Archive for júní, 2013

ÍBV úti: 8/22

Þriðjudagur, júní 25th, 2013

Versta fótboltaferð mín til Eyja var fyrir mörgum árum. Flogið var frá Bakka. Man ekki hvernig ég komst þangað – hvort það var í liðsrútunni eða á bíl einhvers stuðningsmannsins. Allir voru kátir og frekar bjartsýnir.

Um leið og lent var á Vestmannaeyjaflugvelli féllu fyrstu regndroparnir. Og svo fleiri. Og svo enn fleiri. Í hálfleik var ég orðinn hundblautur. Í leikslok var ekki þurr þráður á mér. ALLT var blautt: nærfötin, sokkarnir… Pappírskvittanir og sneplar sem ég hafði geymt í seðlaveskinu eyðilögðust. GSM-sími mannsins við hliðina á mér dó og fór í ruslatunnuna.

Að sjálfsögðu var flugið fellt niður. Við þurftum því að finna okkur hótel (sem voru ekki útgjöld sem reiknað hafði verið með í fjárhagsáætlun mánaðarins). Ég skreið inn á herbergi, vatt þau föt sem hægt var að vinda. Ofnarnir voru rafmagnsofnar sem ekki mátti setja föt á. Eftir skamma hvíld var svo haldið aftur út, í hundblautum fötunum og farið á næsta bar. Þar var nokkrum bjórum slátrað – og það sem verra var, viskýi.

Vaknaði þunnur daginn eftir. Fötin ennþá rök. Klæddi mig í leppana. Ekkert flug. – Enduðum á að sigla heim með Herjólfi til Þorlákshafnar. Leiðinlegt í sjóinn og ég ennþá þunnur. (Hefur komið fram að ég var blautur líka?) Og auðvitað töpuðum við helvítis leiknum.

Með þetta sem mælistiku, er erfitt að vera of fúll yfir leiknum á sunnudaginn. Famelían gerði úr þessu ferðalag. Gistum tvær nætur í fínu veðri í Eyjum og skoðuðum allt það helsta. Leikurinn var ekki upp á marga fiska. Framararnir fremur hugmyndasnauðir og ógnuðu lítið fram á við. Í seinni hálfleik var ÍBV miklu ákveðnara og hefði skorað fyrr ef ekki væri fyrir 1-2 góðar vörslur frá Ömma. ÍR-ingurinn spilaði annan leikinn í röð í miðverðinum, að þessu sinni eftir að Bjarni Hólm meiddist. Slapp þokkalega frá sínu. Það er drjúgt að hafa nothæfan varnarmann á bekknum. 1:0 tap og svo sem bara í samræmi við gang leiksins. Sjitt happens, ég kom þó amk þurr heim.

Framari leiksins: Ólafur Örn Bjarnason.

Falur fertugur: Safn til sögu íslenskrar teiknimyndasagnaútgáfu

Fimmtudagur, júní 20th, 2013

Vorið 1973 hóf ný teiknimyndasaga göngu sína á íþróttasíðum hollenska dagblaðsins Algeneen Dagblad. Höfundurinn var John le Noble, blaðamaður á íþróttadeildinni og teiknarinn Toon van Driel – saman kölluðu þeir félagarnir sig Toon & Joop. Sögurnar fjölluðu um knattspyrnuliðið F.C. Knudde, sem nefndist upp á íslensku Fótboltafélagið Falur.

Falsliðið er skipað fáráðlingum og hefur að geyma flestar staðalmyndir knattspyrnunnar: lánlausa markmanninn, nautheimska varnarfantinn, teprulega suður-ameríska leikmanninn og ráðalausa þjálfarann. Þrátt fyrir rýran mannauð standa Falsmenn uppi sem sigurvegarar í lok hvers ævintýris, fyrir runu heppilegra tilviljanna eða vegna bellibragða hins siðblinda Nebba flippara – aðalstyrktaraðila félagsins og umsvifamikils sölumanns hrekkjaleikfanga.

Óhætt er að kalla Falsara Íslandsvini, því þegar farið var að gefa ævintýri þeirra út á bókarformi árið 1978 lá leiðin til Íslands í tveimur af þremur fyrstu sögunum. Fyrsta bókin, Falur á heimavelli, kynnir helstu persónur til sögu og gerist að öllu leyti í Hollandi. Önnur bókin, Falur í Argentínu, lýsir því þegar Falsmenn hlaupa í skarðið fyrir hollenska landsliðið á HM í Argentínu 1978 og vinna að sjálfsögðu, eftir æfingaferð til Íslands. Þriðja bókin, Falur á Íslandi, gerist svo öll á Fróni.

 

Mörgæsir og hreindýrasleðar

Ísland þeirra Toons og Joops kemur þó kunnugum spánskt fyrir sjónir. Innfæddir búa í snjóhúsum, ferðast um á hunda- og hreindýrasleðum, éta heilsoðna hvali í hvert mál og knattspyrnuvöllurinn er skautasvell alsett mörgæsum. Ferðalagið milli meginlandsins og Íslands var sömuleiðis óvenjulegt, þar sem leikmenn voru sendir með rörpósti á vegum Flugleiða.

Síðar áttu leiðir Falsmanna eftir að liggja til enn fleiri landa, svo sem á söguslóðir sápuóperunnar Dallas, til fundar við blóðsugur og næturdýr í Transylvaníu, á sléttur Afríku og út í geiminn. Nýjar sögur héldu áfram að bætast við bókaflokkinn fram á miðjan tíunda áratuginn og urðu þær um 35 að lokum, auk fjölda safnrita með stökum skrítlum frá fyrstu árum sagnaflokksins. Á dögunum kom svo út veglegt fjörutíu ára afmælishefti þar sem saga Fótboltafélagsins Fals er rakin í máli og myndum.

Þessi ævintýri fóru þó fram hjá íslenskum lesendum, því einungis þrjár sögurnar voru gefnar út hér á landi af forlaginu Erni og Örlygi árin 1979, 1980 og 1981. Í dag seljast góð eintök af þessum bókum fyrir 5.000 krónur í íslenskum fornbókaverslunum.

 

Frávik í bókaútgáfu

Það er í sjálfu sér merkilegt að nokkur Falsbók hafi komið út á Íslandi yfirhöfuð. Teiknimyndasöguútgáfa stóð í miklum blóma á áttunda og níunda áratugnum, en bókaforlögin Iðunn og Fjölvi sátu ein að markaðnum, ef frá er talið Setberg sem gaf út sögurnar um Steina sterka. Örn og Örlygur höfðu ekki fyrr blandað sér í þessa samkeppni.

Í öðru lagi vekur athygli að Falsbækurnar voru hollenskar, en á teiknimyndasögusviðinu standa Hollendingar algjörlega í skugganum á grönnum sínum sunnan landamæranna. Belgísk útgáfufyrirtæki hafa um áratugaskeið pundað út teiknimyndasögum á frönsku sem náð hafa mikilli útbreiðslu í krafti stærðar málsvæðisins. Má þar nefna sagnaflokka á borð við Tinna, Sval og Val, Lukku Láka, Yoko Tsuno og Strumpana.

Belgísk/franska teiknimyndahefðin er öflug og vinsælustu sögur hennar eru þýddar á fjölda tungumála. Frönskumælandi þjóðirnar gefa hins vegar lítið fyrir teiknimyndasögur á öðrum tungumálum og hirða sjaldnast um að þýða þær. Hollenskir teiknimyndahöfundar geta því sjaldnast vænst þess að skrifa fyrir stóran lesendahóp. Falsbækurnar voru því lítt kunnar utan Hollands og voru til að mynda ekki gefnar út á hinum Norðurlöndunum, eftir því sem næst verður komist. Þetta skiptir talsverðu máli varðandi Ísland, þar sem nær allar teiknimyndaútgáfur þessara ára voru hluti af samprenti með dönskum útgáfufyrirtækjum. Falsbækurnar voru á hinn bóginn sjálfstætt útgáfuverkefni, filmusettar hjá Prentstofu G. Benediktssonar en prentaðar á Ítalíu.

Í þriðja lagi verður ekki fram hjá því litið að frá listrænu sjónarhorni rista sögurnar um Fótboltafélagið Fal grunnt. Teikningarnar eru hráar og grófar, bakgrunnsmyndir einfaldar og litavinna einföld. Þótt sögurnar njóti vinsælda í Hollandi, rata þær nær aldrei inn á vefsíður eða gagnabanka um teiknimyndasögur heimsins og á Wikipediu er aðeins að finna tvær fremur yfirborðskenndar greinar, á hollensku og á þýsku.

 

Blaðað á flugvelli

Sagan á bak við útgáfuævintýrið hófst þegar ungur Verslunarskólanemi, Ólafur Garðarsson (síðar lögmaður og kunnasti umboðsmaður íslenskra knattspyrnumanna erlendis) var á flugvelli í Vínarborg að leita sér að lesefni á leið til Íslands. „Ég fann ekki neitt á ensku og greip því þýska útgáfu af þessari teiknimyndasögu. Mér fannst hún skemmtileg og sá að þetta gæti fallið í kramið“, segir Ólafur.

Þegar heim var komið gekk Ólafur á fund Örlygs Hálfdánarsonar með bókina góðu. „Maður var alltaf á höttunum eftir aukapening á framhaldsskólaárunum og seinna í Háskólanum og þýðingar voru mjög hentugt aukaverkefni. Ég sýndi Örlygi bókina og bauðst til að þýða hana fyrir tiltekna upphæð, ef hann sæi um að tryggja öll útgáfuréttindi. Hann gekkst að þessu og við handsöluðum samkomulag og sáum aldrei ástæðu til að skrifa undir eitt eða neitt, enda stóð Örlygur samviskusamlega við allt sitt.“

Fyrsta Fals-bókin var sem sagt þýdd úr þýsku og það sama gildir um þriðju bókina. „Miðjubókin barst hins vegar aldrei á þýsku, einhverra hluta vegna“, segir Ólafur. „Þegar komið var í algjört óefni neyddist ég því til að setjast niður með orðabók og snara henni úr hollensku. Það var nú reyndar ekkert stórmál, þýskan og hollenskan eru keimlík tungumál og þýðingin var nú ansi frjálsleg.“

Viðtökur lesenda voru góðar og bækurnar seldust vel, enda teiknimyndasöguútgáfa afar ábatasöm á Íslandi á þessum árum. Ekki varð þó framhald á útgáfunni og segir Ólafur ástæðuna ekki hafa verið slaka sölu heldur hafi hann kosið að snúa sér að öðrum verkefnum.

Víkingur úti (bikar):

Fimmtudagur, júní 20th, 2013

Það var rosalega fínt veður í Ólafsvík og vallarstæðið er mögulega það flottasta á landinu. Þar með eru góðu tíðindin af bikarleik Fram og Víkings upptalin.

 

Halldór Arnarsson kom inn í Framliðið fyrir Ólaf Örn, sem er væntanlega meiddur. Að öðru leyti var þetta sama byrjunarlið og búast mátti við. Fyrri hálfleikur var afar tilþrifalítill. Heimamenn ógnuðu sáralítið og Framarar skoruðu eitt mark án þess að fara nokkru sinni úr öðrum gír. Lennon átti heiðurinn að markinu, þótt Almarr hefði skorað.

Í byrjun seinni hálfleiks virtist Fram ætla að klára leikinn og fékk þrjú góð færi á stuttum tíma. Ekkert þeirra rataði þó í netið.

Þegar tæpur hálftími var eftir fóru Almarr og Kristinn Ingi báðir meiddir af velli og þótt skyndilega datt botninn úr miðjuspilinu. Víkingar fóru að sækja nokkuð stíft og enginn varð hissa þegar þeim tókst að jafna. Það sem eftir leið leiks og í framlengingunni máttu Ólafsvíkingar teljast líklegri ef eitthvað er.

Vítakeppnin var bara vítakeppni og við unnum.

Það er erfitt að velja Framara leiksins. Ögmundur fékk eitt erfitt skot á sig og varði það vel. Ætli Almarr fái samt ekki titilinn, ekki vegna þess að manni hafi fundist hann eiga neinn stjörnuleik þegar hann var inná heldur vegna þess hvað munaði um hann þegar hann fór útaf.

Varð steinhissa þegar heim var komið og ég leit á umfjallanir á fótboltasíðunum, þar sem leikurinn fékk bara nokkuð góða einkunn og frammistaða heimamanna var talin mjög góð. Það bendir til að þetta verði langt og erfitt sumar á Snæfellsnesinu.

Fjórðungsúrslitin bíða. Víkingur Reykjavík á útivelli væri fínt. Líka ágætt að fara á Kópavogsvöllinn.

Þór heima: 7/22

Sunnudagur, júní 16th, 2013

Það myndaðist kvíðahnútur í maganum þegar Þorvaldur Örlygsson sagði upp störfum óvænt og skyndilega. Toddi var almennt mjög vel liðinn af stuðningsmönnum Fram – sem og leikmönnum. Maður var því skíthræddur um að los kæmist á mannskapinn og allt gæti farið í hönk.

Þær áhyggjur reyndust ástæðulausar. Undir stjórn Ríkharðs og Auðuns unnu Framarar í Keflavík (vissulega hálfgerðan heppnissigur) og í dag voru Þórsarar lagðir að velli vandræðalítið.

Þór Akureyri er ekki sérstaklega gott fótboltalið. Það eru reyndar talsvert mörg slök fótboltalið í deildinni í ár. Vörnin þeirra lekur mörkum (20 mörk á sig í 7 leikjum er alltof mikið) og miðjan er veik.

Það var samt ekkert sérstakt í spilunum sem benti til að Framarar væru að fara að skora fyrr en um miðjan fyrri hálfleikinn þegar Hólmbert náði góðri rispu og negldi í slánna og inn. Boltinn fór augljóslega í höndina á Hólmberti, en þetta var leikur þar sem dómarinn ákvað að flauta aldrei á það þegar leikmenn handléku knöttinn.

Sagt er um fótboltann að stundum sé hann „stöngin út“ – stundum „stöngin inn“. Í dag var þetta meira svona „sláin inn“. Skömmu eftir mark Hólmberts náði Lennon að skalla í slá og inn úr þröngu færi. 2:0 í hálfleik eftir að Framarar höfðu í raun ekki átt nema þrjú alvöru færi og Þórsarar 3-4 hálffæri.

Þór minnkaði muninn eftir aulagang í Framvörninni á upphafsmínútum seinni hálfleiks og við í stúkunni krossuðum okkur og sáum fram á barning og nauðvörn. Gestirnir héldu hins vegar ekki einbeitingunni og Hólmbert skoraði nánast í næstu sókn. Í stöðunni 3:1 gáfust Þórsarar upp og Framarar gengu á lagið. Lennon lagði frábærlega upp þriðja mark Hólmberts – sem mér skilst að hafi þar með skorað fyrstu þrennu sumarsins í efstu deild karla. Hólmbert verður því væntanlega valinn maður umferðarinnar, þótt í raun hafi Lennon verið bestur í leiknum.

Hverjir aðrir stóðu sig vel? Jú, það mætti nefna Viktor Bjarka sem átti sinn besta leik í sumar áður en hann þurfti að fara út af eftir smáhnjask efitr rúman klukkutíma. Hewson og Dóri voru líka traustir á miðjunni. Síðustu tíu mínúturnar fékk einhver átján ára gutti að spreyta sig. Á honum kann ég engin deili nema að hann heitir Aron. Það sannar ekki neitt, annar hvor gutti á þessum aldri heitir Aron.

Maður leiksins: Steven Lennon

Keflavík úti: 6/22

Mánudagur, júní 10th, 2013

Við töpum alltaf í Keflavík. Og það er alltaf kalt. Nema 2008 þegar við unnum Keflvíkinga í lokaumferðinni og rændum meistaratitlinum fyrir framan 5.000 manns eða e-ð álíka. Það er því ekkert skrítið þótt maður sé smástund að jafna sig á sigri í Keflavík í þokkalegu veðri.

Furðulegur leikur undir stjórn nýja þjálfarateymisins. Byrjuðum illa. Keflvíkingarnir voru sannast sagna mun sterkari og tóku völdin á miðjunni um miðbik fyrri hálfleiksins. Eftir það hélt Ögmundur okkur inni í leiknum með nokkrum frábærum markvörslum einn á móti Keflvíkingum. Eitt skotið small svo í slánna. Eftir 35 mínútur var maður farinn að horfa ískyggilega mikið á klukkuna að telja niður í leikhléð.

En ákvað einn Keflvíkingurinn að færa okkur leikinn á silfurfati. Hann hrinti skoska bakverðinum sem ég er ekki enn búinn að læra hvað heitir (Haslam, Halsam?) og fékk rauða spjaldið fyrir. Í kjölfarið blésu Framarar til fágætrar sóknar og Hólmbert skoraði eftir augnabliks kæruleysi í Keflavíkusvörninni. 0:1 í hálfleik, eftur að hafa verið á hælunum allan tímann.

Framararnir komu sjálfsöruggir til leiks eftir hlé og fyrstu fimmtán mínúturnar vorum við miklu betri. Splundruðum varnarlínu Keflvíkinga ítrekað, þar sem rangstöðutaktíkin þeirra reyndist afar brothætt. Í einu slíku tilvikinu komst Steven Lennon í gegn og skoraði. Mér fannst hann rangstæður og stuðningsmenn Keflvíkinga urðu foxillir, en aðrir þóttust hafa séð þetta betur og Keflvíkingarnir hefðu bara klikkað. Verður gaman að sjá upptökuna í sjónvarpinu.

Strategía Keflvíkinga til að jafna metin var sú helst að senda háa bolta fram á við, sem Bjarni Hólm og Ólafur Örn áttu ekki í miklum vandræðum með að skalla frá. Ánægjuleg tilbreyting að það séum ekki við að reyna háar sendingar gegn hávöxnum miðvörðum. Í raun var óskaplega lítið að gerast í sóknarleik heimamanna þar til fremur slakt skot small í hausnum á Bjarna Hólm, breytti um stefnu og hafnaði í netinu, 1:2.

Við tóku 20 mínútur af stressi, en Keflvíkingarnir voru orðnir of þreyttir manni færri á þungum velli til að nýta sér veikleika Framliðsins. Fágætur útisigur á velli sem geymir fáar góðar minningar. Maður leiksins Ögmundur Kristinsson.

 

19:34

Þriðjudagur, júní 4th, 2013

Leikur Japans og Ástralíu í Asíuforkeppni HM í fótbolta hefst kl. 19:34 á japönskum tíma. Ég minnist þess ekki að hafa séð leik tímasettan með slíkri nákvæmni fyrr. Myndi líta á þetta sem einhvers konar brandara ef ekki væri um Japani að ræða. Væru þeir ekki einmitt nógu bilaðir til að ákveða að hefja leik fjórar mínútur yfir hálfa tímann?

Nú þarf ég að reikna út tímamismuninn milli Íslands og Japan til að geta haft annað augað á leiknum. Asíuforkeppnin er nefnilega óvenjuspennandi að þessu sinni. Tíu lið eru eftir í keppninni. Þau leika í tveimur fimm liða riðlum og komast tvö efstu sætin úr hvorum riðli beint á HM í Brasilíu. Liðin í þriðju sætunum keppa innbyrðis um umspilsrétt gegn einu Suður-Ameríkulandinu.

Í öðrum riðlinum voru Japanir og Ástralar taldir öruggir um sigur, en Írak líklegasti þriðja sætis kandídatinn. Óman og Jórdanía áttu svo að reka lestina.

Það hefur hins vegar allt gengið á afturfótunum hjá Ástralíu, sem er með einn sigur og þrjú jafntefli í fimm leikjum. Ósigur í Japan kl. 19:34 gæti farið langt með að koma andfætlingum úr keppni. Japan mistókst á hinn bóginn að verða fyrsta liðið fyrir utan gestgjafana til að tryggja sér sæti í úrslitunum þegar liðið tapaði fyrir Jórdaníu í síðasta leik. Fyrir vikið geta Japanir ekki leyft sér að slaka á alveg strax og þurfa eitt stig úr lokaleikjunum gegn annað hvort Ástralíu eða Írak.

Kraftaverk eitt getur komið í veg fyrir að Japan vinni riðilinn, en hvað með annað sætið? Jórdanía er með sjö stig og tvo leiki eftir. Ástralía sex stig og þrjá leiki. Óman sex stig en aðeins tvo leiki. Írak á botninum með fimm stig en þrjá leiki eftir. Síðar í dag mætast Óman og Írak í leik sem ræður því hvort soldánsdæmið í mynni Persaflóa nær að hanga áfram í baráttunni.

Jórdanía er samt öskubuskuævintýrið sem flestir hljóta að vonast eftir. Liðið er hvorki sögulegt stórveldi í Asíuboltanum né keyrt áfram af óhóflegum olíuauði. Niðurstaða: Áfram Japan og megi Óman og Írak gera jafntefli!

***

Í hinum riðlinum er staðan líka í hnút. Líbanon situr á botninum með fjögur stig og er úr leik. Katar er sömuleiðis í vondum málum með sjö stig og bara tvo leiki til góða. Til að eiga minnstu von um áframhaldandi keppni verða gestgjafarnir 2022 að vinna Írani á heimavelli í dag. Íran er líka með sjö stig en þrjá leiki eftir.

Vinni Suður-Kóreumenn í Líbanon á eftir, kemst liðið á toppinn. Suður-Kórea er sem stendur með tíu stig og þrjá leiki eftir. Toppliðið frá Úsbekistan er hins vegar með ellefu stig en spilar ekki í dag. Úsbekar eru ein af stórþjóðum Asíuboltans en hafa aldrei komist á HM. Það hlýtur eiginlega að breytast núna.

Vill maður ekki alltaf ný lið á HM? Áfram Katar og Líbanon í dag…