Archive for nóvember, 2014

Fótboltasaga mín 80/100: Passíusálmur nr. 52

Sunnudagur, nóvember 30th, 2014

12. júní 1992. Grótta 2 : Skallagrímur 1

Evrópumótið í knattspyrnu 1992 fór fram í Svíþjóð. Meðal þátttökuliða var Samveldi sjálfstæðra ríkja, skammvinnt millistig sem var við lýði um skamma stund meðan verið var að skipta upp Sovétríkjunum. Aðeins 25 áhorfendur fylgdu liðinu til Svíþjóðar. Í ringulreiðinni eftir hrun Sovétríkjanna var skemmtiferð yfir Eystrasaltið ekki nema á færi fáeinna milljarðamæringa eða knattspyrnuforkólfa í boði UEFA. (Svo eru menn hissa á að núverandi stjórnvöld hafi talsverðan stuðning heima fyrir.)

Samveldið lék sinn fyrsta leik gegn Þjóðverjum. Úrslitin voru jafntefli, 1:1 og ég að sjálfsögðu límdur við skjáinn. Fyrr um daginn hafði ég svekkt mig á að sjá Hollendinga vinna 1:0 sigur á mínum mönnum, Skotum. Fyrri leikurinn var klukkan þrjú og sá seinni klukkan sex. Það var því tilvalið að bregða sér af bæ og horfa á meiri fótbolta um kvöldið.

Ég er Vesturbæingur og bjó í Frostaskjólinu mestöll mín uppvaxtarár. Seltjarnarnesið var því í röltfæri og þótt Grótta þætti sjaldnast merkilegasta liðið á að horfa, þá er fótbolti alltaf fótbolti. Kvöldgöngutúrar út á Nes lágu oft framhjá Gróttuvellinum á Valhúsahæð og sjálfsagt að staldra við ef leikur var í gangi.

Sumarið 1992 var hins vegar æsilegt hjá Gróttumönnum. Seltirningar höfðu farið upp úr fjórðu deildinni árið áður, með gamla KR-inginn Sæbjörn Guðmundsson sem spilandi þjálfara. Auk hans voru nokkrir aðrir með reynslu úr efstu deild. Kunnastur var Stefán Jóhannsson markvörður sem gekk til liðs við Gróttuna á miðju sumri. Fótboltaáhugamenn staðnæmdust þó helst við ungan framherja sem virtist skora að vild – Kristján Brooks.

Kristján skoraði fimmtán mörk í fimmtán leikjum þetta sumarið. Það dugði honum þó aðeins fyrir bronsskónum í deildinni. Bjarki Pétursson varð markakóngur og markamaskínan Valdimar K. Sigurðsson úr Skallagrími var annar. Í fjórða sætinu var Sauðkrækingurinn Sverrir Sverrisson og gamli Víkingurinn Goran Micic var skammt á eftir, en hann lék þetta sumar með Þrótti Neskaupstað. Pétur Pétursson náði ekki nema sjö mörkum í leikjunum sínum þrettán. Ætli þriðja deildin hafi fyrr eða síðar haft annað eins safn af kanónum?

Goran Micic kom Norðfirðingum upp í næstefstu deild. Tindastóll hafði yfirburði en það voru Þróttur og Grótta sem börðust blóðugri baráttu um hit sætið. Grótta tapaði tveimur síðustu leikjum sínum: á Sauðárkróki og heima gegn Þrótti í hreinum úrslitaleik þar sem jafntefli hefði dugað. Næstu vikurnar gekk svo á með kærumálum fyrir öllum mögulegum dómstólum vegna meintra ólöglegra leikmanna bæði Þróttar og Gróttu.

En um þá dramatík var ég grunlaus þetta júníkvöld á Valhúsahæðinni. Ég var mættur til að sjá Kristján Brooks, sem flestir töldu bara tímaspursmál hvenær myndi ganga til liðs við eitt af stóru liðunum í fyrstu deildinni. Og Brooks brást ekki. Hann skoraði tvisvar. Andstæðingarnir voru Skallagrímsmenn úr Borgarnesi. Þeim tókst ekki að skora, en einn heimamanna tók af þeim ómakið með sjálfsmarki. Internetið er þögult sem gröfin um hver það hafi verið, en með sjálfsmarkakónginn Sæbjörn inni á vellinum er ekki erfitt að giska.

(Mörk Gróttu: Kristján Brooks 2. Mark Skallagríms: sjálfsmark)

Fótboltasaga mín 79/100: Morgunkaffið

Sunnudagur, nóvember 9th, 2014

12. júní 2002. Svíþjóð 1 : Argentína 1

Á fyrri hluta tuttugustu aldar ákvað þing Alþjóða Ólympíunefndarinnar að nálega strika Ólympíuleikana 1906 út úr sögunni. Leikarnir höfðu raunar lukkast ágætlega og björguðu andliti Ólympíuhreyfingarinnar eftir misheppnaða Parísar- og St. Louis-leika tveimur og sex árum fyrr. En vanþakklátir íþróttaforkólfarnir horfðu fremur til þess hvað það yrði slæmt fyrir feng-sjúíið að fokka upp reglufestu þess að hafa fjögur ár á milli í sögunni, svo met og verðlaunahafar Aþenuleikarnir 1906 voru máðir úr sögubókum.

Það er ólíklegt að hreyfing rísi sem vill eyða HM 2002 úr sögunni. Væri þó tilefni til. Mótið í Japan og Suður-Kóreu var glatað, eins og komið hefur verið inná í þessum greinaflokki. Stemningin var skrítin. Sú tilhögun að hafa gestgjafaþjóðirnar tvær óheppileg. Hvert stórliðið á fætur öðrum olli vonbrigðum og tímamismunurinn var ömurlegur. Já og svo var þetta ekki sýnt á RÚV heldur Sýn.

Ég var áskrifandi og pínkulitla stofan á Hringbrautinni varð því félagsheimili yfir allnokkrum leikjum, sem sumir hverjir byrjuðu svívirðilega snemma. Verstir voru þó leikirinir kl. 6:10 á morgnanna. Einn slíkur var Argentína : Svíþjóð á miðvikudagsmorgni, í lokaleik F-riðils.

Þetta var árið þar sem þriðjudagar voru hinir nýju föstudagar. Þriðjudagskvöld þóttu tilvalin fyrir hvers kyns fundarhöld, sem yfirleitt enduðu á Næsta bar. Og þegar ekki voru fundir… þá fórum við bara fyrr á Næsta bar.

Kvöldið fyrir leikinn var engin undantekning. Ég, Palli Hilmars og Steinunn höfðum setið á Hringbrautinni og við Páll drukkið Bowmore-viský. Gott ef við átum ekki saman líka. Það hefur þá væntanlega verið kjötmeti, enda minnir mig að Páll hafi ekki verið orðinn grasbítur. Þegar klukkan var orðin nægilega margt héldum við á Næsta bar og hittum Stefán Jónsson og Þór Steinarsson, sem voru nýskriðnir af einhverjum VG-ungliðafundi. Það var alltaf hægt að treysta því að hitta einhvern sem maður þekkti á Næsta bar.

Auðvitað sátum við fram að lokun. Við sátum alltaf fram að lokun. Og við röltum heim og pikkuðum væntanlega upp einhvern skyndibita á leiðinni. Það var alltaf þannig.

Klukkan var orðin margt þegar ég sofnaði, kannski langt gengin í tvö. Það var samt engin miskunn hjá Magnúsi. Ég var búinn að bjóða fjölda manns í leikinn morguninn eftir. Svo eftir fjögurra tíma svefn hringdi vekjarinn. Ég brölti fram og hellti uppá kaffi. Sverrir Jakobsson, Raggi Kristins, Óli Jó og pabbi tíndust inn einn af öðrum.

Heimsmeistarar Frakka voru þegar búnir að fokka upp mótinu með smánarlegri frammistöðu. Ég hafði haldið með þeim og íhugaði alvarlega að dusta rykið af gömlu Argentínu-dálæti. Argentína hafði mætt til leiks með sigurstranglegt lið. Batistuta og Crespo voru einhverjir öflugustu framherjarnir í heiminum og Ariel Ortega virtist vera að ná vopnum sínum á ný í argentísku deildinni eftir frekar misheppnaðan feril í Evrópu. Péle spáði Argentínu góðu gengi en að Brasilía ætti ekki séns (það hefði reyndar átt að hringja viðvörunarbjöllum).

En Bielsa þjálfari vildi ekki leika með Batistuta og Crespo saman frammi. Liðið var leiðinlegt og varfærið. Lét sér nægja 1:0 sigur á Nígeríu í fyrsta leik og tókst svo að tapa fyrir Englendingum í þeim næsta. Hvílík martröð! Ég sem hafði hlakkað til að sjá Tjallana hafna á botninum í dauðariðlinum!

Fyrir lokaumferðina var Nígería án stiga og úr leik. Argentína með þrjú stig, en England og Svíþjóð fjögur. Argentína þyrfti því bara að vinna – helst ekki nema með einu marki – og þá mætti gæla við að Nígeríumennirnir ynnu Englendinga með sama mun eða meira og Argentína færi áfram sem sigurvegari og Svíar sem lið númer tvö.

Helvítið hann Lars Lagerbäck var ekki á því. (Ég sé reyndar að á FIFA-vefnum er Tommy Söderberg er einn skráður þjálfari sænska liðsins í leiknum, kannski skráningarkerfið þeirra geri ekki ráð fyrir möguleikanum á tveimur stjórum?) Svíar pökkuðu í vörn og Argentínumennirnir voru of hugmyndasnauðir til að brjóta niður varnarmúrinn. Þeir voru orðnir pirraðir og strax undir lok fyrri hálfleiks tókst Claudio Caniggia að verða sér út um beint rautt spjald fyrir kjaftbrúk af varamannabekknum. Hvernig í ósköpunum er það hægt?

Anders Svensson skoraði beint úr aukaspyrnu eftir klukkutíma, í einu af fáum skiptum sem Svíar fóru framyfir miðju. Tíu mínútum síðar var Batistuta tekinn útaf í sínum síðasta landsleik og Crespo settur inná. Meira að segja með bakið uppað veggnum datt þjálfaranum ekki í hug að spila með þá báða. Crespo náði að pota inn marki þegar tvær mínútur voru eftir en það var of lítið og of seint. Englendingar náðu jafntefli í sínum leik og Argentína fór heim eftir riðlakeppnina ásamt Frökkum og Portúgölum.

Það voru Svíar sem unnu riðilinn og virtust komnir með frímiða í undanúrslitin. En Senegal reyndist ofjarl í næstu umferði og það voru svo Tyrkir sem flutu í undanúrslitin gegn Brasilíu. En þá var mótið líka komið í tómt rugl. Suður-Kórea búið að vinna bæði Ítali og Spánverja með dyggri aðstoð dómaranna. Brasilía varð heimsmeistari án fyrirhafnar, en það mátti svo sem heita ljóst eftir spádóm Péle

(Mark Svíþjóðar: Anders Svensson. Mark Argentínu: Hernán Crespo)

Fótboltasaga mín 78/100: Illkvittnin

Miðvikudagur, nóvember 5th, 2014

5. september 1992. Fram 2 : Víkingur 1

Ég er ekki viss um að það að hafa brennandi áhuga á fótbolta geri mann endilega að betri manneskju. Fátt nærir þórðargleði meira en úrslit fótboltaleikja. Jafnvel þótt liðið manns tapi má einatt sækja nokkra huggun í enn meiri ófarir annarra.

Árið 1992 var mikið vonbrigðaár hjá Frömurum. Að missa titilinn til Víkinga sumarið áður var í hugum allra slys og það meira að segja pínkulítið krúttlegt slys. Þetta ár var Fram með langsterkasta mannskapinn á pappírunum. Skagamenn höfðu reyndar pakkað saman 2. deildinni, en enginn trúði því í raun og veru að nýliðar gætu orðið meistarar. KR-liðið var mistækt.

Það var líka nýr þjálfari. Pétur Ormslev tók við af Ásgeiri Elíassyni. Það var einhvern veginn allt svo rétt við það að fyrirliðinn hoppaði beint í stól þjálfarans. Ójá, þetta gæti ekki endað í tárum!

Við vorum á toppnum eftir sjö umferðir, reyndar á markatölu. Valdimar Kristófersson skoraði eins og vindurinn og Ingólfur Ingólfsson átti hverja snilldarsendinguna á fætur annarri. Í jafnteflisleik gegn Víkingum í áttundu umferð skoraði Valdimar sitt áttunda mark. Einhver fábjáninn hefur þá væntanlega farið að rifja upp markametið og jinxað allt saman. Hann hafði skorað níu mörk í mótslok.

Víkingsleikurinn í níundu umferðinni varð líka lokaleikur Baldurs Bjarnasonar í deildinni með Fram. Það kom eins og þruma úr heiðskíru lofti þegar tilkynnt var um miðjan júlí að hann væri genginn til liðs við Fylkismenn í 2. deildinni. Þessar fréttir grétu allir, en fæsta óraði þó fyrir því hve afdrifaríkt brotthvarf Baldurs var í raun.

Við unnum FH með heppni og sátum tveimur stigum á eftir ÍA með 19 stig þegar mótið var hálfnað. Við tóku sex tapleikir í röð í deild og bikar. Mótið var orðið að martröð.

En hvað mátti þá segja um Íslandsmeistarana? Sjaldan hefur lið hrunið jafn hratt og Víkingsliðið eftir 1991. Ef frá er talin furðugóð frammistaða gegn CSKA Moskvu í Evrópukeppninni, gekk allt á afturfótunum hjá Fossvogsliðinu og fljótlega fóru menn að velta því fyrir sér hvort Víkingar myndu bætast í afar fámennan hóp knattspyrnusögunnar yfir meistara sem fallið hafa árið eftir.

Það var ekki fyrr en 1993 sem Víkingar féllu, en þá raunar með glæsibrag. Og 1992 gátu þeir gulltryggt sig með jafntefli á Laugardalsvelli í næstsíðustu umferð. Leikurinn féll í skuggann af viðureign Skagamanna og FH-inga á sama tíma, þar sem Akranes varð Íslandsmeistari. Samt varð ég undrandi að sjá Íslenska knattspyrnu Víðis Sigurðssonar staðhæfa að áhorfendur hefðu aðeins verið 275 í Laugardalnum. DV og Mogginn birtu á sínum tíma töluna 415.

Fram hafði ekki að neinu að keppa. Víkingar hlustuðu hins vegar taugaóstyrkir á lýsingarnar frá öðrum völlum í vasadiskóunum sínum. Pétur Arnþórsson kom Fram yfir á upphafsmínútunum og við tók stíf en lánleysisleg sókn Víkinga. Gummi Steins var enn í Víkingsbúningnum og misnotaði nokkur góð færi. Við í stúkunni skemmtum okkur dável. Ekki þar fyrir að okkur væri neitt keppikefli að fella Víkinga. Hin liðin í fallbaráttunni voru Breiðablik, KA og ÍBV. Það voru því augljósir kostir varðandi ferðakostnað að losna við sveitavarginn. Víkingarnir lágu hins vegar svo vel við höggi.

Helgi Sig komst í dauðafæri en Birkir varði meistaralega. Við fengum svo sem einhver opin marktækifæri líka. Tíminn var við það að renna út og Víkingar að dragast enn dýpra niður í fallbaráttuna, en þá kom Björn Bjartmarz til sögunnar – maðurinn sem tryggt hafði Víkingum meistaratitilinn árið áður. Björn kom inn sem varamaður undir lokinn og 1-2 mínútum fyrir leikslok átti hann skalla í bláhornið. 1:1, Víkingar öruggir um sæti sitt og leikmenn og stuðningsmenn ærðust.

Frammegin í stúkunni fannst okkur berin súr og muldruðum eitthvað um þessi leikur hefði nú engu máli skipt og skárra væri að hafa Reykvíkinga en t.d. Eyjamenn í deildinni. Víkingar voru enn að faðmast og dansa þegar Framararnir tóku miðjuna, lögðu í sókn og örskömmu síðar lá knötturinn í Víkingsmarkinu. Steinar Guðgeirsson náði að smeygja boltanum inn á Anton Björn sem skoraði.

Ó, hvað við hlógum! Við fögnuðum eins og meistarar. Bara af því að við gátum það og af því hvað það var skemmtilegt að sjá lúpulega andstæðinga sem búið var að tantalísera svona andstyggilega.

Hagstæð úrslit á öðrum stöðum gerðu það raunar að verkum að Víkingarnir höfðu örlög sín enn í eigin höndum. Þeir unnu Blika í lokaumferðinni og héngu uppi. En ef karma virkar á ég eftir að súpa seyðið af drýslahlátrinum eftir mark Tona.

(Mörk Fram: Pétur Arnþórsson, Anton Björn Markússon. Mark Víkings: Björn Bjartmarz)