Archive for september, 2014

Fótboltasaga mín 75/100: Gleðispillirinn

Mánudagur, september 22nd, 2014

17. febrúar 2006. Luton 3 : Reading 2

Þegar Luton er í beinni útsendingu, mæti ég á Ölver. Starfsfólkið reiknar með mér og gantast með það hvort ég verði einn að horfa eða hvort einhverjir vinir mínir aumki sig yfir mig og sláist í hópinn. Stundum fæ ég að horfa á stóra tjaldinu í aðalsalnum. Stundum sit ég í hliðarsalnum. Og stundum er sérherbergi fyrir aftan, þar sem hægt er að sitja í hægindastól og glápa.

Eftir að eyðimerkurganga okkar í neðrideildum og utandeildum hófst, hef ég sjaldnast þurft að hafa miklar áhyggjur af bargestum sem mættir eru til að styðja hitt liðið. Sú var ekki alltaf raunin á meðan Luton var í næstefstu deild.

Þegar Reading kom í heimsókn á Kenilworth Road eitt föstudagskvöldið í febrúar 2006, var fjölmennt á Ölveri. Reading var yfirburðalið þennan veturinn og lauk keppni með 106 stig. Þegar þarna var komið sögu var liðið á gríðarlegri siglingu og taplaust 33 leiki í röð og átti möguleika á að slá eitthvað fáránlega gamalt met Liverpool ef ég man rétt. Þetta var fyrsti sjónvarpsleikur Reading um nokkra hríð og Brynjar Björn Gunnarsson og Ívar Ingimarsson voru báðir í byrjunarliði. Vinir þeirra og fjölskylda ákváðu því að fjölmenna til að sjá frægan sigur.

Luton hafði ekki að miklu að keppa. Umspilssætið eiginlega utan seilingar (við enduðum í tíunda sæti) og aðalmarkmiðið að fá ekki á baukinn gegn meistaraefnunum.

Ekki byrjaði það vel. Kevin Doyle skoraði eftir tuttugu sekúndur og maður sá fram á 4-5 marka tap. En í stað þess að gestirnir gengu á lagið, tók Luton öll völd á vellinum. Stuðningsmannasíða Reading viðurkenndi það fúslega eftir leikinn. Í fyrsta sinn þetta árið hefði lið þeirra verið sundurspilað á miðjunni.

Rowan Vine skoraði tvívegis um miðjan fyrri hálfleikinn. Luton-aðdáendur fá blik í augun þegar Vine er nefndur. Hann var ofsalega flinkur marksækinn miðjumaður, sem seldur var til Birmingham fyrir 2,5 milljónir punda árið eftir. Sú upphæð átti enn eftir að hækka eftir að Birmingham komst í úrvalsdeild, svo líklega má telja hann dýrasta leikmanninn sem Luton hefur selt ásamt Curtis Davies.

Hjá Birmingham og síðar QPR náði Vine aldrei miklu flugi. Síðustu árin hefur hann reynt að fóta sig í Skotlandi og virðist nú í vor hafa verið látinn fara frá Greenock Morton, sem er sorglegt fyrir þó ekki nema 32 ára leikmann. (Þessu tengt sé ég að Guðgeir Leifsson og Atli Þór Héðinsson virðast báðir hafa spilað fyrir Morton á áttunda áratugnum. Skemmtilegt!)

Það var hálfskringilegt að fagna, klappa og stappa í herbergi fullu af svekktum íslenskum Reading-stuðningsmönnum sem kvöddu drauminn um óbrjótandi met. Ég lét mig þó hafa það.

Í seinni hálfleiknum bætti Dean Morgan við þriðja markinu. Hann var kornungur framherji/kantmaður sem hafði einmitt komið til Luton frá Reading. Samkvæmt Wikipediunni er Morgan, sem hefur varið megnið af ferlinum í utandeildinni, nýlega orðinn landsliðsmaður. Í ljós hefur komið að amma hans er frá Montserrat. Landslið þessa litla eyríkis vakti athygli árið 2002 þegar það, sem botnlið styrkleikalista FIFA mætti næstneðsta landsliðinu, Bhutan. Montserrat tapaði 4:0.

Eftir þriðja markið var sigurinn í höfn, þótt Doyle næði reyndar að klóra í bakkann með marki á lokamínútunni. Luton gat leyft sér heiðursskiptingar og Morgan fór útaf fyrir Enoch Showunmi. Enoch var költ-hetjan í liðinu (öll lið þurfa költ-hetjur). Hann gekk til liðs við Luton 21 árs gamall, sem var magnað í ljósi þess að hann hafði ekki áður verið á mála hjá fótboltaliði. Hann var uppgötvaður í einhverjum skemmtigarði þar sem hann spilaði ásamt vinum sínum og boðinn samningur.

Á þeim tímapunkti mátti Luton ekki semja við leikmenn vegna greiðslustöðvunar og leikmannahópurinn var ansi gisinn. Þar sem Enoch var ekki skráður atvinnuknattspyrnumaður mátti hins vegar semja við hann sem áhugamann. Meðan á leikmannakaupsbanninu stóð fékk hann aðeins greiddan útlagðan kostnað og er fyrir vikið líklega síðasti áhugamaðurinn til að leika í ensku deildarkeppninni!

Um tíma var Enoch á mála hjá Leeds, en virðist vera án liðs sem stendur. Í millitíðinni náði hann nokkrum leikjum hjá Falkirk og stuðningsmennirnir sömdu um hann lag. Það er hvorki hnyttið né háttvíst.

Enoch kom lítið við sögu. Flautað var til leiksloka og ég tók við hamingjuóskum Readings-stuðningsmannana á leiðinni út. Gott ef mamma Ívars Ingimarssonar var ekki í hópnum. – Löngu síðar átti Ívar eftir að tengjast Lutontvíæringnum með óvenjulegum hætti þegar einn okkar týndi tösku á rútustöð í Reading. Hann hafði samband við rútufyrirtækið upp á hvernig nálgast mætti töskuskjattann en fékk dræmar undirtektir starfsmanna, sem nenntu ekkert að hreyfa sig í málinu. Þar til að í ljós kom að töskunni ætti að koma til fótboltamannsins Ívars Ingimarssonar – þá slógust rútustarfsmennirnir um að fá að hjálpa kunningjum hetjunnar í von um að hitta hann sjálfan.

Einn míns liðs trítlaði ég svo aftur heim í Norðurmýri, væntanlega með viðkomu í einhverri sjoppunni til að kaupa lakkrístrítla fyrir Steinunni sem lá með flensu. Liverpool-metið hundrað ára stóð óhaggað.

(Mörk Luton: Rowan Vine 2, Dean Morgan. Mörk Reading: Kevin Doyle 2)

Fótboltasaga mín 74/100: Aukakílóin

Laugardagur, september 13th, 2014

1. júlí 2003. Fram 4 ; Haukar 2 (eftir framlengingu)

Listi yfir óþolandi fótboltatengd fyrirbæri: nr. 341,  leikmenn sem alltaf skora á móti félaginu manns, þangað til þeir skipta yfir í liðið og eru þá úti að skíta.

Guðmundur Steinarsson er nánast orðabókarskilgreiningin á þessu. Einhvern veginn virtist sama hvort Framarar léku vel eða illa gegn Keflavík – alltaf skyldi Guðmundur Steinarsson pota inn marki, yfirleitt í leikslok.

Það vakti því nokkra eftirvæntingu þegar Guðmundur gekk til liðs við Fram fyrir sumarið 2003, frá dönsku félagi (Keflavík var í næstefstu deild). Baldur Bjarnason ákvað líka að taka skóna fram á ný. Ef hann héldist heill og með traustan markaskorara frammi, ætti Framliðið hæglega að vera nógu gott til að hafna um eða fyrir ofan miðja deild.

En Baldur var ekki heill. Hann var frá vegna meiðsla hálft og farinn að haltra í byrjun seinni hálfleiks þegar honum tókst að spila. Og Guðmundur Steinarsson hafði greinilega tekið of vel á því í pulsunum og síldinni í Danmörku. Hann var svakalega þungur og klaufi þegar hann komst í færi.

Það var ferlega dapurt að horfa upp á Fram í fyrstu umferðunum. Eftir fjóra leiki voru tvö stig í húsi, bæði eftir hálfgerð heppnisjafntefli gegn KR og ÍA. Stjórnin fór á taugum, rak Kristinn R. Jónsson án þess að vita hvern ætti að ráða í staðinn. Að lokum tókst að pína Steinar Guðgeirsson í að taka við keflinu – þó þannig að markmannsþjálfarinn Guðmundur Hreiðarsson þurfti að stýra liðinu í einum bikarleik. (Sem er skemmtilegt pöbbkvisskjúríosítet sem engir nema skæðustu nirðir muna eftir.)

Undir stjórn Steinars náði Fram einum af sínum frægu viðsnúningum. Var í botnsætinu fyrir lokaumferðina, en sjapp undir lokin. Þá Guðmundur Steinarsson hins vegar á bak og burt – fór aftur til danska liðsins síðsumars, eftir að hafa mistekist að skora í ellefu deildarleikjum.

En Guðmundur skoraði þó mark. Það var í sextán liða úrslitum gegn Haukum á Laugardalsvellinum.

Haukar voru um þessar mundir þokkalegt lið í næstefstu deild. Þorsteinn Halldórsson þjálfaði og leikmennirnir voru nánast allir óþekktir. Þetta leit út fyrir að vera passlega viðráðanlegur andstæðingur, einkum eftir að Framararnir unnu sinn fyrsta deildarleik fáeinum dögum fyrr í Kaplakrika.

Haukar pökkuðu í vörn og Framliðið hafði litla hugmynd um hvernig stjórna ætti leik eða brjóta niður varnarmúr. Í fyrri hálfleik gerðist sáralítið. Eftir hlé breyttist ekkert og Steinar þjálfari missti þolinmæðina og bjó sig undir tvöfalda skiptingu, þar sem Viðar Guðjónsson og Andri Fannar Ottósson kæmu inná fyrir Frey Karlsson og Guðmund Steinarsson.Varamennirnir stóðu tilbúnir á hliðarlínunni þegar Kristján Brooks náði sending fyrir markið og Guðmundur potaði boltanum yfir línuna. Við þessar aðstæður hefðu sumir þjálfarar freistast til að bíða með skiptinguna, en ekki Steinar. Guðmundur fagnaði markinu langþráða og var strax á eftir skipt útaf.

Skiptingunni hafði verið ætlað að auka sóknarþungann, en um leið og hún hafði farið fram og Haukarnir tóku miðju byrjuðu Framarar að draga sig til baka. Haukarnir sem höfðu ekki sýnt neina tilburði til að sækja fikruðu sig framar á völlinn og fengu allt það pláss sem þeir þurftu. Og í hvert sinn sem Haukarnir fengu aukaspyrnu eða horn fóru allir Framararnir í vörnina. – Þá hegðun hef ég aldrei skilið í fótbolta. Það er einfaldlega rökréttara að hafa einn mann frammi, sem gerir það að verkum að andstæðingarnir þurfa að halda tveimur í vörninni en að senda alla í eigin vítateig, svo hitt liðið geti sent alla fram.

Haukarnir voru svo sem ekkert að sýna neinn stjörnuleik, en þeir hlutu að jafna. Rétt fyrir leikslok braut Ómar Hákonarson af sér: víti og jöfnunarmark. Djöfuls bögg!

Sem betur fer höfðu Hafnfirðingarnir klárað tankinn á að reyna að krækja í jöfnunarmarkið. Framararnir óku yfir þá þvera í byrjun framlengingarinnar, þar sem Ómar og Andri Fannar skoruðu báðir. Haukarnir kröfsuðu í bakkann með marki, en Ómar Hákonarson kláraði leikinn endanlega undir lokin.

Haukasigurinn lagði ekki grunninn að neinu bikarævintýri. Í næstu umferð fór Fram í Frostaskjólið og tapaði að vanda. En aðalmálið var hanga í deildinni. Það tókst og sumarið eftir lék Fram í deild þeirra bestu ásamt Keflvíkingum. Í lokaumferðinni komu Keflvíkingar í heimsókn á Laugardalsvöllinn og hver var í liði þeirra annar en Guðmundur Steinarsson. Hann skoraði að sjálfsögðu.

(Mörk Fram: Guðmundur Steinarsson, Ómar Hákonarson 2, Andri Fannar Ottósson. Mörk Hauka: Kristján Ómar Björnsson, Ómar Karl Sigurðsson)

Fótboltasaga mín 73/100 Stéttskiptingin

Miðvikudagur, september 10th, 2014

8. janúar 2011. Bath 0 : Luton 0

Í janúar 2009 fór fyrsti Luton-tvíæringurinn fram. Og þó! Strangt til tekið var það ekki orðið tvíæringur fyrr en tveimur árum seinna þegar ráðist var í ferð númer tvö.

Ég, Valur Norðri og Raggi Kristins höfðum keypt flugmiðana áður en Ísland varð gjaldþrota – það voru því ekki margir að leggjast í fótboltareisur þessa þunglyndislegu janúardaga 2009 í miðri búsáhaldabyltingu.

Við fórum á tapleik Luton í Darlington, eins og áður hefur verið rakið í þessum greinabálki. Í rútunni á flugvöllinn á leiðinni til baka ákváðum við að halda áfram að borga mánaðarlega inn á söfnunarreikninginn þegar heim kæmi. Það væri passlegt að fara aftur út 2011. Fljótlega fékk ferðahópurinn nafnið tvíæringurinn, eins og í nafni Feneyjatvíæringsins (sem ég hélt ótrúlega lengi að væri nefndur eftir einhverjum skrítnum báti, gondól eða álíka, tví-æringur).

Fyrir óinnvígða, þá virkar Luton-tvíæringurinn svona: Þegar ljóst er að vori hvaða lið Luton mætir árið eftir, þá býr félagi Ragnar til lista þar sem liðunum er raðað eftir því hversu eftirsóknarverðir áfangastaðir viðkomandi borgir teljast. Lið frá Lundúnum lenda sjálfkrafa í neðsta flokki. Sama gildir um lið í stórum borgum eins og Birmingham og Manchester. Í efstu flokkunum eru smáborgir, helst í norðrinu, sem kippa manni aftur um tuttugu ár. Aðalkrafan er um að nóg sé af góðum Real Ale-pöbbum og von á kebabi sem rotað gæti hest og curry sem minnir á sig í viku á eftir.

Þegar leikjaplanið er birt í júlí er svo lagst yfir dagatalið og kannað hvaða útileikur Luton á tímabilinu frá svona 5. janúar til 20. febrúar falli best að þessum skilyrðum. Reikna þarf inn í hættuna á frestuðum leikjum vegna bikarkeppna. Síðastnefnda atriðið höfðum við reyndar ekki passað þarna í öðrum tvíæringnum. Luton var hársbreidd frá því að slá Charlton út úr 2. umferð bikarkeppninnar. Þá hefðum við neyðst til að mæta á fokkíng White Hart Lane þessa helgi. Sem betur fer gerðist það ekki.

2011 var það raunar engin lágstéttarborg sem varð fyrir valinu, heldur hin gullfallega og forna rómverska borg Bath. Nokkurn veginn miðja vegu á milli Bath og flugvallarins okkar lá svo borgin Reading, sem við gerðum að aðalbækistöð.

Þetta var annar vetur Luton í utandeildinni. (Þeir urðu fimm í allt.) Enn vorum við Luton-menn uppfullir af því að við værum alltof stórt félag fyrir þessa hlægilegu kúkalabbadeild og hlytum að vinna titilinn fyrir jól. Og annað árið í röð var staðan á töflunni í janúar farin að gefa vísbendingar um að þetta gæti orðið eilítið strembnara.

Við lögðum af stað frá lestarstöðinni í Reading og uppgötvuðum að við vorum ekki einir á leiðinni til Bath. Bath er einhver fremsta Rugbyborg Englands og lið Reading var að keppa þar þennan sama dag. Það voru hvítir og bláir treflar útum allt. Lestin stoppaði í miðborginni og við blasti glæsileg borgin, með rómverskum súlum milli grasi gróinna hæða með fallega á með fossum, sem fullkomnaði póstkortið. Þar í miðjunni var rugby-völlur bæjarins eins og perlan í djásninu.

Auðvitað lá leiðin strax á pöbbinn. Og þegar ég segi pöbbinn, þá meina ég auðvitað á hvern barinn á fætur öðrum. Rugby-stuðningsmennirnir voru út um allt. Stuðningsmenn beggja liða sátu hlið við hlið, ræddu leikinn og horfðu á útsendingar frá viðureignum sem byrjað höfðu fyrr. Allir voru vinir. Allir voru fallegir og vel tenntir.

Eftir þaulsetur og drjúga ölsmökkun, var tímabært að koma sér á völlinn. Bath FC á ekki gullfallegan Harry Potter-völl við lækjarnið í fagurri laut. Nei, völlurinn þeirra var fyrir utan miðborgina og við tók löng strætóferð. Og eftir því sem við ókum lengra, því ljótari urðu húsin. Fólkið hætti að vera í fínu og rándýru fötunum sem einkennt höfðu miðborg Bath. Og svo fór lögreglumönnunum að fjölga.

Við gengum síðasta spölinn. Það var slæðingur af fólki og löggur á hverju strái. Löggur í gulum vestum. Og löggur á þessum fáránlega stóru hestum sem tjallarnir telja hentuga við löggæslustörf. Ætli það hafi ekki verið fimm sinnum fleiri áhorfendur á rugby-leiknum sem átti sér stað á sama tíma í miðbænum. Líklega voru löggurnar fimm sinnum fleiri á fótboltavellinum.

Og já, tannhirðan var umtalsvert lakari.

Völlurinn var ljótur en þó sjarmerandi ljótur. Þrátt fyrir að lögreglan væri á hverju strái og liti á hvern áhorfanda sem líklegan hryðjuverkamann, drukku allir sem vildu saman á félagsbarnum undir stúkunni. Við komum hins vegar seint og gátum lítið stoppað þar.

Við fjórmenningarnir (auk mín, Vals og Ragga var Simon félagi okkar, fyrrum sendiráðsstarfsmaður Breta á Íslandi, með í ferðinni) höfðum tryggt okkur stúkusæti. Sáum samt pínkulítið á eftir því. Luton-stuðningsmennirnir í stæðunum fyrir aftan markið virtust skemmta sér miklu betur.

Það voru stúkur eða stæði meðfram þremur hliðum af fjórum. Hliðin andspænis aðalstúkunni var þó skemmtilegust. Hún stóð í brattri brekku, svo maður var smeykur um að sá efsti dytti til hliðar og svo myndi allur skarinn falla eins og dómínokubbar.

Heimamenn máttu eiga það að þeir lögðu sig fram. Það var einhvers konar púðurkerlinga/ljósasjóv þegar liðin gengu inn á völlinn, sem gerði þó alla vandræðalega. Við hölluðum okkur aftur á bak og biðum eftir að mörkunum færi að rigna. Það gerðist ekki.

Leikurinn var ótrúlega bragðdaufur. Aðalmarkaskorarinn okkar, Matthew Barnes-Homer, var úti á þekju. Claude Gnapka, fansí franski miðjumaðurinn, var ekki að gera neitt af viti. Og svo var fitukeppurinn Danny Crow í hinni framherjastöðunni. – Nei, ekki misskilja mig. Ég styð líkamsvirðingu af öllu hjarta… en Danny Crow var feitur. Fáránlega feitur fyrir stræker. Við erum að tala um Bibercic á Stjörnutímabilinu.

Luton átti sjittlóds af hálffærum, svo kannski hefðum við getað talið okkur trú um að hafa átt þrjú stig skilin. En á lokamínútunum fékk Bath 2-3 slík dauðafæri í leikslok prísaði maður sig sælan með stigið. Eitt þessara færa hefur varðveist á alnetinu sem engu gleymir. Það gefur vissa vísbendingu um gæði leiksins og völlinn…

Eftir á að hyggja var þessi leikur helst merkilegur fyrir eitt. Alex Lawless kom inná sem varamaður og lék þar með í fyrsta sinn í Luton-treyjunni. Er hægt að hugsa sér svalara nafn á miðjumanni? Og jú, með þessum leik varð Luton-tvíæringurinn í raun að tvíæringi. Hann verður haldinn í fjórða sinn í janúar komandi. Það eru níu manns bókaðir nú þegar (ég er sá eini í hópnum sem heldur í raun með Luton). Enn er ekki of seint að kaupa sér miða.

Fótboltasaga mín 72/100: Beysi

Miðvikudagur, september 3rd, 2014

21. september 2001. KA 0 : Fram 3

Sumarið 2002 var skemmtilegt. Það var gaman í vinnunni, þar sem við Ólafur Guðmundsson heitinn vorum á fullu að byggja upp Rafheima. Ég var á kafi í félagsmálunum, bæði að rífa kjaft um pólitík á vefritinu Múrnum og svo í friðarbaráttunni – mikið til með sömu mönnum. Það var mikið djammað og alltaf endað á Næsta bar, með viðkomu á Kebabhúsinu eftir lokun. Á hæðinni fyrir ofan mig bjó félagi Steinþór Heiðarsson sem var ætíð til í að líta niður í pólitísk plott og á hæðinni fyrir neðan mig bjó félagi Valur Norðri, formaður húsfélagsins, sem átti alltaf úrvals viský.

Ég bloggaði líka eins og berserkur. Þarna um haustið datt mér í hug að lýsa því yfir á síðunni minni að ég væri „besti og frægasti bloggarinn“, með þeim rökum að sá titill lægi á lausu þar sem enginn hefði helgað sér hann. Hálfum mánuði seinna var ég kallaður í sjónvarpið ásamt Salvöru Gissurardóttur til að ræða um fyrirbærið blogg. Ég var stoppaður af fólki á götum úti og spurður hvernig maður ætti eiginlega að fara að því að blogga. (Ókey, kannski ekki stoppaður á götum úti – en spurður af stelpu sem var að afgreiða mig í Ríkinu.)

Og svo átti ég kærustu. Við Steinunn vorum kærustupar en ekki þessi ráðsettu miðaldra hjón sem síðar varð. Það var ákveðinn sjarmi yfir að þurfa að ákveða í lok hvers kvölds hvort við ætluðum að trítla á Mánagötuna til hennar eða á Hringbrautina til mín.

Í fótboltanum héldu Framararnir manni hins vegar við efnið. Við vorum meistarar fallbaráttunnar á þessum árum. Drógumst niður í harða fallbaráttu nánast óháð því hvort mannskapurinn væri veikur eða sterkur, en redduðum okkur oftast nær í síðustu umferð. 2002 var eitt af þessum árum.

Þetta var reyndar skrítið Íslandsmót. Fylkir og KR slógust ein um titilinn. Eftir fjórtán umferðir af átján skildu hins vegar bara fjögur stig að liðið í fimmta sæti, FH og botnlið Þórs, Fram og ÍBV.

Fram tapaði naumlega fyrir KR og gerði jafntefli við Skagamenn í næstu tveimur leikjum. Það mátti því heita ljóst að við yrðum að vinna tvo síðustu leikina, gegn FH á heimavelli og KA á útivelli. Jafnvel þau úrslit kynnu ekki að duga.

Leikurinn gegn FH var fáránlegur. Þorbjörn Atli skoraði á fyrstu mínútu. FH skoraði þrjú næstu mörk, áður en Bjarni Hólm minnkaði muninn fyrir hlé. Í seinni hálfleik Jafnaði Kristján Brooks, maðurinn sem kunni bæði á talhólf og internetið, en FH komst í 3:4 og við í raun fallnir þegar kortér var eftir. Andri Fannar jafnaði og svo braut einn FH-ingurinn á Bjössa (minnir reyndar að það hafi verið soft víti) og Gústi Gylfa skoraði 5:4. Hvílíkur leikur!

Fyrir lokaumferðina var staðan því þessi: Keflavík var í fallsætinu með átta mörk í mínus. Fram með jafnmörg stig og sjö mörk í mínus. Þá voru Framarar með fleiri mörk skoruð. Keflavík hélt til Grindavíkur, sem var í þriðja sæti og hafði ekki að neinu að keppa – ekki frekar en KA sem var í fjórða sæti og tók á móti okkur Frömurum.

Ég reyndi að tala fyrir því innan félagsins að efnt yrði til rútuferðar norður, öðrum þræði til að geta drukkið bjór á leiðinni. Það gekk ekki eftir og við Valur húsfélagsformaður ókum snemma af stað. Eða öllu heldur – Valur ók. Ég kunni þó ekki við að taka með mér bjór af tillitsemi við bílstjórann.

Það voru pylsustopp á mikilvægustu stöðum. Geisladiskarnir í ferðinni hafa væntanlega flestir verið með Smiths og Morrissey. Og á tíu mínútna fresti sagði annar okkar upp úr eins manns hljóði: „Við veeerðum að vinna þetta!“; „Ég meika það ekki að keyra heim ef við töpum!“; „Djöfull hef ég vonda tilfinningu fyrir þessum leik…“

Samkvæmt opinberum tölum voru 322 á leiknum. Framarar í meirihluta. Kristinn Jakobsson dæmdi. Það hefur mér sjaldnast þótt góð tíðindi. Hins vegar var augljóst að KA-menn voru andlega búnir að ljúka keppni þetta árið. Þeir gátu hvorki lent ofar né neðar í þessu fjórða sæti. Hvernig þetta lið gat hafnað svona ofarlega er raunar en nein skrautfjöðrin í hatt Þorvaldar Örlygssonar.

Framarar sóttu frá byrjun og eftir tæpar tuttugu mínútur var Bjössi felldur í teignum. Gústi Gylfa tók vítið og skoraði. Kunnugleg uppskrift. Eftir markið voru allir frekar rólegir. Grindavík komst yfir gegn Keflvíkingum skömmu síðar, svo efstudeildarsætið virtist tryggt. Það var létt yfir öllum í hálfleik. Hálfgerður ættarmótsfílingur þar sem Framarar og KA-menn skiptust á hrósyrðum. Við skjölluðum þá fyrir góða frammistöðu og þeir sögðust miklu frekar vilja okkur uppi en helvítis Keflvíkingana, sem var lygi. Landsbyggðarfólk heldur ALDREI með Reykjavíkurfélögum. Það styður jafnvel FH á móti liðum frá Reykjavík og telur það byggðastefnu.

Þegar um kortér var liðið af seinni hálfleik komu fréttir úr Grindavík. Keflavík var búið að jafna. Við grettum okkur aðeins, en höfðum svo sem engar áhyggjur. Skömmu síðar skoraði Fram annað mark. Það gerði Beysi, Freyr Karlsson. Freyr var enginn sérstakur markahrókur, enda ekki til þess ætlast. Hann var leikstjórnandinn á miðjunni, en hafði ekki verið í byrjunarliðinu fjóra leiki á undan. Þetta var hans annað deildarmark um sumarið.

Freyr er einn af uppáhaldsfrömurunum mínum frá upphafi. Ástæðan var sú að ég fylgdist með honum strax í öðrum flokki í gegnum Gústa félaga minn, sem átti bróður í yngri flokkunum (eins og fram hefur komið). Það er líka einhvern veginn þannig í boltanum, að fólk hefur tilhneigingu til að sitja alltaf á sama stað á vellinum. Foreldrar Freys mættu á velflesta leiki og sátu nánast við hliðina á mér, svo maður hafði margoft spjallað við þau um gang mála.

Markið mikilvæga var úr föstu og góðu skoti af allnokkru færi. Frömurunum á pöllunum var gríðarlega létt. Nú væri leikurinn dauður og grafinn. Keflavík myndi aldrei skora svo mörg mörk í Grindavík að það dygði til! Það var því bara gleðilegur bónus þegar Beysi skoraði örfáum mínútum síðar annað mark, sem í minningunni var nákvæm endurtekning á því fyrra. 0:3, úrslit sem endurspegluðu gang leiksins ekkert sérstaklega vel.

Nánast um leið og Freyr breytti stöðunni í 0:3, komust Keflvíkingar yfir og örskömmu síðar breytti Guðmundur Steinarsson stöðunni í Keflavík í 1:3. Og þá fórum við að reikna… Nú þyrfti þriggja marka sveiflu. Fjandinn, það færi þó ekki að gerast.

Einhver var með vasaútvarp á vellinum. Við gátum því hlustað á innslög frá Grindavík þar sem gestirnir sóttu og sóttu, en náðu bara að skora eitt mark í viðbót, 1:4. Framarar voru uppi og Keflvíkingar fallnir.

Eftir vænan skammt af Siggi-Saggi, faðmlögum og siguröskrum stukkum við Valur upp í bílinn og ókum aftur af stað suður. Eða öllu heldur, Valur ók. Mitt framlag fólst í því að vera ekki að drekka bjór. Og við hlustuðum á útvarpið á milli þess sem við hrópuðum á tíu mínútna fresti: „Íha!“; „Þetta breytir öllu!“; „Einhvern veginn hafði ég alltaf góða tilfinningu fyrir þessum leik!“

Í útvarpinu var viðtal við Kjartan Másson þjálfara Keflvíkinga, sem var álíka hress og Geir Hallgrímsson í viðtalinu í nepjunni þegar Dr. Gunnar myndaði stjórnina með Framsókn og kommunum um árið. Kjartan lýsti því strax yfir að hér væri maðkur í mysunni. Hvernig í ósköpunum hefði Fram, fallbaráttulið, átt að geta unnið liðið í fjórða sæti á útivelli með þriggja marka mun??? – Sú staðreynd að hans eigið lið hafði stundarfjórðungi fyrr unnið liðið í þriðja sæti á útivelli með þriggja marka mun virtist ekki vefjast fyrir honum.

Við Valur hlógum eins og drýslar.

Við hlógum ekki jafn mikið þegar kom að fréttum Bylgjunnar og Stöðvar 2, þar sem Guðjón Guðmundsson gerði upp leiki dagsins. Í stað þess að byrja umfjöllun sína um fallbaráttuna á að stinga upp á því að reist yrði stytta af Frey Karlssyni í fullri líkamsstærð úr gulli og sett smarögðum, varð Gaupi alvarlegur í röddinni. „KA-menn hvíldu átta leikmenn á móti Fram fyrir norðan frá síðasta leik!“ – Eitthvað á þessa leið byrjaði frásögnin. Í kjölfarið komu vangaveltur um íþróttamannslega hegðun og að Keflvíkingar hefðu fyllstu ástæðu til að vera sárir út í norðanmenn.

Uhh… hugsuðum við. Getur þetta verið rétt? Vissulega vorum við engir sérfræðingar í leikmannahópi KA, en liðið sem spilaði á móti okkur virtist ekkert sérstaklega laskað eða illa skipað. Það voru engin börn inná. Var Þorvaldur Örlygsson að reyna að hjálpa gömlum félögum? Og hvaða lógík væri á bak við að hvíla leikmenn í lokaumferð? Hvíla fyrir hvað???

Það var ekki fyrr en heim var komið að við gátum slegið því upp að byrjunarlið KA var það sama og í umferðinni á undan, fyrir utan Dean Martin sem var í banni. Fram og KA sendu frá sér reiðilegar yfirlýsingar vegna þessa og Gaupi mætti frekar lúpulegur í sjónvarpið daginn eftir og sagðist „hafa lesið það á einhverju bloggi að KA hefði hvílt mestallt liðið og þess vegna flutt fréttina…“

En um það leyti sem Framararnir og Akureyringar settust niður að semja yfirlýsingarnar, vorum við Valur komnir til Reykjavíkur og búnir að opna fyrsta bjórinn á JL-stadium. Miðað við kryptískar færslurnar á blogginu mínu mánudaginn eftir var það upphafið að móður allra þynnkuhelga.

(Mörk Fram: Ágúst Gylfason, Freyr Karlsson 2)