Archive for ágúst, 2011

Skólinn

Miðvikudagur, ágúst 24th, 2011

Stelpan byrjar í skóla í fyrramálið. Hún fer í Háteigsskóla og reiknar með að vera búin að læra nánast allt milli himins og jarðar eftir mánuð.

Við þessi tímamót rifjar maður ósjálfrátt upp sína eigin skólabyrjun. Þegar ég var á þessum aldri, var 6 ára bekkurinn ekki hluti af skólaskyldunni. Það tók skólakerfið óratíma að lögfesta það og enn lengri að hafa sig í að breyta númeraröðinni á bekkjunum.

Flestir fóru samt í 6 ára bekk, sem náði samt varla máli. Kennslan var örstutt. Og það var ekki gert ráð fyrir að nemendurnir kynnu neitt. Leikskólar voru stofnanir þar sem börn kubbuðu og átu sand. Þar var ekki verið að skrifa, lesa og reikna – auk þess sem það voru helst börn stúdenta og einstæðra mæðra sem komust á leikskóla.

Með þennan samanburð í huga sýnist mér gæði námsins í sex ára bekk í dag vera gríðarleg. Stundaskráin er full af sérgreinum með fagkennurum. Sjálfur minnist ég þess ekki að hafa fengið fagkennara í öðru en leikfimi, hannyrðum og smíði fyrr en ég var tólf ára.

Ekki botna ég í því fólki sem vantreystir grunnskólunum og telur það framfaraskref að afnema skólaskylduna.

Bara Lennon

Mánudagur, ágúst 22nd, 2011

Hinn augljósi orðabrandari dagsins, í ljósi þrennu Steve Lennons, er að rifja upp þennan gamla bókartitil Illuga Jökulssonar.

Steve Lennon er smátittur, en markheppinn. Fimm mörk fyrir lið í fallsæti í 6-7 leikjum er bara helv. gott.

Ég veit ekkert skemmtilegra en að vinna Val í íþróttum. (Það var reyndar stórt skref þegar ég viðurkenndi að mér væri verr við Valsmenn en KR-inga.) Það væri þó gaman að gera reynsluathugum með því að prófa að vinna KR-inga á mánudaginn kemur…

Leikið tveimur skjöldum

Miðvikudagur, ágúst 3rd, 2011

Lét Þóru Kristínu á Smugunni plata mig til að fara að blogga þar endrum og sinnum. Sjá: hér. Það verður að ráðast hvernig ég skipti þessu. Ætli pólitískari færslurnar lendi ekki Smugumegin og nördaskapurinn hérna? Nema maður taki bara Ómar Ragnarsson á þetta – og pósti sömu færslum á báðum stöðum…