Archive for maí, 2011

Þróttur – Fram

Laugardagur, maí 28th, 2011

Ég er sökker fyrir bikarkeppninni. Jafnvel svo mikill sökker að ég freistast til að blogga aftur.

Framarar dógust gegn Þrótti (á útivelli) í 16-liða úrslitum bikarkeppninnar. Þótt undarlegt kunni að virðast þá hafa A-lið þessara félaga aðeins þrisvar sinnum dregist saman í bikarkeppni KSÍ frá árinu 1960. Þá undanskil ég viðureignina 1967 þegar b-lið Fram tapaði 2:3 fyrir Þrótti í fyrstu umferð. Þetta var árin 1977, 1979 og 1998.

Síðasttöldu viðureigninni var ég blessunarlega búinn að gleyma. Fram tók á móti Þrótti á Laugardalsvelli í 16-liða úrslitum og var kjöldregið 2:5. Þorbjörn Atli Sveinsson skoraði bæði mörk okkar. Ási Haralds, Tómas Ingi og Hreinn Hringsson skiptu með sér mörkunum fyrir Þrótt. (Var þetta ekki árið sem Þróttur var á rosalegu rönni fram yfir mitt mót og féll svo að lokum með metstigafjölda?)

Fyrsta viðureignin, sú árið 1977, var líka í 16-liða úrslitum. Fram vann 2:3, en markaskorararnir voru ekki af verri endanum – Páll Ólafsson og Leiur Harðarson fyrir Þrótt og Kiddi Jörunds (2) og Sumarliði Guðbjartsson fyrir Fram.

1979 mættust Fram og Þróttur í undanúrslitum bikarkeppninnar (sem er enn í dag besti árangur Þróttar í keppninn). Liðin voru á sama róli um miðja efstu deild. Leik liðanna lauk með 2:2 jafntefli (Gunnar Orrason og Marteinn Geirsson skoruðu). Þá var gripið til annars leiks og Fram sigraði 2:0 (Guðmundur Steinsson og Marteinn). Í kjölfarið urðu Framarar bikarmeistarar.

Linnæus Östlund

Mánudagur, maí 2nd, 2011

Við lestur nýrrar bókar Sigmundar Ó. Steinarssonar um sögu Íslandsmótsins í knattspyrnu (fyrra bindi) leitar á mig gömul spurning sem ég braut heilann um fyrir nokkrum árum en leiddi síðan hjá mér. Hver var Linnæus Östlund?

Í bókinni grípur Sigmundur niður í kunnan pistil eftir Kjartan Þorvarðsson úr 25 ára afmælisblaði Fram frá árinu 1933. Kjartan er einn af stóru mönnunum í sögu félagsins og átti stóran þátt í að það lognaðist ekki útaf undir lok þriðja áratugarins. Hann skrifaði Framblaðið nánast einn síns liðs og setti saman úrvalslið Fram þennan fyrsta aldarfjórðung.

Kjartan var sjálfur markvörður stóran hluta gullaldartímabils Fram og stóð milli stanganna flest árin sem liðið varð Íslandsmeistari. Hann var hins vegar alltof prúður til að velja sjálfan sig í liðið. Fyrstu árin skiptu Framarar í sífellu um markverði og enginn þeirra varð minnisstæður. Hinn augljósi kostur fyrir hinn hógværa Kjartan hefði því verið Kjartan Thors, sem varði mark Fram í nokkur ár.

En Kjartan valdi Linnæus Östlund og hafði stór orð um snilli hans í markinu. Linnæus who?

Einföld leit á timarit.is leiðir ekki í ljós nema eina vísun í Linnæus Östlund í tengslum við knattspyrnu. Það var sumarið 1916, þegar hann meiðist í leik í Reykjavíkurmótinu. Mér er ekki kunnugt um neina liðsmynd af Frömurum þar sem Linnæus er í marki. Sigmundur tiltekur meistaralið Fram fyrir hvert ár 1913-16 og nefnir þar þrjá aðalmarkverði – en enginn þeirra er Linnæus Östlund.

Linnæus var sonur Davids Östlunds, Svíans sem var aðalsprautan í söfnuði Aðventista hér á landi. Í september fer hann alfarinn með móður sinni vestur um haf og skömmu síðar er hann sagður leggja stund á rafmagnsfræði. Og þar kólnar slóðin.

Var Linnæus Östlund þessi afburðamarkvörður á upphafsárum íslenskrar knattspyrnu – jafnvel sá besti á þeim árum? Um það eru litlar heimildir. Hélt hann áfram að stunda íþróttina? Varð hann langlífur? Veit einhver um afdrif Östlund-fólksins í Ameríku? Þetta væri gaman að vita.