Archive for maí, 2013

Skaginn úti, Stjarnan heima, Valur úti (bikar)

Fimmtudagur, maí 30th, 2013

Er ég alveg að fokka upp þessari bloggseríu? Best að hreinsa upp gamlar syndir og slá þrjár flugur í einu höggi:

Ég mætti upp á Skaga kvöldið fyrir maraþonræðuna. Það var e.t.v. fífldirfska í ljósi þess að það var rok og frekar kalt. Fékk ekki kvef, en það var það jákvæðasta við leikinn.

Þegar ég skrifaði um fótbolta fyrir Moggann fyrir hundrað árum tók ég leik á Skaganum. Í blaðamannastúkunni var búið að hengja upp blað sem sýndi vindrósir og töflu yfir vindhraða á Skipaskaga og í Reykjavík. Þar voru færð rök fyrir því að í raun væri ekki vindasamt á Skaganum – gott ef það væri ekki meira logn þar en í höfuðborginni. Svona má ljúga með tölfræði.

Það er alltaf rok á Skaganum. Og þetta var einn af þessum leikjum sem einkenndist af veðuraðstæðum. Framarar yfirspiluðu heimamenn í fyrri hálfleik með sterkan vind í bakið. Markvörður Skagamanna var góður, varnarmennirnir heppir og sumir Framararnir óskynsamir (Lennon skaut t.d. ALLTAF á markið).

En leikmenn ÍA eru aldir upp á þessum velli og kunna miklu betur en nokkrir aðrir að spila í þessum veðuraðstæðum. Þeir skoruðu úr sinni einu sókn í fyrri hálfleiknum – á lokasekúndunni. Annað mark fylgdi í kjölfarið snemma í seinni hálfleik. Svo tókst Skagamönnum að drepa leikinn og spilamennska Framara varð sífellt örvæningarfyllri. Framari leiksins: Hólmbert Aron Friðjónsson.

***

Fram og Stjarnan hafa oft átt fjöruga markaleiki. Síðasti leikur á Laugardalsvelli var ekki einn þeirra. Stjörnuliðið í ár er alls ekki eins vel spilandi og skemmtilegt og verið hefur síðustu ár. Er Logi með svona mikið leiðinlegri stíl en Bjarni? Sem fyrr voru Framarar betri í fyrri hálfleik (við erum meistarar fyrri hálfleikjanna í ár) en skoruðu ekki. Hólmbert fékk dauðafæri en nýtti ekki. Stjarnan skapaði lítið en fékk mark upp úr engu þegar Ólafur Örn var að gaufa með boltann í teignum. Ergileg byrjendamistök hjá reyndasta manninum.

Í seinni hálfleik voru Framarar andlausir, sendingar ónákvæmar og ekkert að gerast. Markalaust jafntefli hefði líklega verið sanngjarnast en í raun átti enginn skilið að fá neitt út úr leiknum. Ögmundur markvörður var Framari leiksins sem segir sína sögu.

***

Það er einhvernveginn hálfgert svindl að dragast gegn úrvalsdeildarliði á útivelli í 32-liða úrslitum bikarkeppninnar og fá „alvöru“ leik á meðan hin liðin trimma á móti hálfgerðum firmaliðum. En á hinn bóginn er líka miklu meira gaman að fara þessa leiðina ef manni tekst að vinna – hvað þá þegar andstæðingarnir eru Valur. Það er fáránlega mikið skemmtilegra að vinna Val en t.d. Fylki.

Það voru fáir á vellinum. Miklu færri mæta á bikarleiki en deildarleiki. Aðstæður hins vegar fínar, þótt það blési dálítið í fyrri hálfleik. Liðsuppstillingin hefðbundin. Kristinn Ingi er enn ekki fyllilega leikfær og byrjaði því á bekknum.

Framliðið var mun betra í fyrri hálfleik. Valsmenn furðuslappir. Þrátt fyrir betri spilamennsku tók sinn tíma að skora fyrsta markið og raunar gerðist það ekki fyrr en Valur var að ná vopnum sínum. Hewson átti glæsilega sendingu fram á Lennon sem náði fínum bolta af kantinum beint í lappirnar á Almarri sem skoraði fínt mark.

Seinni hálfleikurinn var nýbyrjaður þegar Valsmenn fengu víti. Bjarni Hólm greip í einn Valsmanninn að ástæðulitlu og svo sem lítið hægt að kvarta yfir því. 1:1.

Örskömmu síðar sýndist mér Framararnir hefðu átt að fá augljósa vítaspyrnu þegar Hólmbert var felldur í teignum. Hólmbert er búinn að vera helvíti öflugur í sumar og vantar bara herslumuninn í að verða toppleikmaður. Fyrstu mínúturnar eftir jöfnunarmarkið óttaðist ég að Framliðið myndi falla niður í pirring og tuð og Valsmenn virtust ætla að ná völdum á miðjunni. Það breyttist þó fljótlega. Framarar áttu betri sóknir og komust verðskuldað yfir á ný. Aftur átti Hewson lykilsendinguna og Hólmbert skallaði auðveldlega í netið illa valdaður og miklu stærri en allir hinir.

Valsfyrirliðinn var rekinn útaf fyrir að reyna að fiska víti. Það var óþarflega harður dómur, svona eftir á að hyggja.

16-liða úrslitin taka nú við. Útfrá prinsipinu um að vilja dragast gegn liði sem Fram hefur ekki fyrr mætt í KSÍ-móti ætti óskalistinn að vera: 1. Magni heima, 2. Sindri heima, 3. Tindastóll heima. Það væri líka gaman að fara til Ólafsvíkur úr því að ég missti af því um daginn. Hitt Víkingsliðið í Fossvoginum væri líka fínt eða Leiknir í Breiðholtinu. – Sem þýðir að við fáum örugglega FH úti.

Framkvæmdin

Föstudagur, maí 24th, 2013

Þórir Hrafn vinur minn hringdi í mig í dag til að óska mér til hamingju með maraþonræðuna. Gerði það þó með þeim orðum að hann væri ekki alveg viss um að egóið mitt hefði endilega þurft á Íslandsmeti að halda. Líklega hárrétt stöðumat.

Það hefur verið skemmtilegt að fylgjast með netumræðum um stóra Svals og Vals-fyrirlesturinn. Þó er merkilegt hversu margir telja markverðast að ég hafi ekki þurft að pissa í nokkra klukkutíma. Er fólk almennt símígandi?

Ég vildi að ég gæti núna sett mig í gáfulegar stellingar og talað fjálglega um hvernig best sé að undirbúa sig fyrir 13 og 1/2 klukkutíma ræðu: hvaða æfingar eigi að gera, hvernig liðka skuli raddböndin, klæða sig eða nærast. En veruleikinn býður ekki alveg upp á það.

Í fyrsta lagi álpaðist ég á fótboltaleik í kulda og roki upp á Skaga kvöldið fyrir ræðuna og hefði hæglega getað nælt mér í kvef. Ég vaknaði klukkan sjö um morguninn og fór á klósettið eins og vanalega, klæddi mig í hversdagsfötin – þar með talið Ecco-götuskóna mína – því ég á enga mjúka íþróttaskó eins og mælt er með fyrir svona langtímastöður.

Ég hafði einsett mér að tala í striklotu í sex klukkutíma, en eftir það myndi ég stoppa til að taka salernispásur og til að gleypa í mig einhvern mat með reglulegu millibili. Fyrsta matarhlé yrði því um þrjúleytið svo óþarft væri að kýla sig út af mat. Lét því einn serjósdisk nægja og brunaði svo niður í Friðarhús. Þar hellti ég upp á kaffi og drakk tvo litla bolla. Hafði hugsað mér að pína mig til að pissa rétt áður en klukkan yrði níu, en svo tóku tæknimálin og uppröðunin lengri tíma en ætlað var svo það gleymdist.

Frá kl. 9 til hádegis drakk ég tæplega eitt vatnsglas og upp úr hádeginu bætti ég við einum kaffibolla. Þeir urðu þrír í allt.

Um þrjúleytið var komið að því að ákveða hvort og þá hvenær ég myndi taka mér hlé. Ég var agnarlítið svangur og bölvaði því að hafa ekki étið meira um morguninn, vitandi af samlokunni sem Steinunn hafði fært mér fyrr um daginn liggjandi innan seilingar. En ég var þó ekki svengri en svo eða þreyttari í fótunum að nokkur ástæða væri til að stoppa, hvað þá að klósettferð væri á dagskránni. Um sexleytið varð ég endanlega ákveðinn í að klára ræðuna án þess að taka hlé og dró í kjölfarið úr vatnsdrykkju.

Röddin olli mér aldrei neinum vandræðum. Sennilega hefði ég getað talað mun lengur með sama styrk án þess að raddböndin hefðu svikið. Iljarnar, hnén, lærin og mjóbakið voru aðeins farin að kvarta – en þó ekkert alvarlega. Það að standa og láta dæluna ganga veldur hins vegar einhverjum þrýstingi á þindina sem kom fram í því að mér fannst ég þurfa að geispa en náði ekki fyllilega andanum. Ég reyndi ítrekað að skjóta inn geispum án árangurs, með þeim afleiðingum að áhorfendur töldu að ég væri að reyna að kæfa geispa. Þetta voru einu líkamlegu óþægindin sem trufluðu mig allan tímann og voru verst á að giska milli kl. sex og átta.

Um klukkan níu sá ég fram á að geta með góðu móti klárað efnið á rúmlega klukkutíma í viðbót. Auðvitað hefði ég getað teygt lopann eitthvað til að bæta einhverjum stundarfjórðungum við, en ég ákvað að gera það ekki og ljúka ræðunni um hálf ellefu leytið til að gestirnir (sem voru örugglega um 30 talsins á þessum tíma) gætu sest niður og spjallað eftir erindið í stað þess að allir væru farnir að búa sig til brottfarar. Það voru því ekki líkamleg óþægindi sem komu í veg fyrir að ég tæki 1-2 klukkustundir í viðbót. Mikið lengri tími hefði þó getað reynst nokkuð óþægilegur.

Þegar ræðunni lauk fattaði ég í fyrsta skipti hversu þreyttur ég væri í raun í fótunum. Sumir áhorfendurnir reiknuðu með að ég tæki strikið beint á klósettið og kvörtuðu hreinlega yfir að ég gerði það ekki. Mér var hins vegar ekki mál og fékk mér bjór í staðinn. Það var ekki fyrr en ég var kominn vel á aðra bjórflösku að ég þurfti að pissa, þá voru meira en 45 mínútur liðnar frá því að ræðunni lauk.

Ég skal hins vegar fúslega viðurkenna að ég hef átt betri morgna en í dag.

Slóðin á maraþonræðuna

Þriðjudagur, maí 21st, 2013

Bara svo það sé á hreinu:

slóðin á vefútsendinguna frá Svals og Vals-ræðunni er http://spirou.illuminati.is/

Hvað allir athugi.!

Stefanía Afturhaldsdóttir

Föstudagur, maí 17th, 2013

Ein fyrirsjáanlegasta umræðan í kringum hverja stjórnarmyndun er: „hvað á stjórnin svo að heita?“ Og við tekur frekar súr leikur þar sem stjórnarliðar reyna að festa í sessi orð eins og „stjórn atorku og heiðarleika“ en sjórnarandstæðingarnir stinga upp á „fábjána- og lygamarðastjórnin“.

Þessi umræða hefur skilað sér inn á íslensku Wikipediuna, þar sem rætt er um hvort rétt sé að vísa til fyrri ríkisstjórna með viðurnefnum sínum eða kenna bara við forsætisráðherrann. Dæmi um þetta er Ráðuneyti Stefáns Jóhanns Stefánssonar. Stjórnin var við völd frá því snemma árs 1947 og framundir árslok 1949.

Það eru almennt viðtekin sannindi að þessi stjórn hafi verið kölluð Stefanía. Sjálfur hef ég vafalítið samið spurningar fyrir spurningakeppnir þar sem Stefaníu-viðurnefnið kemur við sögu. En er málið svo augljóst?

Ég beitti timarit.is-prófinu á nafnið „Stefanía“ og bjóst sannast sagna við að fá upp ívið fleiri færslur á valdatíma stjórnarinnar en árin í kring. Svo var ekki. Nær allar færslurnar tengdust konum sem báru Stefaníu-nafnið, einkum Stefaníu Guðmundsdóttur leikkonu. Miðjuárið 1948 kemur orðið varla fyrir í póitíska samhenginu. En hægt er að finna dæmi frá 1947 og 1949.

Ingi R. Helgason skrifar reiðilegan pistil í blað róttækra stúdenta og talar um ríkisstjórnina „Stefaníu Afturhaldsdóttur“. Þjóðviljinn og Þjóðvörn víkja að stjórninni sem Stefaníu í 2-3 skipti á árinu 1949, þar sem síðarnefnda blaðið segir að almenningur kalli stjórnina þessu nafni.

Morgunblaðið, Alþýðublaðið og Tíminn tala aldrei um ríkisstjórnina sem Stefaníu. Orðið kemur tvisvar fyrir í Vísi. Í annað skiptið í aðsendri lausavísu og hins vegar í leiðara árið 1949 þar sem orðið er í gæsalöppum og höfundur sér ástæðu til að útskýra við hvað sé átt. Og það voru nú öll ósköpin. Hið víðkunna viðurnefni birtist nær aldrei á prenti, nema þá helst í örfáum greinum eftir hatrömmustu andstæðinga stjórnarinnar.

Og þó… það var reyndar eitt blað til viðbótar þar sem Stefaníu-nafnið var notað. Grínblaðið Spegillinn vísaði í allnokkur skipti til ríkisstjórnarinnar sem Stefaníu. Þar gæti hundurinn verið grafinn.

Nú þarf varfærinn sagnfræðingur að reka varnagla. Það kann vel að vera að allur almenningur hafi talað um stjórn Stefáns Jóhanns sem Stefanínu, þótt flokksblöð stjórnarflokkanna hafi ekki viljað nota svo óformlegt gælunafn. Það að orðið sé helst notað sem skammarheiti í þau fáu skipti sem það ratar á prent, þarf heldur ekki að útiloka að það hafi líka verið notað í jákvæðari merkingu. Á hitt ber hins vegar að líta að Spegillinn var á löngum tímum betri mælikvarði á almennar pólitískar umræður í íslensku samfélagi en hefðbundnu dagblöðin.

Hafi almenningur talað um ríkisstjórnina 1947-49 sem Stefaníu, er í það minnsta ljóst að það var ekki runnið undan rifjum stjórnarinnar sjálfrar. Viðurnefnið hefur staðið og fallið með vinsældum Spegilsins. Þótti þetta nógu hnyttið og meðfærilegt gælunafn? Ég leyfi mér að efast um útbreiðsluna.

En hver er lærdómurinn fyrir pólitíkusa samtímans? Jú, það hvaða viðurnefni ríkisstjórnir fá í sögubókum framtíðarinnar þarf alls ekki að hanga saman við það hvað þær voru kallaðar í lifanda lífi. Fæstar ríkisstjórnir heita neitt ef út í það er farið. Og hins vegar – þá er ólíklegt að pr-mennirnir í stjórnarflokkunum eða kjaftaskúmarnir í stjórnarandstöðunni muni fá að velja nafnið. Best er að bíða bara rólegur og sjá hvað Spaugstofunni dettur í hug. Hún vinnur alltaf á endanum.

Valur úti: 3/22

Fimmtudagur, maí 16th, 2013

Ég ætla að stofna ráðgjafarverkfræðifyrirtæki sem sérhæfir sig í hönnum knattspyrnuleikvanga. Samskipti mín við kúnnana verða svona:

Stefán: „Og þið hafið hugsað ykkur að láta stúkuna snúa svona?“

Fulltrúar íþróttafélags: „Já, hún yrði hérna meðfram þessari hlið á vellinum.“

Stefán: „Og þegar sólin er lágt á lofti á sumarkvöldum á Íslandi, hvar er hún þá gagnvart áhorfendum í stúkunni.“

Fulltrúar íþróttafélags: „Hérna! Beint í augun… ahh, þú meinar…“

Stefán: „Já. Það verða milljón krónur, takk.“

Það hefði verið mjög gott ef þetta spjall hefði átt sér stað áður en Vodafonevöllurinn var byggður. (Já, ég kalla þetta Vodafonevöllinn, menn sem selja nafnið á vellinum sínum eiga ekki annað skilið en hann sé kallaður kjánanöfnum.) Mögulega hefði ég getað mætt með derhúfu, en er of tískumeðvitaður til þess. Kannski brýt ég samt odd af oflæti mínu fyrir bikarleikinn í lok mánaðarins.

Þetta var skrítinn leikur. Framarar áttu fyrri hálfleikinn með húð og hári. Valsmenn voru úti á þekju, grófir og pirraðir. Viktor Bjarki og Haukur Baldvins voru komnir á bekkinn frá því í síðasta leik og sú breyting kim ágætlega út. Aulagangur hjá einum Valsvarnarmanninum varð til þess að Steven Lennon komst inn fyrir og lagði upp færi fyrir Hólmbert Aron sem skoraði ágætismark. Fórum sáttir inn í hléið, en þó nagaði það mann aðeins að hafa ekki náð að skora nema eitt mark.

Tvö gjörólík lið komu inn á völlinn í seinni hálfleik. Valsmenn voru miklu öflugari frá byrjun og skoruðu á fyrstu mínútunum með því að taka aukaspyrnu hratt meðan varnarmenn Fram sváfu á verðinum. Frömurum tókst ekki að ná aftur valdi á miðjunni og reyndu kýlingar fram sem litlu skiluðu. Kristinn Ingi komst þó í eitt afbragðsfæri, en líkt og í Fylkisleiknum virðist hann ragur við að skjóta á markið heldur reynir að hlaupa með boltann í netið. Hann vantar talsvert í að ná formi síðasta árs.

Valur hefði með réttu átt að skora annað mark. Fengu frábært tækifæri til þess þegar boltinn fór í höndina á Lowing en sá rauðklæddi þrumaði í stöngina. Nokkrum mínútum síðar sýndist mér boltinn fara í hönd Valsara í hinum vítateignum en ekkert dæmt.

Eins og það hefði nú verið gaman að vinna á símafyrirtækisvellinum, voru þessi úrslit sanngjörn. 5 stig eftir þrjá leiki er ekki slæmt og fyrsta tapið lætur sem betur fer bíða eftir sér. Maður leiksins? Tjah, Ögmundur í markinu fær nafnbótina að þessu sinni, þrátt fyrir óvenjuslakar markspyrnur í kvöld.

Ræðan

Miðvikudagur, maí 15th, 2013

Þá er það orðið opinbert! Miðvikudaginn 22. maí ætla ég að halda fyrirlestur og hann ekki stuttan. Tilefnið er 75 ára afmæli Svals úr Svals og Vals-bókunum, en jafnframt er ég að láta gamlan draum rætast.

Þegar ég var í MR fyrir hundrað árum síðan lenti Málfundafélagið Framtíðin í fjárkröggum. Til að bæta úr því hafði Kristján Guy Burgess (aðstoðarmaður utanríkisráðherra og tengdasonur VG) frumkvæði að því að skipuleggja „mælsku-maraþon“. Það virkaði eins og þegar krakkarnir í sundfélögunum synda boðsund í heilan sólarhring og vinir og ættingjar gefa tíkall á kílómetra, nema þarna vorum við nokkur sem tengdumst málfundafélaginu sem skiptum á okkur að þruma í pontu í marga, marga klukkutíma. Maraþonið fór fram í Hinu húsinu, sem þá var í Þórscafé-húsinu.

Í raun vorum við alltof mörg. Hver um sig þurfti varla að tala nema nema í klukkutíma í allt, nema Daníel Freyr Jónsson forseti Framtíðarinnar – hann tók stærstan hluta næturvaktarinnar. Meðan á þessu stóð kviknaði sú hugmynd í kollinum á mér að gaman væri að reyna hversu langa ræðu ég gæti flutt. En í tuttugu ár gafst ekki átylla til að hrinda henni í framkvæmd.

En hversu langt er nógu langt? Hverjar eru lengstu íslensku ræðurnar? Þar er í stutt í hvers kyns skilgreiningarvanda.

Eflaust má finna dæmi um maraþonupplestra. Hvað ætli heildarlestur á Passíusálmunum taki langan tíma? Er það ræða?

Lokaræður saksóknara og verjenda í dómsmálum eru líka ógnarlangar. Gott ef lokaræðan í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu var ekki 17 klukkutímar, en slíkar ræður eru fluttar í litlum bútum yfir nokkurra daga tímabil.

Líklega hugsa flestir um Alþingismenn í þessu sambandi. Jóhanna Sigurðardóttir talaði í 10 klst. og 8 mínútur um húsnæðiskerfið í ræðu á þingi árið 1998. Ætli það sé ekki besta viðmiðunin. Jóhanna tók sér þó hins vegar bæði hádegis- og kvöldverðarhlé, sem sumir myndu telja hálfgert svindl inni í miðri ræðu. Sama gildir um aðrar langar þingræður, þær voru fluttar með hléum og stundum fóru menn heim og lögðu sig á milli.

Í metræðu Jóhönnu, var lengsti samfelldi kaflinn rétt rúmlega 5 klst. og 30 mínútur án þess að tekið væri hlé á milli eða hlaupið á klósettið eins og Valdimar Leó Friðriksson gerði í frægri málþófsræðu. Fimm og hálfur tími í samfelldri ræðu er því klárlega eitthvað til að miða við líka.

En hvernig eru alþjóðlegu reglurnar? Heimsmetabók Guinness er með mjög nákvæma staðla um svona ræður. Samkvæmt þeim er ræðumanni heimilt að matast meðan á máli hans stendur, en þó þannig að það trufli ekki ryþmann í ræðunni. Einnig er ræðumanni heimilt að hvílast í 5 mínútur á hverri klukkustund – sem er nú dágóð hvíld.

Ég er að velta því fyrir mér að reyna að ná meira en 5 og hálfum tíma af órofinni ræðu, en skipta að því loknu yfir í Guinness-reglurnar. Hversu lengi ég endist á eftir að koma í ljós. Ég hef ekki hugmynd um hvað gerist fyrst: hvort röddin bregðist, ég örmagnist af þreytu, fái hausverk af öllu blaðrinu eða skrokkurinn mótmæli því að standa svona lengi upp í endann. A.m.k. er ljóst að efniviðurinn er nægur. Það er hægt að tala endalaust um Sval og Val.

Óskalisti bikarmeistarans

Þriðjudagur, maí 14th, 2013

Ég viðurkenni fúslega að ég er sökker fyrir bikarkeppninni í fótbolta – einkum fyrstu umferðunum. Held að þetta sé arfur frá þeim tíma þegar ég var 6-7 ára og vissi ekkert merkilegra en að þröngva mér inn á leiki í 4ðu deildinni eða fyrstu umferðunum í bikarnum á Melavellinum. Klöngraðist yfir girðinguna og klístraði tjöru í fötin mín – á leiki þar sem var ekki einu sinni rukkað inn.

 

Afstaða mín til bikarkeppninnar er líka svipuð og hjá fólki sem „safnar löndum“ og merkir í huganum inn á kort öll lönd heimsins sem það hefur komið til. Ég var svona með sveitarfélög á Íslandi (og er eiginlega ennþá) og í bikarkeppninni finnst mér það ótvíræður kostur ef Framararnir geta bætt „nýju“ liði í safnið. (Þó með þeim fyrirvara að það er hálfgert frat að mæta liði frá hinum enda landsins á útivelli og missa af öllu saman.

 

Út frá þessum forsendum fylgist ég spenntur með fyrstu bikarumferðunum og bý svo til óskalista yfir lið sem myndi vilja sjá Fram mæta í næstu umferð. Hann er eitthvað á þessa leið:

 

i) Magni (heima). Sigur Magna frá Grenivík á KA eru óvæntustu úrslit ársins. Magni er líka félag sem hefur haldið sínu striki og tekið þátt á Íslandsmóti frá því að ég man eftir mér og aldrei tekið þátt í einhverjum sambræðingsliðum. Reyndar hef ég ekki hugmynd um hversu „grenvískt“ lið Magni er í raun og veru. Það getur allt eins verið að þetta sé í raun Akureyrarklúbbur sem fái að nota nafnið og kennitöluna í dag. En Fram : Magni á Laugardalsvelli væri toppurinn.

 

ii) Þróttur Vogum (úti). Ég held að ég hafi verið farinn að nálgast tvítugt þegar ég fór fyrst í þorpið Voga á Vatnsleysuströnd – Mekka ídýfugerðar á Íslandi. Samt hafði maður keyrt þarna framhjá milljón sinnum. Segi ekki að Vogar hafi staðið undir væntingum sem unaðreitur í auðninni. Varð samt glaður þegar ég frétti að staðurinn stæði undir fótboltaliði. Þangað væri gaman að fara í næstu umferð.

 

iii) Álftanes (úti). Ég hef aldrei séð fótboltaleik á Álftanesi og líklega best að drífa sig áður en staðurinn breytist endanlega í Garðabæjarúthverfi. Svo þekki ég allnokkra Álftnesinga sem ég gæti heimsótt í leiðinni. Það er ekki eins og neitt annað reki mann alla leiðina þangað úteftir. Er ekki örugglega þríbreiður vegur um hraunið?

 

iv) Ármann (heima). Reyndar er þetta ekki „alvöru“ Ármannslið, heldur strákar úr utandeildinni sem fengu nafnið lánað til að geta skráð sig í bikarkeppnina. En það breytir því ekki að Ármann er félag sem Frömurum hefur aldrei auðnast á mæta í KSÍ-móti, bara í Reykjavíkurmótinu. Það er þeim mun meiri synd í ljósi þess að knattspyrnudeild Ármanns var á sínum tíma stofnuð af Frömurum sem fóru í tímabundna fýlu út Fram. Steinn Guðmundsson var þjálfari á gullaldarárum Ármanns í fótboltanum og nokkrir öflugir Framarar stigu fyrstu spor sín í yngstu flokkum Ármanns, s.s. Friðrik Friðriksson markvörður.

 

v) Sindri, Höttur eða Tindastóll (heima). Eftir því sem ég kemst næst hefur Fram ekki mætt þessum liðum í bikarkeppn KSÍ. Ég verð þá leiðréttur í athugasemdakerfinu ef ég er að bulla. Alltaf gaman að ná að haka við nýjan mótherja, en ekkert af þessu eru þó viðureignir sem kveikja sértaklega í manni.

 

vi) KV (heima). Frændur mínir í KV falla klárlega undir skilgreininguna: „lið sem Framarar hafa ekki spilað við í Íslandsmóti eða bikarkeppni“. Samt hneigist ég til að setja lið þeirra í annan flokk en félögin sem nefnd eru hér að ofan. Þetta er hálfgerður dótturklúbbur KR og stigsmunur en ekki eðlismunur á þeim og vinaklúbbum sem heita fábjánanöfnum á borð við Stál-úlfur og Vatnaliljurnar eða hvað þetta nú heitir allt saman.

 

vii) Valur (heima). Það er alltaf gaman.

Hreint út sagt

Þriðjudagur, maí 14th, 2013

Vef-Þjóðviljinn er um margt ágætt vefrit. Fyrir það fyrsta hlýt ég, sem fyrrum ritnefndarfulltrúi í vefriti sem þraut örendi, að játa aðdáun mína á seiglunni og úthaldinu. Í öðru lagi á Vef-Þjóðviljinn það til að segja skýrt hluti sem aðrir vefja inn í orðskrúð og frasa. Þessi færsla er gott dæmi um það.

Einn tískufrasinn í síðustu kosningabaráttu var krafan um að „einfalda skattkerfið“. Sjálfstæðisflokkurinn veifaði þessu baráttumáli mjög – enda eðlilegt þar sem hann er hægriflokkur. Framsóknarflokkurinn talaði á sömu nótum, þótt reyndar vefðist ekki fyrir honum að slá á sama tíma fram hugmyndum sem gengju í þveröfuga átt, s.s. að skilja á milli barnafata og fullorðinsfata í skattlagningu – sem er skólabókardæmi um hvernig auka má flækjustig í skattkerfinu. (Hm, misvísandi kosningaloforð hjá Framsókn… hver hefði trúað því?)

Björt framtíð stökk á vagninn. Svo sem skiljanlega, hvernig gat flokkur sem hafði þá helstu pólitísku hugmyndafræði að vilja „minna vesen“ gert annað? Og Píratarnir voru á sama máli. Nákvæmlega hvers vegna er ekki alveg ljóst. Líklega samt vegna þess að í hugum sumra eru hugtökin „flókið“ og „leynilegt“ nánast samheiti og Píratarnir eru jú á móti leyndarmálum.

VG tók ekki þátt í þessum kór og kratarnir eiginlega ekki heldur – enda áttu þeir tvo síðustu fjármálaráðherra. Nýja formanninum leið samt ekki vel með það. Samfylkingin vill jú viðhalda þeirri sjálfsmynd að hún sé nútímalegur jafnaðarmannaflokkur og hvað er nútímalegra en einföld og straumlínulöguð kerfi? – Um litlu framboðin þarf fátt að segja. Þau kinkuðu þó flest gáfulega kolli þegar talið barst að ægilega flókna skattkerfinu.

Greinin í Vef-Þjóðviljanum útskýrir hins vegar mætavel um hvað málið snýst þegar kemur að virðisaukaskatti. Einfalda skattkerfið neglir niður fasta álagningarprósentu og lætur hana gilda á línuna. Sama prósenta er tekin af Hummer-jeppanum frá bílaumboðinu eða Hummus-bakkanum í kjörbúðinni. Allri tilfinningasemi er vikið til hliðar. Við skattleggjum bækur jafnt og topplyklasett í stað þess að hlusta á eitthvað væl í rithöfundum og bókaútgefendum um að mikilvægt sé að ýta undir lestur. Hasarinn í þinglok, þar sem allt fór á hliðina vegna þess að smygla átti í gegn breytingu sem hefði hækkað vörugjöld á getnaðarvarnir hefði orðið óþörf: smokkar eða sokkar – allt í sama skattþrep.

Það er fullkomlega rökrétt að Vef-Þjóðviljinn kalli eftir svona skattkerfi. Þetta er hægrisinnað vefrit. Þeim til hróss reynir höfundur ekki einu sinni að reikna sig að lægri skatttekjum fyrir ríkissjóð. Fjármálaráðherra fær nákvæmlega það sama í sinn hlut. Munurinn liggur bara í dreifingu byrðanna. Þeir sem kaupa sér bíl borga minna. Þeir sem kaupa sér í matinn (eða bækur og smokka ef út í það er farið) borga meira. Það er í sjálfu sér ekkert rangt við það. Það er bara önnur pólitísk sýn sem liggur þar að baki.

Ég skil Vef-Þjóðviljann fullkomlega þegar hann heimtar einfaldara skattkerfi. Hann aðhyllist pólitík sem er á móti því að beita skattkerfinu til að ýta undir félagslegan jöfnuð. Skringilegra finnst mér þegar fólk sem telur sig félagshyggjusinnað er til í að taka undir svona hugmyndir – af því að hitt sé svo mikið vesen eða ekki nógu kúl.

Fylkir heima: 2/22

Mánudagur, maí 13th, 2013

Af hverju er svona fáránlega mikill munur á að gera 1:1 jafntefli þar sem liðið manns kemst yfir eða þegar liðið manns jafnar? Ergileg niðurstaða á Laugardalsvelli í kvöld, en svo sem ekki ósanngjörn. Og fyrir mótið hefði maður svo sem alveg sætt sig við fjögur stig eftir tvo fyrstu leikina.

Fyrri hálfleikur var ekki burðugur. Sterkur vindstrengur frá norðri sem Framararnir höfðu í bakið. Í eitt skiptið reyndi leikmaður Fram að senda knöttinn aftur fyrir eigið mark með hárri og fastri spyrnu, en boltinn fauk í fallegum boga og hélst inni á vellinum. Annað var eftir þessu. Bæði lið reyndu að nota langar sendingar sem virkuðu ekki rasskat fyrr en aðeins fór að lægja rétt fyrir hlé.

Stundum tóku Framarar boltann niður og tókst þá að sækja af einhverju viti. Náðu meira að segja einu alvöru færi og 2-3 hálffærum. Fylkismenn höfðu hins vegar þá taktík eina að bíða eftir að einhver Framarinn gerði mistök og vona að boltinn myndi þá hrökkva til Tryggva Guðmundssonar sem gæti þá gert einhverjar kúnstir.

Seinni hálfleikurinn byrjaði á sömu nótum. Framararnir voru alltaf líklegri. Fylkir átti raunar ekki skot á rammann fyrstu 70 mínúturnar. Kristinn Ingi kom inná fyrir Hauk litla (Haukur, Almarr og Lennon mynda fáránlega lágvaxna framlínu) og nánast strax jókst sóknarþunginn. Kristinn og Lennon spændu sig í gegnum Fylkisvörnina, 1:0.

Um leið og Fylkismenn tóku miðjuna sáu allir í stúkunni að Framarar ætluðu að pakka í vörn og eftir örfáar sekúndur fékk Fylkir fyrsta góða færið, þar sem Ögmundur varði meistaralega. Næstu fimmtán mínúturnar sóttu Árbæingar og Framvörnin sem hafði virst pollróleg allan tímann fór á taugum. Markið hlaut að koma og það gerðist á 85. mínútu, 1:1.

Við jöfnunarmarkið byrjuðu Framarar á ný og líklega hefði Kristinn Ingi átt að klára leikinn á lokamínútunni en ákvað að skjóta ekki sjálfur heldur reyna að senda á Lennon sem var líklega rangstæður. Allir frekar súrir í leikslok, en niðurstaðan svo sem ekki óréttlát.

Hewson er í betra formi en fyrri tímabil. Lennon átti nokkra góða smáspretti. Almarr barðist vel og telst líklega maður leiksins. Vonandi verða þó ekki margir svona slappir leikir í sumar.

Inn og út um gluggann og alltaf sömu leið…

Sunnudagur, maí 12th, 2013

Það má treysta á að sumir hlutir breytist á nokkurra ára fresti. Um árabil voru það þekkt sannindi að kornabörn ættu að sofa á maganum – allt annað væri beinlínis stórhættulegt. Svo kom tímabil þar sem börnin áttu að liggja á bakinu, ef ekki ætti illa að fara. Og svo aftur á maganum o.s.frv. Tvennt má þó treysta á í þessum fræðum: i) að kenningarnar breytast á nokkurra ára eða áratuga fresti & ii) að í hvert sinn sem breytt er um stefnu er sú nýja kynnt sem hin endanlega og rétta vísindalega niðurstaða.

Stjórnunarfræðin eru morandi af dæmum sem þessum. Í nútímafyrirtækjum má treysta því að á nokkurra ára fresti séu umhverfismálin eða jafnréttismálin felld undir gæðastjórann – og haft til marks um mikilvægi þessara mála, enda séu þau klárlega gæðamál. Nokkrum árum síðar eru umhverfis- eða jafnréttismálin svo skilin frá og sett undir sérstakan stjórnanda og það aftur haft til marks um hversu mikilvæg þau séu talin vera. Inn og út um gluggann og alltaf sömu leið…

Skemmtilegt dæmi á þessum nótum má finna í Samráðsvettvangsskýrslunni sem nokkuð hefur verið rætt um síðustu daga. Sem vænta mátti staðnæmdust flestir við þá hluta skýrslunnar sem fjalla um hvers kyns sameiningar (sveitarfélög, framhaldsskólar, sýslumannsembætti). Það er í sjálfu sér ekki nema mannlegt. Áhugaverðara er þó að sjá hvar skýrsluhöfundar telja sig finna bestu leiðina til að spara í ríkisrekstrinum: í innkaupastefnunni.

„Nýtt innkaupaferli“ og „heildstæð innkaupastefna“ eru hugtök sem hljóma vel og afskaplega nútímalega. Hver getur verið á móti heildstæðri innkaupastefnu eða viljað ríghalda í gömlu innkaupaferlin? Ekki nokkur maður!

En hvað merkja frasarnir? Jú, nú er ekki lengur í tísku að láta barnið liggja á bakinu heldur á að snúa því á magann. Í tuttugu ár hefur kennisetningin verið sú að leggja niður eða draga úr umsvifum innkaupastofnana á vegum hins opinbera. Lyfjaverslun ríkisins er gott dæmi um þetta, en ýmis fleiri mætti telja til úr rekstri ríkis og sveitarfélaga. Talað var hæðnislega um vitleysuna sem fælist í því að láta skriffinna kaupa miðlægt inn fyrir stofnanir með ólíkar þarfir og sem þeir þekktu ekkert til í. Miðlæg innkaup voru sögð ýta undir spillingu, draga úr samkeppni og koma að lokum bæði skattgreiðendum og neytendum almennt illa. Í tuttugu ár var kenningin sú að best væri að gera stjórnendur opinberra fyrirtækja sem sjálfstæðasta og gefa þeim sem mest frelsi til að  reka stofnanir sínar innan fjárheimilda og þar með að sinna sjálfir innkaupum um sem flest.

Nú er ég ekki að segja að ég sé ósammála niðurstöðu skýrslunnar. Þvert á móti! Gamli kampavínssósíalistinn er alltaf svag fyrir öflugum innkaupastofnunum ríkisins… En það er samt kátlegt að sjá enn eina kúvendinguna rökstudda sem það nýjasta og snjallasta í bransanum og það jafnvel af sömu mönnum og töluðu af sama krafti fyrir hinni pólitíkinni.