Archive for september, 2010

Góð ábending hjá Þorleifi

Miðvikudagur, september 29th, 2010

Vek athygli á þessari frétt Smugunnar um góða ábendingu Þorleifs Gunnlaugssonar. Reyndar er fyrirsögn fréttarinnar röng. Þorleifur er svo sannarlega ekki að fara fram á að þrengt verði að bandaríska sendiráðinu – heldur þvert á móti að sendiráðið hætti að þrengja að nágrönnum sínum.

Bandaríska sendiráðið hefur um árabil hegðað sér eins og það ráði – ekki aðeins yfir eigin húseign, heldur líka yfir lóðum nágrannanna og götunni fyrir framan húsið. Það hefur m.a. leitt til handtöku saklausra mótmælenda eins og Lalla sjúkraliða, sem frægt er orðið.

Þorleifur hittir því naglann á höfuðið þegar hann bendir á að rétt sé að fjarlægja tafarlaust þessa vegartálma sem sendiráðið hefur látið koma upp. Að öðrum kosti getur bandaríska utanríkisráðuneytið bara keypt sér húsnæði með garði.

Millinöfn

Miðvikudagur, september 29th, 2010

Millinöfn eru stundum flókin.

Til dæmis man ég aldrei almennilega – G-ið í nafni Björgvins G. Sigurðssonar…

…hvort stendur það aftur fyrir: Grandvar eða Grunlaus?

Af berjum

Mánudagur, september 27th, 2010

Eins og flest skynsamt fólk ætti að geta verið sammála um, eru krækiber miklu betri en t.d. bláber. Svo miklu betri að í raun verðskulda þau að vera valin þjóðarber Íslendinga.

Vek athygli á þessari fésbókargrúppu um þetta mikilvæga málefni!

Þúsundárahúsið

Föstudagur, september 24th, 2010

Var að lesa mér til um byggingarsögu Vífilsstaðaspítala, þegar ég rakst á ræðu Guðmundar Björnssonar sem haldin var í reisugillinu síðla árs 1909. Þar hefur Guðmundur stór orð um hve reisulegt mannvirkið sé og setur í samhengi við húsagerðarsögu Íslendinga.

Hann hóf mál sitt á að ræða um ævagömul mannvirki í öðrum menningarsamfélögum sem væri haldið við til minningar um dugnað forfeðranna. Hér væri slíku ekki til að dreifa:

„Við vitum vel hvað verða mun; áður en þessi nýrunna öld er liðin á enda, verða öll torfhúsin okkar fallin og ekkert eftir af timburhúsunum nema þá fáeinir kumbaldar, grautfúnir, skakkir og skældir, okkur til skammar. Og þessi fáu steinhús, sem til eru — þau kunna að geta staðið af sér eina eða tvær aldir, sum þeirra, ef vel lætur.“

En með byggingu Vífilsstaðaspítala, taldi Guðmundur, hefði Ísland loks eignast hús sem vænta mætti að gæti staðið í 1.000 ár: „Jafn traust hús hefir aldrei verið reist hér á landi: það stendur á klöpp og er alt ein klöpp, í hólf og gólf. ein steinstorka, svo trygg og traust, að henni er eflaust óhætt í þúsund ár, ef jörðin skekur hana ekki af sér, eða niðjar okkar hætta að unna henni sóma og viðhalds.“

Og það er óhætt að segja að læknirinn hafi horft langt fram í tímann: „Farnist því vel — þessu veglega minnismerki núlifandi kynslóðar; standi það heilt á húfi öld eftir öld. í þúsund ár; verði það jafnan athvarf þeirra, sem sjúkir og bágstaddir eru; gefi það gæfan, að húsið standi óhaggað 13. nóv. 2909, og þá verði uppi íslenzkir menn, okkar niðjar, er minst geti með fögnuði umliðinna alda, en ekki með harmi, eins og við hljótum að gera.“

2909 er enn langt undan og miðað við núverandi ásigkomulags Vífilsstaðaspítala má teljast ólíklegt að draumur Guðmundar Björnssonar verði að veruleika. En hvaða mannvirki 20.aldar ætli lifi það að standa í 1.000 ár? Það koma nú ekki mörg hús upp í hugann.

Hjónaband/vistarband

Miðvikudagur, september 22nd, 2010

Fréttin af brasilísku konunni sem stugga á úr landi eftir að hún skildi við eiginmann sinn er ömurleg.

Sjálfur kannast ég við konu sem var í sömu stöðu. Hún giftist íslenskum manni, eignaðist með honum barn og bjó sér heimili á Íslandi. Hún kepptist við að læra tungumálið, réð sig í vinnu og plumaði sig vel.

Hjónabandið fór ekki eins vel. Það varð fljótlega ástlaust – eins og gengur. Ekki það að karlinn hafi verið neitt fúlmenni, ofbeldismaður eða annað slíkt – hann var bara venjulegur labbakútur og þetta gekk ekki upp… svona eins og gengur. Fljótlega var hún komin í þá stöðu að telja niður árin þangað til hún fengi ríkisborgararétt til að geta slitið hjónabandinu án þess að eiga það yfir höfði sér að vera vísað úr landi.

Það gerist varla ömurlegra.

Nú geri ég mér grein fyrir því að skoðanir fólks á því hversu opið Ísland skuli vera fyrir fólki frá öðrum heimshlutum eru skiptar. Sumir vilja opna landamærin til fulls – aðrir halda þeim sem lokuðustum. Gott og vel, um þetta má þá rífast fram og til baka…

En er ekki óhætt að slá því föstu að þorri Íslendinga vilji að það fólk sem hefur af margvíslegum og ólíkum orsökum lent hér á skerinu, búið sér heimili, unnið hér um árabil og eignast vini eða jafnvel fjölskyldu – fái að búa hér áfram? Í alvöru talað, eru það meira en 10-15% landsmanna sem styðja það í raun og veru að útlendingar sem búa hér og starfa séu sendir úr landi vegna þess að þeir skilja við maka sinn eða eru á launatöxtum sem ná ekki viðmiðunum Útlendingastofnunar? Ég vil a.m.k. trúa því að svo sé ekki.

Og ef þetta er vilji þjóðarinnar – hver er þá tilgangurinn með því að benda á að reglurnar séu eins og þær eru og stundum sé heimurinn ósanngjarn? Er þá ekki einfaldlega málið að gera undantekningar frá reglunum og breyta þeim svo í samræmi við vilja fólksins og stefnu ráðandi stjórnmálaafla? Gengur pólitík ekki einmitt út á það?

Sálarangist þingmanna

Þriðjudagur, september 21st, 2010

Birna Gunnarsdóttir frænka mín skrifaði hörkugóða grein í Fbl. um helgina sem hefði mátt fá mun meiri athygli. Þar ber hún saman annars vegar mál nímenninganna sem nú eru fyrir dómstólum fyrir atbeina þingsins, eftir að hafa verið kærðir með slembiúrtaki úr mun stærri hópi fólks og sem dæma á eftir gömlum landráðalögum en hins vegar mál þrí- eða fjórmenninganna sem þingskipuð nefnd stingur upp á að verði dregnir fyrir landsdóm.

Í umræðunum um landsdómsmálið kemur oft upp hversu hræðilega erfitt það sé nú fyrir þingmenn að setja sig í stellingar ákæranda og þó að þingið hafi raunar staðið einhuga að þessari málsmeðferð, sé það í raun hálfgert ómark og lögin asnaleg… svona eftir á að hyggja.

Þessi mikla sálarangist er ekki í samræmi við afstöðu þingmanna þegar kemur að máli fólksins sem ætlaði að taka til máls á þingpöllum, eins og mótmælendur hafa áður gert, en sætir nú ákærum sem taka mið af því að þau hafi ætlað að kollvarpa stjórnskipan landsins. Björn Valur Gíslason hefur lagt fram ágæta og velrökstudda þingsályktunartillögu vegna þessa. Mér vitanlega hefur hún ekki hlotið stuðning neinna annarra en þingmanna VG (þó ég vænti þess raunar að þingmenn Hreyfingarinnar og a.m.k. Mörður Árnason séu sama sinnis). Þessi tillaga hefur enn ekki fengist rædd, að mér skilst ekki hvað síst vegna andstöðu þingforseta.

Sveitarafstöðvar

Mánudagur, september 20th, 2010

Þegar ég segi fólki sem komið er yfir miðjan aldur frá því hvað ég starfi við, fæ ég ótrúlega oft viðbrögðin: „Aha – orkusaga. Hvernig er það, hefur eitthvað verið fjallað almennilega um sveitarafstöðvavæðinguna íslensku?“

Viðbrögð mín við þessari spurningu eru yfirleitt á þá leið að stama e-ð um að það hafi nú verið skrifað eitthvað aðeins um Bjarna í Hólmi, auk þess sem gerð hafi verið heimildarmynd um störf hans. Þá hafi Þórólfur Árnason, fv. borgarstjóri, skrifað ágæta grein um sveitarastöðvar í einni sveitinni á Suðurlandinu. Að öðru leyti dettur mér ekki margt í hug.

Fyrir helgi rak ég nefið inn á Þjóðskjalasafnið. Tilefnið var að langsótt ágiskun um að hægt væri að finna þar upplýsingar um gamla dísilrafstöð á Hellu og vindmyllu sem var kannski sett þar upp árið 1940. Sú leit bar ekki árangur.

Hins vegar komst ég í skjalabunka frá Rafmagnseftirliti ríkisins frá fjórða áratugnum, þar sem sendur hafði verið út spurningalisti til eigenda vatnsaflsvirkjanna til sveita. Það reyndist hreinasta veisla.

Ég hafði ekki hugmynd um að svona góðar og nákvæmar upplýsingar væru til og lægju á lausu. Þarna eru upplýsingar um byggingarár, hönnuði, afltölur, rekstrarvandamál, sparnað o.s.frv. Þessi gögn, sem liggja bara og bíða eftir að þeim sé sinnt, eru frábært efni í BA-ritgerð í sagnfræði hið minnsta og borðleggjandi fyrir alla þá sem rita sögu einstakra héraða og sveita á Íslandi.

…en ekkert um Hellu, illu heilli.

Handklæði (b)

Föstudagur, september 17th, 2010

Fór í kvöld á Ölver og horfði á Luton rúlla yfir Wimbledon, 3:0. Leikurinn var reyndar furðu fjörugur og spennandi þrátt fyrir muninn.

Annað markið okkar var skalli í bláhornið eftir langt innkast. Jake Howells,einn miðjumanna Luton, tekur innköst sem minna á Rory Delap í úrvalsdeildinni og olli miklum usla í hvert sinn sem hann kastaði boltanum inn í miðjan vítateig.

Eins og þegar Delap tekur innköstin sín á heimavelli Stoke, hljóp alltaf vallarstarfsmaður til Howells með handklæði og gaf hann sér góðan tíma til að þurrka boltann áður en látið var vaða.

Í mínum huga jaðrar þetta við að vera svindl. Ekki stökk neinn boltastrákur til þegar Wimbledon fékk innköst og rétti viðkomandi handklæði. Geri það að þurrka boltann leikmanninum auðveldara fyrir að henda honum langt er því um mismunun að ræða. Hefur aldrei verið rætt um að taka á þessari handklæðavitleysu?

Mánuður í Montevideo – II. hluti (b)

Sunnudagur, september 12th, 2010

Seinni hluti umfjöllunar um bók Hyper Jawads um HM í Uruguay 1930:

Keppnisliðin í Uruguay voru þrettán. Aðeins tvö þeirra áttu nokkra möguleika á að hampa Níke-styttunni: Uruguay og Argentína. Þriðja besta liðið reyndust vera Bandaríkjamenn. Lið þeirra var geysilega vinsælt hjá heimamönnum (enda Bandaríkjamenn almennt mikils metnir á þessum tíma). Bandaríska liðið var skipað stórum og stæðilegum mönnum, sem gáfu af sér góðan þokka.

Það er útbreiddur misskilningur að Bandaríkjamenn hafi teflt fram samtíningsliði, einkum breskra innflytjenda, með sáralítil tengsl við hið nýja föðurland. Hið rétta er að bandarísk knattspyrna var á góðu róli á þessum árum og hafði yfir að búa ágætum félagsliðum. Landsliðið var hins vegar lítt samhæft og hafði ekki keppt opinberan landsleik í tvö ár.

HM 1930 var haldin undir lok þess tíma þegar 2-3-5 var ráðandi leikkerfi. Bandaríkjamennirnir léku hins vegar eitthvað sem frekar mátti lýsa sem 7-0-3, margir leikmenn vörðust mjög djúpt – en svo var sótt hratt fram á mörgum mönnum þegar boltinn vannst. Þetta leikkerfi var talið mjög frumstætt, nánast barnalegt, en kanarnir komust upp með það vegna líkamlegs styrks.

Besta vísbendingin um styrk bandaríska liðsins var stórsigur þeirra á Paraguay í riðlakeppninni, 3:0. Paraguay var talið þriðja sterkasta Suður-Ameríkuliðið og gerði sér vonir um gott gengi á mótinu. Jawad heldur því fram að Bandaríkin og Paraguay hafi bæði verið sett í 1.styrkleikaflokk – en Brian Glanville talar bara um Paraguay í þessu samhengi.

Brasilía var fimmta liðið í efsta styrkleikaflokki (eða fjórða eftir því hvorum við kjósum að trúa). Enn var þó langur vegur í að Brasilíumenn næðu þeim styrk sem flestir tengja þá við. Brasilíska landsliðið var einungis skipað leikmönnum frá Rio de Laneiro. Brasilía hafði ekki leikið opinberan landsleik í fimm ár og þjálfarinn hitti liðið varla nema rétt fyrir mót. Þrátt fyrir þetta skipulagsleysi var búist við því að Brasilíumenn færu hæglega áfram í undanúrslitin.

Júgóslavía (sem var í raun bara úrvalslið Serba) slökkti vonur Brasilíumanna, sem voru fallnir úr keppni áður en setningarathöfnin fór fram. Júgóslavneska liðið var kornungt, með flesta leikmenn rétt um tvítugt. Ótvrírætt er að heima í Evrópu sátu miklu sterkari landslið.

Heimamenn í Uruguay voru ótvírætt sigurstranglegastir. Rétttrúnaðarmenn í fræðunum vilja meina að Uruguay hafi fjórum sinnum orðið heimsmeistari – þar sem 1924 og 1928 ´ÖL-leikarnir hafi haft formlega viðurkenningu FIFA sem heimsmeistaramót. Hvað sem því líður, þá var litið svo á að Uruguay mætti til leiks sem ríkjandi meistarar. Liðið var lítið breytt frá því á ÓL 1928 – sem var kannski helsta vandamálið: aldurinn var farinn að færast yfir marga leikmenn.

Gengi Argentínu – segir Jawad – stóð og fell með einum manni: Luisito Monti. Monti var frægasti en umdeildasti leikmaður Suður-Ameríku. Hann var gríðarlega harðsnúinn afturliggjandi miðjumaður sem tók þó oft fullan þátt í sókninni. Þegar Monti náði sér á strik, lágu andstæðingarnir eins og hráviði – og það gat reynst dýrmætt á tímum þar sem bannað var að skipta inná varamönnum.

Í hugum nútímafótboltaáhugamannsins er þessi regla nánast óskiljanleg. Lið voru beinlínis verðlaunuð fyrir grófan leik. Í leikjunum átján á HM 1930 fótbrotnuðu þrír – sem er mjög hátt hlutfall. Þar til viðbótar þurftu allnokkrir leikmenn að yfirgefa völlinn vegna meiðsla eða spila meiddir – stundum heilu og hálfu leikina.

Luisito Monti lagði sitt af mörkum við þessar limlestingar. Sigur Argentínumanna á Frökkum í riðlakeppninni, sem fyrirfram var talið formsatriði, skýrðist fyrst og fremst af ljótum brotum Suður-Ameríkumannanna og herfilegum dómaramistökum. Á sama hátt átti bandaríska liðið í fullu tré við Argentínu í undanúrslitunum á meðan bæði lið voru fullskipuð.

Þegar kom að úrslitaleiknum var Monti hins vegar ekki nema skugginn af sjálfum sér. Hann hafði fengið ítrekaðar morðhótanir fyrir leikinn, sem beindust bæði að honum og móður hans. Við það bættist að argentínski þjálfarinn veðjaði á tvo tæpa menn í leikinum. Sú tilraun misheppnaðist.

Það er þó óþarfi að gera lítið úr afreki Uruguay-manna, sem voru klárlega besta liðið. Því miður voru vonbrigði heimamanna með að megnaið af Evrópuliðunum hefðu neitað að koma slik að landið neitaði að taka þátt í HM 1934 og 1938. Það hefði verið mjög fróðlegt að sjá hvaða árangri meistararnir hefðu náð þar.

Um óðu mennina

Laugardagur, september 11th, 2010

Andri Snær Magnason skrifar mikla grein í Fréttablaðið í dag, sem allir ættu að lesa. Sérstaklega þeir sem munu aldrei gera það.

Í greininni víkur Andri að einu og öðru varðandi þróun íslenskra orkumála síðustu árin. En hann kemur líka inn á Einar Ben…

Virkjunarhugmyndir Einars Ben og félaga í Þjórsá voru með hreinum ólíkindum. Virkjanaröðin samkvæmt þessum hundrað ára gömlu hugmyndum hefði gefið af sér afl eins og Kárahnjúkavirkjun. Allt reist með tækni og búnaði áranna upp úr 1900.

Það er alveg rétt hjá Andra Snæ að þessar hugmyndir voru rugl. Algjör steypa (í eiginlegri og óeiginlegri merkingu) og raunar gjörsamlega galnar. Þær voru svo galnar að maður ætti eiginlega ekki að sýna þeim þá virðingu að byrja á að benda á hvar galskapurinn byrjar.

Þetta vita í raun allir þeir sem hafa skrifað um sögu rafvæðingarinnar á Íslandi – hvort sem er í bókum, á sýningum eða öðrum vettvangi. (Og það er raunar ótrúlega stór hópur. Það eru glettilega margar bækur sem komið hafa út um íslenska raforkusögu.)

En það segir þetta samt enginn. Langar greinar hafa verið skrifaðar um fossadraumana í upphafi tuttugustu aldar. Sagnfræðingar hafa stúderað viðskiptaævintýri EInars Ben. – þannig var miðbindið í trílógíu Guðjóns Friðrikssonar um skáldið nær einvörðungu um þær æfingar (og var langbesta bókin í bókaflokknum, þótt almenningi þætti hún minnst spennandi). Og svo eru það öll yfirlitsritin um sögu stóru veitufyrirtækjanna…

Alltaf víkja menn að Einari Ben og alltaf á sama hátt. Hugmyndirnar eru annað hvort teknar alvarlega og leitað skýringa á því hvers vegna þær strönduðu (pólitísk andstaða hér heima er vinsæll sökudólgur) – eða hugmyndirnar eru afgreiddar kurteislega sem „stórhuga“, „ef til vill of metnaðarfullar“ eða „á undan sinni samtíð“. Ég hef sjálfur kóað með í þessu. Það hanga myndir af Einari Ben og einni af fyrirhuguðum virkjunum Títans-félagsins uppi á vegg á Minjasafninu ásamt e-m almennt orðuðum texta um metnað og stórhug.

Ég er alltaf að hitta fólk í tengslum við vinnuna – reyndar eiginlega bara karlmenn um og yfir miðjan aldur – sem fer að ræða um Einar Ben og stóru virkjunaráformin. Voru Íslendingar ekki bara of miklir molbúar fyrir þetta? Hvað hefði breyst ef…?

Einhverra hluta vegna er ruglið í Einari Ben meðhöndlað í sögunni sem alvöru tillögur sem hefðu getað komið til framkvæmda, á meðan álíka loftkastalasmíð Sigurðar málara um þróun Reykjavíkur er afgreidd eins og vera ber: sem draumórar listamanns með ríkara ímyndunarafl en veruleikaskyn.

Allir sagnfræðingar? Sagði ég allir sagnfræðingar? Afsakið… allir nema einn. Skúli Sigurðsson vísindasagnfræðingur er einn klárasti maður sem ég hef kynnst. Fyrir mörgum árum vann hann að ritun rafvæðingarsögu sem hvorki hann né verkkaupinn – íslensku veitufyrirtækin – báru gæfu til að klára.

Skúli afgreiddi Einar Ben snyrtilega í handriti sínu. Skaut hann einfaldlega í kaf og neitaði að kóa með bullinu. Fyrir 15-20 árum var engin stemning fyrir því hjá íslenskum raforkuköllum að afbyggja Einar Ben, sem aftur kann að vera hluti af skýringunni á að handritið var aldrei klárað og búið til útgáfu.