Archive for júní, 2010

Fótboltaspurning (b)

Þriðjudagur, júní 29th, 2010

Nú er spurt…

Hvað tengir þessi lönd saman á fótboltasviðinu:

Paraguay, Belgíu, Kamerún, Danmörku og Ecuador?

16-liða úrslit palladómar, seinni hluti (b)

Sunnudagur, júní 27th, 2010

Ef hægt er að finna eitthvað gegnumgangandi þema í þessari heimsmeistarakeppni, þá eru það hrakfarir „stóru“ evrópsku liðanna. Sjálfseyðingarhvötin hefur rekið hvert þeirra á fætur öðru til að fallast á sverð sín. Ekki þyrfti að koma á óvart þótt Evrópa fengi bara eitt lið í undanúrslitin. Ég læt mig reyndar dreyma um að það verði ekkert…

5. leikur, Slóvakía : Holland

En í fyrri leik morgundagsins takast á tvö Evrópulið. Hollendingar eru með fullt hús sigra og hafa verið traustir, án þess að vera neitt frábærir. Ef höfð eru í huga öll skemmtilegu hollensku landslið liðinna HM-keppna, væri það eiginlega skáldlegt óréttlæti ef þessu liði tækist að slugsast alla leið.

Slóvakarnir eru hins vegar glúrnir. Frammistaða þeirra gegn Ítölum var til hreinnar fyrirmyndar og með slíkum leik eru þeim flestir vegir færir. Hættan er sú að liðið sé mett eftir að hafa slegið heimsmeistarana úr keppni (svipað og Búlgarar 1994, sem duttu í það og gáfu skít í restina af mótinu eftir sigurinn á Þýskalandi í fjórðungsúrslitum). Líklega er það óskhyggjan sem ræður för, en ég ætla að tippa á slóvaskan sigur, jafnvel í venjulegum leiktíma.

6. leikur, Brasilía : Chile

Ég myndi þola Brasilíu að vera sigursælasta landslið í heimi og ætíð sigurstranglegasta liðið við upphaf hvers móts – ef þeir drulluðust þá til að spila sem slíkir. Naumur sigur á Norður-Kóreumönnum og markalaust jafntefli í ööömurlegum jafnteflisleik við Portúgal er ekki sigurvegarastöff.

Chile er sjarmerandi lið – miklu agressívara og hreyfanlegra en fúla Brasilíuliðið sem er mun evrópskara en nokkurt Evrópulíðið í ár. Mig langar óstjórnlega til að spá Chile sigri og eitthvað segir mér að sú geti alveg orðið raunin, en það væri óskhyggja – svo ég held mig við brasilískan sigur, 2:1 eða 3:1.

7. leikur, Paraguay : Japan

„Veikasti“ leikur 16-liða úrslitanna. Paraguay hefur blómstrað í keppninni á sama hátt og Uruguay og Chile. Einkum var frammistaðan góð á móti Slóvökum. Leikurinn gegn Nýja Sjálandi var hins vegar á sama hátt slakur og dapurt að ná ekki að skora mark.

Ég sá ekki leik Japans og Danmerkur og byggi því mat mitt á Japönunum einkum á leiknum við Kamerún og svo hálfum Hollands-leiknum. Mér sýnist þessi viðureign hafa alla burði til að vera endurtekning á leik Uruguay og Suður Kóreu, með tveimur ívið lakari liðum. Ef Paraguay nennir að halda völdum á miðjunni og leiða leikinn, þá ætti þetta ekki að vera vandamál.

8. leikur, Portúgal : Spánn

Portúgal ber ábyrgð á tveimur foxleiðinlegum 0:0 jafnteflum og 7:0 stórsigri. Það er skrítin blanda. Yfir leik Brasilíu og Portúgal rifjaðist upp fyrir mér hvers vegna mér er svona illa við portúgölsku vælukjóana.

Ég er samt viss um að þeir vinna Spánverjana – gott ef ekki í vítakeppni – bara til að bögga mig og Kjarra Guðmunds.

16-liða úrslit, palladómar – fyrri hluti (b)

Föstudagur, júní 25th, 2010

Jæja, þá er riðlakeppnin búin og alvara lífsins tekur við. Sú var tíðin að úrslitakeppni HM hafði bara sextán þátttökulið.

Í öllum aðalatriðum má segja að niðurstaða riðlakeppninnar hafi verið sanngjörn. Betri liðin í hverjum riðli komust áfram og þau lakari sátu eftir – hvað svo sem áætluðum styrk þeirra á pappírunum líður.

1. leikur, Uruguay : Suður Kórea

Uruguay-leikmennirnir eru stjörnur keppninnar til þessa. Frábærlega skipulagt lið með flinkum spilurum og Forlan í essinu sínu. Markatalan 4:0 er glæsileg eftir þrjá leiki. Andinn í liðinu virðist líka góður og ef frá er talinn vitleysisgangurinn í varamanninum Lodeiro, sem lét reka sig útaf fyrir aulaskap í Frakkaleiknum, hefur ekkert borið á óskynamlegum brotum eða agaleysi.

Suður Kórea í annarri stöðu. Markatala Asíuliðsins í riðlakeppninni var 5:6. Þetta er glúrið lið sem getur sótt hratt fram og nýtt sér veilur í varnarleik andstæðinganna. Ég yrði hissa ef þeir héldu hreinu í níutíu mínútur gegn Forlan, Suarez & kó. Verð fyrir miklum vonbrigðum ef Uruguay tryggir sér ekki sæti í fjórðungsúrslitum í fyrsta sinn frá 1970 á morgun.

2. leikur, Argentína : Mexíkó

Þegar Mexíkóar/Mexíkanar (eftir því hvort menn treysta frekar málfarsráðunaut Ríkisútvarpsins eða Kötlu Maríu) mættu Uruguay í lokaleik riðlakeppninnar, var síðarnefnda liðið í þeirri stöðu að duga jafntefli. Mexíkó þurfti hins vegar að sækja, til að vera visst um að komast áfram. Lítið fór fyrir slíkum tilburðum.

Argentína er vinsælasta stúlkan í keppninni. Fótboltanirðirnir á 200% eru meira að segja farnir að kvarta undan Argentínu-fárinu í Bretlandi (sem miðað við aldur og fyrri störf má teljast álíka óvænt og ef Halim Al-fár brytist út á Íslandi). Stemningin er dáldið á þá leið að fólk krefst þess að Argentina skori fjögur mörk í hverjum leik, þar af Messi þrjú. Þeir verða þó ekki í vandræðum með Mexík… (æ, þið vitið) sem veðja helst á að Blanco geri einhverjar rósir. Allir aðrir sjá að hann ætti fyrir löngu að vera arinn í límverksmiðjuna.

3. leikur, Bandaríkin : Ghana

Ó, hvað það munaði litlu að svartsýnisspá mín um Afríkulaus 16-liða úrslit rættist. Ekki var það þó glæsilegt. Frá því að 32 liða HM var tekin upp 1998 hefur það aðeins tvisvar gerst að lið hefur komist upp úr riðlakeppninni með því að skora bara tvö mörk. England 2002 og Ghana núna.

Bandaríkin hafa hins vegar átt fínt mót. Ég hef í mörg ár bent á að Bandaríkjamenn séu kerfisbundið vanmetnir í alþjóðaboltanum. Evrópa og Suður-Ameríka lítur niður á Bandaríkin sem ruðnings- og körfuboltasamfélag. Fyrir vikið horfa menn fram hjá góðum árangri þeirra í alþjóðakeppni og oft sterkri stöðu á FIFA-listanum. Að þessu sinni veittu fæstir því athygli að Bandaríkin léku vel í sínum riðli, vegna þess að fjölmiðlarnir voru svo uppfullir af því að gapa yfir óförum Englendinga.

Þrátt fyrir allan þennan inngang, þá hallast ég hálfpartinn að því að Ghana eigi eftir að girða sig í brók og stela sigrinum – Ármanni Jakobssyni til sárrar skapraunar. (Hann er harðasti og raunar eini stuðningsmaður BNA sem ég þekki.)

4. leikur, England : Þýskaland

Þetta endar í vítakeppni og vitum öll hvernig það fer…

Gallaðar ferilsskrár

Fimmtudagur, júní 24th, 2010

Fór inn á vef Reykjavíkurborgar, þar sem ég vildi grafast fyrir um stjórnarsetur og nefndarstörf stjórnmálamanns nokkurs til að svala forvitninni. Þar má finna síður með ferilsskrám þeirra sem sitja eða hafa setið í borgarstjórn síðustu árin.

Því miður er enga svona síðu að finna en úr því ætti ekki að vera erfitt að bæta. Ég veit til þess að vinna við borgarfulltrúatal frá 1986 er langt komið. Það ætti ekki að vera mikið mál að koma því á vefinn, auk þess sem borgin mætti splæsa í sumarstarfsmann sem myndi pikka inn gamla borgarfulltrúatalið og jafnvel annan til að reyna að samræma uppsetninguna.

Það verður hins vegar að segja að upplýsingarnar um núverandi borgarfulltrúa eru engan veginn nógu góðar. (Og þá er ég að tala um þá fulltrúa sem setið hafa í borgarstjórn lengur en frá síðustu kosningum.)

Jújú, það er fínt að fá að vita að Björk Vilhelmsdóttir hafi verið kokkur á bát fyrir mörgum árum, að Júlíus Vífill hafi setið í stjórn Bifreiðaskoðunar fyrir tæpum tveimur áratugum og að Sóley Tómasdóttir hafi verið meðritstjóri bókarinnar „Konur með einn í útvíkkun fá enga samúð“ – en allt eru þetta aukaupplýsingar.

Vísitölunotandi þessarar upplýsingasíðu hlýtur fyrst og fremst að vera að fiska eftir því hvaða störfum viðkomandi hafi gegnt á vegum Reykjavíkurborgar. Þannig myndu menn vilja vita hratt og örugglega hvort t.d. Oddný Sturludóttir eða Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir hafi setið í skipulagsráði á tilteknu árabili eða í stjórn Faxaflóahafna – svo eitthvað sé nefnt…

Kjartan Magnússon er með lista sem lítur út fyrir að vera nokkuð tæmandi. Samt er grunsamlegt að á honum er engin seta í hverfaráði tiltekin. Ég hélt að allir borgarfulltrúar hefðu meira og minna verið skikkaðir í eitthvert hverfaráðið.

Júlíus Vífill Ingvarsson virðist smkv. sinni síðu hafa gegnt einhverjum nefndarstörfum 1998-2002 og aftur frá 2006, en heilt kjörtímabil þar á milli hefur dottið út úr skránni.

Um nefndarsetur Dags Eggertssonar stendur ekki múkk, en gestir síðunnar fá þó að vita að hann var í sumarvinnu á DV árið 1993.

Þorleifur Gunnlaugsson virðist maður án fortíðar og ekki er að sjá að Jórunn Frímannsdóttir eigi nefndarformennskur að baki. Svona mætti lengi telja.

Þetta er einfaldlega ekki nógu gott. Laga, takk!

Svalur og geimverurnar

Fimmtudagur, júní 24th, 2010

Langþráð sending barst í póstinum í dag frá Amazon. Nokkrar Svals og Vals-bækur sem vantaði nauðsynlega í safnið. Steinunn er dolfallin yfir nördaskap mínum, en reynir að láta ekki á neinu bera.

Því miður eru bækurnar á þýsku (reyndar í mjög vandaðri útgáfu). Ég hefði nú fremur kosið að fá þær á dönsku, en ýmist reyndust þær ófáanlegar á því máli eða svo brjálæðislega dýrar að það var ekki verjandi að kaupa þær.

Ég gat að sjálfsögðu ekki stillt mig um að sökkva mér strax oní eina bókina: Apfelwein für Xorien. Hún heitir á frummálinu Du cidre pour les étoiles sem líklega væri best að íslenska sem Eplavín fyrir geimverurnar – og fjallar um… geimverur sem eru sólgnar í eplavín.

Bókin er eftir Fournier og samin 1976 eða ´77, á milli Töfrafestarinnar frá Senegal og Móra. Þær bækur eru um margt svipaðar og því undarlegt að sjá svona gjörólíka bók á milli þeirra.

Almennt sér er ástæða til tortryggni þegar teiknimyndasöguhöfundar kynna til sögunnar krúttlegar geimverur. Ég verð enn reiður þegar ég hugsa út í Uderzo-bókina þar sem geimverurnar heimsóttu Ástrík og félaga í Gaulverjabæ. Það var langlélegasta Ástríks-bókin og ber Uderzo þó ábyrgð á miklu drasli eftir að hann fór að semja sögurnar sjálfur.

Þetta er eina Svals og Vals-bókin þar sem geimverur koma við sögu (ef við lítum ekki á Prumpdýrið í Tímavillta prófessornum sem geimkvikindi). Þetta eru krúttlegir litlir rauðir karlar með hendur, fætur og tvö augu. Þeir búa ekki yfir neinum sérstökum yfirnáttúrulegum kröftum en hafa yfir fullkominni tækni að ráða.

Sagan gerist öll í Sveppabæ eða á setir Sveppagreifans. Greifinn hefur komist í vinfengi við geimverur, sem illu heilli ánetjast eplavíni og stela því af bændunum í grenndinni. Þetta leiðir til árekstra við bændurna og bæjarbúa sem undir stjórn bæjarstjórans siga hernum á greifann. Þá koma til sögunnar leyniþjónustumenn frá ótilreindu útlandi sem vilja ræna geimverunum og/eða farartækjum þeirra. Allt fer þó vel að lokum.

Miðað við lýsinguna mætti ætla að bókin væri algjört flopp, en svo slæmt er það þó ekki. Sjálfur er ég hrifinn af Fournier og finnst hann alls ekki standa Franquin að baki. Húmorinn er ágætur (og skilar sér meira að segja í gegnum þýskuna). Plottið er þó hvorki fugl né fiskur, enda bókin hliðarspor frá metnaðarfyllri verkum Fourniers á seinni hluta áttunda áratugarins.

Ef ég bara hefði…

Miðvikudagur, júní 23rd, 2010

Tilboð nýja borgarstjórnarmeirihlutans til Hönnu Birnu um embætti forseta borgarstjórnar setti Sjálfstæðismenn í ljóta klípu. Þeir gátu hafnað boðinu (og þannig litið út fyrir að slá á útrétta sáttarhönd) eða tekið því (og þannig mögulega komið sér í þá vondu stöðu að axla ábyrgð án áhrifa).

Þetta kallaði eflaust á mikla krísufundi í Valhöll og að lokum ákvað Hanna Birna að það væri illskárri kosturinn að þekkjast boðið.

Núna hefur Vefþjóðviljinn dottið niður á lausnina – eða öllu heldur, kveikt á því að Hanna Birna átti þriðja leikinn í stöðunni. En því miður aðeins of seint…

Auðvitað hefði hún getað svarað: Þetta er rausnalega boðið – þið fáið Júlíus Vífil!

Við lestur þessarar Vefþjóðviljafærslu heyrir maður alveg ritstjórnarfulltrúana gnísta tönnum yfir að hafa ekki dottið þessi flétta í hug fyrr.

Ró og næði

Þriðjudagur, júní 22nd, 2010

Í gær fór ég til Keflavíkur að horfa á fótbolta. Eða í rauninni fór ég til Njarðvíkur – þar sem Keflvíkingar spila heimaleikina sína tímabundið.

Á leiðinni á völlinn ókum við framhjá pínkulitlum og ferlega sterílum raðhúsakjarna. Mér sýndist enginn fluttur inn og húsin varla fullbúin. En þar var mikið skilti þar sem fram kom að þetta væri raðhúsahverfi fyrir 55 ára og eldri.

Hugmyndin með slíku hverfi er væntanlega sú að liðið sem er komið af léttasta skeiði geti fengið að vera í friði fyrir krakkaormum, unglingum með partýhald og öðru því veseni sem fylgir því að búa innan um fólk sem er ekki á nákvæmlega sama stað í lífinu og maður sjálfur.

Eins og þessi hugsunarháttur sé ekki nógu skrítin, þá var staðsetningin algjört met. Húsin standa undir gaflinum á félagsheimilinu Stapa…

Uruguay (b)

Þriðjudagur, júní 22nd, 2010

Þegar mínir menn í Uruguay drógust í A-riðil, vissi ég ekki hvort ég ætti að fagna eða svekkja mig. Riðillinn virtist öflugur. Mexíkó er lið sem reikna má með að komist upp úr riðlakeppni HM. Heimalið hafa yfirleitt náð góðum árangri og þótt Frakkarnir hafi áður látið fallast á sverð sitt á stórmótum, var ekki hægt að ganga út frá því sem vísu.

Kosturinn við riðilinn var hins vegar sá að sigurlíkur máttu heita ágætar.

Nú hefur það komið í ljós. Uruguay hefur leikið betur en flest önnur lið á mótinu. Varnarleikurinn er frábær, enda fór liðið upp úr riðlakeppninni án þess að fá á sig mark. Jafnframt getur Uruguay leitt leiki, eins og sást í 3:0 sigrinum á S.Afríku á Soweto-daginn.

Nú er komið í 16-liða úrslitin, þar sem leikið verður við liðið úr 2. sæti B-riðils – líklega S.Kóreu. Mér sýnist Uruguay mun sterkara. Stefnan hlýtur að vera tekin á undanúrslitin.

Af leiðtogum

Þriðjudagur, júní 22nd, 2010

Egill Helgason birtir mynd á blogginu sínu af mönnum í gervi Leníns og Stalíns sem sitja við Kreml og gefa ferðamönnum kost á að taka af sér myndir. Hann veltir svo vöngum yfir því hvað gerast myndi ef Þjóðverji tæki upp á því sama í gervi Hitlers – hvort lögreglan skærist ekki snarlega í leikinn.

Út frá þessu má fabúlera um ólíka afstöðu Þjóðverja og Rússa til fyrrum leiðtoga sinna.

En hefði ekki verið frjórra að velta því fyrir sér hver væru eðlileg viðbrögð við því ef e-r Breti reyndi að snapa sér pening með því að klæða sig upp eins og Churchill eða Bandaríkjamaður stillti sér upp eins og Harry S Truman fyrir myndatöku?

Mér er nú mjög til efs að hringt yrði í lögguna.

Ég myndi samt ekki treysta mér til að útskýra t.d. fyrir Indverja hvers vegna maður í Lenín-búningi sé smekkleysa en maður í Churchill-búningi menningartengd ferðamennska…

Dýrafjarðargöng

Mánudagur, júní 21st, 2010

Dýrafjarðargöng eru víst aftur komin á áætlun (þó án alvöru fjármagns). Það er alltaf kyndugt þegar jarðgöng eru kennd við annan enda þeirra frekar en fjallið (eða fjörðinn) sem þau liggja undir. Af hverju Dýrafjarðargöng frekar en t.d. Arnarfjarðargöng?

Skýringin er líklega sú að Hrafnseyrarheiðargöng yrði slíkur tungubrjótur að helst ætti heima á stafsetningarprófum.

Mætti ekki annars gefa jarðgöngum frumlegri nöfn en að kenna þau við fjöll eða byggðir?

Annars hefði Jóhanna Sigurðardóttir átt á nota þennan spuna til að bregðast við stóra 17.júní-ræðuklúðrinu. Hún hefði getað vísað til nýrra áherslna ríkisstjórnarinnar í samgöngumálum og bent á að stefnan sé að tengja saman Arnarfjörð og Dýrafjörð…