Archive for júlí, 2013

Stóra Aronsmálið

Miðvikudagur, júlí 31st, 2013

Hvers vegna varð Arons-nafnið svona vinsælt á Íslandi? Þegar ég var pjakkur, hét enginn Aron og ef maður rakst á einhvern með þessu nafni, lá beint við að áætla að viðkomandi væri ættaður frá Bandaríkjunum. (Áttaði mig ekki á kaldhæðninni í þessari setningu fyrr en eftir að ég sló hana inn.) En fyrir svona 25 árum breyttust viðhorfin og í dag er vart þverfótað fyrir íþróttamönnum sem heita Aron að fornafni eða millinafni.

Var það einhver bíómynd sem kom nafninu í tísku? Fjandakornið, ekki tengist þetta Aron í Kauphöllinni? Nei, það getur ekki verið.

En einn af þessum Aronum er sem sagt kominn í fréttirnar af því að hann ætlar að spila fótbolta fyrir landslið Bandaríkjanna en ekki Íslands. Í kjölfarið hófst umræða um réttmæti þess að knattspyrnumenn velji sér landslið. Eins og til að gulltryggja að umræðan leiddist út í tóma vitleysu ákvað KSÍ að blanda sér í málin með ótrúlega klaufskri og fýlulegri yfirlýsingu. Ef litla stúlkan með eldspýturnar hefði haft almannatengslafulltrúa Knattspyrnusambandsins væri hennar líklega minnst sem eins af alræmdustu pýrómönum sögunnar.

Afstaða KSÍ er á þá leið að Aron Jóhannsson (22 ára strákur úr Fjölni sem fæddist í Alabama og bjó þar í 2-3 ár) sé augljóslega Íslendingur og eigi því ekkert með að spila fyrir annað land en Ísland, punktur og basta. Pirringslegur og yfirlætisfullur tónninn í yfirlýsingunni stuðaði flesta lesendur og kölluðu á fyrirsjáanlegar og réttmætar ásakanir um tvöfeldni: hvað með Izudin Daða Dervic sem lék 14 landsleiki fyrir Íslands hönd?

Aðrir íþróttamenn af erlendum uppruna sem keppt hafa fyrir Ísland voru líka dregnir fram. Flestir eru handboltamenn, en á listanum eru líka frjálsíþróttamenn, sundfólk, skákmenn og dáður fimleikakappi. Dæmin voru misgóð. Þannig var Rúnar Alexandersson ríkisfangslaus unglingur sem tilheyrði rússneska þjóðernisminnihlutanum í Lettlandi. (Þar í landi er brotið gegn mannréttindum þessa hóps, en Vestur-Evrópubúum er sama því Lettland er í Nató og okkur almennt illa við Rússa.) Aðrir hafa varla til landsins komið en nýtt íslenskan uppruna afa síns eða ömmu til að komast á stórmót af smálandakvóta.

Einstaklingsíþróttirnar eru spegilmynd hópíþróttanna í þeim skilningi að snjöllum hópíþróttamönnum er „refsað“ fyrir að koma frá smálandi en í einstaklingsgreinunum er verra að hafa ríkisfang milljónaþjóðar. Þokkalega sterkur bandarískur sundmaður getur komist á Ólympíuleika fyrir lítið Evrópuland meðan tuttugu betri samlandar hans þurfa að sitja heima, þar sem Ólympíufarseðlar Bandaríkjanna eru takmörkuð auðlind.

Frá persónulegu sjónarhorni íþróttamannsins er þetta svo sem skiljanlegt, ef við gefum okkur að það sé rökrétt og eðlileg hegðun íþróttamanna (og jafnvel mannskepnunnar sjálfrar) að nota hverja glufu sem býðst. Og ef svo fer að slíkur íþróttamaður nær óvæntum árangri, þá vefst það sjaldan fyrir hinum nýju „samlöndum“ hans að endurskrifa söguna og gera sem mest úr tengslunum. Allir græða – ekki satt?

En auðvitað er svona vegabréfaflakk ekki án fórnarlamba. Ef markmiðið með Ólympíuleikunum væri einungis að tefla saman bestu keppendum í hverri grein væri boðið upp á langhlaup með glás af Kenýa- og Eþíópíubúum en engum fulltrúum heilu heimsálfanna. Íþróttahreyfingin hefur komist að þeirri niðurstöðu að betra sé að ná fram blöndun og hleypa lakari keppendum annarra þjóða inn á kostnað stekari hlaupara öflugustu landanna. Það er því gegn anda reglnanna þegar þau lönd fylla sætin sín með keppendum sem hafa sáralítil raunveruleg tengsl við landið.

Það sama gildir um fótboltann. Núverandi reglur FIFA um keppnisrétt með landsliðum urðu ekki til upp úr þurru. Þær komu til fyrir um áratug eftir að farinn var að myndast markaður þar sem brasilískir knattspyrnumenn með glæný vegabréf frá löndum sem þeir voru nýfluttir til eða höfðu jafnvel aldrei búið í, fóru að skjóta upp kollinum í landsliðum – einkum vellríkra olíuvelda í arabaheiminum.

Ýmsir þeirra sem hafa tjáð sig um stóra Arons-málið, hafa lýst þeirri skoðun að íþróttamenn eigi að fá að keppa fyrir hvaða land sem þeir vilja og annað sé gamaldags þjóðremba. En viljum við í raun þess háttar millilandakeppnir? Allan veturinn horfum við á fótboltakeppnir félagsliða þar sem gildir sú regla að þeir stóru og ríku soga til sín bestu og dýrustu leikmennina og vinna eiginlega alltaf. Bestu leikmenn lakari deildanna eru einn af öðrum keyptir til liða í deildum sem eru ofar í goggunarröðinni og á toppnum sitja 10-20 ofurklúbbar sem drottna yfir öðrum.

Félagsliðafótboltinn er fínn en liggur styrkur landsliðaboltans ekki einmitt í því að þar ráða önnur lögmál? Landsliðsþjálfarar hafa úr afmörkuðu mengi leikmanna að ráða og þurfa að taka ákvarðanir í samræmi við það. Yrði landsliðakeppnin á einhvern hátt skemmtilegri ef bestu leikmennirnir teldu það keppikefli að leika með því landi sem væri „aðal“ hveju sinni? Ef stóru vangavelturnar fyrir næsta HM yrðu um það hvort Suarez ætlaði að gerast Argentínumaður, Breti eða Spánverji – því hann hefði svo mikinn metnað? Værum við þá ekki alveg jafn vel sett að horfa bara á Meistaradeildina út í það óendanlega?

Geir Þorsteinsson er klunni og KSÍ er einstaklega illa lagið að höndla erfiðar aðstæður, en það gerir það þó ekki að verkum að sambandið hafi ekkert til síns máls. Enginn efast um að fyrir Fjölnismanninn frá Alabama væri það spennandi að fá að keppa í úrslitakeppni HM. En það efast heldur enginn um að það hefði verið voða gaman fyrir alla líttþekktu brasilísku leikmennina að spila landsleiki fyrir Óman eða Sameinuðu arabísku furstadæmin. Og það væri eflaust líka mikið stuð fyrir Suarez að eiga séns á heimsmeistaratitli sem Spánverji…

En erum við þá alveg á móti því að leikmenn séu gjaldgengir í landslið ríkja þar sem þeir fæddust ekki eða ólust upp? Nei, að sjálfsögðu ekki. Fullt af fólki flytur búferlum á lífsleiðinni og gerist borgarar annarra ríkja. Og auðvitað verður afstaðan til þeirra keppenda sem svo stendur á með alltaf hræsnisfull.

Við erum himinlifandi með Alexander Petersson í handboltalandsliðinu – en það er líka vegna þess að auk þess að skora fullt af mikilvægum mörkum, mætir hann eftir leikina og talar við Dolla á hálfbjagaðri íslensku og fer reglulega í blaðaviðtöl um ást sína á landinu. Hversu djúpt það ristir er í sjálfu sér aukaatriði, en við stuðningsmenn landsliðsins verðum jafn kát og aðdáendur knattspyrnufélags þegar nýkeypti framherjinn fagnar fyrsta markinu með því að kyssa merki félagsins á brjóstinu á sér.

Og þá erum við kannski komin að því sem pirrar mig mest í tengslum við stóra Aronsmálið. Það er einmitt að það vantar leikþáttinn: Það vantar viðtölin þar sem leikmaðurinn segist eiga hlýjar bernskuminningar frá Bandaríkjunum og hvernig hann hafi í raun alla tíð litið á sig sem hálfgerðan Bandaríkjamann og grátið þegar liðið féll úr keppni á HM 2002, blablabla…

Í staðinn er bara boðið upp á fréttatilkynningu sem vísar í persónulegan metnað – tækifæri leikmannsins til að komast á stórmót og vinna fræga sigra og leika undir stjórn frægs þjálfara. Hefði ekki í það minnsta mátt blöffa smá liðshugsun?

Víkingur heima: 12/22

Mánudagur, júlí 22nd, 2013

Meira að segja boltastrákarnir voru lélegir…

KR heima: 11/22

Mánudagur, júlí 15th, 2013

Síðustu fimmtán árin eða svo hef ég setið við hliðina á Val Norðra á Framleikjunum. Þá sjaldan annar okkar missir af leik, sendir hinn sms með reglulegum skýrslum um gang mála. Á sunnudagskvöldið var Valur staddur í Kaupmannahöfn og sendi mér skilaboð þar sem hann afþakkaði beina sms-lýsingu – tímamismunurinn væri 2 klst. og gæti alveg beðið til morguns að fá upplýsingar um það hvaða rauðhærða barn hefði komið af bekknum og skorað fyrir KR í uppbótartíma.

Og einhvern veginn finnst manni þetta vera saga viðureigna okkar gegn KR síðustu ár – það skiptir engu máli hvort Framararnir eru á hælunum eða spila eins og Brasilía, alltaf vinnur KR 2:1 eftir soft-víti eða að einhver rauðhausinn skalli í netið úr horni á síðustu andartökunum.

Það var því lítið tilefni til bjartsýni fyrir leikinn. Leiktíminn reyndar sniðugur. Hvers vegna ekki að reyna þetta oftar – kl. 21 á sunnudegi er þrælfínn tími. Enginn þarf að puðrast fyrr heim úr sumarbústaðnum eða sleppa sunnudagssteikinni og með bara besta mál að nota flóðljósin í Laugardalnum, nóg kostuðu þau nú.

Fyrri hálfleikurinn minnti á leikinn gegn Blikum, nema að þessu sinni léku andstæðingarnir vel líka. Jón Gunnar Eysteinsson var í miðverðinum ásamt Ólafi Erni. Það væri synd að segja að Jón Gunnar væri uppáhaldsleikmaðurinn minn. En í þessum leik var hann mjög góður. Það skyldi þó aldrei vera að hann virki betur sem miðvörður en miðvallarleikmaður.

Eina mark fyrri hálfleiks kom eftir góðan undirbúning Almarrs og fína afgreiðslu Hólmberts. Mörkin hefðu að ósekju mátt vera tvö – og ekki í fyrsta sinn sem Framarar fara inn í leikhléið með þá tilfinningu í maganum.

Í seinni hálfleik bakkaði Framliðið mikið. Ólafur Örn hafði þá þurft að yfirgefa völlinn, sem Ríkharður leysti með því að senda Lowing í miðvörðinn og Benedikt Októ í bakvörðinn – sá síðarnefndi átti mjög góðan leik. Fáir í deildinni hlaupa jafn hratt enda tókst honum að pakka Óskari Erni KR-ingi saman í leiknum.

Með vaxandi sóknarþunga KR gat það aldrei verið nema tímaspursmál hvenær jöfnunarmarkið kæmi. Aðeins frammistaða Ögmundar (sem er einmitt besti markvörður deildarinnar) kom í veg fyrir að það sæi dagsins ljós fyrr. Eftir jöfnunarmarkið voru allir í stúkunni vissir um að næsta Vesturbæjarmark kæmi innan tíðar. En Ríkharður átti ás uppi í erminni: Kristinn Inga.

Samuel Hewson átti frábæra stungusendingu þar sem Kristinn stakk alla af sér og setti boltann fram hjá áttavilltum Hannesi Þór, 2:1. Síðustu mínúturnar pakkaði Fram í vörn, en var þó ekkert fjær því að skora en gestirnir.

Maður leiksins? Tjah, það væri klisja að velja Ögmund. Steven Lennon var líka mjög drjúgur. Vel samt Samuel Hewson að þessu sinni.

Grótta úti (bikar):

Mánudagur, júlí 8th, 2013

Það er engin skýrsla um FH-leikinn. Við fjölskyldan fórum í sveitina með vinafólki, svo ég missti af fyrsta leiknum í sumar. Það var víst bara ágætt eftir á að hyggja.

* * *

Aldrei þessu vant var logn á Seltjarnarnesi í kvöld. Fullt af fólki, enda stærsti leikur Gróttumanna í fleiri ár. Hewson var í leikbanni, svo Jón Gunnar fór inn á miðjuna. Lowing var settur í miðvörðinn við hlið Ólafs Bjarnar og Benedikt Ottó í bakvörðinn. Áhugaverð tilraun og sjálfsagt að halda henni áfram. Lowing er líklega besti miðvörðurinn okkar og óþarfi að binda hann í bakvarðardjobbinu ef hægt er að leysa málið öðru vísi.

Grótta pakkaði í vörn frá fyrstu mínútu. Framarar sóttu stíft í byrjun og hefðu með smáheppni getað drepið leikinn á fyrstu mínútunum. Um miðjan fyrri hálfleikinn kom fyrsta markið. Hólmbert skallaði niður í teiginn og líklega má þakka gervigrasinu  að boltinn skaust ekki beint útaf heldur endaði hjá Almarri sem skoraði vel.

Fram fékk nokkur tækifæri til að bæta við mörkum, en alltof oft virtust menn ætla að sóla sig alla leiðina í gegn eða reyndu sendingar inn á teiginn sem stóru miðverðirnir hjá Seltjarnarnesliðinu áttu ekki í vandræðum með að skalla frá. Eftir því sem leið á leikinn urðu varnarmenn Gróttu öruggari með sig og þeim fór að ganga betur að verjast Frömurum.

Í heimsfótboltanum held ég með Úrúgvæ – ekki hvað síst vegna þess hvað lið þeirra getur leikið þéttan varnarleik þar sem allir taka þátt. Fyrir vikið hlýt ég að hrífast af baráttunni í Gróttuliðinu. Frábær vinnsla og varnarleikur!

Um miðjan seinni hálfleikinn sáu allir í stúkunni hvað var að gerast. Framsóknin hélt áfram, án þess að nein opin færi sköpuðust. Grótta spilaði hins vegar upp á skyndisóknir, vitandi að eitt og eitt færi myndi líta dagsins ljós. Jöfnunarmarkið kom þegar kortér var til leiksloka eftir óskaplegt hnoð þar sem Ögmundur leit ekki vel út. Framarar fóru á taugum og einhvern veginn varð maður hálf feginn þegar flautað var til loka venjulegs leiktíma.

Í framlengingunni héldu Framarar áfram að sækja án þess þó að valda öftustu varnarlínu heimamanna verulegum vandræðum. Markvörður Gróttu þurfti t.a.m. afar sjaldan að grípa inní – sem var líklega eins gott þeirra vegna, því hann virtist afar brothættur.

Allir voru farnir að búa sig undir vítakeppni, En hversu oft hefur maður ekki séð litlu liðin í bikarkeppninni fá mark í andlitið á lokaandartökunum? Sú varð raunin að þessu sinni eftir „soft“ víti.

Aron Albertsson, táningur sem kom frá Breiðabliki, var þriðja skipting Framara í leiknum. Þegar mínúta var til leiksloka prjónaði hann sig framhjá einum Gróttumanninum – vissi af honum fyrir aftan sig, lyfti upp fætinum og beið eftir því að vera hlaupinn niður. Það gekk eftir. – Línuvörðurinn flaggaði víti, en Kristinn Jakobsson var kominn með gula spjaldið í hendurnar. Ég er nánast viss um að hann ætlaði að dæma markspyrnu og spjalda Aron, en fór eftir aðstoðardómaranum og gaf vesalings Gróttumanninum áminningu til þess að líta ekki aulalega út með spjaldið í lúkunum.

Lennon afgreiddi svo vítið snyrtilega. Stórkostlegri niðurlægingu afstýrt og sæti í undanúrslitum í höfn.

Framararnir í stúkunni deildu talsvert sín á milli um vítið. Allir voru sammála um að þetta hefði verið lítil snerting, en þeir jákvæðari í hópnum tóku þá línu að „strákurinn hefði sótt þetta mjög vel“.

Framari leiksins? Tjah, er siðlaust að nefna Aron fyrir að hafa staðið sig vel í að fiska víti? Segjum þá bara Viktor Bjarki frekar en ekki neinni.

Pant fá Breiðablik heima – það þarf að leiðrétta ákveðinn misskilning frá síðasta leik.

 

Breiðablik heima: 9/22

Þriðjudagur, júlí 2nd, 2013

Einhverra hluta vegna hefur Fram tak á Breiðablik. 2010 þegar Blikar urðu Íslandsmeistarar, tóku Framarar 4 stig af þeim. Ég kann ekki að skýra ástæður þessa – læt mér nægja að kætast yfir að það sé amk eitt lið sem eigi í vandræðum með okkur.

Það var ein óvænt breyting á byrjunarliði Fram. Haukur Baldvinsson kom inn fyrir Dóra sem hefur líklega þurft að jafna sig eftir að einn Eyjafanturinn stímdi inn í síðuna á honum í síðasta leik. Það þarf alvöru högg til að koma Dóra út úr liðinu. Hann er vinnuhesturinn í liðinu og því smkv. skilgreiningu uppáhald stuðningsmanna. Haukur hefur ekki heillað mig í sumar, en í þessum leik var hann fínn. Óheppinn að skora ekki, en Gunnleifur í Blikamarkinu átti líka stórleik. Gunnleifur og Ömmi eru klárlega tveir bestu markmenn Íslands um þessar mundir.

Fyrri hálfleikurinn var það besta sem ég hef séð til Framara í sumar. Við pökkuðum Kópavogsbúum saman. Lennon sprengdi upp vörn þeirra að vild. Sama gilti um Almarr. Og Lowing virtist ætla að spila sig inn í landsliðið… skoska landsliðið það er.

Áttum fullt af færum og hefðum átt að vera 3-4 mörkum yfir í hálfleik. En bara eitt mark leit dagsins ljós – og þá voru það bakverðirnir tveir sem voru að verki. Lowing plataði einn Blikann upp úr skónum og sendi fyrir, einhver skallað frá og boltinn barst fyrir fætur Halsman sem var vel fyrir utan vítateig en setti boltann í hornið (með vinstri) eins og besti framherji.

Í seinni hálfleik sannaðist hvílíkt klúður það var að hafa bara skorað einu sinni. Almarr fór útaf í hálfleik, meiddur. Blikarnir komu ákveðnir til leiks og skyndilega snerist taflið við. Þeir sóttu linnulítið en Framarar voru andlausir. Ömmi hélt okkur á floti með nokkrum glæsimarkvörslum. Ólíklegustu menn klikkuðu í varnarleiknum og smátt og smátt dró meira af liðinu. Ekki hjálpaði að slakur dómari leyfði endalausar bakhrindingar (einkennismerki liða sem Óli Kristjáns þjálfar) með þeirri undantekningu þó að Hólmbert mátti ekki snerta nokkurn andstæðing án þess að flautað væri.

Það kom ekkert á óvart þegar Blikar jöfnuðu og í raun máttum við teljast heppnir að tapa þessu ekki hreinlega. Jafntefli ásættanleg úrslit miðað við allt og allt.

Maður leiksins var Halldór Arnarsson sem er óvænt orðinn byrjunarliðsmaður eftir að Bjarni Hólm meiddist. Óvenjulegt að sjá miðvörð falla svona hratt og örugglega inn í lið.