Archive for febrúar, 2014

Öskubuskur: Fótboltasaga mín 15/100

Fimmtudagur, febrúar 13th, 2014

 21. maí 2011. Luton 0 : AFC Wimbledon 0 (3:4 eftir vítakeppni)

Ég hef alltaf haft samúð með píunum sem töpuðu fyrir Öskubusku. Ekki vondu stjúpsystrunum, þær voru ömurlegar og fengu makleg málagjöld, heldur öllum hinum: stelpunum sem mættu á dansiball og héldu að þær ættu jafnan séns í prinsinn í heiðarlegri keppni. Ekki höfðu þær aðgang að neinni helvítis álfkonu sem gat töfrað fram skó, kjóla, skart og eðalvagna. Og svo þurfti restin af heiminum að halda með þessari forréttindadömu af því að hún var móðurlaus!

Það sökkar að keppa við Öskubuskur. Og það er ömurlegt að tapa fyrir þeim.

Veturinn 2010-11 gerði ég mér nokkuð góðar vonir um að Luton myndi komast aftur inn í deildarkeppnina og ljúka þeirri eyðimerkurgöngu í utandeildinni sem verið hefur örlög okkar síðustu árin. Luton er Manchester United utandeildarinnar – í þeim skilningi að það er langstærsti klúbburinn. Á langflesta stuðningsmenn og fær langflesta áhorfendur á leiki. Það er þó ekki alltaf nóg.

Úr „konferensunni“ fara bara tvö lið á ári. Toppliðið kemst beint, en liðin í öðru til fimmta sæti leika í umspili. Umspil er hreint lotterí og yfirleitt er eitt lið sem hittir á frábært ár, oftar en ekki klúbbur sem einhver milljarðamæringurinn er nýbúinn að kaupa og leika sér að því að henda peningum í.

2010-11 var Crawley þetta lið. Crawley hafði barist í bökkum lengi, en fengu ríkan eiganda sem keypti nýjan leikmannahóp á einu bretti fáeinum vikum fyrir mót. Það hreif. Crawley fékk 105 stig og vann með yfirburðum.

Wimbledon, Luton, Wrexham og Fleetwood komu í sætunum á eftir og þrátt fyrir töfluröðina voru Luton og Wrexham talin líklegust. Eftir 0:3 sigur í Wales, þar sem Luton-liðið lék við hvern sinn fingur, var það bara formsatriði að komast í úrslitaleikinn gegn Wimbledon á heimavelli Manchester City (furðulegt staðarval á viðureign tveggja liða frá suðrinu).

Luton : Wimbledon var óskaleikur sagnfræðinördanna á íþróttadeildum fjölmiðlanna. Það var hægt að rifja upp gamlar kempur frá níunda áratugnum, Wembley-sigra beggja liða. Og svo var Öskubuskuelementið. Þarna voru tvær Öskubuskur, sú minni var Luton sem knattspyrnuyfirvöld höfðu leikið grátt. Öskubuska hin stærri var hins vegar AFC Wimbledon – félagið sem kaupahéðnar höfðu stolið og flutt til Milton Keynes (svar Bretlands við Hamraborginni í Kópavogi). Stuðningsmennirnir söfnuðu liði og stofnuðu nýtt félag sem hóf leik neðst í knattspyrnupíramídanum og var nú á fleygiferð inn í deildarkeppnina á ný.

Undir öllum eðlilegum kringumstæðum hefði ég farið á barinn. Stefnt með mér hópi manna, drukkið nokkra bjóra og öskrað á skjáinn. En þennan dag var okkur Steinunni boðið í brúðkaupsveislu hjá vinafólki. Um það leyti sem venjulegum leiktíma lyki væri passlegt að fara að leggja af stað. Ég sat því í jakkafötunum með pilsner í dós og rýndi í ferlega lélega vefútsendingu á tölvuskjánum, sem sífellt var að frjósa eða detta út. Með þessu hlustaði ég á höktandi útvarpslýsingu í gegnum sömu tölvu. Mynd og hljóð voru þó aldrei í takti.

Og við vorum betri. Við vorum klárlega betri, en Wimbledon varðist vel. Þeir áttu svo sem líka sénsa, en einhvern veginn varð maður aldrei hissa þegar leiknum lauk með markalausu jafntefli. Steinunn var sein að búa sig og kallaði öðru hverju afsökunarorð innan úr svefnherbergi. Ég þóttist gríðarlega skilningsríkur og bað hana endilega um að taka sér bara sinn tíma, mér leiddist ekkert voða mikið…

Framlengingin var í sama dúr. Mjög snemma virtust báðir stjórarnir farnir að hugsa um vítaskyttur. Í eitt augnablik á lokasekúndunum virtust þær áhyggjur óþarfar þegar Jason Walker komst í dauðadauðadauðafæri en mistókst að skora. Þetta blogg styður ekki útlitsfordóma, en þó er rétt að taka það fram að Jason Walker er rauðhærðari en Harry Bretaprins.

Það var vítakeppni. Lawless klikkaði strax í fyrstu spyrnu og svo skiptust liðin á að skora, þar til einn Wimbledonmaðurinn brást líka. Allt jafnt aftur! Steinunn kallaði af baðinu hvort við værum nokkuð orðin dónalega sein, en ég fullvissaði hana um að svölu krakkarnir kæmu alltaf 40 mínútum of seint í svona veislur.

Anna í Grænuhlíð fékk tækifæri til að bæta fyrir klúðrið frá lokamínútunum… en nei! Auðvitað hlaut fransmannabeitan að fokka þessu upp…

Wimbledon skoraði úr tveimur síðustu spyrnunum og Öskubuska hin meiri fékk prinsinn. Ég var eins og kýldur í magann. Í hálfgerðu losti togaðist ég í veisluna og reyndi að spjalla við fólk sem ég þekkti ekki neitt. Helvítis vítakeppnir.

(Engir markaskorarar í venjulegum leiktíma eða framlengingu.)

Hatrið: Fótboltasaga mín 14/100

Miðvikudagur, febrúar 12th, 2014

5. september 2001. Norður-Írland 3 : Ísland 0

Þann fyrsta september 2001 unnu Íslendingar óvæntan og glæsilegan sigur á Tékkum í undankeppni HM. Tékkar voru um þessar mundi rein besta knattspyrnuþjóð í heimi og úrslitin gerðu það óvænt að verkum að Ísland var komið í séns að komast áfram í úrslitakeppnina eða í það minnsta í umspilið.

Til þess hefðu reyndar ansi mörg atriði þurft að ganga upp. Úrslit í öðrum leikjum að verða hagstæð, íslenska liðið að fara á Parken og vinna í fyrsta sinn í sögunni í lokaleiknum og svo var það jú þetta litla formsatriði: að vinna Norður-Íra í Belfast fjórum dögum síðar.

Ég spenntist upp við þessi tíðindi. Þann þrettánda þessa mánaðar var ég á leiðinni heim frá Edinborg og átti í raun bara eftir að snurfusa síðustu smáatriðin í mastersritgerðinni minni, láta binda hana inn og drekka bjór með fólki í kveðjuskyni. Paul félagi minn af stúdentagörðunum var frá Norður-Írlandi og fljótlega skaut upp þeirri hugmynd að við myndum skella okkur saman á leikinn og líta á heimaþorpið hans í leiðinni. Þar sem yfirdráttarheimildin í bankanum var þegar rækilega þanin ákvað ég að það munaði ekki um kepp í sláturtíð.

Við flugum til Belfast og gistum hjá systur Pauls. Fórum við þriðja mann á völlinn. Paul sem hélt með Liverpool sagðist þó eiginlega aldrei horfa á norður-írskan fótbolta og þetta væri fyrsti landsleikurinn sem hann sæi. Hann var rugby-maður miklu fremur.

Völlurinn var greinilega í miðju prótestantahverfi. Graffittíið á veggjunum voru glæsilegar myndir af sambandssinnum með lambhúshettur og með riffla. Á vellinum voru kaþólikkar heldur ekkert sérstaklega velkomnir. Fjörugustu áhorfendurnir dönsuðu Konga um pallana berir að ofan og sungu söngva. Þeir snerust ýmist um að ríða páfanum eða að hlakka yfir megrunarkúr Bobby Sands. Í sömu viku voru aðalfréttirnar af sveitum prótestanta sem skipulögðu dagleg mótmæli gerðu hróp af níu ára kaþólskum stelpum sem þurftu að labba með lögregluvernd í skólann um göngustíg sem sambandssinnar töldu sig „eiga“.

Ég mætti sigurviss og útskýrði fyrir Paul og þriðja manninum (sem ég man ekkert hver var) að Ísland væri með frábært fótboltalið og myndi nær örugglega vinna. Þeim fannst það sömuleiðis líklegt. Og fyrri hálfleikurinn gaf alveg tilefni til bjartsýni.

Í byrjun seinni hálfleiks hrundi hins vegar varnarleikurinn hjá okkar mönnum. Keith Gillespie lék sér að íslensku vörninni trekk í trekk og á tólf mínútna kafla skoruðu Norður-Írar þrisvar. Ég varð hálfsneyptur eftir, en það gleymdist fljótt á pöbbunum í Belfast. Belfast er greinilega frábær næturlífsborg og við drukkum ótæpilega. Það var ekki fyrr en á leiðinni heim að við vorum minntir á hvar við værum staddir. Löngu áður en komið var á leiðarenda stoppaði leigubílsstjórinn, rukkaði okkur og skipaði að fara út. Ég skildi ekkert, en fékk svo að vita að hann hefði greinilega verið kaþólikki og ekki viljað keyra þrjá unga karla of langt inn í prótestantahverfi. Það var drjúgur göngutúr heim í bæli.

Daginn eftir tókum við lestina heim til fjölskyldu Pauls. Hún býr á norðausturhorni landsins, rétt hjá Giant´s Causeway, sem margir þekkja og í sama þorpi og Bushmills viskýfabrikkan. Á hverju húsi var skjöldur með merki einhverra samtaka sambandssinna. Í upphafi lestarferðarinnar keypti ég öll dagblöð sem í boði voru til að lesa um leikinn. Þegar leið á ferðina áttaði ég mig á því að fólk gjóaði furðulega til okkar augunum þegar það gekk fram hjá. Ég spurði Paul hverju þetta sætti. Hann hugsaði sig um og fór svo að hlæja: benti á að við værum með öll blöðin – jafnt þau sem kaþólikkarnir læsu og prótestantarnir. Það hefði líklega enginn séð áður…

Í ljós kom að Ian Paisley væri fjölskylduvinur hjá foreldrum Pauls og hann bauðst til að reyna að koma á fundi. Ég íhugaði að taka viðtal við karlinn og reyna kannski að selja einhverju blaðinu heima á Íslandi, en ákvað svo að nenna því ekki. Hafði sannast sagna fengið alveg nóg af hermennskudýrkuninni sem sjá mátti á öllum veggjum.

(Mörk Norður-Írlands: David Healy, Michael Hughes, George McCartney)

Forgjöfin: Fótboltasaga mín 13/100

Laugardagur, febrúar 8th, 2014

20. júní 1996. Fram U23 0 : Breiðablik 2

Knattspyrnufélögin Fram og Víkingur voru stofnuð um svipað leyti á sömu þúfunni í miðbænum á fyrsta áratug síðustu aldar. Víkingarnir voru yngri, í sumum tilvikum litlubræður Framaranna og fengu væntanlega ekki að vera með. Stórir bræður eiga það til að vera ömurlegir.

Frægt er bréfið þar sem Víkingar skoruðu formlega á Framara í leik sem hefði verið fyrsta viðureign félaganna. Þar nafngreindu þeir sjö eða átta Framara sem mæta skyldu, en Víkingar myndu spila ellefu.

Frömurum þótti bréfið fyndið og það hefur reglulega verið rifjað upp. Hugmyndin er þó í sjálfu sér ekkert svo slæm: hví ekki að leika með forgjafarkerfi þegar mikill aldurs- eða styrkleikamunur er á liðum? Þannig gætu neðrideildarliðin byrjað með mark í forskot gegn úrvalsdeildarklúbbunum í Lengjubikarnum og útkoman yrði áhugaverðari leikir.

Besta dæmið sem ég man eftir um jöfnunarkerfi í þessum anda var í 32-liða úrslitum bikarkeppninnar sumarið 1996. Þar mættust b-lið Fram og Breiðablik á Valbjarnarvelli.

Á þessum árum fengu ungmennalið að vera með í bikarkeppninni, þó sífellt væri verið að hræra í reglunum á ári hverju. Þannig voru reglur í einhver skiptin á þá leið að ekki mættu vera nema visst margir leikmenn sem byrjað höfðu síðasta deildarleik o.s.frv. Auðvitað léku menn á reglurnar og eitthvert árið tókst ungmennaliði KR að slá úrvalsdeildarlið úr keppni, en þá með því að stilla upp byrjunarliði sem ekki var svo ólíkt aðalliðinu.

Sumarið 1996 voru Framarar í næst efstu deild en á hraðferð upp. Framtíðin var björt, því við töldum okkur vera með gullaldarlið í 2. flokki. 1979-árgangurinn var ógnarsterkur og vann öll mót sem hann kom nálægt. Hann var nefndur í sömu andrá og 1969-árgangurinn hjá KR. Þetta var árgangur af því kaliberi að hann myndi tryggja okkur nokkra Íslandsmeistaratitla á fyrstu árum 21. aldarinnar.

Haukur Snær, bróðir Ágústs Haukssonar sem áður hefur komið við sögu, var markamaskínan í þessu liði. Helst þó að maður hefði áhyggjur af því hversu stuttur hann væri í loftinu. Freyr Karlsson, Beysi, yrði næsti Pétur Ormslev: kóngur á miðjunni sem læsi leikinn öllum betur. Eggert Stefánsson yrði svo varnartröllið í liðinu… svona mætti lengi telja. Ótrúlega fáir þessara drengja urðu þó fastamenn í meistaraflokki Fram eða annarra liða. Meiðsli eyðilögðu fyrir mörgum. Aðrir náðu ekki að standa undir væntingum.

En við Gústi fylgdumst vel með Hauki litla og félögum hans. Haukur eldri mætti á flesta leiki og sat með okkur. Ég dróst meira að segja á nokkra 2. flokks leiki á þessum árum.

Í bikarnum þetta sumar fór U23 ára liðið frekar þægilega í 32-liða úrslitin. Þar dróst það á móti Breiðablik, meðan aðalliðið fékk ungmennalið Stjörnunnar. Það gerði það að verkum að hægt var að hvíla velflesta ungu mennina í Stjörnuleiknum svo þeir urðu gjaldgengir á móti Blikum. Valur Fannar Gíslason var t.d. sparaður og mætti Kópavogsbúum.

En auðvitað vissum við að það væri enginn séns fyrir táninga að vinna meistaraflokkslið úr efstu deild, jafnvel þótt Blikarnir ættu erfitt uppdráttar og féllu þetta sumarið. Fullorðnir karlmenn vinna einfaldlega unglingsstráka í fótbolta. Þannig er það bara.

…eða öllu heldur, þannig hlaut það að fara alveg þangað til á 25. mínútu. Frá upphafsflautinu höfðu Framarar legið í nauðvörn og allir sáu að Breiðablik hlyti að skora, auk þess sem Framstrákarnir gætu ekki haft úthald í svona varnarvinnu í heilan leik. Þegar ég segi að allir hafi séð það, þá hefði ég átt að undanskilja leikmenn Breiðabliks. Þeir urðu pirraðir strax á fyrstu mínútunum. Snemma leiks fékk Þórhallur Örn Hinriksson gula spjaldið fyrir brot og á 25. mínútu fékk hann annað gult spjald fyrir heimskulega tæklingu á miðjum velli.

Arnar Grétarsson stóð við hliðina á Þórhalli þegar rauða spjaldið fór á loft og sagði hátt og snjall við dómarann (það voru fáir áhorfendur svo orðaskipti manna á vellinum heyrðust vel upp í stúku): „Ertu fáviti?“ – „Nei“, svaraði dómarinn og sveiflaði rauða spjaldinu örlítið til hliðar og rak Arnar útaf.

Fyrst varð dauðaþögn í nokkur sekúndubrot: enginn hafði áður séð rað-rauðspjöldun í fótbolta, hvorki í sjónvarpi né með berum augum – en andartaki síðar varð allt vitlaust. Blikarnir gerðu heiðarlega tilraun til að fá fleiri rauð kort, en sluppu með eitt gult spjald og skyndilega voru Framáhorfendurnir (sem voru eiginlega bara mömmur, pabbar og stjórnarmenn) stokknir á fætur.

Við tók rúmur klukkutími af alvöru fótboltaleik. Ellefu strákar áttu í fullu tré við níu Blika og hefðu líklega náð a.m.k. jafntefli og þar með framlengingu með aðeins agaðri leik. Blikunum tókst þó að skora tvisvar og þótt talsvert væri af þeim dregið undir lokin héngu þeir á forskotinu – en leikurinn gegn Frambörnunum reyndist þeim öllu erfiðari en ráð var fyrir gert. Spurning samt hvort unglingaliðinu hefði verið gerður mikill greiði með að fara áfram og mæta KR-ingum í Frostaskjóli í 16-liða úrslitunum.

Og já, dómarinn var að sjálfsögðu kornungur og krúnurakaður, Garðar Örn Hinriksson…

(Mörk UBK: Kjartan Einarsson, Kristófer Sigurgeirsson.)

Hótel Bjarkalundur: Fótboltasaga mín 12/100

Föstudagur, febrúar 7th, 2014

29. júní 1986. Argentína 3 : Vestur-Þýskaland 2

„Þú gleymir aldrei fyrsta skiptinu!“ Þetta var yfirskrift á kosningaplakati sem danskir krataungliðar útbjuggu og skartaði mynd af ungu pari í innilegum ástaratlotum. Við í ungliðahreyfingu Alþýðubandalagsins ætluðum alltaf að stela hugmyndinni, en svo varð ekkert úr því. Kannski eins gott. Okkar útfærsla hefði örugglega orðið sjoppuleg og ekkert víst að húmorinn hefði skilað sér almennilega yfir Atlantshafið.

En hitt er annað mál að fyrsta skiptið er yfirleitt eftirminnilegast. Það á t.d. við um heimsmeistarakeppnir í fótbolta. 1982 var ég sjö ára og við áttum ekki einu sinni sjónvarp, svo sú keppni fór að mestu fram hjá mér. Tveimur árum síðar átti ég hins vegar báðar bækurnar sem út komu um þessa keppni á íslensku og lúslas þær. Sennilega hefði ég getað þulið upp alla leiki og úrslit þeirra. Þegar kom að HM 1986 var ég því vel undirbúinn.

RÚV sýndi ekki alla leikina – en ég horfði á þá flesta, jafnt þá sem voru í beinni útsendingu eða upptökur. Ég missti þó af sjálfum undanúrslitunum og sá því ekki Maradona afgreiða Belga einn síns liðs.

Ástæðan var sú að ég var sjónvarpslaus í Þorskafirði. Móðurbróðir minni, Ólafur Haraldsson, var um árabil einn helsti forystumaður í Bahái-samfélaginu á Íslandi. Trúfélag þetta átti (og á kannski enn) jarðarspildu að Skógum fæðingarstað Matthíasar Jochumssonar og var um þessar mundir að koma sér upp sumarhúsi. Óli frændi er menntaður smiður og vann ötullega að verkinu hvenær sem færi gafst.

Hann fór stundum með fjölskylduna í vinnuferðirnar, þar sem gist var í tjaldi og í eitt skiptið var ákveðið að senda mig með, enda vorum við Jórunn frænka á svipuðum aldri og góðir leikfélagar. Ekki minnist ég þess að hafa hjálpað mikið til í byggingavinnunni, en við frændsystkinin vorum þeim mun duglegri við að leika okkur í skógarkjarrinu auk þess sem ég las reiðinnar býsn af bókum.

En þótt það hefði tekist að sannfæra mig um að sleppa Belgíuleiknum, kom ekki til greina að ég færi á mis við úrslitaleikinn. Og þess vegna þurfti frændfólkið af Skaganum að láta sig hafa það að keyra á Hótel Bjarkalund fyrir úrslitaleik Argentínu og Vestur-Þjóðverja.

Ég átti nokkur uppáhaldslið á þessu móti. Sovétríkin, ýmis þriðja heims lönd, Frakka að sumu leyti og jafnvel Pólverja. Og svo var það Maradona.

Umræður um hvort Maradona eða Pele hafi verið betri hef ég aldrei skilið, né vangaveltur um hvort Maradona sé besti leikmaður sögunnar. Svarið við hvoru tveggja er augljóst. Hins vegar mætti ræða það hvort nokkurn tíma muni fæðast drengur sem verður betri í fótbolta en Maradona – og hvort sá hinn sami muni þá synda hraðar en hákarl?

Án Maradona hefði Argentína verið í besta falli 8-liða úrslita þjóð á HM 1986. Aldrei í sögu heimsmeistarakeppninnar hefur einstaklingur átt jafnstóran þátt í sigri síns liðs. Og um svipað leyti gerði Maradona miðlungslið Napólí að meisturum á Ítalíu, sem þá var öflugasta deildarkeppni í heiminum. Og allt þetta þrátt fyrir að vera lítill og í yfirvigt.

Í úrslitaleiknum gegn Vestur-Þýskalandi var það reyndar ekki snilli Maradona sem réði leikslokum, heldur sú staðreynd að Þjóðverjarnir voru alltaf tveir eða þrír á honum. Það þýddi að þeir þýsku voru í praxís 1-2 leikmönnum fáliðaðri en andstæðingarnir í leiknum og það var nóg fyrir argentíska liðið, sem þrátt fyrir allt var ekki skipað neinum labbakútum.

Það var Burruchaga sem skoraði sigurmarkið í lokin eftir stórkostlega sendingu frá Maradona (komm on, hélduði í alvöru að þrír Þjóðverjar væru nóg til að stoppa okkar mann?) Engum datt samt í hug að bera Burruchaga, miðlungssenter hjá Nantes í Frakklandi, á gullstól eftir leikinn. Hundruð stuðningsmanna Argentínu ruku inn á völlinn og lyftu Maradona hátt á loft.

Í hvert sinn sem ég sé myndir frá þessu, þarf ég að minna sjálfan mig á að þarna hlaupa kampakátir áhorfendur um á sjálfum aðalleikvanginum eftir úrslitaleik heimsmeistaramóts eins og ekkert sé sjálfsagðara. Í dag má hins vegar treysta því að tíu mínútum áður en leik milli Fylkis og Keflavíkur fyrir framan þúsund manns lýkur, byrjar þulurinn í hljóðkerfinu að þruma að áhorfendur megi ALLS EKKI fara inn á völlinn í leikslok. Hvenær töpuðum við sakleysi okkar svona herfilega? Og finnst einhverjum í alvörunni betra að allar bikarafhendingar í hinum vestræna heimi fari fram þannig að sviði sé rúllað inn á völlinn, confetti-vélarnar ræstar og We Are The Champions blastað í græjunum? Attica! Attica!

Á Hótel Bjarkalundi var lítið sjónvarp í setustofu. Þar sat ég ásamt fjórum þýskum túristum og réð mér ekki fyrir kæti. Hoppaði og skoppaði eftir hvert mark Argentínu og dansaði stríðsdans eftir sigurmarkið og yfir verðlaunaafhendingunni. Þjóðverjarnir sem í fyrstu höfðu haft dágaman af þessum hrokkinhærða gleraugnaglámi sem lifði sig svona inn í fótboltann reyndust hafa síminnkandi húmor fyrir mér eftir því sem leið á leikinn. Óli frændi varð líka stöðugt vandræðalegri, enda þau þýsku greinilega borgandi gestir á hótelinu en við boðflennur sem áttum ekkert með að nudda salti í sár þeirra.

Mér var alveg sama. Eru þýskir túristar hvort sem er ekki nánasir sem stela kaffirjóma af hlaðborðunum? Held ég hafi lesið það einhvers staðar…

(Mörk Argentínu: José Luis Brown, Jorge Valdano, Jorge Burruchaga. Mörk Vestur-Þýskalands: Karl-Heinz Rumenigge, Rudi Völler.)

Fulli karlinn: Fótboltasaga mín 11/100

Fimmtudagur, febrúar 6th, 2014

12. október 1983. Ísland 0 : England 3

Ég bjó í kennarablokkinni við Hjarðarhagann frá fæðingu til níu ára aldurs. Kennarablokkin bar það nafn vegna þess að hún hafði verið byggð af byggingarfélagi kennara. Samt átti brytinn Baui afabróðir minn (sem dó áður en ég fæddist, en  sonur minn heitir beint eða óbeint í höfuðið á) heima í þessari blokk og foreldrar mínir fluttu inn á hann.

Kennarablokkin var yndislegur staður fyrir barn. Þar var allt morandi í krökkum og við lékum okkur linnulaust saman í hverfinu eða í kjallarahvelfingunum undir húsinu.

Það merkilega var samt að þótt blokkin okkar (sem er sú næsta við hús Raunvísindastofnunar) væri troðfull af börnum, var blokkin við hliðina (sem mig minnir að hafi verið Símamannablokkin) nánast barnlaus. Að minnsta kosti man ég aldrei eftir að hafa leikið við neitt barn úr þeirri blokk. Nema Anítu.

Aníta var jafngömul mér. Amma hennar og afi bjuggu á Hjarðarhaganum en hún ólst að miklu leyti upp hjá þeim. Afinn var gárungur en átti til að segja sömu brandarana nokkuð oft. „Trúir þú því að afi minn át steinbít eftir að hann var dauður?“ – var uppáhaldsbrandarinn. Eftir að hann sagði mér þessa skrítlu í fimmta sinn endaði ég á að svara „Tjah, varla hefur hann étið lifandi steinbít!“ Karlinn var steinhissa og ákvað samstundis að ég væri snillingur. Upp frá því mátti hann aldrei sjá mig án þess að rifja upp hversu snöggur ég væri til svars og lunkinn að leysa gátur.

Einhverra hluta vegna vorum við Aníta ein að leika okkur á októberkvöldi 1983. Við ætluðum inn á Melavöllinn sem þá var vinsælt leiksvæði. Það var hægt að fara í eltingaleik í stúkunni eða gramsa í ruslahrúgunum við íshokkývöllinn. Yfirleitt var auðvelt að komast inn, þótt nokkrar flíkur rifnuðu í gaddavír eða fengu tjöruklessur af grindverkinu. Sjaldnast var amast mikið við okkur, jafnvel þótt leikir væru í gangi.

En þetta kvöld stóð eitthvað aðeins meira til og vallarvörður rak okkur frá. Ísland var að keppa við England og það skildum við strax að hlyti að vera stórmerkilegt. Í mörg ár gaf ég mér að þetta hefði verið B-landsleikur, en fór síðar í dagblöðin og fann út að þetta hefur verið U18 ára landsleikur í forkeppni Evrópumótsins.

Við héldum áfram að sniglast í kringum völlinn, gægðumst reglulega yfir girðinguna og fylgdumst með leiknum úr fjarska. Meðan við vorum að þessu kom aðvífandi – eða öllu heldur aðveltandi – maður sem hafði fengið sér 4-5 drykkjum of mikið á Hótel Sögu. Hann talaði eitthvað við okkur og var hinn vinalegasti og vildi svo endilega fá að vita hver staðan væri í leiknum. Við klifruðum og gátum staðfest að England væri að vinna 0:3. Fyrir þessar upplýsingar lét hann okkur hafa 500 krónu seðil.

Fyrir átta ára krakka árið 1983 voru 500 krónur svimandi upphæð. Ætli það hafi ekki verið svipað og 10 þúsundkallinn núna? Við hlupum ofsakát heim og fórum að leggja drög að því hvernig mætti eyða þessari risasummu. Í dag yrði það líklega lögreglumál ef fullir karlar færu að gauka peningum að ókunnum börnum úti á götu.

Lokatölur leiksins urðu Ísland 0 : England 3. Ætli Englendingunum hafi ekki brugðið að vera boðið upp á malarvöll fyrir unglingalandsleik? Ætli alþjóðaknattspyrnusambandið viðurkenni ennþá malarvelli í milliríkjakeppni og ef ekki, hvenær skyldi því hafa verið breytt? Spyr sá sem ekki veit.

Íslenska liðið var ágætlega mannað. Sigurður Jónsson var aðalkempan, en af öðrum kunnuglegum nöfnum má nefna Andra Marteinsson, Ólaf Þórðarson, Jón Sveinsson og Örn Valdimarsson. Haukur Bragason var í markinu.

Þegar rennt er yfir enska liðið staðfestist að unglingalandsleikir eru engine trygging fyrir að menn verði stórstjörnur. Teddy Sheringham var því miður ekki með á Melavellinum, en hann var kominn í enska liðið í seinni viðureigninni sem fram fór ytra hálfum mánuði síðar. Í þeim leik var Luton-goðsögnin Mark Stein líka kominn í hópinn.

En á Melavellinum voru fáir leikmenn sem náðu að verða fyrirsætur í Shoot! Eða Match. Derby-stuðningsmenn muna þó eftir Michael Forsyth, sem skoraði fyrsta markið. Enginn kannast við Martin Lambert sem skoraði hin tvö. Hann var á mála hjá Brighton en fékk fá tækifæri og varði níunda áratugnum í að spila með nokkrum evrópskum neðrideildaliðum.

Gary Porter náði fullt af leikjum í vörninni hjá Watford. Markvörðurinn Perry Suckling þótti víst efnilegur og Wikipedia segir að hann hafi verið talinn framtíðarlandsliðsefni, en ferillinn farið í vaskinn eftir að hann stóð í markinu hjá Crystal Palace í 9:0 tapinu gegn Liverpool.

David Lowe átti nokkur ár hjá Ipswich og víðar, svo Gunnar Sigurðarson gæti kunnað á honum deili. Einhverjir muna kannski eftir Garry Parker sem lék með Luton, Nottingham Forest, Aston Villa og Leicester. Og sá síðasti í hópnum til að fá sínar frægðarfimmtánmínútur var David Kerslake, sem var bráðabirgðastjóri hjá Cardiff fyrr í vetur áður en samið var við hvimleiða Norðmanninn.

(Mörk Englands: Michael Forsythe, Martin Lambert 2.)

 

Stelpurnar: Fótboltasaga mín 10/100

Miðvikudagur, febrúar 5th, 2014

7. júní 1988. KR 4 : Fram 1

Ég var ömurleg karlremba sem táningur. Mér til varnar gildir það líklega um flesta táningsstráka. Ég var líka „mansplaining“ týpan – taldi mig gríðalega mikinn jafnréttissinna (átti meira að segja lesendabréf í Veru!) og gat sett á langa fyrirlestra um hvað konur væru grátt leiknar í samfélaginu og ættu skilið að fá hærri laun og meiri ábyrgð.

Samt setti ég aldrei spurningamerki við að í öllum stjórnunum og nefndunum sem ég sat í voru eiginlega bara strákar og stelpurnar sem duttu inn hættu fljótlega að taka þátt. Ég var í strákaspurningaliði í gaggó. Ég var í strákaræðuliði í gaggó. Ég var í bara í strákaræðuliðum í menntó – með einni undantekningu – og öll menntaskólaspurningaliðin mín voru bara skipuð strákum. Ég sat í ritnefndum: bara strákar. Eina stelpan sem ég átti í teljandi samskiptum við í gegnum félagsstörf í skóla var Dalla Ólafsdóttir í stjórn Framtíðarinnar. Mér fannst hún frek, en líklega var hún samt mesti diplómatinn í stjórninni.

Og svo fór ég að þjálfa ræðulið út um hvippinn og hvappinn. Ræðumennirnir voru eiginlega alltaf strákar. Stundum valdi ég stelpur en fannst ég aldrei geta þjálfað þær almennilega eða ná nógu miklu út úr þeim. Þess vegna bjó ég mér til kenningu um að einungis kvenræðuþjálfarar gætu náð því besta út úr stelpum. Rökin fyrir þessu voru þau að Erna Kaaber og Kristín Eysteinsdóttir gætu gert góða hluti með stelpur í Kvennóliðinu.

En samt var ég rosalega jafnréttissinnaður. (Það var ekki búið að meinstríma hugtakið femínismi á þessum tíma, annars hefði ég kallað mig femínista.) Reyndar var ég á því að jafnrétti kynjanna væri að mestu náð. Konurnar þyrftu bara að reyna örlítið betur og að eftir fáein ár yrði allt í þessu fína, enda hefði mín kynslóð verið alin upp við jafnrétti en ekki ömurlegt afturhald.

Þetta var sérlega slæmt þegar kom að íþróttunum. Ég og vinir mínir gátum flatmagað fyrir framan sjónvarpsskjáinn heilu síðdegin og horft á fótbolta eða hverjar þær íþróttir sem í boði voru. Og ekki vantaði sleggjudómana: kvennafótbolti var varla íþrótt! Og fyrir þessu gátum við talið mikil rök um áhugaleysi kvenna, líkamlegt atgervi, hversu fáar fótboltakonurnar væru miðað við karlana o.s.frv. Þessu ruddum við út úr okkur fyrir framan Þóru systur sem er fimm árum yngri en ég og hefði eflaust haft betra af því að heyra margt annað en þus í eldri strákum um að konur næðu ekki máli í íþróttum.

Hér má skjóta því inn að þau íþróttaafrek sem þó hafa verið unnin í kjarnafjölskyldunni eru kvennanna: mamma er sunddrottning úr Ægi, Þóra systir er margfaldur unglingameistari í frjálsum fyrir Ármann og Steinunn konan mín vann til verðlauna á skíðum fyrir Fram. Sjálfur tók ég reyndar félagshollustuna fram yfir karlrembuna og mætti reglulega á leiki með Framstelpum í handboltanum.

Enn í dag horfi ég sáralítið á kvennafótbolta. Einhverra hluta vegna hef ég aldrei náð að tengja við hann á sama hátt og karlaboltann. Engu að síður horfi ég jöfnum höndum á kvenna- og karlahandbolta. Líklega snýst þetta fyrst og fremst um ólíkt gengi Framara á þessum tveimur vígstöðvum.

Fram lagði niður kvennafótboltaliðið sitt í byrjun níunda áratugarins í fáránlega fruntalegri aðgerð sem miðað einkum að því að spara æfingartíma á grasvellinum í Safamýri. Þótt Framararnir hefðu séð eftir þessu strax árið eftir og endurreist kvennaflokkinn náði hann aldrei aftur flugi og liðið strögglaði í 2. deildinni í mörg ár. Enginn horfði á 2. deild kvenna á þessum árum. Það þótti gott ef línuverðirnir höfðu fyrir að mæta.

Sumarið 1987 álpuðust Framstelpur svo til að vinna 2. deildina. Það reyndist Pyrrhosar-sigur. Árið eftir töpuðu Framarar hverjum einasta leik nema einum. Sá var á móti hinum nýliðunum í deildinni, Ísfirðingum. Fram og Ísafjörður luku keppni með 47 mörk í mínus í fjórtán leikja móti. Lokaleikurinn á Hlíðarenda fór 10:0 fyrir Val.

Þessar hrakfarir drápu liðið. 1989 sendi Fram ekki lið til keppni (það ár voru bara níu meistaraflokkslið kvenna með á Íslandsmótinu). Tilraunir til að endurvekja meistaraflokkinn nokkrum misserum síðar runnu út í sandinn og það er ekki fyrr en á allra síðustu árum að Frömurum hefur tekist að halda úti meistaraflokki kvenna sem virðist lífvænlegur.

Eini leikurinn sem ég sá þetta slæma sumar 1988 var viðureign KR og Fram. Hún fór fram í Frostaskjólinu. Ekki þó á aðalvellinum heldur á grasæfingasvæðinu sem yngri flokkarnir spila á. Og það var ójafn leikur.

Lokatölurnar voru 4:1, en þær segja ekki nema hálfa sögu. Frammarkið kom út billegri vítaspyrnu á lokamínútunum og KR hefði getað skorað miklu fleiri mörk. Mögulega kom það Framstúlkum til bjargar að Guðrún Jóna Kristjánsdóttir var í stuði og skoraði öll mörkin. Fljótlega fóru félagar hennar nefnilega að spila upp á hana, væntanlega í von um að setja eitthvað met.

Ég fór ekki á fleiri leiki. Það er nefnilega fátt ömurlegra en að mæta á völlinn þegar maður veit að liðið manns á engan séns – ekki minnstu vonarglætu. Það liðu tuttugu ár þar til ég horfði næst á kvennafótbolta öðruvísi en í sjónvarpi. Kannski meira um það síðar.

 (Mörk KR: Guðrún Jóna Kristjánsdóttir 4. Mark Fram: Kristín Þorleifsdóttir.)

Breiðholtið: Fótboltasaga mín 9/100

Mánudagur, febrúar 3rd, 2014

 14. júlí 1996. Leiknir 0 : Fram 4

Það versta við að falla niður um deild fyrir stuðningsmenn „stórs félags“ eru leikirnir við liðin sem eru fyrir „neðan manns virðingu“. Ég veit að þetta hljómar hrokafullt – og auðvitað er þetta hrokafullt – en svona er það nú samt. Erfiðasta stund Skagamanna á komandi sumri verður þegar þeir mæta í Vesturbæinn og neyðast til að spila við KV sem jafningja. KR-ingarnir, Valsmennirnir og Framararnir á internetinu munu heldur ekki stilla sig um að nudda þeim upp úr því.

Það var grautfúlt fyrir okkur Framara að falla sumarið 1995, örfáum árum eftir að hafa verið besta lið landsins. Dvölin í næstefstu deild var þó ekki sem verst. Margir leikir unnust og margir hverjir með miklum mun. Flestir andstæðingarnir báru líka kunnugleg nöfn, lið sem reglulega skutu upp kollinum í efstu deild: Þróttur, KA, Þór, Víkingur og FH. Meira að segja Völsungar höfðu átt sín tvö ár í sólinni.

En svo var það Leiknir…

Leiknir árið 1996 var allt annað mál en Leiknir árið 2014. Leiknir Reykjavík er í dag félag sem menn reikna með í næstefstu deild. Enginn yrði hissa þótt liðið hitti á gott sumar eitthvert árið og kæmist upp í efstu deild. Það er í það minnsta öllu líklegra en að ÍR-ingarnir fari þangað á ný.

En 1996 var Leiknir í allt annarri stöðu. Leiknir var lið sem átti í hugum flestra heima einhvers staðar niðri hjá Reyni Sandgerði, Létti, Aftureldingu eða Gróttu. Nú voru þeir nýliðar í 2. deild og augljóslega alltof lítill fiskur í stórri laug.

Leikurinn í Breiðholti í áttundu umferðinni var sá erfiðasti og skrítnasti þetta sumarið. Skrítnastur vegna þess að flestir áhorfendurnir héldu með báðum liðum. Fram átti sterk ítök í Breiðholtinu. Efnilegir fótboltastrákar (og jújú, bara strákar – við ræðum um kynjapólitíkina síðar í þessum færslum) fóru helst í Fram úr Breiðholtsliðunum. Fólkið í Fellunum var því margt hvert vant því að halda með Fram í efstu deild á móti KR og Val, en Leikni í fjórðu deildinni á móti firmaliðum og sveitavörgum. Það leið því öllum hálfkjánalega þegar þessi lið mættust í alvöru leik.

Framararnir voru ferlega slappir í leiknum. Umferðina á undan slátruðum við Þórsurum 8:0 og lékum eins og hugur manns. Í umferðinni á eftir töpuðum við heins vegar fyrir FH 1:5 í leik sem hefði getað farið miklu verr. Ég held að ég hafi aldrei séð Framara lélegri en í þessum FH-leik, nema þá helst í Leiknisleiknum.

Þetta var ömurlegur fótboltaleikur. Framararnir náðu varla sendingu sín á milli. Samspilið var ekkert, heldur ætluðu menn bara að klára þetta á einstaklingsframtaki – sem var svo sem ekki galin hugmynd. Í það minnsta skoruðum við nóg.

Leiknismenn voru eins og hrædd dýr. Liðið hafði halað inn fimm stig í fyrstu þremur umferðunum en svo farið að síga á ógæfuhliðina. (Þeir luku keppni með sex stig.) Um leið og Þorbjörn Atli skoraði fyrsta markið var úr þeim allur vindur. Bjössi skoraði annað, lagði upp það þriðja sem Ágúst Ólafsson skoraði og þar á milli átti Anton Björn eitt skallamark. Ég hef aldrei séð lið leika jafn illa en skora samt fjögur mörk.

Reyndar hefðu mörkin getað verið fleiri og sjálfur ber ég nokkra ábyrgð í því máli. Þetta sumarið mættum við Gústi Hauks, gamall MR-skólafélagi og spurningaljón, alltaf saman á leiki og sátum hlið við hlið. Okkur þótti leikurinn lélegur og eyddum orku í að láta dómgæsluna fara í taugarnar á okkur, einkum þátt línuvarðarins sem aldrei tókst að vera í línu heldur flaggaði eftir ágiskunum.

Þegar við höfðum tvisvar eða þrisvar horft upp á kolvitlausa rangstöðudóma fórum við að senda honum tóninn (ég er ekki stoltur af því hversu duglegur ég er við að skammast yfir dómurum). Eitthvert skiptið kom sending inn fyrir Leiknisvörnina þar sem einn Framarinn stóð 3-4 metrum fyrir innan, hljóp í gegn og setti knöttinn í markið. Línuvörðurinn fylgdi með og sýndi engin merki um að ætla að flagga. Við Gústi rákum upp hæðnishlátur og spurðum hvort hann væri ekki að grínast? Hann leit örsnöggt flóttalega til okkar og lyfti svo upp flagginu. Gott ef það var ekki Ágúst Ólafsson sem hefði klárað mótið með einu markinu meira ef við hefðum haldið okkur saman.

Það furðulega við stemninguna á leiknum var að það virtist enginn hafa neina sérstaka nautn af því að sjá Framarana raða inn mörkum. Framararnir á vellinum vissu að við værum ekki að leika vel og enginn óskaði Leikni ills, enda var Pétur Arnþórsson við stjórnvölinn hjá þeim og var enn gríðarlega vinsæll hjá stuðningsmönnum Fram. Undir lokin fékk einn leiknismaðurinn rauða spjaldið fyrir klaufalegt brot á miðjum velli – en enginn klappaði. Þess í stað heyrðist tautað e-ð um að „þetta hefði nú verið óþarflega harður dómur“ og að dómarinn hefði nú alveg mátt sleppa þessu.

Ég er ekki viss um að viðbrögðin verði þau sömu í leik KV og Skagamanna í sumar.

 (Mörk Fram: Þorbjörn Atli Sveinsson 2, Anton Björn Markússon, Ágúst Ólafsson)