Archive for apríl, 2011

Strumpar

Fimmtudagur, apríl 21st, 2011

Miðað við auglýsingarmyndbandið fyrir strumpamyndina sem frumsýnd verður á næstunni, er ekki von á góðu. Getur verið að Haraldur Sigurðsson sé þrátt fyrir allt hæfastur til að blása lífi í strumpana/skríplana utan teiknimyndasöguformsins?

Það jákvæða við gerð myndarinnar er þó að í tengslum við markaðssetninguna hefur verið gert stórátak í endurútgáfu á strumpabókum á ýmsum tungumálum. Von er á fjöldanum öllum af gömlu, klassísku strumpabókunum á ensku og Danirnir hafa gefið út slatta í ár og í fyrra.

Peyo gerði sjálfur u.þ.b. 15 strumpabækur (eftir því hvernig talið er). Af þeim komu að mig minni 8 út á íslensku. Eins og svo algengt er með bestu höfunda, voru síðustu bækurnar dottnar niður í væmni og krúttlegheit. Ef hann hefði lifað aðeins lengur er ljóst að næsta verkefni hefði verið sjálfstæð sería um ævintýri strumpabarna í viðureign við ungan Kjartan og kettlinginn Brand.

Eftir dauða Peyos tók sonur hans upp þráðinn og hefur samið rúmlega tíu strumpabækur. Mér sýnist fæstar þeirra teljast nein stórvirki.

Því miður hefur strumpafárið núna ekki leitt til endurútgáfu og/eða útgáfu á hefðbundnum strumpateiknimyndasögum á íslensku. Þess í stað hafa komið út nokkrar bækur á sama formi og Disney-bækurnar hvimleiðu. Þetta er synd, þar sem amk tvær sígildar strumpabækur (Geimstumpurinn og Gammurinn – bækur nr. 5 og 6) hafa aldrei komið út á íslensku og flestar hinar eru löngu ófáanlegar.

Sigur?

Miðvikudagur, apríl 13th, 2011

Hvað er sigur og hvað er ósigur? Hvenær hefur maður náð það miklu af markmiðum sínum til að geta fagnað góðum árangri og hversu langt frá settu marki má maður enda til að geta engu að síður borið höfuðið hátt?

Mark Steel (uppáhalds-pólitíski grínistinn minn) velti þessu einhverju sinni fyrir sér í sambandi við Íraksstríðið. Hann líkti því við verslunarleiðangur. Maður sem fer út í búð til að kaupa mjólkurpott og brauðhleif, en snýr aftur með jógúrtdós og vatnsmelónu getur mögulega túlkað niðurstöðuna sem varnarsigur. Sá sem kemur tómhentur og peningalaus heim, eftir að hafa brennt sjoppuna til kaldra kola, getur það ekki.

Fyrir mörgum árum voru stofnuð samtökin Heimssýn. Ég sá reyndar aldrei ástæðu til að ganga í þann félagsskap, en margir vina minna og kunningja komu nálægt félaginu. Allt hið ágætasta fólk.

Tilgangur félagsins var að búa til regnhlífarsamtök þeirra sem telja að Íslandi sé betur borgið utan ESB, þvert á pólitíska litrófið. (Markmið sem ég hef aldrei verið sammála.) Það var í sjálfu sér hægðarleikur. Í Sjálfstæðisflokknum, VG og Framsókn var mýgrútur af fólki sem vildi taka þátt í þessari baráttu. Svo var keppikeflið að finna 1-2 táknræna Samfylkingarmenn til að taka þátt – á sama hátt og menn voru alltaf með einn Sjálfstæðismann sem var herstöðvaandstæðingur hér í gamla daga. (Stefán Jóhann Stefánsson var yfirleitt kratinn í Heimssýnar-hópnum.)

Ég hef verið félagi í VG frá því að ég gafst upp á Samfylkingunni haustið 1999. Ekki get ég þóst hafa unnið mikið í flokknum. Aldrei setið í neinum alvöru stjórnum eða verið fulltrúi flokksins í einu eða neinu, nema þá helst í uppstillingarnefndum og kjörstjórnum (og það jafnvel endað með ósköpum). Hins vegar þekki ég glás af flokksfólki, hef setið flesta landsfundi, marga flokksráðsfundi og reynt að sýna lit í kringum kosningar.

Byggt á þessari reynslu, leyfi ég mér að fullyrða að þótt kjósendur VG séu oft ansi margir jákvæðir í garð ESB í skoðanakönnunum, eru nálega engir stuðningsmenn ESB meðal virkra flokksmanna. Sumir eru skoðanalitlir eða jafnvel eilítið jákvæðir, en raunverulegir stuðningsmenn eru varla til. Ég myndi segja að langflestir virkir VG-félagar sem ég hef kynnst á þessum tólf árum séu annað hvort andsnúnir eða mjög andsnúnir ESB-aðild.

Að finna ESB-andstæðing í VG er álíka flókið og að finna KR-ing i Vesturbæjarlauginni.

Ég er því hugsi yfir listanum á heimasíðu Heimssýnar, þar sem stjórn félagsins er talin upp. Kunnuglegu VG-nöfnin á listanum eru ýmist gengin úr flokknum, á leiðinni úr flokknum eða jaðarsett innan flokksins. Þetta er með hreinum ólíkindum.

Heimssýn hvíldi í byrjun á tveimur sterkum stoðum: Sjálfstæðismönnum og VG-fólki. Núna virðist mönnum hafa tekist að halda þannig á spilunum að traustir VG-flokksmenn vilja ekki taka á félaginu með löngum töngum. Er hægt að klúðra málum öllu verr? Er þetta ekki á pari við að fara í búðina eftir mjólkurpottinum og skilja eftir brunarústir?