Archive for nóvember, 2010

Drátturinn (b)

Sunnudagur, nóvember 28th, 2010

Þetta var fín helgi hjá Luton. Lékum við Charlton (sem er við topp gömlu þriðjudeildarinnar) á útivelli og gerðum 2:2 jafntefli. Það þýðir að liðin mætast aftur á Kenilworth Road annan þriðjudag eða miðvikudag – mjög sennilega í beinni útsendingu í sjónvarpi.

Síðdegis var svo dregið í 3ju umferðina og niðurstaðan varð áhugaverð – Tottenham vs. Luton/Charlton. Þetta er þeim mun áhugaverðara í ljósi þess að næsta umferð verður leikin helgina sjöunda og áttunda janúar. Þá helgi er ég einmitt á leið með fríðum flokki til Englands, gagngert í því skyni að horfa á Luton-leik og sjá hvort ale-framleiðslu Breta hafi hrakað.

Það mun því ráðast eftir rétt rúma viku hvort áfangastaðurinn verður Twerton Park, að horfa á leik Bath City og Luton Town eða White Hart Lane að sjá Barnes-Homer splundra Tottenham-vörninni. Get ekki alveg gert upp við mig hvort ég vil frekar sjá…

Ráðherradómurinn

Fimmtudagur, nóvember 25th, 2010

Mér sýnist að einhvers staðar á bilinu þriðjungur og helmingur frambjóðenda til stjórnlagaþings verji hluta af 700 slögunum sem þeir höfðu til að lýsa stefnumálum sínum í kynningarblaði landskjörstjórnar í að taka fram að þeir vilja skerpa skilin milli framkvæmdar- og löggjafarvalds. Væntanlega er drjúgur hluti hinna á sama máli, þótt þeir komi því ekki að í þessari knöppu kynningu. Ætli það megi ekki segja að það ríki nokkuð almenn sátt um að greina þurfi betur þarna á milli.

Það er þó ekki alveg jafn ljóst hvað einstakir frambjóðendur eiga við með þessu atriði. Ýmsir vilja horfa til Bandaríkjanna, þar sem forsetinn er jafnframt einskonar forsætisráðherra og framkvæmdavaldið því kjörið beinni kosningu. Aðrir horfa til Frakklands, þar sem áhrifamikill pólitískur forseti er kjörinn beint – þótt þar ríki samt þingræði í praxís.

Mér sýnist þó fæstir vera að hugsa um slíkar stórbreytingar. Þess í stað virðist þorri frambjóðenda vilja halda kerfinu í meginatriðum svipuðu, en þó betrumbæta á ýmsum stöðum. Þannig virðist mér að á bak við kröfuna um að skilja betur milli framkvæmdar- og löggjafarvalds sé sú hugmynd að í dag vaði framkvæmdavaldið yfir þingið á skítugum skónum. Öll alvöru frumvörp komi úr ráðuneytunum og þingið sé fyrst og fremst stimplunarstofnun fyrir ríkisstjórn og embættismannakerfið.

Það er talsvert til í þessu. Þáttur Alþingis í lagasamningu verður sífellt minni. (Ég þekki reyndar embættismenn í stjórnsýslunni sem telja það hið besta mál – en þetta truflar lýðræðiskennd flestra.) Úr þessu vilja menn bæta og styrkja þingið gagnvart stjórnvöldum.

En hvað er þá til ráða? Patent-lausnin sem mér sýnist flestir stökkva á, er krafan um að ráðherrar sitji ekki sem þingmenn. Þetta er „norska leiðin“, sem felur í sér að þingmaður sem tekur við ráðherradómi segir af sér þingmennsku á meðan og kallar inn varaþingmann. Norðmenn eru ekki eina þjóðin sem hefur þennan háttinn á, en hitt mun þó vera algengara að ráðherrar geti einnig verið þingmenn.

Jújú, þetta hljómar svo sem ekki illa þegar maður heyrir það fyrst og vissulega myndi þessi breyting hafa í för með sér að fleiri þingmenn væru til skiptanna í nefndarstörfum Alþingis og almennum þingumræðum (því ráðherrar eru jú nánast alltaf bundnir í ráðuneytinu).

En tekur þessi lausn á vandamálinu? Er stóra vandamálið í samskiptum þings og ríkisstjórnar fólgið í því að ráðherrarnir labbi yfir almennu þingmennina í stjórnarmeirihlutanum: að fulltrúar meirihlutaflokkanna sem ekki gegna ráðherraembættum séu of verkum hlaðnir til að geta unnið vinnuna sína og staðið í lappirnar gagnvart freka ráðuneytisliðinu? Jú, eflaust að einhverju leyti – en stóru átakalínurnar hljóta þó að vera á milli ríkisstjórnarinnar og þingmanna í stjórnarandstöðu.

Hvort er mikilvægara að rétta af aðstöðumuninn milli Steingríms Joð fjármálaráðherra og almenna þingmannsins Bjarna Ben – eða milli fjármálaráðherra annars vegar og Björns Vals Gíslasonar hins vegar? Ætli það sé nú ekki heldur fyrri kosturinn?

Vandinn við hina velmeinandi tillögu um að ráðherrar sitji ekki sem þingmenn er sá, að hún styrkir fyrst og fremst í sessi ríkisstjórnarflokkana á hverjum tíma. Hún fjölgar „fótgönguliðum“ ríkisstjórnarinnar sem geta helgað sig því að berja á stjórnarandstöðunni meðan ráðherrarnir einbeita sér að sínum störfum.

Hrunstjórnin 2007-9 var með risameirihluta – einhvern þann stærsta í þingsögunni. Ef „norska reglan“ hefði verið þá í gildi, hefði styrkleikamunurinn milli stjórnar og stjórnarandstöðu orðið ennþá meiri. Það hefði því verið enn erfiðara fyrir stjórnarandstöðuna að gagnrýna ríkisstjórnina og standa upp í hárinu á henni.

Ég er í sjálfu sér ekki á móti hugmyndinni um að ráðherrar sitji ekki sem þingmenn, en ein og sér gæti sú breyting falið í sér afturför frá núgildandi kerfi. Ef ekki yrði jafnframt leitað leiða til að styrkja stöðu stjórnarandstöðu, er hættan sú að stjórnarliðið á hverjum tíma fengi bara enn frjálsari hendur og áhrif þingsins myndu fremur minnka en hitt. Og þá væri betur heima setið en af stað farið.

Hvaða Helga?

Þriðjudagur, nóvember 23rd, 2010

Hulda Jakobsdóttir var bæjarstjóri fyrst íslenskra kvenna. Hún stýrði Kópavogi og þar í bæ má finna Huldubraut á norðanverðu Kársnesinu. Ég hef alltaf haft það fyrir satt að Huldubraut heiti eftir Huldu bæjarstjóra – sem gerir hana þá væntanlega að eina 20. aldar stjórnmálamanninum sem hefur fengið götu nefnda í höfuðið á sér. (Það er, þangað til að nafnabreytingarnar í Túnunum í Reykjavík ná fram að ganga.)

En skammt frá Huldubraut er gatan Helgubraut. Þá vaknar spurningin: hver var Helga?

Er þetta kannski bara rugl í mér með að Huldubraut heiti eftir bæjarstjóranum – og Hulda og Helga þá bara kvenmannsnöfn sem valin eru út í bláinn? Eða vísar Helgunafnið þá líka til einhverrar þekktrar konu? (Eitthvað segir mér samt að það sé ekki Helga Sigurjónsdóttir…)

Gaman væri að fá svör við þessu.

Aðskilnaðurinn

Mánudagur, nóvember 22nd, 2010

Við stjórnlagaþingsframbjóðendur fáum þessa daga ókjörin öll af tölvupósti með fyrirspurnum um allt milli himins og jarðar. Í mörgum tilvikum er um að ræða félagasamtök sem vilja pota málstað sínum inn í stjórnarskránna – sem er oft og tíðum hið besta mál. Stundum er það langsóttara.

Þannig sendir fjallabílaklúbburinn 4*4 fyrirspurn um hvort frambjóðendur séu til í að setja inn í stjórnarskrá ákvæði um ferðafrelsi til að njóta náttúrunnar? Auðvitað kemur slíkt til greina – en á sama hátt má ljóst vera að félagið ætlar sér með spurningunni einungis að fella keilur í baráttu sinni við reglur um jeppaferðir á hálendinu.

Sorrý krakkar – það er ekki mál sem þið getið leyst á þessum vettvangi! Þrátt fyrir allar fínar ferðafrelsisklausur í stjórnarskrám, þá hlyti það eftir sem áður að liggja á borði þings eða ráðuneytis að setja lög og reglur um hluti eins og öxulunga, umferðarstýringu o.s.frv. o.s.frv. – Þennan slag verður að taka við pólitíkusana.

Á sama hátt sýnist mér að margir telji að stjórnlagaþingið sé vettvangurinn til að skera úr um hvort ríki og kirkja skuli aðskilin. Það er misskilningur. Hvort vikið sé sérstaklega að Þjóðkirkjunni í stjórnarskránni hefur vissulega talsvert táknrænt gildi – en aðrir þættir skipta þó mun meira máli varðandi samband ríkis og kirkju.

Þótt öllum vísunum í Þjóðkirkjuna yrði rutt út úr stjórnarskrá, þá þyrfti það ekki að hafa nein raunveruleg áhrif á stöðu kirkjunnar – þar sem staða hennar byggist öðru fremur á almennum lögum. Á sama hátt gætu prestar tekið yfir stjórnlagaþing og fyllt stjórnarskránna af vísunum til Þjóðkirkjunnar, en þær romsur færu fyrir lítið ef þingið breytti lögunum um Þjóðkirkjuna á hinn veginn.

Um daginn sendi Þjóðkirkjan mér spurningar um afstöðuna til stjórnarskrárklausunnar um kirkjuna til birtingar á vef sínum. Ég svaraði þeim á þennan hátt.

Eldflaugavarnarkerfi

Mánudagur, nóvember 22nd, 2010

Gamall draugur minnti á sig um helgina. Á Nató-fundi í Lissabon var vikið að draumi stjórnenda bandalagsins um að koma upp gagneldflaugakerfið (sem er 21.aldar heitið á því sem Reagan-stjórnin kallaði Stjörnustríðsáætlun). Þessu hefur verið slegið upp sem nýjum fréttum og stefnubreytingu hér heima. Þannig virðast bæði stuðningsmenn og andstæðingar ríkisstjórnarinnar hafa verið jafn grallaralausir um málið og nota það nú til að slá pólitískar keilur.

Þetta er enn ein áminingin um hvað minni manna er oft lélegt þegar kemur að pólitík. Gagneldflaugakerfið var nefnilega samþykkt í prinsipinu á Nató-fundi vorið 2008 í Búkarest. Við í Samtökum hernaðarandstæðinga sendum frá okkur harðorðar ályktanir í kjölfar þessa fundar, þar sem við lögðumst yfir samþykktir fundarins og bentum á að þar hefði m.a. verið samþykkt að hvetja öll aðildarríki til að auka framlög sín til hermála, stuðningi við gagneldflaugakerfið lýst með býsna afdráttarlausum hætti o.s.frv. Aðeins einn fjölmiðill virtist hafa fyrir því að lesa samþykktir fundarins: Viðskiptablaðið.

Að öðru leyti fjallaði umfjöllun íslenskra blaða og ljósvakamiðla um Búkarest-fundinn aðeins um tvennt. Í fyrsta lagi þá staðreynd að íslensku ráðherrarnir flugu á einkaþotu til Rúmeníu, með vangaveltum um hvort það hafi verið dýrara eða ódýrara en aðrir kostir. Í öðru lagi var fjallað um það hvort íslenska sendinefndin hefði náð að ræða við marga erlenda valdsmenn um efnahagshorfur Íslands, sem fóru heldur dökknandi.

Margt bendir til að íslensku fulltrúarnir á Búkarest-fundinum, þar sem ákvörðunin um gagneldflaugakerfið var tekin, hafi verið svo uppteknir af fundum í hliðarsölum um óskyld efni að þeir hafi ekkert veitt því athygli hvað verið var að samþykkja. Þannig kom Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra í Kastljóssviðtal skömmu síðar, þar sem spyrillinn (sem hafði greinilega rekið augun í einhverjar fréttir um málið) spurði hana út í þessar samþykktir Nató. Ráðherra virtist koma af fjöllum og harðneitaði því að nokkuð í þá veru hefði verið ákveðið.

Neitun Ingibjargar Sólrúnar var svo afdráttarlaus að ég trúi því ekki að hún hafi verið að ljúga. Hún vissi hreinlega ekki betur. Spyrillinn var greinilega ekki sérstaklega undirbúinn fyrir þessa spurningu og sneri sér því strax að næsta máli. Svona er málum því miður ansi oft háttað þegar kemur að starfi Íslands innan Nató og annarra alþjóðastofnanna.

Hugsað út fyrir rammann

Miðvikudagur, nóvember 17th, 2010

Kristbjörn Gunnarsson, brottfluttur nágranni úr Norðurmýri og gamall skólabróðir úr MR, bendir í athugasemdakerfi þessarar síðu á fésbókarfærslu sína. Þetta er endurunnin bloggfærsla sem hann sendi frá sér fyrir mörgum árum. Ég las hana á sínum tíma og þótti hún frumleg og snjöll.

Í stuttu máli freistar Kristbjörn þess að finna nýjan flöt á umræðunum um íslenska kjördæmakerfið. Hann bendir á það augljósa: að byggðaþróun liðinna áratuga hafi í raun kollvarpað forsendunum fyrir landfræðilegri skiptingu landsins í kjördæmi. Ef ekki verður einhver óvænt og veruleg breyting á demógrafískri þróun, munu landsbyggðarkjördæmin halda áfram að veikjast. Norðvesturkjördæmið er nú þegar orðið of fámennt en á sama tíma líka of víðfemt til að geta þrifist sem sjálfstæð eining.

Fæstir þeirra sem vilja leysa úr þessu, hafa haft ímyndunarafl í að stinga upp á öðrum leiðum en þeirri að gera landið að einu kjördæmi. Það er vissulega fær leið, en skapar líka vandamál sem yrði þá að takast á við með einhverjum hætti.

Þá varpar Kristbjörn fram þeirri hugmynd að halda sig við „kjördæma“-hugsunina, en miða ekki við landfræðilegar einingar. Auðvitað mætti hugsa sér að nota allan fjandann til að skipta fólki upp í hópa: fæðingarmánuð, upphafsstaf skírnarnafns – það væri þó vissulega frekar ómarkviss skipting.

En um aldursskiptingu gildir öðru máli. Hagsmunir fólks eru ólíkir eftir aldri, verðmætamatið ólíkt og áhersluatriðin ekki þau sömu. Skoðanakannanir um hin aðskiljanlegustu málefni hafa sýnt fram á mikinn afstöðumun milli kynslóða.

Það er alveg þess virði að spyrja sig hvort þrítugi Reykvíkingurinn og jafnaldri hans á Ísafirði eigi ekki meira sameiginlegt en hvor um sig með átján ára frænda sínum og áttræðum afa í sama plássi? Kristbjörn varpar fram hugmynd að mögulegri aldursflokkaskiptingu. Samkvæmt henni yrðu aldursröðuðu „kjördæmin“ sex talsins – öll álíka fjölmenn (hægðarleikur að stilla það af) – og með 8-9 kjördæmakjörna og 1-2 varamenn til að tryggja að þingmannatala flokka endurspegli kjörstyrk þeirra.

Væntanlega myndu flestir flokkar bjóða fram lista í öllum aldurshópum – þótt mögulega komi fram sérframboð um málefni einstakra kynslóða (námsmanna, ungra foreldra, eldri borgara…) Frambjóðendur þyrftu ekki að vera úr viðkomandi aldursgrúppu – en væntanlega yrðu menn ekkert á ósvipuðu rólki.

Kristbjörn dustar rykið af þessari hugmynd sinni núna, gagngert í þeirri von að frambjóðendur til stjórnlagaþings kveiki á henni. Án þess að ég sé búinn að kokgleypa tillögurnar, þá verð ég að viðurkenna að þær kveikja í mér. Þarna er hugsað út fyrir rammann og það er óneitanlega öllu skemmtilegra að velta hlutunum fyrir sér á þeim nótum en að festast í fyrirliggjandi kerfi og einblína á hvaða smálagfæringar sé hægt að gera á því.

Gaman væri að fá umræður um þetta.

Skringifréttin

Miðvikudagur, nóvember 17th, 2010

Skringifrétt dagsins birtist í Mogganum (raunar er samstofna frétt á Vísi líka), sem báðar eru endursagnir á frétt í Telegraph þess efnis að við erfðafræðirannsóknir hefði komið í ljós að hópur Íslendinga eigi formóður af ætt amerískra frumbyggja. Hægt er að rekja þetta aftur til konu sem uppi var á suðaustanverðu landinu í byrjun átjándu aldar.

Af þessu er dregin sú skrautlega ályktun að víkingar á elleftu öld hljóti að hafa flutt með sér indíána til Íslands sem aukið hafi kyn sitt hér. Hvers vegna þá? Jú – vegna þess að Ísland hafi verið svo einangrað á seinni hluta miðalda og fram eftir nýöld að ekki geti verið um blöndun úr þessari áttinni að ræða þá.

Auðvitað er miklu rökréttara að álykta sem svo að indíánablóðið hafi borist til Íslands á sextándu eða sautjándu öld. Samskipti Íslendinga við erlendar þjóðir voru alla tíð mun meiri en margur heldur. Goðsögnin um hið einangraða og erfðafræðilega hreina Ísland er hins vegar lífseig og styrktist í sessi fyrir tilstuðlan líftæknifyrirtækja á borð við Íslenska erfðagreiningu.

Þeir sem telja að hér sé komin sönnun fyrir tilvist indíána-víkingaprinsessu frá miðöldum verða að líkindum fyrir vonbrigðum.

Um borðspil

Þriðjudagur, nóvember 16th, 2010

Tómas V. Albertsson þjóðfræðingur og heiðingi hefur um langt skeið unnið að söfnun upplýsinga um sögu íslenskra borðspila. Í ljós kemur að miklu meira hefur verið gefið út af slíkum spilum en flesta órar fyrir.

Í morgun sendi hann skeyti á Gammabrekku, póstlista sagnfræðinga, með fyrirspurn um ýmis fágæt spil. Ég stelst til að birta skeytið hér að neðan, í þeirri von að einhver hinna fjölmörgu og fjölfróðu lesenda þessarar síðu geti hjálpað til. Svarið endilega í athugasemdakerfinu:

* * *

Komið þið sæl
Mig langar að spyrja ykkur um nokkur gömul borðspil og ef þið hafið eintak eða vitið af eintaki megið þið endilega benda mér á viðkomandi einstakling sem á spilið, en ekki benda mér á nein söfn því þau eiga ekki þessi spil. Eg hef þegar skoðað þann möguleika og því miður fer lítið fyrir borðspilum á byggðasöfnum og mörg hver svara ekki erindi mínu í þokkabót.
Ef einhver ykkar man eftir spilunum, þá endilega sendið mér lýsingu af gangi spilsins eða um eðli þess.
Af þessum spilum vantar mig oftast myndir af kössunum eða spilaborðunum auk upplýsinga um framleiðendur, hönnuði og teiknara.
Spilin eru:
1) „A  rottuveiðum“ auglýst 1935 til 1939, og er líklega útgáfa af „Köttur og mús“ frá Spear í Englandi – 1930 útgáfan.
2) „Sóknin mikla“ auglýst fyrir jól 1940 (ekkert meir).
3) „10 litlir negrastrákar“ auglýst fyrir jólin 1947,
4) „Kappaksturinn frá Heklu“  auglýst fyrir jólin 1947
5) Negrastrákarnir 1949 – gæti verið sama spil og 1947.
6) Jólasveinn á Jeppa 1954 – var tengt Samvinnutryggingum. (ég veit þegar um eitt borð í einkaeigu, en vantar kassann)
7) Bungaló 1959 var auglýst vel fyrir jólin það ár og voru miklar væntingar um útflutning á þessu spili.
8) Eldflaugaspilið 1959 var prentað hér á landi og með Fluorscent litum og selt fyrir jólin það ár
9) Síldarspilið 1959 auglýst fyrir jólin. (virðist hafa verið í 3ja spila kassa og þá með Kappflugið og Veðhlaupið í kassanum)
10) Handboltaspilið 1961, Arthúr heitinn Olafsson hannaði leikinn en Handknattleikssambandið gaf hann út, því miður eru engar upplýsingar að hafa hjá  HSI.
11) Nýja fótboltaspilið 1975 auglýst fyrir jólin, Ragnar Lár sá um útlitshönnun
12) „Spilið um dýrin“ 1979 auglýst fyrir jól, Haukur Halldórs hannaði.
A þessu tímabili voru einnig auglýst 3-7 spil i kassa og vantar mig samsetningar þeirra kassa svo og mynd af kössunum og borðunum. Sumt af þessu var fremur ódýr framleiðsla og er þetta kannski mikil bjartsýni af minni hálfu að þessir kassar séu til.
Sumt af þessu á listanum gæti verið bastarðar, þ.e. þýddar leikreglur fylgja erlendum kassa, en annað er íslenskað að fullu og jafnvel staðfært enn annað er þó al íslensk spil s.s. Handboltaspilið og spilið um dýrin.
Eg vona að menn taki þessari bón minni vel og hafi mig í huga þegar farið verður í geymsluna til að sækja jóladót síðustu ára og horfi eftir gömlum spilum í leiðinni.
Kær kveðja
Tómas Vilhj. Albertsson
Þjóðfræðingur

Leikskólinn minn

Mánudagur, nóvember 15th, 2010

Skömmu eftir að Ólína, dóttir mín, byrjaði á leikskólanum Sólhlíð haustið 2006 var hengd upp auglýsing um aðalfund foreldrafélagsins. Við Steinunn köstuðum upp á það krónu hvort okkar ætti að mæta – í okkar huga var jafnsjálfsagt að mæta á aðalfund foreldrafélags í leikskóla og t.d. aðalfund húsfélags í fjölbýlishúsinu þar sem maður býr.

Ég vann/tapaði hlutkestinu og mætti á fundinn. Þar kom í ljós að ég hafði hlaupið apríl. Sjö eða átta foreldrar mættu á fundinn og einhvern veginn lá beint við að aularnir sem mættu myndu skipa stjórnina. Upp frá þessu hef ég verið í stjórn foreldrafélagsins og sé ekki fram á að það breytist fyrr en Böðvar útskrifast eftir fjögur ár.

Það er svo sem ekki mikið fyrir þessu starfi haft. Við riggum upp jólaballi hér, sumarferð þar, söfnum peningum til að geta boðið upp á farandleiksýningar á skólatíma og grillum pylsur á vorhátíð. Og við erum í aðeins nánari samskiptum við stjórnendur leikskólans en foreldrarnir sem kyssa bara bless klukkan átta og sækja klukkan hálf fimm.

Ég vissi svo sem ekki hverju ég átti við að búast þegar ég byrjaði að tengjast leikskólastarfinu, en aðdáun mín á starfinu sem þar fer fram hefur vaxið jafnt og þétt. Mér skilst að það sé leitun að opinberum vinnustöðum sem halda sig jafn vel innan fjárheimilda og leikskólarnir. Það er ekki til neitt sem heitir bruðl á þessum stofnunum. Á Sólhlíð eru leikskólakennararnir t.d. sífellt á útkíkki eftir leiðum til að viða að sér ókeypis hráefni til að vinna með í hvers kyns föndri. Foreldrar á vinnustöðvum þar sem til fellur pappír, umslög, pappaspjöld eða annað slíkt, koma því á leikskólann og allt er nýtt. Það er horft í hverja krónu.

Leikskólar eru erfiðir vinnustaðir. Laun stórs hluta starfsmannanna eru mjög lág, sem þýðir m.a. að starfsmannaveltan er mjög mikil, veikindi eru algeng (enda leikskólapestirnar líka skæðar) og mikill tími fer í að setja nýtt fólk inn í kerfið. Að stýra leikskóla er því að halda mörgum boltum á lofti í einu. Dagskráin tekur mið af því hversu margt starfsfólk er tiltækt (sem er nánast aldrei eins dag frá degi) og meira að segja veðrið hefur sitt að segja. Leikskólastjóri stekkur því inn og út af deildum – gengur í öll störf og ýtir oftar en ekki pappírsvinnunni á undan sér þar til í lok skóladags.

Með þetta í huga, finnst mér út úr korti að heyra af þeim áformum borgarstjórnarmeirihlutans í Reykjavík að leggja niður störf leikskólastjóra – líkt og starfsvið þeirra sé skrifstofudjobb sem yfirmaður næsta leikskóla eða grunnskóla geti sinnt í hjáverkum. Ég hef bara komið að leikskólastarfi sem leikmaður í fjögur ár, en fyrir mér er hugmyndin galin. Öll stjórnunarfræði segir manni að vitlausasta sparnaðaraðgerðin í sérhverri framkvæmd sé að reka verkstjórann. Það er þó nákvæmlega það sem borgaryfirvöld virðast vera að stefna að.

Það eru skuggalegar fregnir sem berast af leikskólamálum borgarinnar. Vonandi mun þó rofa til í kollinum á einhverjum og menn fari að viðurkenna að leikskólarnir eru líklega sú starfsemi á vegum borgarinnar sem er best rekinn um þessar mundir. Að bregðast við með því að losa sig við þessa stjórnendur væri gjörsamlega út í hött. Nær væri að fela lunknum leikskólastjórum að koma víðar að í rekstri borgarinnar…

Þriðja sæti (b)

Sunnudagur, nóvember 14th, 2010

Óformlegar kannanir leiða í ljós að 80% lesendum þessa bloggs er meinilla við það þegar ég skrifa um fótbolta. 20% kætast. Ef ég hefði sömu sýn á hlutina og séra Örn Bárður, myndi ég segja þessum 20% að hoppa upp í afturendann á sér. Ég er hins vegar veluppalinn heiðingi og segi ekki svoleiðis.

Það er nokkuð um liðið frá síðasta Luton bloggi. Staðan er hvorki góð né vond. Við erum í þriðja sæti – stigi á eftir Crawley (sem á leik til góða) og tveimur á eftir Wimbledon. Við skorum mest allra liða – en fáum líka óþarflega mikið á okkur.

Eins og staðan er núna virðast engin önnur lið líkleg til að blanda sér í baráttuna um eina örugga sætið. Það er helst Wrexham sem gæti slegist í hópinn. Þar er gamli jálkurinn Dean Saunders við stjórnvölinn, með hóp leikmanna sem eru komnir langt á fertugsaldur.

Wimbledon virðist brothætt. Liðið byraði vel, en er á sínu fyrsta ári í deildinni. Eitthvað segir mér að þeir springi á limminu – þótt það sé nokkuð ljóst að við þurfum ekki að bíða í mörg ár eftir að sjá Wimbledon í deildarkeppninni á ný.

Crawley er hins vegar hörkulið sem mun væntanlega slást við okkur um toppsætið allt til loka. Þeir hafa peningana og munu eflaust styrkja hópinn hressilega í janúarglugganum. Líkt og Wimbledon eru Crawley nýliðar, sem klikka vonandi undir pressu.

Næsta viðfangsefni er þó enski bikarinn. Þar eigum við endurtekinn leik á miðvikudaginn, heima gegn Corby – sem okkur mistókst að vinna á útivelli í fyrri leiknum. Sigurvegarinn fær leik í lok mánaðarins gegn Charlton eða Barnet. Ég sef nú alveg fyrir spenningi…