

Sætin þar á eftir eru hins vegar fjári góð og mættu gjarnan fá meiri athygli:

Líf Magneudóttir er í þriðja sæti. Líf þekki ég frá því gamla daga úr Hagaskólanum, auk þess sem við eigum allnokkra sameiginlega kunningja. Hún er eldklár og flottur frambjóðandi, sem hefur átt mjög fína innkomu í pólitíkina við erfiðar aðstæður. Ég ætla bara rétt að vona að hún nái að beita sér í borgarmálunum á þessu kjörtímabili og verði svo ofar eftir fjögur ár.

Elín Sigurðardóttir er í fjórða sætinu. Hún hefur m.a. setið í miðnefnd Samtaka hernaðarandstæðinga með mér og er pottþétt manneskja. Það er varla hægt að hugsa sér betri kandídat í að sitja í velferðar- og félagsmálanefndunum til að skylmast við íhaldskonurnar í drögtunum.

Davíð Stefánsson er fimmti. Hann er líka gamall miðnefndarmaður úr SHA, sem gagnast vel til vinnu. Frjór og hugmyndaríkur.

Hermann Valsson er í sjötta sætinu. Hann þekki ég í gegnum pólitíkina en ekki síður í tengslum við fótboltann og Fram. Í flokki sem inniheldur vænan slatta af antisportistum, er Hemmi bráðnauðsynlegur – enda eru íþróttamálin mjög veigamikill málaflokkur á sveitarstjórnarstiginu.

Þetta fólk fær allt mín bestu meðmæli.

Ekki brugðið – bara forvitinn

Föstudagur, maí 21st, 2010

Ég fékk símtal frá blaðamanni DV, sem hafði lesið fésbókarstatus hjá mér. Afraksturinn má sjá hér.

Af fréttinni mætti kannski ætla að ég sé eitthvað ósáttur við að hafa fengið valgreiðslukröfu frá Besta flokknum eða að mér þætti þessi fjáröflunaraðferð óeðlileg. Það er fjarri lagi. Mér finnst ekkert athugavert við að stjórnmálaflokkar eða félagasamtök sendi skeyti tvist og bast til að bjóða fólki að styðja sig. Til dæmis er það miklu betra að flokkar séu fjármagnaðir svona en með sníkjum frá fyrirtækjum.

Ástæða þess að ég fór að velta þessu fyrir mér á fésbókinni er sú að fyrir nokkrum misserum var ég stjórn félags sem íhugaði að fara í svona fjáröflun. Það var hins vegar metið sem svo á þeim tíma að kostnaðurinn við þessa söfnunaraðferð væri of mikill, nema að sent væri á þröngt skilgreindan hóp sem væri mjög líklegur til að borga. Þess vegna þótti mér fróðlegt að vita hvort kostnaðurinn við valgreiðslur hafi minnkað eða hvort Besti flokkurinn hefði skilgreint markhóp með einhverjum hætti.

Ég er sannfærður um að við eigum eftir að sjá þessa innheimtuaðferð snaraukast á næstu árum – en um leið á hún eftir að verða ómarkvissari.

Eins og staðan er í dag, fæ ég kannski 1-2 valgreiðslur á mánuði í heimabankann minn. Þær birtast innan um aðra reikninga: félagsgjöld, lánaafborganir o.s.frv. Þar sem þetta eru fáir seðlar, eru ágætar líkur á að maður samþykki þá með hinum reikningunum (munar ekki um kepp í sláturtíð). Ég er hins vegar viss um að þegar velflest líknarsamtök, stjórnmálahreyfingar og áhugamannafélög verða farin að kveikja á þessari leið – þá munu bankarnir annað hvort snarhækka þóknun sína eða breyta uppröðuninni þannig að þessir seðlar birtist ekki á sama stað og „alvöru“ reikningar.

Gaman væri að fá upplýsingar um málið frá e-m sem þekkir til.

Pilkington (b)

Fimmtudagur, maí 20th, 2010

Keppnistímabilið er varla búið í enska boltanum, en Luton er þegar farið að sanka að sér leikmönnum fyrir átök næsta vetrar. Núna erum við búnir að semja við markvörðinn Kevin Pilkington, sem verður væntanlega varamarkvörður fyrir Tyler.

Pilkington er annars nafn sem stuðningsmenn Manchester United ættu að muna eftir. Hann var á Old Trafford í mörg ár, en lék fáa leiki. Sá eftirminnilegasti var 3:0 tapið gegn York City 1995… trúi því varla að nokkur maður sé búinn að gleyma því.

Skitið á Múhameð spámann

Fimmtudagur, maí 20th, 2010

Í vikunni var alþjóðlegur teiknum-skopmynd-af-spámanninum-dagur, þar sem (eins og nafnið gefur til kynna) fjöldi fólks teiknaði og birti skopmynd af Múhameð í nafni baráttunnar fyrir tjáningarfrelsi.

Brendan O´Neill á Spiked var ekkert sérstaklega hrifinn. Ekki vegna þess að hann sé á móti skopmyndateikningum og guðlasti, heldur vegna sýndarmennskunnar og þess að verið væri að beina spjótunum að röngum aðila.

Lokaorðin:  This points to a powerful irony in the shit-on-Muhammad lobby: it is far more reliant on irate Muslims than it realises. Indeed, these two camps – the Muhammad-knockers and the Muslim offence-takers – are locked in a deadly embrace. Islamic extremists need Western depictions of Muhammad as evidence that there is a new crusade against Islam, while the Muhammad-knockers need the flag-burning, street-stomping antics of the extremists as evidence that their defence of the Enlightenment is a risky, important business. And as this mutually masturbatory performance of a new culture clash continues, the true threat to freedom and Enlightenment goes unanalysed and unexplained.

Fín grein.

Létt getraun…

Fimmtudagur, maí 20th, 2010

Það er alltof langt síðan ég efndi til getraunar hér á blogginu. Úr því skal nú bætt, svör fari í athugasemdakerfið að venju:

Eftir hverjum eftirtalinna eru þessi orð höfð: „Það þarf mann og konu til að búa til barn og mér finnst rökrétt að það þurfi mann og konu til að ala það upp.“

i) Snorra í Betel

ii) Tony Blair

iii) Sr. Geir Waage

iv) Benedikt sextánda

v) Jóni Gnarr

Og giskiði nú…