Archive for apríl, 2014

17. júní: Fótboltasaga mín 43/100

Laugardagur, apríl 5th, 2014

17. júní 1999. Fram U23 3 : Grindavík 3 (7:6 eftir vítaspyrnukeppni)

Ég hef einu sinni fengið hraðasekt. Það var á heimleið úr Garðinum eftir tap. Það er freistandi að kenna leiknum um hraðaksturinn, þótt skýringin hafi líklega fremur verið sú að eftir greiðan og hraðan akstur eftir Reykjanesbrautinni er heilinn einhvern veginn ekki stilltur inn á innanhverfishraðamörkin í Vesturbænum.

Þetta var kvöldið fyrir þjóðhátíðardaginn og Fram dottið út úr bikarnum strax í 32-liða úrslitum, sem er alltaf óstuð. Drátturinn var reyndar hundleiðinlegur – Víðir í Garði á útivelli. Víðismenn voru í næstefstu deild og virtust ætla að verða spútnikliðið, þótt þeim fataðist síðar flugið og féllu um haustið.

Ég fór á völlinn ásamt Ágústi Haukssyni félaga mínum og okkur var ekki skemmt að sjá gamla jálkinn Grétar Einarsson koma Víði í 2:0. Framarar jöfnuðu en náðu ekki að klára dæmið og Víðir sigraði í vítakeppni. Þetta var einn af þessum leikjum þar sem manni fannst eins og „stóra liðið“ hlyti að vinna ef það bara nennti að skipta upp um gír. Hollenski framherjinn Marcel Oerlemans var venju fremur latur, pirraður og slappur. Ef til vill hefði ég átt að senda honum reikning fyrir sektinni?

Við Gústi vorum sérlega spældir yfir tapinu vegna þess að okkur sýndist Framliðið ætla að sigla lygnan sjó í deildinni (enduðum reyndar í tómri fallbaráttu) og að bikarkeppnin yrði því helsta kryddið í tilveruna. Engu að síður ákváðum við að mæta aftur á völlinn næsta dag, í það sinnið á Valbjarnarvöll að horfa á U23-ára lið Fram taka á móti úrvalsdeildarliði Grindavíkur.

Það voru ekki margir á vellinum, enda margt annað í boði klukkan tólf á 17. júní en að sjá ungmennalið tapa fyrir mun sterkara liði úr efstu deild. Og þetta var svo sannarlega ungmennalið Framara. Ásgeir Elíasson hafði ekki leyft sér að spara neina yngri leikmenn gegn Víði til að eiga þá til góða á móti Grindavík (enda gáfu úrslitin svo sem ekki tilefni til þess).

Eftir tíu mínútur skoraði Grétar Ólafur Hjartarson fyrir gestina. Svona fór um sjóferð þá – hugsaði maður og vonaðist til þess að úrslitin yrðu ekki afhroð. En tveimur mínútum síðar jafnaði Arngrímur Arnarson. Hann hafði komið frá Völsungi fyrir tímabilið en fékk fáa sénsa. Í mörg ár gaf ég mér að hann hlyti að vera bróðir Ásmundar markahróks og núverandi Fylkisþjálfara, enda hlytu allir Húsvíkingar með svipuð föðurnöfn að vera bræður. Sú staðreynd að annað sé Arnarson en hinn Arnarsson fór alveg undir radarinn.

Framstrákarnir vörðust vel og Grindvíkingar urðu sífellt pirraðri. Til marks um óánægju Mílans Jankovic þjálfara gerði hann tvöfalda skiptingu í hálfleik, þar sem hann setti m.a. inná kantmanninn Mijuskovic sem augljóslega hafði staðið til að hvíla í leiknum.

Eftir klukkutíma leik skoraði Sinisa Kekic fyrir Grindavík. Það var ekkert óvænt. Einhvern veginn skoraði Kekic ALLTAF gegn okkur Frömurum. Ætli Kekic komist ekki á topp-5 listann yfir flottustu andstæðingana í íslenska boltanum? Sérstaklega sá eiginleiki hans að skipta vandræðalaust frá því að vera beittasti sóknarmaður síns liðs yfir í að binda saman vörnina – jafnvel í sama leiknum.

Jæja, þá er þetta endanlega búið – hugsaði maður. En nei, rúmum tíu mínútum síðar jafnaði Haukur Snær metin. Haukur er einmitt litli bróðir Gústa og hefur áður komið til umfjöllunar í þessum greinarkornum. Ég veit ekki hvort það kom nægilega skýrt fram þar að Haukur er mjög lágvaxinn. Ójá!

Þegar þarna var komið við sögu voru stjörnurnar úr Grindavík orðnar verulega pirraðar, eins og sást á harðari tæklingum og auknu tuði í dómaranum. Ekki urðu þeir svo kátari þegar Eggert Stefánsson kom Fram yfir tíu mínútum fyrir leikslok. Eggert er bróðir Ólafs handboltakappa og Jóns Arnórs körfuboltamanns. Hann var kominn á mála hjá ensku liði, gott ef ekki Ipswich (þú leiðréttir mig þá Gunnar Sigurðarson ef ég er að bulla) þegar meiðsli fokkuðu upp ferlinum. Eggert hefði orðið heimsklassavarnarmaður ef skrokkurinn hefði ekki þvælst fyrir.

Það var þjóðhátíðarstemning hjá okkur Frömurunum á pöllunum sem sáum fram á sögulegan sigur. Helvítið hann Scott Ramsey (sem hefði átt að vera farinn út af fyrir fantatæklingu) kippti okkur þó niður á jörðina með jöfnunarmarki á lokamínútunum. Það er annar andstæðingur sem ég hef aldrei komist hjá því að dást að.

Við tók stressandi framlenging með nauðvörn af hálfu Framara sem stefndu á vítaspyrnukeppni. Það gekk eftir og Framarar komust áfram – unnu vítakeppnina 4:2! Ekki man ég hverjir skoruðu eða klikkuðu (ég er e.t.v. óður en þó ekki snargalinn) og ekki get ég slegið því upp: leikskýrslurnar á KSÍ-vefnum tiltaka ekki markaskorara í vítakeppnum, þótt undarlegt kunni að virðast. Og ekkert dagblaðið sendi fréttaritara á vettvang, enda svo sem fátt sem benti til að tíðinda væri að vænta af leiknum. Ég get því ekki annað en látið mig dreyma um að Sinisa Kekic eða Scott Ramsey hafi klúðrað víti – helst báðir! Það ætti að kenna þeim helvískum!

(Mörk Fram U23: Arngrímur Arnarson, Haukur Snær Hauksson, Eggert Stefánsson. Mörk Grindavíkur: Grétar Ólafur Hjartarson, Sinisa Kekic, Scott Ramsey)

Költið: Fótboltasaga mín 42/100

Miðvikudagur, apríl 2nd, 2014

17. júní 1992. Frakkland 1 : Danmörk 2

Danska landsliðið hefur alltaf farið í taugarnar á mér. Ég viðurkenni fúslega að þessi afstaða mín er ekkert sérstaklega göfug og lítur fram hjá því að danska landsliðið á níunda áratugnum var alls góðs maklegt og í raun hálfgert Öskubuskuævintýri. En það var bara eitthvað við allt hæpið í kringum Danina 1986 sem fór óstjórnlega í taugarnar á mér.

Stuðningssöngur danska landsliðsins 86 var blastaður eins og Popplag í G-dúr á sterum. Ótrúlegasta fólk skreið fram og sagðist halda með Dönum. Ásdís afasystir mín sem hvorki fyrr né síðar sýndi minnsta áhuga á keppnisíþróttum viðurkenndi að hún kveikti á sjónvarpinu og héldi með danska fótboltalandsliðinu á stórmótum.

1992 var mér sérstaklega illa við Dani. Júgóslavía virtist ætla að tefla fram gríðarlega sterku liði á EM í Svíþjóð, liði sem mögulega hefði getað farið alla leið. En svo fóru menn að drepa hverjir aðra þarna suður frá og Júgóslavarnir mínir voru reknir úr keppni og dönsku silakeppnum kippt inn í staðinn.

Ég var hálfumkomulaus á EM 1992. Hafði ætlað að halda með Júgóslavíu en var allt í einu skilinn eftir í lausu lofti á síðustu stundu. Var auðvitað veikur fyrir Skotunum en vissi að þeir næðu ekki langt. Frakkarnir áttu líka taug í mér. Marseille var í miklu uppáhaldi á þessum árum og þá sérstaklega Jean-Pierre Papin.

Danir og Frakkar mættust í lokaleik A-riðils. Frakkar – sem mættu til Svíþjóðar með fullt hús stiga úr forkeppninni – höfðu gert jafntefli gegn Svíum og Englendingum og virtust því í góðri stöðu gegn slakasta liðinu í riðlinum. Jafntefli hefði að líkindum verið nóg. Danir höfðu á hinn bóginn náð stigi gegn Englandi en tapað fyrir Svíum og voru með bakið upp að veggnum.

Henrik Larsen skoraði í byrjun leiks. Frakkar virtust slegnir út af laginu, en um miðjan seinni hálfleikinn jöfnuðu þeir með glæsilegu marki – að sjálfsögðu frá Papin vini mínum. Í stað þess að blása til sóknar og vinna leikinn, virtust Frakkarnir ætla að veðja á að halda fengnum hlut. Það var fífldirfska. Tæpu kortéri fyrir leikslok átti Flemming Povlsen flotta sending, sprengdi vörn Frakka og boltinn barst fyrir markið þar sem Lars Elstrup potaði boltanum yfir línuna.

Frakkar voru sem kýldir í magann og náðu aldrei að ógna til baka. Danir unnu leikinn, tryggðu sér annað sætið og þar með pláss í undanúrslitunum þar sem Hollendingar og svo Þjóðverjar áttu eftir að lúta í gras. Næst Grikklandsævintýrinu 2004 er sigur Dana á EM 1992 mögulega óvæntustu úrslit í sögu stórmóta.

Fyrir Luton-manninn var súrsæt tilfinning að sjá Elstrup skora. Lars Elstrup var keyptur til Luton árið 1989 fyrir 850 þúsund pund, upphæð sem er enn það mesta sem félagið hefur greitt fyrir leikmann. Það met verður varla slegið í bráð.

Elstrup kom lítið við sögu veturinn 1989-90, en árið eftir blómstraði hann og skoraði átján mörk. Þann vetur var þó farið að bera á furðulegri hegðun leikmannsins. Hann lenti líka í launadeilu við félagið og að lokum fór svo að Luton neyddist til að selja hann aftur til Odense Boldklub fyrir fimmtung af upphaflega kaupverðinu. Það var þungt högg fyrir ekki stærra félag og hafði mikið að segja um að Luton mistókst að halda sér uppi 1992 og missti þar með af því að leika fyrsta tímabilið í nýrri úrvalsdeild.

Elstrup var í góðum gír hjá OB fyrst um sinn og kom nokkuð við sögu á Evrópumótinu 92. En fljótlega eftir það fór að halla undan fæti. Elstrup gekk til liðs við költ sem skipað var búddistum með anarkískar hneigðir. Hann tók upp nýtt nafn: Darando (sem merkir víst „fljótið sem streymir til hafs“). Eftir búddíska tímabilið gekk Darando til liðs við nýaldahippaköltið „Hjarta sólarinnar“. Hann breytti nafninu sínu aftur í Lars Elstrup og flutti inn í kommúnu söfnuðarins, sem einkum var fræg fyrir orgíur sínar. Elstrup vill þó í dag ekki kannast við að hafa tekið þátt í þeim.

Ekki tókst hinum leitandi fyrrum knattspyrnumanni (Elstrup lagði skóna á hilluna þrítugur) að finna hamingjuna hjá spólgröðu hippunum. Þess í stað stofnaði hann sitt eigið költ, sem kom honum reglulega í fréttirnar á næstu árum. Hann tók nefnilega að standa fyrir gjörningum í tengslum við hugleiðsluathafnir á opinberum stöðum.

Sú saga var þrálát á Luton-spjallborðunum og póstlistunum að hann stæði reglulega nakinn á Strikinu í Kaupmannahöfn og Trafalgartorgi í Lundúnum með bandspotta utan um typpið og hreðjarnar og sveiflaði þeim til og frá. Sjálfur leggur þó Elstrup í dag ríka áherslu á að hann hafi ekki verið nakinn heldur í efnislítilli lendaskýlu sem hafi ekki sést þegar hann sat í keng við hugleiðslu.

Í seinni tíð virðist Elstrup loksins vera að öðlast þá hugarró sem hann hefur svo lengi sóst eftir. Hann keypti sér bát sem hann býr í og hefur oftar en einu sinni lýst því í viðtölum við danska fjölmiðla að hann langi til að eignast kærustu og sé loksins tilbúinn að takast á við lífið með góða konu sér við hlið. Eitthvað hefur hann leitað fyrir sér á stefnumótasíðum, en það hefur lítinn árangur borið.

Lærdómur þessarar sögu er einfaldur: maður vill ekki að uppáhaldsleikmennirnir sínir gangi til liðs við költ – einkum ef fjárhagsleg velferð félagsins veltur á frammistöðu þeirra. Það er ekki vænlegt til árangurs innan vallar að vera of leitandi sál utan vallar. Vona samt að Elstrup næli sér í kærustu.

(Mark Frakklands: Jean-Pierre Papin. Mörk Danmerkur: Henrik Larsen, Lars Elstrup)