Archive for ágúst, 2010

Katanes

Þriðjudagur, ágúst 31st, 2010

Á ofanverðum fimmta áratugnum börðust Akurnesingar fyrir því að fá bílferju yfir Hvalfjörðinn (fyrir tíma Akraborgarinnar). Ferjustæði var ákveðið og jafnvel keypt skip – sem var þó aldrei nýtt til slíkra siglinga.

Samkvæmt gömlum blöðum var málið hins vegar komið svo langt að búið var að steypa hafnarkant á Katanesi fyrir ferjuna. Veit einhver staðkunnugur Vestlendingur hvort e-ð er eftir af því mannvirki og hvort það sé auðsjáanlegt fyrir ferðalanga?

2030

Mánudagur, ágúst 30th, 2010

Um daginn fór ég að lesa mér til um Reykjavíkursýningar vegna vinnunnar. Hnoðaði í kjölfarið saman smápistli í næsta fréttabréf Starfsmannafélags Rvíkur um sama mál. (Kannski meira um það síðar.)

Sýningarnar sem um ræðir voru settar upp 1949, 1962 og 1986.

Í tengslum við síðastnefndu sýninguna var gefinn út bæklingur þar sem nokkrir fjölfróðir karlar voru fengnir til að lýsa Reykjavík ársins 2030. Greinilegt var að spekingarnir ætluðu ekki að smíða neina lotkastala með loftpúðaskipum og helgarreisum til tunglsins. Fyrir vikið voru spádómarnir furðujarðbundnir.

Eitt helsta umræðuefni álitsgjafanna var fólksfjöldaþróunin. Niðurstaða þeirra var sú að 2030 yrðu landsmenn rétt rúmlega 300 þúsund, þar af 200 þúsund á höfuðborgarsvæðinu. Þar með væri einhverskonar jafnvægi náð og mannfjöldinn passlegur miðað við náttúruauðlindir.

D-gata

Sunnudagur, ágúst 29th, 2010

Tímaritavefurinn er endalaus uppspretta skemmtunar.

Var að nördast í gömlum dagblöðum að lesa um götuheitin í Norðurmýrinni. Í ársbyrjun 1937 gerðu Sigurður Nordal, Ólafur Lárusson og Pétur Sigurðsson fram tillögur um nöfn gatnanna og sóttu þau í sagnir af landnámi Reykjavíkur annars vegar en Laxdælu hins vegar.

Norðurmýrin hafði hins vegar verið skipulögð nokkru fyrr og uppbygging hverfisins hafin. Í tillögum þremenninganna er því talað um að A-gata skuli heita Skarphéðinsgata, B-gata Karlagata o.s.frv. (Ekki voru enn komnar neinar götur sunnan Flókagötu/N-götu, en þeim voru þó gefin nöfn í leiðinni.)

Það fróðlega er að götur þessar (eða vísar að götum) virðast hafa gengið undir þessum stofnanalegu heitum. Þannig má sjá í Nýja dagblaðinu í október 1936 að kviknað hafi í húsinu C-götu 1. Fyrr í sama mánuði er tilkynning í Nýja dagblaðinu um að næturlæknir á vakt sé Axel Blöndal, D-götu 1 (síðar Mánagötu 1).

Lausleg og afar óvísindaleg leit á Tímaritavefnum sýnir vísanir til húsa við A-götu, B-götu o.s.frv. allt frá maí 1936, en nafngiftirnar gætu samt hæglega verið eitthvað eldri.

Eftir stendur þessi skemmtilega vitneskja – að Mánagatan hét upphaflega D-gata. Og í ljósi þess hvað borgaryfirvöldum er mikið í mun að færa nöfn opinberra svæða til eldra horfs þyrfti ég ekki að vera hissa þótt nýi meirihlutinn breyti þessu aftur á næstunni. Það má svo sem alveg venja sig við það að búa í D-götu 24.

Velheppnuð forræðishyggja

Fimmtudagur, ágúst 26th, 2010

Áhugaverð staðreynd úr iþróttasögunni:

Íslendingar bönnuðu hnefaleika árið 1956 og fylgdu því banni stíft eftir.

Hnefaleikamenn voru stúrnir yfir þessu, en urðu að leita sér að annarri íþrótt í staðinn. Sú grein var júdó, sem óx hratt hér á landi næstu árin á eftir – raunar mun hraðar en í löndunum í kringum okkur.

Fyrir vikið urðu Íslendingar hörkugóðir júdómenn. Íslendingur komst á verðlaunapall árið 1984 og litlu mátti muna að það sama hefði gerst fjórum árum fyrr. Bronsið í Los Angeles telst einn af hápunktum íslenskrar íþróttasögu. Segið svo að boð og bönn skili aldrei neinu!

Newport County (b)

Þriðjudagur, ágúst 24th, 2010

Í kvöld gerði Luton sitt fyrsta jafntefli í 5tu deildinni. Erum því með tíu stig eftir fjóra leiki, reyndar einir í efsta sæti eftir að Wimbledon tapaði sínum leik. Luton og Wimbledon hafa hvorugt leikið í Evrópukeppni. Keppnisbannið sem skellt var á ensku liðin eftir að Liverpool-bullurnar komu af stað blóðbaðinu í Brussel, gerði það að verkum að þessi lið misstu af því að keppa á þeim vettvangi.

Andstæðingar Luton í kvöld hafa hins vegar tekið þátt í Evrópukeppni og voru meira að segja hársbreidd frá því að fara í undanúrslitin. Þeim árangri náði Newport County í byrjun níunda áratugarins, með John Aldridge fremstan í flokki.

Newport er frá Wales og er eitt af 6-7 velskum liðum sem kosið hafa að leika í enska fótboltapíramídanum (UEFA til sárrar skapraunar). Þessi lið tóku lengi vel þátt í velsku bikarkeppninni og gátu sem slík unnið sér keppnisrétt í Evrópukeppni bikarhafa. Sú kynduga staða gat því komið upp að evrópsk stórlið kepptu við lið úr 3ju eða 4ðu deild enska boltans – og furðu oft náðu Walesverjarnir góðum úrslitum.

Undir lok níunda áratugarins lenti Newport í verulegum peningavandræðum. Liðið féll úr 4ðu deildinni og var að lokum gert gjaldþrota. Slíkt er afar fátítt. Þótt það sé nánast föst regla að atvinnufótboltalið séu meira og minna á hausnum, þá er þeim nánast alltaf bjargað á síðustu stundu. Newport County var hins vegar lagt niður, Ég man eftir að hafa lesið fréttir um þetta í Shoot og Match af miklum áhuga, enda héldu menn að þetta væri bara byrjunin á skriðu gjaldþrota – sem ekki varð.

Sama ár var liðið endurstofnað undir nálega sama nafni, mörgum deildum neðar. Þeim tókst með harmkvælum að knýja það í gegn að fá að spila áfram Englandsmegin landamæranna. (Afar ólíklegt er að nýju velsku liði yrði leyft það í dag.) En leiðin til baka var löng.

Í vor komst Newport upp í 5tu deildina í fyrsta sinn frá gjaldþrotinu fyrir rúmum tuttugu árum. Stuðningsmenn Luton eru svekktir yfir að hafa ekki unnið leikinn í kvöld, ekki hvað síst eftir að vítaspyrna fór í súginn undir lokin. En Newport er víst með fínt lið og enginn þyrfti að vera hisa þótt gamla liðið hans Aldridge verði komið aftur í deildarkeppnina innan 4-5 ára. Svona hefur fótboltinn nú tilhneigingu til að leita aftur í sama farið að lokum.

Grænland

Þriðjudagur, ágúst 24th, 2010

Það eru miklar gleðifregnir að draumur Grænlendinga um að verða olíuríki virðist loks vera að rætast. Þessu fagna allir góðir menn.

Best er að þá munu Grænlendingar loksins geta sagt Dönum hvert þeir mega troða yfirráðum sínum. Fátt er ömurlegra að heyra en hvernig margir Danir tala um Grænlendinga.

Grænlendingar eru jafnt og þétt að öðlast pólitískt sjálfstæði undan Dönum. Mér sýnist þeir þó vera það miklir royalistar að lýðveldisstofnun er ólíkleg. Danska konungsættin hefur nefnilega ræktað tengslin við Grænland og komið reglulega í heimsókn – það bræðir yfirleitt jafnvel hörðustu sjálfstæðissinna. (Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að ef danska kóngafólkið hefði komið í reglulegar heimsóknir til Íslands eftir 1874 – væri vel mögulegt að Íslendingar væru enn í konungssambandi við Dani. Íslandsreisurnar voru einfaldlega of fáar og byrjuðu of seint.)

Menningarlega verða Grænlendingar enn undir dönsku valdi. Grænlensk vinkona mín frá því að ég var í Edinborg – gallharður sjálfstæðissinni – taldi að það mikilvægasta fyrir sjálfstæðisbaráttu Grænlendinga væri að þjóðin lærði betri ensku. Meðan menn töluðu bara grænlenskuna og dönskuna yrði Kaupmannahöfn alltaf eini gluggi þeirra til umheimsins. Íslendingar myndu gera vel í því að bjóðast til að verða annar gluggi fyrir grannann í vestri.

Fréttirnar af olíufundinum hafa þó einn galla. Um leið og farið verður að fjalla um þessi mál í íslenskum fjölmiðlum, er alltaf sú hætta fyrir hendi að upp gjósi ómeðvitaður rasismi, klæddur í búning föðurlegrar umhyggju. Við eigum eftir að fá fréttaskýringar þar sem rætt verður um auðlindir Grænlendinga, en um leið látið að því liggja að þeir séu ekki „undir þau búnir“ – þar sem undirtónninn verður sá að samfélag þeira sé í raun ófært um að sjá um sig sjálft og myndi leysast upp í alkóhólisma og félagsleg vandamál ef ekki kæmi til verndarhendi Dana a.m.k. næstu áratugina.

Því fyrr sem Grænlendingar taka stjórn sinna mála í eigin hendur, því betra.

1979 aftur? (b)

Mánudagur, ágúst 23rd, 2010

Haukar Hafnarfirði eru í efstu deild karlafótboltans í annað sinn í sögu sinni. Fyrra skiptið var 1979, en þá eins og nú fóru þeir „óvart“ upp og voru kjöldregnir.

1979 unnu Haukar einn einasta leik allt sumarið, þar var seint í mótinu. Sá leikur varð hins vegar afdrifaríkur, því eini sigurleikur Haukanna var gegn ÍA sem henti þar með frá sér Íslandsmeistaratitlinum. Fyrir vikið urðu Eyjamenn Íslandsmeistarar í fyrsta sinn.

Í kvöld unnu Haukar sinn fyrsta sigur – gegn liðinu í 2.sæti, Breiðablik. Og eins og staðan er nú gæti vel farið svo að ÍBV verði fyrir vikið Íslandsmeistari… Velkomin til 1979.

Fótboltagetraun (b)

Mánudagur, ágúst 23rd, 2010

Getraun þessa mánudags tengist enska boltanum:

Á dögunum fékk nýjasta eintakið af When Saturday Comes, sem er skemmtilegasta enska fótboltablaðið að mínu mati. Með blaðinu var fylgirit þar sem farið var yfir liðin í fjórum efstu deildum enska boltans og skosku úrvalsdeildinni. Rætt var við einn stuðningsmann hvers liðs og hann spurður út í væntingar sínar og hvaða menn yrðu í sviðsljósinu.

Samtals eru þetta 92 lið í Englandi og 12 í Skotlandi eða alls 104 félög. Samt er bara talað við 103 stuðningsmenn. Og nú er spurt: hvaða félag vantaði í þessa upptalningu WSC? (Hér þarf ekki að giska út í loftið, heldur er rökrétt skýring á þessu, ef að er gáð.)

…það má líka láta fylgja með skýringu á þessu fráviki.

Skriftarstóllinn

Sunnudagur, ágúst 22nd, 2010

Hvellurinn út af Geirs Waage-málinu vekur upp ýmsar spurningar fyrir okkur sem ekki þekkjum launhelgar kirkjunnar.

Þegar er búið að spyrja augljósu spurningarinnar: hvort sr. Geir myndi virkilega ekki tilkynna það ef hann fengi upplýsingar um pedófíl? Geir segir svo ekki vera.

Næsta spurning væri svo til sr. Bjarna Karlssonar og félaga, sem krefjast brottreksturs kollega síns: hvar þeir vilji þá setja mörkin varðandi trúnaðarskylduna? Erum við bara að tala um brot sem snúa að börnum? Myndi sr. Bjarni tilkynna um líkamsárás gagnvart fullorðnum einstaklingi? Myndi hann fletta ofanaf fíkniefnasala? – Þetta þarf sr. Bjarni að skilgreina býsna nákvæmlega. Annars er þagnarskylda hans nálega ónýt, eins og sr. Geir bendir á.

Þriðja og stærsta spurningin hlýtur þó að vera sú: hvort nokkur maður skrifti hjá lútersku þjóðkirkjunni? Einhvern veginn hljómar það frekar eins og óskhyggja kirkjunnar að skúrkar landsins keppist við að trúa sóknarprestum sínum fyrir ódæðum sem farið hafa fram hjá löggunni og félagsmálayfirvöldum? Eru menn ekki frekar að lýsa plotti úr e-m Law & Order-þættinum en hversdagslegum veruleika íslenskra sálnahirða?

Frímerki og höfundarréttur

Laugardagur, ágúst 21st, 2010

Fyrir nokkrum árum kom ég að því í vinnunni að gefa út póstkort með myndum af gömlum frímerkjum sem sýndu íslenskar virkjanir. Þetta voru glæsileg frímerki og póstkortin reyndust afar vinsæl.

Áður en farið var í prentunina vöknuðu hins vegar spurningar um hvort ekki þyrfti að fá leyfi fyrir útgáfunni. Ég lagðist í símann og náði tali af einhverjum deildarstjóra hjá Póstinum sem hafði frímerkjamál á sinni könnu. Þetta varð bráðskemmtilegt símtal, þar sem ég fékk lærðan fyrirlestur um eitt og annað tengt frímerkjafræðum.

Strax í upphafi símtalsins fékk ég reyndar að vita að fyrirspurnin væri óþörf. Ég var fræddur um það að samkvæmt alþjóðlegum póstsáttmálum, væri öllum heimilt að birta myndir af frímerkjum án þess að hefðbundnar höfundarréttarreglur giltu (nema þá mögulega varðandi sæmdarrétt) – þó aðeins þannig að myndin sýndi allt frímerkið. Um leið og mynd væri klippt út af frímerki, gæti önnur staða komið upp.

Þetta finnst mér áhugaverðar upplýsingar, sem gætu haft hagnýtt gildi.

Íslenska Wikipedian er afar fátæk af myndskreytingum (og það sama gildir um greinar á erlendum Wikipedium um íslensk málefni). Ástæðan eru þær ströngu kröfur sem gerðar eru til myndefnis á Wikipediunni með tilliti til höfundarréttar. Með því að túlka íslensk höfundarréttarlög mjög þröngt, en nær vonlaust að reyna að nota myndefni á netinu. – Hér gæti frímerkjaglufan því komið sér vel.

Íslenska póstþjónustan hefur gefur gefið út fjölda frímerkja með myndefnum sem tengjast sögu, menningu, náttúrufræði eða atvinnuháttum Íslendinga svo eitthvað sé nefnt. Vaskir Wikipediu-liðar gætu því væntanlega tekið myndir af frímerkjum í stórum stíl og hlaðið inná hinn sameiginlega myndabanka Wikipediunnar. Það gæti snarbætt myndaúrvalið á þeim bænum.