Archive for október, 2010

Þegar langafi drap trúarbragðasöguna

Fimmtudagur, október 28th, 2010

(Þetta er efnislega endursögð nokkurra ára gömul bloggfærsla í ljósi umræðna síðustu daga.)

Stóra umræðuefni vikunnar í þjóðfélaginu eru samskipti kirkjunnar og skólanna – hvað sé boðun og hvað sé fræðsla. Þetta er raunar frábært hlé frá öllu vaxta- og afskriftaþvarginu. Málið er mér skylt. Langafi drap nefnilega á sínum tíma kennslu í trúarbragðasögu á Íslandi.

Langafi, Steinþór Guðmundsson, var kristilegur félagi í Ungmennafélagshreyfingunni sem varð kommúnisti með tímanum. Hann átti sér ungur þann draum að verða stærðfræðingur eða fara út í verkfræði – en veiktist illa og þurfti því að rumpa af guðfræðinni í hvelli til að fá kennsluréttindi. Það gerði hann með vinstri hendi á tveimur árum og varð efstur í árgangnu.

Afi, Haraldur Steinþórsson, var á sömu slóðum og pabbi sinn í pólitík en ekki í trúmálum. Reyndar fermdust hvorugur afa minna. Annar af því að hann var orðinn kommúnisti um fermingu – hinn af því að hann var lágvaxinn og óttaðist að verða fermdur í matrósafötunum (segir brandarinn í fjölskyldunni amk).

Þegar Haraldur afi var í MR, var trúarbragðasaga á námsskránni. Hún var kennd á einu misseri og var kennsluefnið sænsk bók sem rakti grunnatriðin í heimsmynd og kennisetningum allra helstu trúarbragða heims. Menntskælingarnir voru hins vegar ekki vanir að lesa á sænsku og börmuðu sér óskaplega yfir kverinu.

Langafi heyrði kveinstafina í afa og fékk bókina lánaða. Hann gekk svo í að snara textanum yfir á íslensku, vélritaði upp og gaf svo út í ódýru broti fyrir eigin reikning. Þar með voru örlög námsgreinarinnar ráðin. Tyrfna sænska bókin sem áður hafði dugað í heilt misseri var nú svo fljótlesin að hver sem var gat klárað hana á svipstundu. Fyrir vikið var trúarbragðasagan tekin af námsskránni og kennslustundirnar notaðar í eitthvað annað.

Ég leyfi mér að fullyrða að kennsla um önnur trúarbrögð hafi upp frá þessu ekki verið skyldunámsgrein í íslenskum framhaldsskólum og þar er við langafa að sakast.

Bath tapar… (b)

Þriðjudagur, október 26th, 2010

Í kvöld fylgdist ég með Twitter-uppfærslum stuðningsmanna Bath City af leik þeirra gegn Swindon Supermarines í forkeppni bikarsins. Ég var nær örugglega eini Íslendingurinn sem varði kvöldinu í þetta.

Bath tapaði, 3:4 á heimavelli gegn liði sem er einhverjum tveimur deildum fyrir neðan þá. Þessum úrslitum fagnaði ég mjög – af fullkomlega eigingjörnum ástæðum.

Þannig er mál með vexti að fyrstu helgina eftir áramót á ég flugmiða til Englands. Einn megintilgangur fararinnar er hópferð (jújú, fjórir er hópur) á leik með Luton. Þessa helgi á Luton einmitt að spila á útivelli gegn Bath.

Það flækir málið hins vegar að sömu helgi verður þriðja umferð bikarkeppninnar leikin. Komist Luton þangað, verður væntanlega reynt að sveigja ferðaáætlunina að staðsetningu bikarleiksins (með fyrirvara um að ekki verðið leikið uppvið skosku landamærin). Sá martraðarkenndi en fjarstæðukenndi möguleiki var hins vegar fyrir hendi að Luton félli úr keppni í næstu eða þarnæstu umferð, en Bath kæmist í 3ju umferðina. Þá hefðum við verið aulalegustu strandaglóparnir í Englandi með ekkert annað fyrir stafni en að ráfa milli H&M-búða milli þess tékkað væri á ale-úrvalinu.

En nú er sú hætta fyrir bí. Mestar líkur eru á að hið fríða föruneyti heimsæki menningarborgina Bath, en ef Luton vinnur Corby um aðra helgi og verður heppið með drátt í annarri umferð gæti bikarleikur orðið fyrir valinu.

# # # # # # # # # # # # #

Já, meðan ég man. Orkuveitan lokaði sjoppunni hjá mér. Tek við atvinnutilboðum ef einhver lumar á sniðugum uppástungum.

Hjólastólahandbolti

Laugardagur, október 23rd, 2010

Þessi fréttatilkynning frá HK er stórmerkileg. Með þessu hefur HK formlega tekið upp hjólastólahandbolta á íþróttaskrá sína. Hér er um tímamótaviðburð að ræða. Til þessa hafa íþróttir fatlaðra verið rækilega afmarkaðar í sérstökum íþróttafélögum fatlaðs fólks. Mér sýnist að HK verði því fyrsta hefðbundna íþróttafélagið til að taka þessar greinar inn til sín á jafnréttisgrundvelli.

Ég sem Framari verð pínkulítið öfundsjúkur við lestur fréttarinnar. Nú er ljóst að hjólastólahandboltalið HK verður að hafa einhverja andstæðinga, ef vel á að vera. Væri ekki rakið að það yrðu Framarar? (Reyndar er ég ekki viss um að íþróttahúsið í Safamýrinni sé fyllilega aðgengilegt fyrir stóra hópa fólks í hjólastólum – en nýja íþróttahúsið í Úlfarsárdalnum mætti amk hanna með þetta í huga frá upphafi…)

Forsíðan

Laugardagur, október 23rd, 2010

Hinn annars frábæri Tímaritavefur Landsbókasafnsins er ekki gallalaus. Þannig er aðeins aðra forsíðu Moggans þann ellefta janúar 2004 þar að finna. Það er hasarforsíðan um „heimsviðburðinn“ þegar Íslendingar fundu efnavopnin í Írak. Hins vegar er ekki að finna þá útgáfu blaðsins sem áskrifendur úti á landi fengu í hendur, sem er sá hluti upplagsins sem ekki var keyrður á haugana þegar rýma þurfti forsíðuna fyrir þessari meintu stórfrétt.

Maður veltir því fyrir sér hvort Morgunblaðið hafi íhugað að ryðja forsíðuna og prenta nýtt upplag í ljósi uppljóstrana Wikileaks, þar sem sýnt er fram á kerfisbundnar rangfærslur og lygar Bandaríkjahers varðandi stríðið í Írak. Stríð sem er nú sagt hafa kostað 100 þúsund Íraka lífið. (Til samanburðar má nefna að það er tvöföld sú tala sem oft er áætlað að evrópskir trúarnöttarar hafi látið brenna á báli í tíð galdrafársins í Evrópu. Stóðu þau ósköp þó í aldir og eiga fáa meðmælendur.)

En nei, líklegra er að Morgunblaðið telji það áhugaverðara að velta sér upp úr því hvort hinn sjálfhverfi Julian Assagne sé dónakall eða ekki.

Sjóðheitt helvíti

Fimmtudagur, október 21st, 2010

Setti saman texta á heimasíðu Orkuveitunar í tilefni af afmæli Austurbæjarskólans í gær, en Austurbæjarskólinn var sem kunnugt er fyrsta húsið í Reykjavík sem fékk hitaveitu.

Ef til vill hefði ég átt að bæta því við frásögnina að menn treystu nú ekki þessari nýjung betur en svo það var komið fyrir miðstöðvarkatli í kjallara hússins til vonar og vara…

10 sögulegar hagtölur á degi hagtölunnar

Miðvikudagur, október 20th, 2010

1. Árið 1937 voru 478 smásöluverslanir í Reykjavík, það var þá rétt rúmlega helmingur slíkra verslana á landinu öllu.

2. Lýðveldisárið 1944 tóku Reykvíkingar 124.422 bækur að láni hjá Bæjarbókasafninu, þar af 87.258 skáldrit.

3. Hæst brunabótaverð opinberrar byggingar í Reykjavík árið 1951 var á Þjóðleikhúsinu, 16.689.000 kr. Þar á eftir komu Landsspítalinn, aðalbygging Háskólans og Sjómannaskólinn – allar á bilinu 10-11 milljónir.

4. Árið 1942 fóru 29.088 manns í steypibað í Baðhúsi Reykjavíkur, en 1.988 fóru í kerlaug.

5. Veturinn 1943-4 voru 10-11 ára börn í Miðbæjarskólanum um 2-3 sentimetrum hærri að meðaltali en jafnaldrar þeirra í Melaskóla, Austurbæjarskóla og Laugarnesskóla.

6. Árið 1940 töldust 1,5% íbúa Reyjavíkur starfa við eða hafa framfæri sitt af landbúnaði.

7. Minnsta breidd gangstéttar í Reykjavík í árslok 1950 var við Kolasund, 2,0 metrar en gatan sjálf var 5 metrar á breiddina. Amtmannsstræti var einnig meðal þrengstu gatna. Gatan sjálf taldist 5,4 metrar á breidd en gangstéttin 2,8 metrar – sem er til marks um ótrúlega nákvæmni mælingarmannsins.

8. Árið 1951 þáðu sex hjón í Reykjavík framfærslustyrk frá sveitarfélaginu vegna ómegðar en 25 vegna drykkjuskaps og óreiðu. Vanheilsa eða atvinnuleysi voru þó algengustu ástæður þess að hjónafólk þáði sveitarstyrk.

9. Á árinu 1947 gaf lögreglustjórinn í Reykjavík út 23 sveinsbréf í húsasmíði, 30 í hárgreiðslu, 17 í rafvirkjun og 2 í glerslípun og speglagerð.

10. Árið 1945 notuðu um 84.000 manns náðhúsið karla í Bakarabrekkunni. (Náðhús kvenna hafði væntanlega ekki opnað þá.)

Þessar hagtölur eru fengnar úr Árbókum Reykjavíkurbæjar 1950-51.

Gamalt baráttumál nær fram að ganga

Þriðjudagur, október 19th, 2010

Færsla þessi birtist einnig á Friðarvefnum.

Þær ánægjulegu fregnir bárust í dag að borgarstjórn Reykjavíkur hefði samþykkt að gerast aðili að samtökunum Mayors for Peace, sem berjast fyrir útrýmingu kjarnorkuvopna í veröldinni.

Við í Samtökum hernaðarandstæðinga fögnum þessum fregnum sérstaklega, enda langt síðan við hvöttum Reykjavíkurborg til þess að stíga þetta skref.

Það var á árinu 2000 sem Sverrir Jakobsson og Einar Ólafsson, þá formaður og ritari SHA, gengu á fund Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur borgarstjóra. Með í för höfðu þeir kynningarefni um samtökin sem snarað hafði verið á íslensku ásamt leiðbeiningum um hvað í aðildinni fælist. Borgarstjóri tók ágætlega í hugmyndina, en málið sofnaði í borgarkerfinu og náði því ekki fram að ganga.

Betur gekk þó með hitt aðalerindi fundarins, þar sem SHA hvöttu til þess að Reykjavíkurborg yrði friðlýst fyrir geymslu og umferð kjarnorkuvopna. Náði það fljótlega fram að ganga og var samþykkt í borgarstjórn með öllum greiddum atkvæðum nema einu.

En nú, tíu árum síðar hefur þetta gamla baráttumál SHA náð fram að ganga. Því ber að fagna.

Vænisýki

Þriðjudagur, október 19th, 2010

Á fimmta hundrað manns hafa nú boðið sig fram til stjórnlagaþings. Það er helvítis hellingur af fólki.

Allir þessir frambjóðendur hafa safnað vænum slatta meðmælenda. Sjálfur skilaði ég inn fimmtíu nöfnum. Söfnunin tók dálítin tíma, einkum vegna þess að ég ákvað af nördaskap mínum að leggja mikið upp úr því að samsetningin yrði sem fjölbreytilegust. Þannig setti ég mér í upphafi þá vinnureglu að fá enga nákomna ættingja, engin hjón, enga nágranna eða vinnufélaga – heldur fólk af öllum aldri, búsetu, menntun o.s.frv. Mamma og pabbi, tengdó og Þóra systir eru örugglega öll sármóðguð yfir að hafa ekki fengið að skrifa. Steinunn var notuð sem vottur…

Reyndar sprakk ég á limminu. Þegar langt var liðið á söfnunina, rakst ég inn í matarboð þar sem allir pennar voru á lofti. Þar komu sex undirskriftir á einu bretti úr sömu stórfjölskyldunni. – Annars er ég rígmontinn með niðurstöðuna. Það er smákynjaslagsíða (23 konur: 27 karlar). Tólf meðmælendur eru utan af landi. Yngsti er 20 ára, þær elstu (tvíburar – og einu systurnar á listanum) eru 88 ára. Þarna eru heiðursdoktorar og verkamenn. Sjálfstæðismenn og últra-róttæklingar. Sem sagt, gott.

Þrátt fyrir þennan nördaskap minn (sem engum nema 10-15 rétttrúnaðarmönnum í meðmælendasöfnum finnst svalur) tók þetta mig varla nema þrjú kvöld. Á fimmta hundrað Íslendinga gerðu slíkt hið sama: prentuðu út meðmælalista og söfnuðu undirskriftum.

Það er því skemmtilegt að rifja upp viðbrögð ýmissa þegar reglurnar um kosningu til stjórnlagaþings voru fyrst kynntar. Þá lýsti Þór Saari þingmaður (Borgara)Hreyfingarinnar því yfir að búið væri að eyðileggja stjórnlagaþingið. Samkvæmt því voru kröfurnar um meðmælendafjölda svo ofurmannlegar að útilokað yrði fyrir aðra en innvígða og innmúraða flokkshesta að smala því saman. (Svo allrar sanngirni sé gætt, þá ritaði Valgerður Bjarnadóttir Samfylkingarþingmaður pistla á sömu nótum.)

Fimmtíu meðmælendur voru sem sagt sá ógurlegi þröskuldur sem enginn kæmist yfir nema fuglinn fljúgandi. Hrikalegur skandall, plott og samsæri.

Í ljósi fáránlega góðrar þátttöku í stjórnlagaþingskjöri væri óneitanlega gaman að sjá núna viðtal við Þór Saari um hinar fasísku framboðsreglur.

700 slög (með bilum)

Sunnudagur, október 17th, 2010

Það er erfitt að segja mikið í sjöhundruð slögum (hvort sem er með eða án bila). Þetta er þó það rými sem landskjörstjórn úthlutar hverjum frambjóðanda til stjórnlagaþings til að svara spurningunni um það hvers vegna viðkomandi bjóði sig fram. Svörin verða svo birt í opinberu kynningarefni vegna kjörsins.

Um kvöldmatarleytið skilaði ég framboðinu mínu rafrænt og notaði sjöhundruð slögin mín á þessa leið:

Árið 2003 tóku tveir menn upp á sitt einsdæmi ákvörðun um að Ísland gerðist stuðningsaðili stríðs í fjarlægu landi. Í ljós kom að ekkert í stjórnskipun Íslands hindraði þessa ákvörðun. Við endurskoðun stjórnarskárinnar er brýnt að taka á þessu.

Æskilegast væri að kveða skýrt á um það í stjórnarskrá að Ísland megi ekki fara með stríði á hendur öðrum þjóðum. Tekið verði fram að Ísland skuli vera herlaust land og að herskyldu megi aldrei í lög leiða. Fram komi að umferð og geymsla kjarnorkuvopna sé óheimil í íslenskri lögsögu.

Megintilgangurinn með framboði mínu til stjórnlagaþings er að tryggja að sjónarmiðum friðar og afvopnunar verði haldið á lofti við gerð nýrrar stjórnarskrár.

Þetta eru sjónarmið sem ég trúi að muni eiga góðan hljómgrunn á þinginu, en það er til lítils nema einhverjir verði til að halda þeim á lofti.

Áskorun til íslensku þjóðarinnar

Föstudagur, október 15th, 2010

Sagt hefur verið frá því í fjölmiðlum í dag að Lalit Modi, einn kunnasti krikketleikmaður allra tíma, hafi hug á að sækja um hæli á Íslandi. Modi er erftirlýstur af indverskum stjórnvöldum, sem er mjög ósanngjarnt í ljósi þess hvað hann var góður í krikket og er almennt séð frægur.

 

Íslenskir krikketáhugamenn telja í ljósi þessa einboðið að Lalit Modi fái hér hæli af mannúðarástæðum, ríkisborgararétt með hraði og einkaþotu í boði einhverrar fréttastofunnar. Hér mætti búa Modi áhyggjulaust ævikvöld og hver veit nema að hægt verði að tala hann inn á að taka krikketkylfuna af hillunni og taka þátt í hinu óopinbera Íslandsmóti sem fram fer hvert sumar á Klambratúni, þegar hægt er að spila fyrir gæsa- og hundaskít. Það yrði rosalegt!

 

Stofnuð hafa verið samtökin FLM, „Free Lalit Modi“ utan um málefnið. Skammstöfunin getur raunar einnig staðið fyrir einkunnarorð hópsins: „Frelsi, lýðræði, munúð“ og kann vel að vera að þau verði boðin fram í næstu Alþingiskosningum enda ýmsir í hópnum með þingmanninn í maganum og leiðir á að rífast bara í símatímum útvarpsstöðvanna.

 

Á næstu dögum og vikum verður staðið fyrir hvers kyns uppákomum til að vekja athygli á málum Lalit Modi. Til greina kemur að stofna svokallaða „Facebook“-síðu á alnetinu (snjall forritari óskast) og haldnir verða morgunfundir á Kaffi París. Þá íhuga samtökin að fara fram á aðstoð Íslendinga með sérstök tengsl við Indland við að greiða fyrir framgangi málsins. Koma þar upp í hugann nöfn á borð við Sigmund Erni Rúnarsson og Ármann Reynisson.

 

Stýrihópur FLM