Archive for febrúar, 2014

Proppé: Fótboltasaga mín 25/100

Föstudagur, febrúar 28th, 2014

27. júní 2009. Fjölnir 2 : Fram 1

Fyrir utan kvótapeningana, er það tvennt sem heldur lífi í Mogganum: dána fólkið og íþróttirnar. Þeir sem vilja fylgjast með minningargreinum og andslátsfregnum komast ekki af án Moggans og það sama gildir um þá sem vilja lesa íþróttafréttir á pappír.

Íþróttafréttir Fréttablaðsins hafa hins vegar alltaf verið furðuleg samsuða. Snemma ákvað blaðið að reyna ekki að gera öllum leikjum skil, heldur taka út eins og einn leik í umferð auk tölfræði úr öðrum viðureignum og vísa svo áhugasömum bara á Vísi eftir frekari upplýsingum. Þetta er væntanlega útpæld nálgun.

Sumarið 2009 var Kolbeinn Proppé vinur minn starfandi blaðamaður á Fréttablaðinu. Í einhverju bríaríi í spjalli við kaffivélina féllst hann á að taka nokkrar fótboltavaktir, sennilega bara til að geta sagst hafa verið íþróttafréttaritari. Einn af þessum leikjum – líklega þó ekki sá fyrsti – var viðureign Fjölnis og Fram í níundu umferð.

Fjölnisliðið festist strax við botninn þetta sumar, var meira og minna í fallsæti alla leiktíðina og endaði að lokum neðst í deildinni. Framarar sigldu hins vegar lygnari sjó. Töpuðu of mörgum stigum í fyrri hlutanum en enduðu loks í fjórða sæti, sem var vel ásættanlegt.

Leikurinn í Grafarvoginum var daufur. Framarar eitthvað sterkari en það var samt óskaplega lítið að gerast. Áhorfendum leiddist og hópur táningsstráka í Fjölnisgöllum stytti sér stundir með því að syngja háðulega söngva um Ívar Björnsson – Fjölnismanninn sem gengið hafði í raðir Fram fyrir tímabilið. Pjakkarnir höfðu greinilega ekki heyrt um hugtakið að jinxa. Auðvitað hlaut Ívar að skora eftir þetta og koma Fram yfir undir lok fyrri hálfleiks. Jónas Grani jafnaði fyrir FJölni eftir hlé, en þegar líða tók á leikinn dró af heimamönnum og að lokum skoraði Almarr Ormarsson sigurmark Fram, 1:2.

Ég var enn á bílaplaninu við Fjölnisvöllinn þegar Kolbeinn hringdi til að fá mitt álit á leiknum. Ég gaukaði að honum einhverjum punktum, en annars vorum við sammála um flest. Mann leiksins töldum við vera Sam Tillen, sem fékk hæstu einkunn eða 8 af 10 mögulegum.

Tillen kom til Fram árið áður og átti stóran þátt í að Framararnir náðu þriðja sæti það sumar. Hann var grjótharður bakvörður með flottar sendingar, gat tekið aukaspyrnur og hornspyrnur og skapað með þeim meiri usla en Framarar höfðu mátt venjast lengi. Það merkilega var hins vegar að íþróttafréttamenn virtust ekki meta hann mikils.

2008 og fram eftir sumri 2009 fékk Tillen sjaldnast merkilegar einkunnir hjá Mogganum eða Fréttablaðinu. Í fótboltaþáttunum í sjónvarpinu var hans sjaldnast getið, heldur fengu menn eins og Auðun Helgason og Paul McShane alla athyglina.

Þessi þögn var svo sem skiljanleg. Í fyrsta lagi þurfa erlendir leikmenn að standa sig betur en heimamenn til að fá athygli og í öðru lagi var Tillen ekki týpan sem fréttamenn heilluðust af. Hann var orðljótur, sífellt bölvandi og ragnandi, sendi dómurum og andstæðingum tóninn og var mjög gjarn á að hefna sín. Ef andstæðingur komst upp með að brjóta á Sam vissi maður að í næstu sókn fengi hann það óþvegið og gula kortið færi á loft. Ef sá brotlegi hafði svínað á Joe litla bróður hans var spurning um hvort liturinn á spjaldinu yrði rauður.

Þarna um sumarið vorum við Fram-stuðningsmennirnir farnir að svekkja okkur á því hvað sumir okkar manna væru ekki metnir að verðleikum. Gilti það sérstaklega um Tillen og Halldór Hermann Jónsson, sem var ekki flinkasti maðurinn í deildinni með bolta en gat hlaupið þindarlaust á miðjunni og kveinkaði sér aldrei.

Fjölnisleikurinn var fyrsta skiptið þar sem Sam Tillen fékk hæstu einkunn og mig minnir hálfpartinn að hún hafi dugað honum til að verða leikmaður umferðarinnar. Og það merkilega var að í kjölfarið virtist hann komast á kortið ef svo má segja. Í stað þess að vera um eða fyrir neðan miðjan hóp í einkunnagjöf Framara, varð hann alltaf meðal þeirra efstu – og það án þess að sérstakur munur sæist á leik hans. Þegar álitsgjafarnir í fótboltaþáttunum vildu hljóma gáfulega fóru þeir að segja eitthvað í átt við: „Og svo er nú einn leikmaður í þessu Framliði sem mér hefur alltaf fundist mjög vanmetinn og gleymist oft – það er Sam Tillen!“

Kolbeinn entist ekki marga leiki sem fótboltaskríbent. Þetta var illa borgað, óspennandi að eyða þessum fáu kvöldum þar sem hann var á frívakt í að fylgjast með misskemmtilegum fótboltaleikjum – en það sem mestu skipti, þá fylgdi alls konar vesen að þurfa að halda úti textalýsingum á Vísi meðan á leik stóð, milli þess að safna hvers kyns tölfræði.

En eftir skammvinnan íþróttafréttaraferil getur hann þó ornað sér við að hafa uppgötvað Sam Tillen.

(Mark Fjölnis: Jónas Grani Garðarsson. Mörk Fram: Ívar Björnsson, Almarr Ormarsson)

Vítabaninn: Fótboltasaga mín 24/100

Miðvikudagur, febrúar 26th, 2014

14. júní 1998. FH 1 : KVA 0

Minnið er skrítið fyrirbæri. Í mörg ár hef ég, í tengslum við stórmót í handbolta, rifjað upp þegar ég sá línumanninn Róbert Gunnarsson standa í marki Austfirðinga og verja þrjú víti í sama leiknum. Leikurinn hafi verið á ÍR-velli og þrátt fyrir hetjudáðina tapaði lið Róberts illa. Ástæðan fyrir að ég sá ÍR : KVA var sú að ég skrifaði um leikinn fyrir Moggann.

Þessi saga var vitaskuld tilvalin í þessa hundraðleikja sjálfsævisögu, svo ég ákvað að slá leiknum upp á timarit.is. Og viti menn, ÍR sigraði KVA 6:2 í Breiðholtinu sumarið 1999 og ég skrifaði um leikinn.

1999 var skrítið tímabil í næstefstu deild. Fylkir stakk af á toppnum, en fjögur lið börðust jafnri baráttu um annað sætið: FH, Stjarnan, ÍR og Dalvík – sem er magnað ef horft er til þess hve ólík staða þessara liða er í dag, fáeinum árum síðar.

KVA, sameiginlegt lið Vals Reyðarfirði og Austra Eskifirði, hafnaði hins vegar á botninum og rann síðar ásamt Þrótti Neskaupstað inn í nýtt lið Fjarðabyggðar.

Nema hvað, það var enginn Róbert Gunnarsson á leikskýrslunni í Breiðholti. Jón Otti Jónsson, stóð milli stanganna. Hann hafði verið aðalmarkvörður Stjörnunnar löngu fyrr. Og ekkert í umsögn minni um leikinn benti til þess að vítaspyrnur hefðu farið í súginn í hrönnum. Þetta var eitthvað skrítið…

Sumarið 1999 var Róbert Gunnarsson hættur í fótbolta og búinn að snúa sér alfarið að handboltanum. En sumarið áður hafði hann vissulega verið í markinu hjá KVA og unglingalandsliðinu. Það ár stóð KVA sig vel, fékk 24 stig og var í fjögurra liða pakka fyrir neðan toppliðin en fyrir ofan afleitt Þórslið og HK. Og það sumar mætti KVA á Kaplakrika.

Fréttaritari Moggans á leik FH og KVA var enginn annar en Stefán Pálsson. Það voru fáir á vellinum. FH-ingar höfðu mætt sigurvissir í mótið undir stjórn Péturs Ormslevs og sannarlega með mannskap sem duga átti til að fara upp. En þrír af fyrstu fjórum leikjunum töpuðust, svo sigur gegn nýliðunum að austan var nauðsyn.

FH var miklu sterkara. KVA hafði þá einu áætlun að pakka í vörn og veðja á skyndisóknir, en þegar Hörður Magnússon skoraði eftir tæpt kortér var ljóst að austanmenn færu tómhentir heim. Undir eðlilegum kringumstæðum hefði FH átt að skora nokkur mörk í viðbót, enda varðist KVA alltof aftarlega á vellinum og hleyptu andstæðingunum nánast óáreittum upp að vítateig – en Róbert varði og varði.

Hápunktur leiksins var þegar FH fékk víti. Róbert varði en boltinn fór aftur út í teiginn fyrir fætur eins FH-ingsins sem var snarlega sparkaður niður og önnur vítaspyrna dæmd. Róbert varði aftur. Hvort tveggja voru samt ágæt víti.

Auðvitað varð þessi tvöfalda vítamarkvarsla aðalumfjöllunarefnið í stuttri Moggaumsögn minni og DV-fréttaritarinn gerði það sama. Mér fannst þetta þeim mun merkilegra vegna þess að ég var stoltur af mínum manni – Róbert var í grunninn Fylkismaður í fótbolta en byrjaði snemma í handboltanum hjá Fram. Hann hefði vafalítið náð landsleikjum í fótbolta ef sú íþrótt hefði orðið fyrir valinu.

En ekki skil ég hvernig mér tókst að fjölga vörðu vítunum úr tveimur í þrjú í minningunni, færa leikinn milli ára og skipta FH út fyrir ÍR…

(Mark FH: Hörður Magnússon)

Skrópið: Fótboltasaga mín 23/100

Mánudagur, febrúar 24th, 2014

 18. september 1991. Fram 2 : Panathinaikos 2

Í Hagaskólanum var heljarmikið punktakerfi fyrir mætingu, þar sem fært var inn í kladda og sérstakir kladdaverðir höfðu það hlutverk að koma gögnunum til skólaskrifstofunnar sem færði merkingarnar inn í miðlægt bókhald. Fyrir að koma of seint var einn punktur og tveir fyrir skróp í tíma – þó aldrei meira en átta fyrir heilan dag – ef ég man rétt. Með óaðfinnanlegri mætingu í hálfan mánuð gátu þessir punktar fyrnst.

Punktatöflurnar lágu frammi á skrifstofu öllum til aflestrar. Hverjum og einum bar að fylgjast með sinni punktastöðu og þarna gátu hnýsnir líka fengið gægjuþörfinni fullnægt. Skrópagemlingar og svefnpurrkur nutu engrar persónuverndar.

Það var með þennan bakgrunn sem ég byrjaði í MR haustið 1991. Skólinn var tvísetinn og við busarnir látin vera eftir hádegi í skólunum. Það þýddi að suma daganna var kennslu að ljúka klukkan hálf sjö um kvöldið í niðamyrkri. Sú reynsla ein og sér dugir til að gera mig skeptískann á klukkufrumvarp Bjartrar framtíðar.

Ég byrjaði fullur samviskusemi. Glósaði nákvæmlega og mætti í alla tíma. En svo kom leikurinn við Panathinaikos…

Á flóðljósalausum Laugardalsvelli og vafalítið með sjónvarpsútsendingu í Grikklandi í huga, var leikur Fram og Panathinaikos í fyrstu umferð Evrópukeppni meistaraliða settur niður kl. 17:30 á miðvikudegi. Það rakst á við síðustu kennslustundir dagsins: ég yrði að skrópa!

Ekki veit ég hvernig það atvikaðist, en einhverra hluta vegna fann ég mig knúinn til að fara til Árna Indriðasonar sögukennara og tilkynna honum að ég gæti ekki mætt í kennslustundina seinna um daginn. Mögulega hafði ég rekist á hann og ímyndað mér að þá þyrfti ég að skýra þessi fyrirhuguðu forföll – mögulega taldi ég mér trú um að gamli handboltajaxlinn myndi segja: „Blessaður vertu, þú ferð nú ekki að missa af þessum stórleik!“ – En samtalið varð vandræðalegt. Hann sendi mér alvörugefið augnaráð og tók fram að þetta teldust ekki gildar ástæður og ég myndi fá punkt í kladdann. Í eitt augnablik íhugaði ég að hætta við allt saman.

En svo leið að leiknum. Ég hljóp út úr skólanum og hoppaði upp í leigubíl (sem taldist þó hámark flottræfilsháttarins þegar maður var sextán). Slapp inn á völlinn um leið og flautað var til leiks.

Það má endalaust deila um hver sé besta frammistaða íslensks félagsliðs í Evrópukeppni og mörg góð lið geta gert tilkall til þess titils. Leikir Fram gegn Panathinaikos hljóta þó alltaf að fara nærri toppnum. Grikkirnir lágu til baka og beittu skyndisóknum, meðan Framararnir sóttu stíft. Niðurstaðan varð 2:2 jafntefli, sem gestirnir gerðu sig hæstánægða með.

Þeir grísku skoruðu fyrsta markið, en Fram jafnaði. Það gerði Jón Erling Ragnarsson sem var þessi dæmigerði íslenski markaskorari frá níunda áratugnum. Við erum eiginlega alveg hætt að framleiða þá týpu.

Fram skoraði svo aftur. Harðjaxlinn Pétur Arnþórsson þrumaði í netið eftir undirbúning Baldurs Bjarnasonar áður en Grikkir jöfnuðu.

Íslensku blöðin hrósuðu Pétri Ormslev og nafna hans Arnþórssyni mest fyrir leikinn. Sjálfum fannst mér Baldur Bjarnason bestur, þótt hann væri í raun ekki nema á hálfum dampi vegna þrálátra meiðsla. Í seinni leiknum, í Aþenu, mætu 46 þúsund áhorfendur – ætli það sé met á leik með íslensku félagsliði? Þar fengu Framarar fjölmörg góð tækifæri til að slá gríska stórliðið úr keppni, en markalaust jafntefli varð niðurstaðan og Panathinaikos skreið áfram á útivallarmarki. Bara tilhugsunin um sambærileg úrslit í leik íslensku og grísku meistaranna væri fráleit í dag.

En ég skrópaði sem sagt í minni fyrstu menntaskólakennslustund til að mæta á völlinn og varð hinn vandræðalegasti næst þegar ég hitti Árna Indriðason. Þessi háttvísi átti hins vegar eftir að brá af mér hratt. Nokkrum dögum síðar var ég plataður í ræðulið og byrjaði þá þegar að skrópa í tímum – og mjög fljótlega tileinkaði ég mér það hugarfar að mæting í tíma væri frumlegur valkostur sem vel mætti íhuga ef ekki lægju fyrir einhver verkefni í félagslífinu.

(Mörk Fram: Jón Erling Ragnarsson, Pétur Arnþórsson. Mörk Panathinaikos: Louis Chrisodoulou 2)

Battarnir: Fótboltasaga mín 22/100

Laugardagur, febrúar 22nd, 2014

25. janúar 1987. Fram 11 : HSÞ-b 4

Á níunda áratugnum fylgdi fótboltaárið almanaksárinu. Reykjavíkurmótið innanhúss fór fram í fyrstu viku ársins. Næstu helgarnar í mánuðinum voru svo fráteknar fyrir keppni á Íslandsmótinu sem fór fram í fjórum deildum í karlaflokki. Þar sem allir leikirnir fóru fram í Laugardalshöllinni, var þetta stíf dagskrá frá morgni til kvölds.

Fótboltahallirnar eru löngu búnar að drepa innanhússknattspyrnuna. Einhver félög streða reyndar við að keppa í Futsal, en það er ekki sama sport og ég fylgdist með fyrir aldarfjórðungi. Gamli innanhússboltinn var leikinn með handboltamörkum á velli sem afmarkaður var með lágu þili sem nota mátti sem batta. Leikmennirnir í markinu máttu ekki nota hendur, fyrir vikið stilltu öll lið fram útispilurum.

Ég gat varið heilu dögunum í Laugardalshöllinni á þessum túrneringum. Stundum með Baldri vini mínum, stundum einn. Önnur og þriðja deildin á Íslandsmótinu voru leiknar eina helgina en sú fyrsta og fjórða þá næstu. Þá fóru fyrstu leikirnir fram á föstudagskvöldinu, riðlakeppnin var kláruð á laugardeginum og úrslitakeppnin var svo leikin á sunnudag. Með því að hanga í Höllinni lon og don sá maður til skiptis efstudeildarliðin með frægu leikmönnunum spila og svo félög frá smábæjum á borð við Hafnir og Stokkseyri. Það var hálfklikkaður kokteill.

Keppnisfyrirkomulagið var skemmtilegt. Í hverri deild voru sextán lið í fjórum fjögurra liða riðlum. Þau léku hvert við annað, botnliðið féll niður um deild en toppliðið færðist upp. Í fyrstu deildinni fóru tvö efstu lið hvers riðils í fjórðungsúrslit og léku með útsláttarfyrirkomulagi að meistaratitli. Hver leikur skipti því máli. Maður gat séð lið berjast fyrir fjórðungsúrslitasæti en fá á sig mark á lokasekúndunum og falla niður um deild.

Annað sem gerði battaboltann spennandi var hvað hefðbundin styrkleikahlutföll vildu riðlast. Að sönnu voru bestu liðin í útiboltanum hverju sinni líkleg til afreka í þessari skrítnu grein, en svo voru nokkur smærri lið sem lögðu meiri rækt við greinina. Þannig voru Þróttarar um árabil eitt öflugasta liðið í innibolta þrátt fyrir misjafnt gengi utanhúss. Furðulegra tilfelli var þó HSÞ-b.

Íþróttafélögin í Þingeyjarsýslum skipta sér (eða skiptu amk) niður í A, B og C lið eftir staðsetningu. A-svæðið var strjálast og afskekktast og sendi því sjaldnast lið í landskeppni. B og C voru virkari. Hvers vegna mönnum datt ekki í hug að gefa þessum bræðingsliðum aðeins minna stofnanaleg nöfn er mér hulin ráðgáta.

Árið 1987 var HSÞ-b með lið í norðausturriðli þriðju deildar, sem kolféll það sumar og átti ekki afturkvæmt síðan. Sama ár lék liðið hins vegar í fyrsta sinn í efstu deild í innanhússboltanum og átti í mörg ár eftir að halda sér í efstu og næstefstu deild. Eitt árið sendu þeir meira að segja Valsmenn niður um deild. Þá hló marbendill.

HSÞ-b var einmitt lið sem ég hlaut að verða sökker fyrir. Félag sem ég gat ekki einu sinni staðsett á landakorti að spila meðal þeirra bestu. Leit í leikmannalista HSÞ-b frá þessum árum gefur ekki mörg kunnugleg nöfn. Þó var Róbert Agnarsson í liðinu, hann hafði spilað með Víkingum nokkrum árum fyrr og orðið Íslandsmeistari í tvígang. Sé á KSÍ-vefnum að hann átti landsleik að baki, markalaust jafntefli í vináttuleik gegn Bandaríkjunum á Laugardalsvelli. Það hefur væntanlega verið draumaleikur hins hlutlausa áhorfanda.

Framarar unnu sinn riðil, sem hafði á að skipa ÍK, Gróttu og Selfossi – allt neðrideildarliðum. Í fjórðungsúrslitunum var svo makasúpan gegn HSÞ-b. Loks kom röðin að fyrstudeildarliði í undanúrslitum, KR. Framarar urðu svo Íslandsmeistarar með 6:4 sigri á Selfyssingum.

(Markaskorarar: liggur ekki fyrir)

 

 

Spólan: Fótboltasaga mín 21/100

Föstudagur, febrúar 21st, 2014

22. júní 1988. Sovétríkin 2 : Ítalía 0

Ég var um það bil átta ára þegar ég eignaðist sjónvarp. Fyrstupersónueintölufornafnið í síðustu setningu er ekki misritun, ég eignaðist sjónvarpið prívat og persónulega.

Einhverjir velmeinandi ættingjar gáfu mér ríkisskuldabréf í skírnargjöf. Þau brunnu að sjálfsögðu upp í verðbólgunni hraðar en nokkur gæti sagt Vilhjálmur Birgisson. Man ekki hvort við nenntum að innleysa þau á endanum, þetta voru orðnir slíkir smáaurar. En um var að ræða svokölluð happdrættisbréf, sem voru furðulegt fjármálafyrirbæri: þeir sem voru dregnir út töpuðu ekki öllum peningunum sínum. Ég er viss um að það hefur verið einhver göfugur lærdómur fólgin í því.

Og ég vann í happdrættinu! Mamma og pabbi spurðu hvort ég vildi kaupa sjónvarp fyrir peninginn? Það var fyrsta sjónvarp fjölskyldunnar, notað og svarthvítt.

Svarthvíta tækið lifið í nokkur ár. Næsta tæki var í lit, en líka keypt notað. Vídeótæki rataði hins vegar ekki inn á heimilið fyrr en í byrjun tíunda áratugarins.

Afi og amma eignuðust hins vegar vídeótæki þegar afi varð sextugur 1985. Það var með fjarstýringu… en vel að merkja ekki þráðlausri fjarstýringu heldur var 2-3 metra snúra sem tengdi hana við tækið og gegndi aðallega því hlutverki að fella börn sem hlupu um stofuna.

Ég þurfti því að fara heim til afa og ömmu ef ætlunin var að horfa á spólur. Ótrúlega stór hluti sjónvarpsdagskrárinnar var tekinn upp á Neshaganum fyrir hina og þessa fjölskyldumeðlimi sem misstu kannski af spennumyndinni þetta kvöldið eða danska framhaldsþættinum hinn daginn. Spólurnar lágu svo frammi þar til viðkomandi kom næst í heimsókn og gat gefið sér tíma til að horfa.

Sjálfur varð ég hrifinn af hugmyndinni um að eiga fótboltaleiki á spólum. Líklega voru það einkum áhrif frá Shoot! og Match-blöðunum sem farin voru að auglýsa spólur til sölu með upptökum af frægum bikarúrslitaleikjum. Þessar auglýsingar las ég samviskusamlega og lét mig dreyma um að eignast, þó ekki væri nema þegar ég myndi næst vinna í Seðlabankalotteríinu.

Aldrei pantaði ég spólu í gegnum sjoppulegu póstverslanirnar sem auglýstu í fótboltablöðunum, en ég gerði þó fáeinar tilraunir til að koma mér upp safni af öndvegisleikjum. Ég keypti tómar spólur dýrum dómum, tók upp leiki sem ég mat sem svo að gaman yrði að geta skoðað síðar meir og reif svo af flipann sem gerði það að verkum að ekki væri hægt að taka yfir þær fyrir slysni. Þetta voru einhverjir Luton-leikir sem sýndir voru á RÚV og tilfallandi leikir á stórmótum. Þar með talið undanúrslitaleikur Sovétríkjanna og Ítalíu á EM 1988.

Í dag er mönnum tamt að líta á EM og HM sem nálega jafngild stórmót í fótbolta. Á níunda áratugnum var það hins vegar fjarri lagi. Á meðan HM var 24 liða keppni með fullt af forvitnilegum þriðja heims þjóðum, var EM 8 liða mót með hefðbundnum fastagestum. HM hafði Argentínu og Brasilíu. EM var dáldið eins og Take That án Robbie Williams.

Eftir á að hyggja var EM ´88 óvenjusúr keppni. Frakkarnir voru byrjaðir í sinni eyðimerkurgöngu í heimsfótboltanum og komust ekki í úrslitakeppnina. Englendingar voru slappir, Írar og Danir náðu varla máli. Allir vissu að Spánverjar klúðruðu alltaf stórmótum…

Áfram skal talið: Vestur-Þjóðverjar voru sigurstranglegir sem gestgjafar, Hollendingar voru hipsteraliðið með Ruud Gullit og Van Basten. Ítalir voru leiðinlegir en effektívir á þessum árum. Sovétmenn voru með fullt af góðum leikmönnum sem enginn þekkti samt, því þeir spiluðu allir heima fyrir þangað til að þeir voru orðnir fertugir að þeim var leyft að semja við lið í Austurríki, Belgíu eða álíka.

Ég hélt samt með Sovétmönnum, því Rinat Dasayev var minn maður: besti markvörður í heimi.

Sovéska landsliðið átti að toppa á HM 1986, en féll úr leik fyrir Belgum (kannski meira um það síðar). Oleg Blokhin var hættur, en það vantaði samt ekki góð leikmenn. Belanov, Protasov, Zavarov og Vasily Rats voru t.d. allt toppspilarar. Ellefu leikmenn í landsliðshópnum komu frá Dynamo Kiev, sem manni fannst alltaf dálítið skrítið og lítt vænlegt til árangurs.

Ítalir voru með ungan hóp og litu augljóslega á Evrópumótið sem æfingakeppni fyrir HM á heimavelli tveimur árum síðar. Sovétmenn mættu því til leiks sem sigurstranglegra liðið og voru klárlega sterkari í leiknum. Unnu 2:0 eftir markalausan fyrri hálfleik, en einhvern veginn fannst manni alltaf að þetta hlyti að verða niðurstaðan og að Sovétríkin og Holland myndu mætast í úrslitunum rétt eins og í fyrstu umferðinni. Úrslitaleikurinn var antíklímax og kláraðist með frík-markinu sem Van Basten skoraði frá hliðarlínunni. Það skal enginn segja mér að það hafi átt að vera markskot.

Ég geymdi upptökuna af undanúrslitaleiknum lengi og stakk stundum í tækið, en það er bara eitthvað svo súrt við að horfa á upptökur af gömlum fótboltaleikjum. Fótbolti er menningarfyrirbæri sem verður að njóta í núinu. Það er líklega eins gott að ég fór ekki að sanka að mér hillumetrunum af gömlum enskum úrslitaleikjum líka.

(Mörk Sovétríkjanna: Hennadyi Lytovchenko, Oleh Protasov)

Hvíti fíllinn: Fótboltasaga mín 20/100

Fimmtudagur, febrúar 20th, 2014

 17. janúar 2009. Darlington 5 : Luton 1

Halldór Laxness varð innlyksa á Íslandi á stríðsárunum. Eftir því sem tíminn leið, varð hann sífellt önuglyndari og pirraðri í skrifum sínum yfir hvað Íslendingar væru miklir búrar og menningarlega á lágu plani. Skáldið elskaði að sönnu þjóð sína, en til að halda geðheilsunni varð hann að komast reglulega til útlanda að fá almennilegan mat, vín, kaffi, menningu…

Ég skil karlinn vel. Ísland er góður staður, en hér eru ekki pöbbar með real ale á krana, skítbillegir kebab-staðir sem afgreiða vefjur á stærð við kvenmannskálfa eða curry-hús á öðru hvoru horni. Þessi sannindi lágu að baki fyrsta Luton-tvíæringnum.

Ákvörðunin um menningarferð til Englands var tekin fyrst. Síðan var farið að ræða um mögulega dagskrá, hvort fara ætti á rugby-leik eða leita uppi fótbolta. Fljótlega tilkynnti ég væntanlegum ferðafélögum að mér væri eiginlega sama hvað þeir gerðu, en ég ætlaði á Luton-leik. Og af því að þeir Ragnar og Valur félagar mínir eru valmenni, féllust þeir á hugmyndina.

Við völdum útileik gegn Darlington, en ákváðum að hafa bækistöðvar á hóteli í Leeds, þar sem Valur var í skóla. Á flugvellinum hittum við svo Simon, félaga okkar úr íslenska krikketheiminum og fyrrum starfsmann við breska sendiráðið í Reykjavík.

Tímasetningin var ef til vill ekki sú heppilegasta í neinum skilningi. Ferðin var í janúar, sem er nú ekki kjörtími ferðalangsins í þessu kalda landi. Árið var 2009. Íslenska krónan í skralli og flestir með hugann við það hvort þjóðfélagið yrði gjaldþrota, frekar en að leyfa sér strákaferðir á fótboltaleiki í ríki óvinarins.

Það versta við tímasetninguna var þó sú staðreynd að í ársbyrjun 2009 var Luton í frjálsu falli. Liðið hafði verið í eigu fjárglæframanna sem urðu þess valdandi að það hrundi niður úr næstefstu deild vorið 2007. Í kjölfarið kom í ljós gríðarleg fjármálaóreiða og í tengslum við hana brot á ýmsum reglum um samninga leikmanna. 2008 féll Luton niður úr þriðju efstu deild – en þá fyrst ákváðu knattspyrnuyfirvöld að kveða upp dóm vegna gömlu brotanna.

Luton hóf keppni í neðstu deild veturinn 2008-09 með 30 mínusstig. Það mun vera met í knattspyrnusögu heimsins. (Þau brot sem alvarlegust voru talin, voru nálega þau sömu og West Ham var nappað fyrir í tengslum við Tevez-málið, en slapp að mestu við refsingu.) Ekkert lið heldur sér uppi eftir að byrja með 30 stig í mínus, svo í raun var félagið dæmt niður í utandeildina. Stuðningsmenn Luton munu seint fyrirgefa knattspyrnusambandinu. Þeir hörðustu halda með mótherjum enska landsliðsins hverju sinni.

Darlington var skrítinn andstæðingur. Liðið kemur frá samnefndri 100 þúsund manna borg í Durham í norðaustur Englandi. Spor Darlington í knattspyrnusögunni eru ekki djúp. Liðið hefur lengst af haldið sig í neðri deildunum, enda héraðið hvorki nógu fjölmennt né ríkt til að geta staðið undir mikið meiru.

Uppúr aldamótum kom nýr eigandi að félaginu – eigandi með „metnað“ (famous last words). Til að árétta stórhug sinn reyndi hinn nýi eigandi árangurslaust að lokka til sín fræg nöfn: Paul Gascoigne og Faustino Asprilla. Afdrifaríkari var þó sú ákvörðun að byggja nýjan heimavöll.

The Darlington Arena var 25 þúsund manna leikvangur, sem þó var hannaður þannig að stækka mætti hann upp í 40 þúsund manns. Það átti ekki að klikka á því að hafa ekki nóg af sætum þegar komið væri upp í úrvalsdeildina…

Fyrir utan Elton John-tónleika sem haldnir voru á vellinum, mættu aldrei fleiri en 12 þúsund manns í gímaldið. Að jafnaði voru áhorfendur um tvöþúsund talsins og leið eins og krækiberi í helvíti (eða Frömurum á nýjum Laugardalsvelli). The Darlington Arena varð frá fyrsta degi að orðabókarskilgreiningu á „hvítum fíl“ – mannvirki sem er of stórt og dýrt í rekstri og reynist eiganda sínum myllusteinn um háls.

Það var súrrealískt að horfa á fótbolta á tómum risavellinum. Luton mætti reyndar með furðumarga áhorfendur sem skemmtu sér ágætlega, þrátt fyrir það sem gekk á inni á vellinum. Aðalfjörið snerist um uppblásna Spiderman-dúkku sem vallarverðir gerðu upptæka en skiluðu svo aftur við mikinn fögnuð áhofendanna.

Leikurinn sjálfur var ömurlegur. Heimamenn fengu víti eftir tíu mínútur og skoruðu. Blésu svo til stórsóknar um miðjan hálfleikinn og skoruðu þrjú mörk á rétt rúmlega fimm mínútna kafla. Luton setti mark á móti beint þar á eftir en á lokamínútunum innsiglaði Darlington 5:1 sigur. Við ferðalangarnir létum það þó ekki trufla okkur of mikið, heldur fundum pöbb með þokkalegu bjórúrvali og pílukastsspjaldi.

Aðalumræðuefnið í lestinni á leiðinni heim til Leeds var þessi furðulegi völlur sem augljóslega var að drepa félagið. Undir lok tímabilsins fór Darlington í greiðslustöðvun og missti tíu stig í refsingarskyni. Það þýddi að liðið komst ekki í umspil þá um vorið. Árið eftir hafnaði Darlington í langneðsta sætinu og færðist niður í utandeildakeppnina.

Eftir eitt ár í efri hluta konferensunnar lenti Darlington á ný í greiðslustöðvun og féll í lok leiktíðarinnar 2011-12. Nýtt félag var stofnað á rústum þess gamla, Darlington 1883, sem hóf leik enn neðar í fótboltapýramídanum. Það leikur heimaleiki sína á velli í nágrannabæ, en stefnir á að taka í notkun lítinn völl í heimaborginni. The Darlington Arena er komið í eigu byggingarverktaka sem hyggjast breyta vellinum í hjúkrunarheimili eða eitthvað álíka.

Síðast þegar fréttist var Darlington 1883 í grennd við toppinn í einhverri lókaldeildinni í norðrinu á milli Curzon Ashton og Ramsbottom United. – Síríöslý… Ramsbottom???

Darlington vann því orrustuna en tapaði styrjöldinni. Síðar átti eftir að koma enn betur í ljós hversu sterk bölvun Luton-tvíæringsins er í raun.

(Mörk Darlington: Rob Purdie 2, Liam Hatch, Neil Austin, Gregg Blundell. Mark Luton: Chris Martin)

Nýliðarnir: Fótboltasaga mín 19/100

Miðvikudagur, febrúar 19th, 2014

23. maí 1995. Fram 0 : Leiftur 4

Það vill enginn mæta nýliðum í fyrsta leik á Íslandsmóti. Það er gömul saga og ný að nýliðar í deild eru alltaf líklegir til að stela stigi eða stigum í upphafsleik, jafnvel á erfiðustu útivöllum. Væntanlega er það stemningin og gleðin yfir að vera kominn upp um deild sem hefur þessi áhrif, ásamt ómeðvituðu vanmati hins liðsins. Og til að bíta höfuðið af skömminni finnst fjölmiðlum fátt skemmtilegra en að velta sér upp úr þess háttar úrslitum og auka þannig enn á niðurlægingu „stóra“ liðsins.

Íslandsmótið 1995 hófst á Valbjarnarvelli þar sem Fram tók á móti Leiftri frá Ólafsfirði. Leiftur hafði áður leikið í efstu deild. Það var 1988 þegar liðið átti aldrei séns og fór beint niður aftur. Raunar var magnað að Leiftursliðinu skyldi hafa tekist að fara upp 1987, ef haft er í huga að félagið lék í fjórðu deild svo seint sem 1983.

Þetta árið voru Leiftursmenn þó betur undirbúnir. Leikmennirnir voru heldur ekki innfæddir skíðastökkvarar, heldur höfðu ýmsir reyndir leikmenn verið fengnir til liðsins, svo sem Gunnar Oddsson, Baldur Bragason, Sverrir Sverrisson og Gunnar Már Másson – sem var mögulega einhver óvinsælasti leikmaður deildarinnar hjá stuðningsmönnum annarra liða.

Því var spáð að Leiftursliðið yrði rétt fyrir neðan miðja deild. Frömurum átti hins vegar að vegna betur. Í spá aðstandenda liðanna í efstu deild hafnaði Fram í þriðja sæti á eftir KR og ÍA. Í ljósi þess sem síðar gerðist var sá spádómur óraunsær. Sumarið 1994 hafði Fram lokið keppni með aðeins tuttugu stig, en vissulega hafði leikmannahópurinn styrkst milli ára. Í huganum voru Framarar ennþá lið sem taldi sig eiga heimtingu á titlum og toppbaráttu á hverju ári.

Taugaveiklunin leyndi sér ekki hjá Framliðinu strax á fyrstu mínútunum. Margir leikmenn höfðu verið meiddir á undirbúningstímabilinu, sem hafði ekki gengið sérstaklega vel. Leiftursmenn voru grimmir og það sló Framara enn frekar út af laginu. Þá hjálpaði ekki að Valbjarnarvöllurinn var jafnlélegur og venjulega, ójafn og leiðinlegur.

Jón Þór Andrésson, einhver fyrrum Valsari sem ég hafði aldrei heyrt um áður, skoraði fyrsta markið og bætti svo tveimur við til að fullkomna þrennuna. Þetta var helmingurinn af mörkum hans í efstu deild á ferlinum. Páll Guðmundsson bætti svo fjórða markinu við um miðjan seinni hálfleikinn.

Niðurlæging Framara var algjör og það var lítil huggun í að helv. Valsararnir skyldu hafa tapað 8:1 í Vestmannaeyjum á sama tíma. Skellurinn gegn Leiftri reyndist afdrifaríkur. Nokkrum dögum síðar gerðu Framarar jafntefli við ÍBV á heimavelli – úrslit sem máttu teljast viðunandi í ljósi stórsigurs Eyjamanna í leiknum á undan. En stjórn hlutafélagsins á bak við meistaraflokkinn var enn rasandi yfir skellinum í upphafsleiknum og ákvað að segja Marteini Geirssyni upp störfum.

Í samanlagðri nærri 105 ára sögu Fram, hlýtur brottrekstur Marteins að fara á topp-10 listann yfir vondar ákvarðanir. Þú rekur ekki þjálfara eftir tvær umferðir, hvað þá þjálfara með goðsagnakennda stöðu innan félagsins sem leikmaður og leiðtogi um árabil.

Brottrekstur Marteins klauf félagið. Heilu fjölskyldurnar sem höfðu lifað og hrærst í félagsmálum á vegum Fram um árabil hurfu á braut. Marteinn sjálfur steig ekki fæti í Framheimilið í mörg ár á eftir. Það var fyrst þegar Framstrákarnir urðu Íslandsmeistarar í handbolta og gömlum meistaraliðum var boðið sem heiðursgestum að Marteinn fékkst á svæðið – enda hafði handboltadeildin ekki gert neitt á hans hlut. Þannig tókst að græða verstu sárin.

Ég hitti ennþá fólk sem hefur aldrei fyrirgefið brottreksturinn, enda er langt síðan ég komst að þeirri niðurstöðu að menn skyldu aldrei ráða þjálfara sem þeir treysta sér ekki til að reka. (Sú regla gildir raunar á mun fleiri sviðum í lífinu en í fótboltanum.)

Og auðvitað skilaði þessi ákvörðun engu. Fram féll þetta sumar með aðeins tólf stig, en fokdýran mannskap á fáránlegum samningum. Ég kenni Jóni Þór um!

(Mörk Leifturs: Jón Þór Andrésson 3, Páll Guðmundsson)

Boggan: Fótboltasaga mín 18/100

Mánudagur, febrúar 17th, 2014

17. júlí 1985. ÍA 1 : Fram 2

1985 var sumarið þegar ég byrjaði að fylgjast með íslenskum fótbolta fyrir alvöru. Þá var ég tíu ára og fór með afa heitnum á flesta heimaleiki og slæðing af útileikjum. Þetta var gott ár til að byrja. Framarar voru funheitir undir stjórn nýs þjálfara, Ásgeirs Elíassonar og virtust ætla að stinga alla af. Eftir átta umferðir var forystan orðin átta stig.

Lokaleikur fyrri hluta mótsins var uppá Skaga. Við fórum með Akraborginni upp eftir og lögðum að landi rétt um það leyti sem flautað var til leiks. Framstuðningsmennirnir gengu í halarófu á völlinn en á leiðinni heyrðust fagnaðarlæti í fjarska. Skagamaður sem stóð úti á svölum á húsinu sínu hrópaði hæðnislega til okkar hvort við vildum ekki bara snúa strax við. Þegar á völlinn var komið uppgötvuðum við í hverju fyndnin lá. Staðan var 2:0 fyrir heimamenn eftir fimm mínútur.

Framarar biðu afhroð þennan dag. Lokatölur voru 6:2 og seinna markið okkar kom ekki fyrr en á lokasekúndunum. Við afi héldum þöglir í kaffi heim til Óla frænda á Skaganum. – Hefði ég verið aðeins eldri og reyndari, má ætla að þessi útreið hefði getað varað mig við því hversu brothætt Framliðið var þetta sumar.

Það voru ellefu dagar í næsta Framleik (ég mun aldrei skilja hvers vegna það er leikið svona stíft á Íslandi í maí en strjált í júlí). Og aftur voru mótherjarnir ÍA uppi á Skaga, nú í átta liða úrslitum bikarsins á miðvikudagskvöldi.

Aftur tókum við afi Akraborgina. Akraborgarferðir mínar á þessum tíma voru það fátíðar að mér þótti þær spennandi. Þvældist mikli dekkja, svipaðist um eftir hvölum af þilfarinu (sá aldrei neina) og skoðaði spilakassana. Á ferð með afa betlaði ég stundum nammi úr sjoppunni. Stillti mig þó um að suða um teiknimyndablöðin frá Siglufjarðarprentsmiðju sem þarna voru seld. Mig langaði aldrei í þessi blöð nema um borð í Akraborginni.

Ferðaáætlunin féll betur að leiktímanum í þetta skiptið og við komumst á völlinn í tæka tíð fyrir upphafsflautið. Ég sé á timarit.is að leikurinn hófst kl. 18:30, sem var óvenjulegt. 20:00 var nálega ófrávíkjanlegur leiktími yfir björtustu sumarmánuðina í miðri viku, meira að segja þegar möguleiki var á framlengingu og vítaspyrnukeppni.

Það var hvasst á vellinum. Kannski óþarft að taka það fram: það er alltaf rok á Akranesvelli. (Fyrir mörgum árum var ég fréttaritari Moggans á leik á Skaganum. Í blaðamannastúkunni hékk uppi blað þar sem reynt var að sýna fram á með hitastigstölum, úrkomumælingum og vindrósum að völlurinn væri ekki veðravíti. Þetta er skólabókardæmi um hvernig ljúga má með tölfræði.

Heimamenn kunnu að nýta sér vindinn og byrjuðu vel. Skoruðu snemma leiks þegar sending fyrir fauk upp í markhornið og hefðu getað bætt um betur. Þegar frá leið náðu Framarar hins vegar völdum á vellinum. Guðmundur Torfason jafnaði eftir klukkutíma leik og einhvern veginn virtumst við alltaf líklegri eftir það. Það var svo rétt í leikslok sem Gummi Steins skoraði sigurmarkið eftir slæm mistök Birkis Kristinssonar.

Það var lítill tími til að fagna á vellinum, enda Akraborgin á leið til baka. Við skeiðuðum því aftur niður á höfn og um borð. Á næsta borði við mig sat Guðmundur Torfason, sem varla hafði haft ráðrúm til að skella sér í sturtu. Ég var auðvitað starströkk. Og strákahópur sem líklega hefur verið eitthvað búinn að fá sér neðan í því dansaði konga milli reyk- og reyklausa hluta salarins. Einn skellti félaga sínum á háhest og dansaði með hann… í gegnum þröngt dyraop. Þar lauk þeim konga-dansi.

Og vonbrigðin frá því ellefu dögum fyrr voru á bak og burt og ég jafn sannfærður eftir sem áður um óhjákvæmilegan Íslands- og bikarmeistaratitil.

(Mark ÍA: Árni Sveinsson. Mörk Fram: Guðmundur Torfason, Guðmundur Steinsson)

Reglan: Fótboltasaga mín 17/100

Sunnudagur, febrúar 16th, 2014

10. júní 2006. Trinidad & Tobago 0 : England 2

Það er alltaf stór ákvörðun að velja land til að halda með á stórmótum í fótbolta – ákvörðun sem oft hefur valdið mér miklu hugarangri og heilabrotum. Til að þrengja hringinn ofurlítið setti ég mér fyrir margt löngu viðmiðunarreglur.

Sem fyrsta kost hef ég landslið sem hafa á að skipa leikmönnum Fram. Það hefur enn ekki reynt á þetta ákvæði, en þegar þar að kemur er það til staðar. Í öðru lagi vel ég landslið sem hefur Luton-mann innanborðs. Ef hvorugu þessara skilyrða er fullnægt, get ég valið hvaða land sem er.

Luton-klausan var síðast virkjuð á HM 2006. Einn besti leikmaður Luton um þær mundir var Carlos Edwards, hörkugóður kantmaður sem keyptur hafði verið frá Wrexham. Edwards var síðar seldur til Sunderland, en er í dag aðalmaðurinn í Ipswich-liðinu.

Carlos Edwards var skírður Akenhaton að fornafni (sem bendir til óvenjulegs Egyptalandsáhuga foreldranna) og fæddist í Trinidad og Tobago. Þetta litla eyríki átti hörkugott landslið í byrjun aldarinnar og um miðbik N-Ameríkuforkeppninnar var fólkið á Luton-spjallsíðunum farið að taka eftir árangri liðsins. Það var mikið fagnað þegar T&T komst í umspilleiki við Bahrain um síðasta sætið á HM og enn meira þegar sigur vannst þar.

Trinidad og Tobago varð þannig fámennasta landið í úrslitakeppni HM frá upphafi, sem eitt og sér vakti mikla athygli á liðinu. Þá var fyrirliðinn sjálfur Íslandsvinurinn Dwight Yorke, sem kætti bresku og íslensku pressuna.

Hér heima var HM 2006 send út af sjónvarpsstöðinni Sýn og vitaskuld var haldið úti HM-stofu í tengslum við útsendingarnar, þar sem kappkostað var að fá gesti með einhverjar tengingar við keppnisliðin. Starfsmaður stöðvarinnar hringdi í mig og spurði hvort þetta væri nokkuð grín, hvort ég héldi ekki örugglega í alvörunni með T&T? Ég játti og var bókaður í útsendingu fyrir leikinn gegn Englendingum.

Hinn viðmælandinn í þættinum var Hermann Hreiðarsson, sem hafði greinilega samþykkt að koma gegn því að fá að plögga einhverja söfnun sem hann tengdist (fyrir UNICEF eða eitthvað álíka). Umsjónarmaðurinn spurði Hermann út í enska landsliðið og þá leikmenn sem hann þekkti persónulega. Ég fékk svo að ryðja upp úr mér einhverjum staðreyndapunktum um T&T sem ég hafði pikkað upp á netinu dagana á undan. Allir voru mjög afslappaðir í stúdíóinu og biðu eftir flugeldasýningu Englendinga.

Svo byrjaði leikurinn og mínir menn frá Rómönsku Ameríku parkeruðu liðsrútunni fyrir framan markið. Englendingarnir sóttu og sóttu en komust lítið áfram, einkum var Peter Crouch mikill klunni. Eftir því sem leið á hálfleikinn fór brúnin að þyngjast á starfsmönnum sjónvarpsstöðvarinnar. Undir eðlilegum kringumstæðum ættu íþróttafréttamenn að kætast þegar smálið úr þriðja heiminum stendur upp í hárinu á evrópsku stórliði, en önnur lögmál gilda um England.

Það er hluti af starfslýsingu fótboltalýsenda á Íslandi að halda með Englendingum. Íþróttastöðvar 365 miðla sýna leiki Englendinga við Andorra og San Marínó í forkeppni EM og HM, þótt lykilleikir í öðrum forriðlum séu á sama tíma. Stóra spurningin á vörum þeirra þegar kemur að stórmótum er hvort England eigi möguleika á titli, hversu fráleitar sem slíkar vangaveltur kunna að vera.

Og þarna sat ég í leikhlénu, lék við hvurn minn fingur og lýsti mikilli ánægju með skilvirkan varnarleik T&T. Spáði því að Englendingar yrðu jafnráðalausir í seinni hálfleik og það væri aldrei að vita nema einhver fótfrár leikmaður, t.d. sá snjalli Carlos Edwards, myndi skora sigurmarkið í lokin. Þáttarstjórnandanum fannst ég ekkert sniðugur og fæstum öðrum í stúdíóinu heldur.

Það voru innan við tíu mínútur eftir af leiknum þegar Crouch náði loksins að skora. Einlæg fagnaðarlæti brutust út í myndverinu. Kannski skiljanlega: England var öruggt áfram og þar með myndu auglýsingatekjurnar aukast um einhverjar milljónir. Í uppbótartíma bættu Englendingar við öðru marki og aftur gátu menn farið að tala sig upp í einhverja sturlaða drauma um heimsmeistaratitil ensku miðlungsliði til handa.

Enda hef ég alltaf sagt að því fyrr sem enska landsliðið fellur úr keppni á stórmótum, því betra. Þá fyrst er hægt að gera sér vonir um vitræna umfjöllun íslenskra íþróttafréttamanna.

(Mörk Englands: Peter Crouch, Steven Gerrard)

 

Símtalið: Fótboltasaga mín 16/100

Fimmtudagur, febrúar 13th, 2014

15. júní 1998. HK 3 : Víkingur 2

Ég og vefmiðlakóngurinn Björn Ingi Hrafnsson voru ágætir félagar í sagnfræðinni í Háskólanum á sínum tíma. Við sátum saman í stjórn Félags sagnfræðinema og áformuðum að gefa saman út blað um íslenska boltann. Þau áform fóru fyrir lítið þegar Bingi var ráðinn á Moggann, góðu heilli trúi ég – ætli við værum ekki enn að borga niður tapið af slíku útgáfuævintýri…

En þegar Björn Ingi var orðinn innanhússmaður hjá Árvakri, gat hann bent á mig þegar leitað var að lausapenna til að skrifa um leik og leik. Einkum var um að ræða leiki í næstefstudeild í fótboltanum og svo óspennandi leiki í handboltanum, þar sem botnliðin áttu í hlut (ég veit álíka mikið um handbolta og Björn Bragi). Fyrir vikið fékk ég blaðamannapassa frá KSÍ og gat farið á flestalla leiki, sem var mikill sparnaður. Og svo var vel borgað fyrir skrifin miðað við vinnu.

Ég fék sjaldnast neinar toppviðureignir. Föstu blaðamennirnir byrjuðu á að velja sér leiki áður en farið var að hringja í okkur lausapennana. Það hefur því eitthvað annað og meira spennandi verið í gangi kvöldið sem ég var sendur í Kópavoginn að fjalla um HK : Víking í fimmtu umferð.

Víkingum var ekki spáð sértöku gengi fyrir mót, en byrjuðu vel undir stjórn Lúkasar Kostic og höfðu tólf stig eftir fyrstu fjóra leikina. Nýliðar HK sátu hins vegar stigalausir á botninum, sem var í samræmi við spár. Kópavogsliðið átti lítið erindi í deildina og kolféll um haustið eftir nokkra ljóta skelli, þar á meðal 13:0 gegn Breiðabliki.

Það leit út fyrir að Víkingsleikurinn yrði einn af þessum skellum. Víkingar réðu lögum og lofum. Hefðu hæglega átt að geta skorað 7-8 mörk í fyrri hálfleik, en settu bara tvö. Í seinni hálfleik var sama einstefnan og hnuggnir HK-stuðningsmennirnir biðu bara eftir að flautað yrði til leiksloka áður en verulega illa færi.

Þegar vallarklukkan sýndi fimm mínútur til leiksloka og fyrstu áhorfendurnir voru farnir að tygja sig til brottfarar, fékk HK vítaspyrnu – eiginlega uppúr engu. Vítið tók gamall skólabróðir úr Melaskóla, Mikael Nikulásson eða Mikki. Hann er í seinni tíð kunnur sem rekstraraðili misvirðulegra skemmtistaða á höfuðborgarsvæðinu, en ég mundi eftir honum frá fornri tíð þar sem hann var einn af strákunum í Meló sem var bæði mjög góður að spila fótbolta og nörd þegar kom að fótboltaáhuga. Það fór ekkert  oft saman.

Mikki skoraði og skyndilega var þetta orðinn allt annar leikur. HK blés til sóknar og undir lok venjulegs leiktíma kom jöfnunarmarkið: Ívar Jónsson síðar Framari. Og í uppbótartímanum skoraði Steindór gamli Elísson, ÍK-maðurinn sjálfur, 3:2!

Ég fór heim og skrifaði umfjöllunina. Hrósaði HK fyrir baráttugleðina, en sigurinn hefði þó ekki verið í samræmi við leikinn. Skammaði Víkinga fyrir að hafa ekki löngu klárað viðureignina og nafngreindi sérstaklega einn sóknarmanna þeirra sem ég sagði hafa misnotað „tylft góðra marktækifæra“. Sendi frá mér pistilinn og fór að sofa.

Daginn eftir hringdi síminn hjá Birni Inga. Það var maður sem vildi fá að tala við þennan Stefán Pálsson. Að öllu jöfnu hefði Bingi aldrei látið mann utan úr bæ fá símanúmerið hjá frílans blaðamanni, en eftir stutt spjall ákvað hann að gera undantekningu.

Nokkrum mínútum síðar hringdi vinnusíminn minn. Samtalið var eitthvað á þessa leið: „Sæll. Ég heiti Luca Kostic. Ég vildi bara hringja til að þakka þér fyrir það sem þú skrifaðir í blaðið. Það er ekki alltaf sem ég er sammála því sem íþróttafréttamenn segja, en þetta var heiðarlega skrifað og hárrétt hjá þér.“ Síðar í samtalinu kom í ljós að Kostic var sérstaklega sáttur við gagnrýni mína á framherja sinn og að það gengi hreinlega ekki upp að menn brenndu svona mörgum færum. Ég fékk mjög sterkt á tilfinninguna að honum fyndist gott að geta bent viðkomandi leikmanni á að íþróttafréttariturum Moggans þætti hann fara illa með færin.

Mér hefur alltaf þótt vænt um Kostic upp frá þessu. Það var því gaman að fá það verkefni að fjalla um lokaleik Víkinga þetta sumar, þegar liðið tryggði sér úrvalsdeildarsæti á ótrúlega dramatískan hátt sem enn nær að kreista fram gremjutár í Kaplakrika. Eins varð ég leiður þegar KR-fantarnir ráku Kostic á snautlegan hátt nokkrum misserum síðar.

Það er samt eitthvað kjánalegt við það að reynslubolti á borð við Lúkas Kostic, einhvern besta útlending sem hérna hefur spilað, hafi þurft að fá staðfestingu lausapenna á Mogganum til að benda senternum sínum á að vanda sig…

(Mörk HK: Mikael Nikulásson, Ívar Jónsson, Steindór Elísson. Mörk Víkings: Sumarliði Árnason, Þrándur Sigurðsson)

* * *

Viðbót: Mér er kurteislega bent á að KR-fólin ráku Kostic árið áður.