Archive for júlí, 2010

Lyon og Geiri El. (b)

Laugardagur, júlí 31st, 2010

Uppgangur fótboltaliðsins Olympique Lyonnais er eitt magnaðasta fyrirbæri Evrópufótboltans á síðustu áratugum. Franskur miðlungsklúbbur er á mettíma orðið eitt af stærstu félögum Evrópu – fyrst og fremst með því að vera klókari en aðrir á leikmannamarkaði: kaupa efnilega leikmenn fyrir lítið fé og selja þá aftur fyrir fúlgur.

Sigurganga Lyon skýrist ekki af einhverjum ofursnjöllum knattspyrnustjóra sem ríkir sem einvaldur. Þvert á móti má segja að gagnstæða eigi við. Lyon skiptir ört um stjóra og völd þeirra eru takmörkuð. Eigendur liðsins líta nefnilega svo á að knattspyrnustjórar séu millistjórnendur til skamms tíma. Eðli þeirra er að hugsa um skammtímaávinning. Þeir eru dæmdir á úrslitum næstu 4-5 leikja og hafa lítinn hvata til að horfa lengra en hálft til eitt ár fram í tímann.

Fyrir vikið hafa stjórarnir hjá Lyon lítið um það að segja hvaða leikmenn eru keyptir til liðsins eða seldir frá því. Þær ákvarðanir eru í höndum sérstaks ráðs, þar sem knattspyrnustjórinn er bara einn nokkurra fulltrúa.

Þetta þykir vond latína á flestum bæjum, þar sem menn hafa ofurtrú á hinum alvalda knattspyrnustjóra sem verði að fá fullt sjálfstæði gagnvart stjórninni til að móta liðið eftir eigin höfði. Í samræmi við þessa heimsmynd, þykir fátt verra en stjórnir og eigendur sem reyna að blanda sér í það hvaða leikmenn séu á launaskrá liðanna sinna og fátt þykir eðlilegra en að knattspyrnustjórar segi starfi sínu lausu ef reynt er að binda hendur þeirra.

Dæmið frá Lyon ætti að gefa mönnum tilefni til að draga í efa þessi viðteknu sannindi um að best sé að hafa einvald í stjórastólnum. Knattspyrnufélög eru fyrirtæki og kaup á leikmönnum eru stærstu fjárfestingar þeirra fyrirtækja. Hversu rökrétt er þá að láta ákvörðunina um þessar fjárfestingar að öllu leyti í hendur stjórnanda sem hugsar fyrst og fremst um hvað gerast muni næsta mánuðinn?

Þegar ég las um skipulag hlutanna hjá Lyon, rifjuðust upp frásagnir af því hvernig staðið hefði verið að málum hjá Fram í stjóratíð Ásgeirs heitins Elíassonar. Sagan segir að Ásgeir hafi haft þá sérstöðu meðal íslenskra knattspyrnuþjálfara að hann lét sig litlu varða hvaða leikmenn væru fengnir til liðs við félagið. Menn í stjórn knattspyrnudeildarinnar sáu alfarið um þau mál, Ásgeir treysti dómgreind þeirra og lét sér vel líka. Sagt er að á öllum sínum þjálfaraferli hjá Fram, hafi Ásgeir aðeins farið fram á að fá til sín einn leikmann – Nígeríumann sem reyndist síðan kötturinn í sekknum.

Þessi saga um áhugaleysi og jafnvel vanhæfni Geira þegar kom að því að semja við leikmenn var alltaf sögð eins og til marks um skemmtilega sérvisku hans. En kannski var þetta alls enginn veikleiki, heldur styrkur? Var það ef til vill hluti af galdrinum sem skóp gullaldarlið Fram á níunda áratugnum að þjálfaranum var að mestu eða öllu leyti haldið utan við leikmannasamningana?

Spámaðurinn mikli

Miðvikudagur, júlí 28th, 2010

Eins og dyggir lesendur þessarar síðu ættu að vita, er ég mikill og nánast óbrigðull spámaður. Til að árétta það ætla ég að setja fram djarfan spádóm:

Í tilefni af framlagningu álagningarskránna munu ungir Sjálfstæðismenn efna til einhverra táknrænna mótmæla, sem fjórir munu mæta á. Þeir munu líklega hóta því að stela skránum eða hindra fólk í að blaða í þeim. Þeir munu hins vegar ekki nenna því lengur en í svona þrjú kortér, klukkutíma og fara þá heim.

Þetta mun þó tryggja þeim a.m.k. eitt sjónvarpsviðtal, tvö útvarpsviðtöl og smástúf í Mogganum.

Já – ég veit að þetta er djarfur spádómur, en ég er jú maður hinna djörfu spádóma.

* * *

Og meðan ég man – þar sem ég er hvorki Pressu- né Eyju-bloggari, mun ég líklega ekki rata inn á neinn lista yfir tekjur celeb-bloggara. Það er því best að upplýsa það hérna að ég borga 1,4 milljónir í skatt. Þið verðið sjálf að reikna út hvað það gerir á mánuði.

Lokum Borgarvefsjánni!

Þriðjudagur, júlí 27th, 2010

Í dag var gamli MorfÍs-uppeldissonur minn Lárus Páll Birgisson (Lalli sjúkraliði) fyrst borinn yfir Laufásveginn af lögreglunni og síðan handtekinn fyrir að trítla aftur yfir götuna og setjast á ný fyrir framan bandaríska sendiráðið með spjald með slagorðum gegn stríðsrekstri. Á dögunum var Lalli dæmdur í héraðsdómi fyrir að hafa á sama hátt neitað að fara eftir fyrirmælum lögreglu og fara af sömu gangstétt síðasta vetur. Þeim dómi verður að áfrýja.

Ég sló fyrr í dag á þráðinn til sjúkraliðans sem risaveldið óttast svo mjög og spurði út í handtökuna. Þar kom fram að líkt og í málinu sem hann var dæmdur fyrir, var atvikið fest á filmu. Starfsmenn sendiráðsins urðu hinir æstustu yfir myndatökunni og kröfðust þess að filman yrði gerð upptæk. Lögreglan ætlaði að verða við þeirri bón, en hætti við þegar fjölmiðlamenn mættu á svæðið.

Og með hvaða rökum skyldu mennirnir vilja láta banna fólki að taka myndir af götumyndinni við Laufásveg og umhverfi sendiráðsins? Jú, það er gert til að tryggja öryggi borgaranna. Ef hryðjuverkamenn kæmust yfir myndir af gangstéttinni fyrir framan sendiráðið, þá gætu þeir notað þær til að koma fyrir sprengjum sem aftur kynnu að skaða fólkið í götunni…

Jahá!

Það er gott að þessar upplýsingar hafi komið fram um bráða lífshættu íbúanna við Laufásveg. Væntanlega kallar þetta á sólarhirngslögregluvörð (einkum nú yfir háferðamannatímann) til að koma í veg fyrir að Laufásvegurinn verði festur á filmu. Og ekki er síður brýnt að loka Borgarvefsjánni – eða í það minnsta passa að blörra út Laufásveginn og nágrenni. Ég sé ótal verkefni fyrir starfsmenn greiningardeildar Ríkislögreglustjóra í þessu. Spurning um að splæsa í aukastöðugildi?

PiL

Miðvikudagur, júlí 14th, 2010

Jahá, Public Image Ltd. er barasta á leiðinni aftur í stúdíó.

Hvað eigum við gömlu aðdáendurnir að segja við því? Verður þetta spennandi eða bara vont?

Nú er ekki gott að segja.

Tökum smá Flowers of Romance í tilefni dagsins.

Dómaramistökin (b)

Laugardagur, júlí 10th, 2010

Davíð Þór Jónsson skrifar Bakþanka í Fréttablaðið í dag. Þeir ganga í stuttu máli út á að dómararnir hafi eyðilagt HM – svo mjög að almenningur sé í stórum stíl búið að snúa baki við keppninni. Þetta sé verst dæmda heimsmeistarakeppni sögunnar.

Þessi afstaða Davíðs kemur mér talsvert á óvart. Sem forfallinn fótboltaáhugamaður hef ég legið yfir stóru fótboltamótunum (og raunar nokkurn veginn hvaða fótboltamótum sem er) frá því að ég man eftir mér. Mín tilfinning er hins vegar sú að dómarar hafi aldrei verið jafn góðir. Dómarar dagsins í dag láta þá sem stýrðu flautu fyrir 20 eða 25 árum líta út eins og hlægilega viðvaðninga.

Auðvitað hefur hraði íþróttarinnar aukist verulega og mögulegum mistökum í samræmi við það – en engu að síður er mín tilfinning akkúratt þveröfug við upplifum Davíðs: ég myndi segja að á síðustu 20 árum (ég ætla ekki að þykjast vera sérstaklega dómbær um mót fyrir 1990) hafi dómarar aldrei haft jafnlítil áhrif til hins verra á úrslit leikja.

En segjum sem svo að ég hafi rétt fyrir mér en Davíð rangt – þá stæði eftir spurningin: hvers vegna upplifir Davíð þá allt þetta hróplega óréttlæti, svindl og klúður í fótboltanum núna? Ég er með kenningu um það.

Fyrir síðustu stórmót í fótboltanum höfum við sem aldri fyrr getað horft á spjallþætti þar sem reynt er að greina það sem gerist inni á vellinum. Á sama tíma verður sjónvarps- og myndatökutæknin stöðugt betri. Þetta þýðir að við getum spólað, skoðað fryst og stækkað hvert einasta atvik sem aflaga fer – og hersing launaðra fótboltaskýrenda þarf að drepa tímann með því að analýsera í smáatriðum hvern einasta rangstöðudóm eða tæklingu sem hefði mátt gefa spjald á.

Ég hallast sem sagt að því að rangir eða hæpnir úrskurðir dómara séu í dag miklu færri en t.a.m. fyrir tuttugu árum – en að orkan og tíminn sem fer í að ræða hvern rangan dóm sé miklu meiri í dag. Fyrir vikið kann ýmsum að finnast að dómaramistökin séu að eyðileggja sportið sem aldrei fyrr.

Ringo

Miðvikudagur, júlí 7th, 2010

Í dag er Ringo Starr sjötugur.

Það fær mig til að hugsa: getur hugsast að Ringo hafi komið til Íslands – þó ekki væri nema fyrir svona aldarfjórðungi? (Jájá, ég veit að það er ekki sennilegt, en við skulum samt ekki útiloka neitt.)

Og segjum svo að Ringo hafi komið hingað til lands – skyldi hann þá hafa dottið í það með einhverjum nafnkunnum heimamönnum? Og hver veit nema einhverjar hnyttnar sögur hafi sprottið af þessu kenderíi – t.d. eitthvað um dyntina í gamla Bítlinum?

Mikið væri nú skemmtilegt ef allt þetta hefði gerst og einhver væri til frásagnar um atburðina. Jafnvel einhver snjall sögumaður sem myndi ekki telja eftir sér að miðla upplýsingum til komandi kynslóða…

Hvers vegna í ósköpunum hafa fjölmiðlar ekkert gert í því að grafast fyrir um þetta? Hvernig stendur á þessari ærandi þögn um Ringo Starr og möguleg tengsl hans við Ísland í blöðum og ljósvakamiðlum? Spyr sá sem ekki veit.

Svalur og ópíumbaróninn

Þriðjudagur, júlí 6th, 2010

Sendingin af þýsku Svals og Vals-bókunum um daginn heldur áfram að vera gleðigjafi á hér Mánagötunni. Kvöldlesning síðustu nátta hefur svo sannarlega ekki valdið vonbrigðum. Það eru tvær síðustu bækur Fourniers, um útistöður Svals og Vals við einræðisherrann Kodo. (Á frummálinu: Kodo le tyran & Des haricots partout.)

Fournier brýtur blað í sögu bókaflokksins með því að segja sögu í tveimur bindum (það fyrra endar á æsilegan hátt, þar sem Valur er í bráðum lífsháska.)

Sagan gerist í ímynduðu ríki á landamærum Burma, Bangladesh og Indlands – þótt sennilega sé herforingjastjórnin í Burma hin raunverulega fyrirmynd. Svalur og Valur hyggjast komast inn í hið dulúðuga ríki til að skrifa frétt. Þeir verða viðskila á leiðinni og fyrir röð tilviljana er Valur tekinn í misgripum fyrir sendifulltrúa evrópsku mafíunnar. Í ljós kemr að hershöfðinginn Kodo, einræðisherra landsins, heldur þjóð sinni í heljargreipum og fjármagnar her sinn með stórfelldri ópíumframleiðslu.

Svalur kynnist uppreisnarmönnum í landinu og saman ræna þeir mafíósanum/Val. Þeir félagarnir bjóðast til að upplýsa umheiminn um glæpi hershöfðingjans. Uppreisnarmenn svara því til að það sé ekki nóg – ekki dugi að fá útlenda íhlutun og skipta bara einum leppnum út fyrir annan. Þeir vilja geta séð sér farborða og byggja upp stöndugt samfélag.

Svalur er því sendur til Sveppagreifans sem heldur á fund félaga sinna frá WHO (jebb, plottið verður ansi félagslega meðvitað þegar hér er komið sögu). Saman tekst þeim svo að eitra fyrir valmúauppskeru hershöfðingjans og fá sendar þreskivélar og önnur landbúnaðartæki til að leggja grunn að öflugri baunaræktun.

Áhugi Fourniers á ýmsum hagsmunamálum þriðja heimsins var áberandi á seinni hluta ferils hans sem höfundur Svals og Vals, en sjaldan þó eins og í þessum bókum. Kodo er mjög gott illmenni og plottið gengur betur upp en í mörgum bóka Fourniers. Ef eitthvað er, þá er það í það jarðbundnasta. Teikningarnar eru fínar og greinilegt að Fournier karlinn hefur verið að þróa stíl sinn alveg framundir það síðasta.

Fínar bækur og synd að þær hafi ekki komið út á íslensku.

Góðan daginn, þetta er wonderful garður…

Sunnudagur, júlí 4th, 2010

Fyrir um áratug byrjaði Nickelodeon að framleiða teinkimyndaþættina um Dóru ferðalang. Allir foreldrar ungra barna vita að Dóru-þættirnir svínvirka, þótt vissulega sé ekki gaman að fá suma lagstúfana á heilann. Grísirnir elska þetta sjónvarpsefni og geta horft undir drep.

Dóra er dökk yfirlitum og án þess að það komi beinlínis fram, má ætla að hún sé ættuð frá Rómönsku Ameríku. (Þannig bárust um daginn fréttir af bandarískum mannréttindasamtökum sem hafa gert Dóru að einkennistákni baráttu sinnar undir slagorðinu „Dóra er ólöglegur innflytjandi“. Og vei þeim stjórnmálamannai sem myndi reka Dóru úr landi…)

Dóra á í það minnsta ýmsa vini sem hafa suðrænt litaraft og tala misgóða ensku. Sumir þylja bara einfaldar setningar á spænsku. Aðrir tala ensku, en skjóta öðru hvoru inn einu og einu spænsku orði.

Svona tungumálausli er ekki óþekktur í barnaefni. Þannig var eitt kvikindið af Teletöbbýunum látið tala lýtalausa kantónsku í upphaflegu þáttunum frá BBC. Væntanlega hefur einhver hjörð pedagóka, þroskaþjálfa og barnasálfræðinga lagt blessun sína yfir þessa tilhögun eins og allt annað í þáttunum. Og örugglega eru til einhverjar kenningar um að þetta auki skilning barna á eðli og tilvist annarra tungumála.

Við talsetningu þessara þátta yfir á íslensku, hefur spænskunni verið skipt út fyrir ensku. Aukapersónurnar sletta því ensku eins og í akkorði. Það er afar kyndugt og hvimleitt á að hlýða.

Dóruþættirnir eru reyndar ekki verstir með þetta. Verri eru þættir sem augljóslega eru að leita í þeirra smiðju, s.s. einn sem er augljós tilraun til að blanda saman Dóru og Bubba byggi – með aðalpersónu sem er völundur í höndunum og á mikið safn talandi verkfæra og vina sem skipta yfir í enskuna lon og don.

Afleiðingin eru samtalsslitrur eins og sjá má í titli þessarar færslu. Upp á þetta er börnum boðið í sjónvarpinu í hverri einustu viku – krökkunum til afþreyingar en mér til skapraunar.

Ég velti því fyrir mér hvort kennslufræðin á bak við það að láta persónur í bandarísku barnaefni sletta spænsku yfirfærist sjálfkrafa yfir á að sletta ensku í íslenskum barnatíma? Eru krakkar á jafnlitlu málsvæði og því íslenska ekki sífellt með ensku í eyrunum? Er þeim þá sérstakur greiði gerður með hrognamæltum teiknimyndapersónum til viðbótar við allt hitt? – Hvað segja kennarar við þessu?

Svartar perlur (b)

Fimmtudagur, júlí 1st, 2010

Við sem lásum bókina eftir Jónas frá Hriflu um knattspyrnuferil Alberts Guðmundssonar vitum allt um viðurnefnið „Hvíta perlan“ sem frönsku blaðamennirnir gáfu okkar manni. Það var víst til aðgreiningar frá „Svörtu perlunni“ – Larbi Ben Barek, aðalmarkaskoraranum í Frakklandi sinnar tíðar. Sá var af norður-afrísku bergi brotinn og dökkur á hörund eins og gælunafnið gefur til kynna.

Með þessa vitneskju að vopni, höfum við unnendur Alberts og Hriflu-Jónasar alltaf getað hlegið hryssingslega þegar vísað er í leiðindagaurinn Péle sem „Svörtu perluna“. Þá verður okkur einatt að orði: „Jújú, þessi Péle var nú víst ágætur – en hann var enginn Larbi Ben Barek!“

Vandinn er hins vegar að „Svarta perlan“ er álíka fyrirsjáanlegt viðurnefni fyrir þeldökkan fótboltamann og „Rauða ljónið“ fyrir pöbb. Og Larbi Ben Barek er eiginlega bara heimsfrægur í Frakklandi og á Íslandi.

Ef farið er að rýna betur í hinar svörtu perlur kemur í ljós að á undan Ben Barek var annar og miklu frægari fótboltamaður sem bar þetta heiti.

Jose Andrade var einhver besti knattspyrnumaður þriðja áratugarins. Hann var frá Uruguay, en afi hans var brasilískur strokuþræll sem flúið hafði þangið um miðja nítjándu öldina. Uruguay hefur löngum þótt framsækið ríki (afnámu þrælahald snemma, kosningaréttur kvenna o.þ.h.) og svartir knattspyrnumenn þóttu gjaldgengir mun fyrr þar en annars staðar. Þannig tefldi landslið Uruguay fram svörtum leikmönnum svo snemma sem 1916 í fyrstu Suður-Ameríkukeppninni.

Andrade hóf að leika með landsliðinu árið 1923. Hann varð Suður-Ameríkumeistari það ár og svo aftur 1924 og 1926. Hann var í liði Uruguay sem varð Ólympíumeistari 1924 og 1928. Og undir lok alþjóðlega ferils síns hampaði hann heimsmeistaratitlinum 1930.

Fyrir HM 1994 setti France Football saman þennan lista yfir hundrað bestu leikmennina í sögu HM 1930-90. Þar var Andrade í tíunda sæti – langefstur þeirra manna sem kepptu fyrir seinni heimsstyrjöldina.

Með þennan feril í huga, þá virka nú eiginlega þeir Albert og Ben Barek báðir hálf kjánalegir…