Archive for desember, 2010

Næsta stytta?

Þriðjudagur, desember 28th, 2010

Þrjár nýjustu líkneskjurnar í Reykjavík (þ.e. myndastytta í fullri líkamsstærð af nafngreindum einstaklingi) eru af: Gísla Halldórssyni (örugglega að verða 40 ára gömul), Albert Guðmundssyni og Tómasi Guðmundssyni.

Nú væri gaman að fá ágiskanir lesenda við spurningunum:

i) Hver verður næstur til að fá líkneskju af sér innan borgarmarkanna?

ii) Hvaða ár verður hún afhjúpuð?

Útvarpið

Miðvikudagur, desember 22nd, 2010

Ríkisútvarpið átti áttatíu ára afmæli í gær. Það er því dálítið álkulegt að hafa klúðrað því að koma þessari afmæliskveðju inn á síðuna fyrir miðnættið, en ég lét plata mig í að skrifa pistil um Steingrím Jónsson rafmagnsstjóra og hann þurfti að hafa forgang.

Útvarpið tengist fjölskyldusögu minni beint. Langafi, Kristján Bergsson (sem dó löngu áður en ég fæddist og var kunnastur sem forseti Fiskifélags Íslands) var í stjórn fyrsta útvarpsrekstrarfélagsins á Íslandi. Það var H.f. Útvarp sem starfaði í Reykjavík á seinni hluta þriðja áratugarins.

Félagið fékk leyfi með lögum frá Alþingi til að halda úti einkarekinni útvarpsstöð, en verkefnið var andvana fætt því að rekstraráætlunin gerði ráð fyrir að félagið fengi einkaleyfi á sölu viðtækja, til viðbótar við hóflegt afnotagjald. Þegar einkaleyfið á tækjainnflutningnum var tekið út úr lögunum var dæmið orðið vonlaust. Stöðin fór samt í loftið og þraukaði í tvö ár eða þar um bil með slitróttum útsendingum.

Mögulega hefði útvarpssagan þróast með öðrum hætti ef H.f. Útvarp hefði ekki farið lóðbeint á hausinn. Það er þó fremur ólíklegt. Ríkiseinokun á úrvarpsrekstri mátti heita nomið í Evrópu á þessum árum.

En mikilvægi H.f. Útvarps fyrir útvarpssöguna var ótvírætt. Þegar Ríkisútvarpið hóf starfsemi sína, mátti allnokkur hluti landsmanna teljast sjóaðir hlustendur. Reyndar voru nokkrir tugir útvarpsviðtækja hér á landi áður en hlutafélagið hóf útsendingar sínar – fólk keypti tæki til að hlusta á erlendar sendingar sem var hægt að ná í furðumiklum gæðum.

Forsprakki hlutafélagsins var Ottó B. Arnar. Hann var símamaður. Sú staðreynd á raunar ekki að koma á óvart. Útvarpið er tæknikerfi sem óx út úr símanum. Margt bendir til þess að upphafsmenn símatækninnar á borð Alexander Graham Bell hafi ekki endileg séð svo skörp skil á milli notkunar símatækninnar til beinna samskipta tveggja aðila annars vegar en fjölmiðlunar hins vegar.

Um daginn fékk ég nýjasta eintakið af uppáhaldstímaritinu mínu. Það er tæknisögurit sem heitir Technology & Culture, kemur út fjórum sinnum á ári og kostar ekki mikið. (Allir að gerast áskrifendur.)

Fyrsta stóra greinin í nýjasta heftinu er um forvera útvarpsins: fjölmiðlun í gegnum síma. Í nokkrum löndum, einkum í Ungverjalandi og á Ítalíu, voru fyrstu “ljósvakamiðlarnir” (ef svo má segja) settir upp undir lok nítjándu aldar og í byrjun þeirrar tuttugustu fyrir tilstilli símkerfa. Fólk gat einfaldlega gerst áskrifendur að símaþjónustu sem bauð upp á hvers kyns útsendingar: fréttalestur, leikrit, tónlistarflutningur, tungumálakennsla, barnasögur, íþróttalýsingar… allt sem minnir á hefðbundinn útvarpsrekstur.

Ýmsar mikilvægar uppfinningar símkerfanna komu fram til að þjónusta þessa starfsemi. Til að fólk gæti hangið við tólið um lengri tíma og notið dagskrár var t.d. mikilvægt að bjóða upp á hreyfanleg símtæki, handfrjálsan búnað o.þ.h.

Reyndar var upplifun þeirra sem nýttu sér þessa þjónustu ekki svo ýkja frábrugðin hinna sem hlustuðu á fyrstu útvarpssendingarnar – því framan af þriðja áratugnum var hátalarinn ekki kominn fram og því gat aðeins einn hlustandi notað hvert viðtæki með aðstoð heyrnartóla.

Símkerfis-útvörpin reyndust í sumum tilvikum klókari í að huga að mikilvægi innihalds í dagskrárgerð, meðan fyrstu útvarpsstöðvarnar einblíndu á tækni og tækjabúnað. Þannig lifðu ítölsku símastöðvarnar á því að hafa tryggt sér útsendingarréttinn frá öllum vinsælustu og bestu leikhúsunum. Dagskrárgerðin var einfaldlega á hærra plani þar.

Gaman væri að vita hvort einhverjar samsvaranir væru til hér á landi – þar sem menn hefðu e.t.v. notað talsímakerfin sem vettvang fyrir einhverskonar fjölmiðlum fyrir tíma útvarps. (Reyndar má segja að sá gamli, góði siður að „liggja á línunni“ sé frumstæð tilraun til fjölmiðlunar – en ég er nú að hugsa um eitthvað aðeins formlegra.

Tilraunin

Þriðjudagur, desember 14th, 2010

Vísindaheimspekingurinn Popper hélt því fram að vísindakenningar yrði aldrei sannaðar – heldur í besta falli afsannaðar. Hins vegar myndi sérhver tilraun sem skilaði sömu niðurstöðu verða til þess að festa í sessi viðkomandi kenningu sem myndi nálgast það í sífellu að verða að lögmáli án þess að takast það nokkru sinni.

Þessi kenning Poppers kemur upp í hugann þegar Hraðbrautar-fíaskóið er skoðað.

Hraðbrautarmálið er fyrsta klassa klúður í boði Sjálfstæðisflokksins. Stofnaður var framhaldsskóli sem hitti beint í mark hjá hægrimönnum af tveimur ástæðum:

i) Hann var einkarekinn og í hagnaðarskyni (öfugt við t.d. Verslunarskólann sem er ekki ríkisskóli en í eigu sjálfseignarstofnunar sem ekki greiðir arð) – og átti þannig að sýna fram á að markaðshyggjan myndi svínvirka í skólastarfi.

ii) Hann gaf sig út fyrir að geta tekið venjulegan nemendahóp og útskrifað alla á tveimur árum – og átti þannig að sýna fram á að í hinum skólunum væru menn bara að dútla í fjögur ár og lærðu ekki rasskat.

Fyrir vikið varð Hraðbraut dekurdýr menntamálaráðuneytisins og komst upp með hvað sem er.

Orðræða hægrimanna varðandi opinberan rekstur er yfirleitt á þessa leið: að starfsfólkið á gólfinu (kennarar, hjúkrunarfólk o.s.frv.) sé frábært en á skítalaunum, sem ekki sé hægt að bæta úr vegna þess að opinberi reksturinn leiði til svo flókins og þrúgandi stjórnkerfis sem sé dýrt og óskilvirkt. Með einkarekstri yrði stjórnunin öll léttari, nútímalegri og ódýrari svo fullt af peningum sparaðist, m.a. til að umbuna frábæra starfsfólkinu.

Kannski er eitthvert risastórt popperískt tilraunaprójekt í gangi til að grafa undan þessari kenningu. Ef svo er, hefur Hraðbrautarævintýrið lagt sitt af mörkum…

Einu sinni enn hafa hægrimenn fengið að framkvæma tilraunina sína og enn er niðurstaðan á sömu leið. Hraðbraut reyndist dýr framhaldsskóli. Ekki vegna þess að gert væri vel við kennarana – þeir voru á sömu kjörum og aðrir framhaldsskólakennarar (áttu reyndar kost á meiri vinnu skilst mér), en stjórnunarkostnaðurinn var ærinn. Enginn skólastjórnandi í ríkisskóla hefði komist upp með þær brellur sem tíðkuðust í Hraðbraut – en vegna þess að skólinn var dekurdýr ráðherra Sjálfstæðisflokksins fengu þær að malla áfram.

Í mínum huga ætti Hraðbrautarklúðrið að vera miklu stærra kjaftshögg á pólitískan feril Þorgerðar Katrínar en það að maðurinn hennar hafi verið yfirmaður í vafasömum banka.

Ljót saga

Þriðjudagur, desember 14th, 2010

Luton er komið í heimsfréttirnar og það kemur ekki til af góðu. Maðurinn sem sprengdi sig í loft upp í Stokkhólmi reyndist hafa búið í Luton, stundað nám við Bedford-háskóla og snúist til ofsatrúar meðan á því stóð. Fyrir vikið smjattar heimspressan (en þó einkum bresku blöðin) á því að Luton sé gróðrarstía hryðjuverka og rifja upp að mennirnir sem sprengdu upp neðanjarðarlestakerfið í Lundúnum komu jú einmitt þaðan.

Eftir að hafa haldið með Luton Town í 27 ár, fer ekki hjá því að maður hafi líka kynnt sér aðeins sögu borgarinnar (sem er reyndar strangt til tekið bær en ekki borg). Það verður að viðurkenna að Luton er skítapleis. Fyrir fáeinum árum var borgin valin sú guðsvolaðasta í Bretlandi. Atburðir síðustu daga munu væntanlega ekki styrkja ímyndina neitt frekar.

Atvinnuástandið í borginni er bágt. Stór fyrirtæki hafa lokað þar eða dregið verulega úr framleiðslu sinni á liðnum árum. Stærsta áfallið var þegar Vauxhall-verksmiðjurnar lokuðu að mestu fyrir fáeinum árum.

Það stórt samfélag fólks af pakistönskum uppruna í borginni og þar hafa vaðið uppi ofstækismenn. Á móti hafa sprottið hópar nýnasista. English Defence League, EDL, eru öflug samtök í borginni. Svo öflug raunar að á dögunum tilkynnti EDL að ætlunin væri að flytja Terry Jones til Bretlands (nöttarann í Texas sem ætlaði að brenna Kóraninn fyrir nokkrum vikum) og láta hann prédika um ógnir Íslam í Luton. Það hefði orðið ávísun á blóðbað.

Fréttirnar sem berast frá Luton eru því á víxl af íslömskum öfgamönnum og snoðinkollum sem efna á víxl til funda og mótmælaaðgerða. Á samkomum síðarnefnda hópsins má sjá fundarmenn í treyjum merktum Luton Town og EDL-liðar hafa reynt að fá útrás með því að snapa slagsmál við boltabullur annarra félaga.

Það er sárt fyrir marga stuðningsmenn félagsins að sjá merki þess notuð af rasistum og glæpamönnum, ekki hvað síst í ljósi þess að Luton Town á sér góða sögu þegar kemur að samskiptum kynþátta. Félagið var meðal þeirra fyrstu til að tefla fram þeldökkum leikmönnum. Fyrir fáeinum árum tefldum við meira að segja fram ellefu manna byrjunarliði þar sem allir voru dökkir á hörund.

Vonandi fara eitthvað jákvæðari fréttir að berast frá Luton á næstunni.

Prófið

Sunnudagur, desember 12th, 2010

Á föstudaginn lagði ég skriflegt próf fyrir nemendur mína í tæknisögu. Í síðasta tíma hafði ég dreift nokkrum mögulegum prófspurningum og síðan var dregið úr þeim. Skelli prófinu hér inn, lesendum til skemmtunar og fróðleiks:

SAG314G. Tækni og saga:

Þróun borgmenningar á Íslandi 1909-2009

(30%). Skrifaðu um eftirfarandi verkefni:

Í “More Work for Mother” nefnir Ruth Schwartz Cowan ýmis dæmi um það hvernig innleiðing nýrrar tækni eða breytingar á þeirri sem fyrir er, gerist á forsendum orkufyrirtækja, tækjaframleiðenda eða annarra hagsmunaaðila fremur en að hagur neytendanna ráði einn för. Rekið dæmi um slíkt úr bókinni og finnið íslenskar samsvaranir eftir því sem við á.

(40%). Veldu annað eftirtalinna verkefna:

a) Í “Networks of Power” eftir Thomas Hughes, er talsvert fjallað um stríðið milli jafnstraums- og riðstraumskerfisins í Bandaríkjunum. Rekið aðalatriði þess, gerið grein fyrir hagsmunum aðaláhrifavaldanna (Edisons og Westinghouse) og skýrið hvað réð úrslitum í átökum þessarra tæknikerfa.

b)  Í “Networks of Power” ver Thomas Hughes heilum kafla (þeim ellefta) í að ræða það hvernig stríðsrekstur – í þessu tilviki fyrri heimsstyrjöldin – getur haft mikil áhrif á þróun tæknikerfa. Hverjir eru aðalþættirnir í því að hans mati? Má finna sambærileg íslensk dæmi?

(30%). Skrifaðu um eftirfarandi verkefni:

Bændurnir sem riðu til Reykjavíkur til að mótmæla ritsímasamningnum 1905 hafa fengið heldur aum eftirmæli. Þeir hafa þó sitthvað sér til málsbóta. Gerið grein fyrir því.

Laugavegurinn

Fimmtudagur, desember 9th, 2010

Ómar Ragnarsson bloggar um götuheiti og er tilefnið nafnabreytingin á götunum í Túnunum, sem er honum ekki að skapi. Reyndar er Ómar ekki í prinsipinu á móti því að breyta um nöfn á götum – hann gerir bara greinarmun á götuheitum sem vísa í staðhætti og þekkt örnefni annars vegar en heitum sem eru meira út í bláinn hins vegar. Þannig vill hann halda í Hólavallagötu – sem vísar til gamla Hólavallaskólans – en stæði væntanlega á sama um Sólvallagötu eða Ásvallagötu.

Þetta er auðvitað alveg tæk vinnuregla, þótt stutt sé yfir á gráu svæðin. Þannig vísar Kaplaskjólsvegurinn í gömul skýli fyrir útigangshross og því væntanlega friðhelgur – en í hverfinu er allt fullt af götuheitum sem vísa í sömu arfleið, þar sem hestanöfnum er splæst framan við „-skjól“, s.s. Faxaskjól, Granaskjól, Sörlaskjól og Frostaskjól. Eru þau þá líka mikilvægur sögulegur minnisvarði um gömul hestagerði?

Ómari finnst út frá þumalputtareglu sinni afleitt að Höfðatún fái annað heiti, þar sem það sé dregið af nafni Höfða og jafnar því við að heiti Laugavegar yrði breytt. Það er reyndar langsóttur samanburður – vegna þess að Höfðatún er jú bara leitt af Höfða-nafninu. Öðru máli hefði gegnt ef einhverjum hefði dottið í hug að umskíra Höfða sjálfan…

En gott og vel. Staðnæmumst aðeins við hina fáránlegu tilhugsun: að breyta nafni Laugavegarins.

Eins og Ómar rifjar upp heitir Laugavegurinn þessu nafni vegna þess að hann var lagður inn að Þvottalaugum eftir að Reykjavíkurbær eignaðist Laugarnesið og þar með talið Þvottalaugarnar. Ég nenni ekki að slá því upp hvenær þessi kaup gengu í gegn – minnir samt að það hafi verið 1885 og vegalagningin hafist ári eða tveimur árum síðar.

En hvenær er Laugavegur í raun Laugavegur? Þetta kann að virðast djúp tilvistarspekileg spurning, en er í raun mjög praktísk. Laugavegurinn sem hvert mannsbarn í Reykjavík þekkir, hefst við mót Skólavörðustígs og Bankastrætis/Bakarabrekku og heldur áfram inn að Kringlumýrarbraut, þar sem Suðurlandsbraut tekur við. Með öðrum orðum – honum lýkur óralangt frá Þvottalaugunum, nánar tiltekið nokkurn veginn við vesturbakka gamla Fúlutjarnarlæksins, sem rennur væntanlega í ræsi undir Kringumýrarbrautinni til sjávar.

Vaðið yfir Fúlutjarnarlækinn var niðri við ósinn, rétt vestan við Kirkjusand. Án þess að hafa sérstaklega lagt mig eftir því að skoða gömul kort af legu Laugavegarins, hef ég alltaf reiknað með því að fljótlega eftir að yfir Rauðaránna var komið hafi gatan sveigt til norðurs og farið auðveldustu leið í gegnum Túnin og niður að vaðinu. Ef sá skilningur minn er réttur, þá er það tómur tilbúningur að tala um götuna a.m.k. frá því í grennd við Fíladelfíukirkjuna og út að Suðurlandsbraut sem Laugaveg og sjálfstætt rannsóknarefni að kanna hvenær það hefst. Mín vegna mætti sá vegastubbur sem best heita Fúlutjarnarlækjargata – svona ef við erum að spá í lókal örnefnum…

Og hvað má þá segja um vestasta hluta götunnar? Nú er ekki svo að engin byggð eða gata hafi verið í framhaldi af Bakarabrekkunni fyrir 1885. Á korti frá 1876 er talað um Vegamótastíg þar sem nú er neðsti hluti Laugavegar. Það nafn er því upprunalegra og vafalítið má finna enn eldri heiti. Þessi gata hlykkjaðist áfram austur á bóginn og hefur væntanlega náð a.m.k. sem slóði alla leið að Rauðará. Ég er nefnilega alls ekki viss um að gerð Laugavegarins hafi kallað á miklar vegabætur vestan Rauðarár, sem var að mörgu leyti orðin endimörk hinnar eiginlegu Reykjavíkur á seinni hluta nítjándu aldar.

Það má því færa fyrir því nokkuð gild rök að Laugavegur dagsins í dag sé ekki nema að mjög litlu leyti á sömu eða svipuðum slóðum og Laugavegurinn sem lagður var inn í Laugardal. 1:0 fyrir sagnfræðina.

HM til Rússlands? (b)

Miðvikudagur, desember 1st, 2010

Á morgun er stór dagur fyrir fótboltaáhugamenn. Þá mun FIFA ákveða hvar HM 2022 (og væntanlega 2026 líka) verður haldið. Fyrir fáeinum mánuðum virtist langlíklegast að England yrði fyrir valinu. Núna sýnist mér að sífellt fleiri veðji á Rússland.

Almenna afstaðan á Luton-spjallborðinu er á þá leið menn óska þess að Rússarnir eða Spánn/Portúgal hreppi hnossið. Fyrir því eru tvær meginástæður:

i) Hluti stuðningsmannanna er ennþá foxillur út í Enska knattspyrnusambandið fyrir að beita félagið massívum refsingum og stigafrádrætti fyrir sakir sem hefði verið hægt að hanka annað hvert félag á.

ii) Flestir eru þó þeirrar skoðunar að þrátt fyrir hatur sitt á Enska knattspyrnusambandinu hefðu þeir viljað sjá HM haldið í Englandi… en sú staðreynd að Milton Keynes hafi verið valin sem ein mögulegra keppnisborga geri hugmyndina óásættanlega. Tilhugsunin um að MK Dons, hataðasta og fyrirlitnasta félag í Englandi, hagnist á HM er svo óbærileg að það verður slegið upp veislu í Luton ef Rússarnir verða fyrir valinu.

Skál fyrir því!