Bankar og fólkið sem í þeim vinnur

Bankar og þeirra vinnubrögð eru merkileg fyrirbæri. Ég lenti í honum kröppum í dag þegar ég hugðist sækja nýja debetkortið mitt í bankann, en það átti að endurnýja sig sjálft því hið gamla var útrunnið. Nema hvað? Ég fer í bankann og mér er tilkynnt það að kortið hafi ekki endurnýjast vegna þess að það var „unglingakort“. Aðeins „átján ára og eldrikortin“ endurnýja sig sjálf. Ég sá þar fram á að þurfa að lifa á vatni og ölmusu úti á Krít en þjónustufulltrúinn lumaði á trixi. Það er víst hægt að fá fúnksjónerandi debetkort úr kreditkorti með því að leggja inn á það. Það er einmitt það sem ég ætla mér að gera á morgun.
Ég varpa frá mér allri ábyrgð á dauðsföllum þeim sem orðið hafa á fólki við lestur þessarar „innihaldsríku“ færslu.

Klipping

Ég fór í klippingu í dag. Ég verð alltaf svo kátur á meðan hárskerðingu stendur að ég glotti eins og vitfirringur, en þá fá rakararnir illan bifur af mér. Þá glotti ég meira. Svo er ég gerði mér greiða leið framhjá hlemmi í átt að bifreið minni reyndi útigangsmaður á mínum aldri að sníkja af mér smápeninga. Ekki varð honum kápan úr því klæðinu. Að hugsa sér! Maður jafn gamall mér…

Stormur í aðsigi

Það væri mér að minnsta kosti ekki á móti skapi ef stormur væri í uppsiglingu. Það gæfi mér hið fullkomna færi á góðum bíltúr. Fátt er skárra en að sitja í hlýjum bíl hlustandi á góða tónlist í virkilega vondu veðri. Þá verður manni gjarnan litið til hins gangandi vegfaranda þar sem hann berst á móti loftmótstöðunni, óskandi þess að hann væri á bíl. Sólin mætti skína aðeins meir á meðan vinnunni stendur en eftir vinnu gæti mér ekki verið meira sama þótt allt fari til fjandans, þóknist veðurguðunum sem svo. Ég vonast eftir afkastaveðri í Reykjavík um verslunarmannahelgina (en sól handa þeim sem fara eitthvað) svo ég megi hljóta meiri ánægju af því að fara í bíltúra á nýja bílnum hennar móður minnar, en hann verður vonandi keyptur fyrir helgi.

Enn einn launalaus vinnudagur liðinn

Öllum deginum eyddi ég í að setja upp einangrun í nýja húsinu hans pabba. Að sjálfsögðu vill hann fá menn með reynslu. Enga reynslu ef marka má sjálfan mig, og aldrei má efast um notagildi þess að spara. Sérstaklega með að fá lélegar sonarómyndir sínar fyrir handverksmenn til að reisa sér bústað.
Ég er ansi hræddur um að svona muni þetta ganga það sem eftir er sumars. Verslunarmannahelgin fer í þetta, ekki eins og ég hafi eitthvað betra að gera, og post-Krít mun ég snúa aftur undir rangan enda svipunnar. Hafa margir kvartað við mig undanfarið að ekki sé hægt að ná í mig og er það hverju orði sannara. Við hverju öðru er að búast þegar maður vinnur á stað án gsm-sambands. Ekki eins og það skipti nokkru máli. Það er ekki hægt að heyra í neinum símum fyrir vinnuvélum.
Ég er farinn að hlakka til vetrar. Þá fæ ég a.m.k. tækifæri til að slugsa við námið, en það er ekki hægt að slugsa við neitt þegar ekkert er að gera. Það er ekki hægt að slappa sómasamlega af við slíkar aðstæður.
Senn nálgast Krít. Þar verður drukkið (nema hvað?) og spilað á strengjahljóðfæri, etinn krítverskur matur og brunnið í sólinni. Ekki nema vika í það núna.

Nostalgía

Man einhver eftir gömlu góðu bankabókunum? Þegar maður spáir í þeim núna þá voru þær alveg ótrúlega ópraktískar. Rúmlega A5 að stærð og svo þurfti alltaf að renna þeim í gegnum prentara til að fá nýjustu stöðuna á reikningnum. Ætli það sé enn hægt að fá svona? Ég er ennþá með opna bankabók hjá sparisjóði vélstjóra sem ég opnaði þegar ég var átta ára. Staðan á reikningnum var eitthvað í kringum þúsundkallinn. Reyndar, miðað við lága vexti, efa ég að þessi upphæð hafi hækkað mikið.

Terminator 3

Ég fór á þessa mynd af einskærum spenningi því allir höfðu sagt mér að hún væri góð, og það var rétt, aldrei þessu vant. Eitt helsta lýsingarorð sem ég get fundið yfir myndina er: Saaaaaaaaaææææææææææææææææææææælaaaa! Myndin var vel gerð, vel leikin (ef miðað er við Terminator-kvarða) og handritið vel skrifað. Myndin heldur (að sjálfsögðu) áfram þaðan sem síðustu mynd lauk, einhverjum tíu árum eftir lyktir hennar. John Connor er kominn á þrítugsaldur og neitar að horfast í augu við framtíð sína, en í henni felst áratuga löng styrjöld við vélar og ýmislegt álíka skemmtilegt. Líf hans er skyndilega truflað (í annað sinn) af tveimur tortímendum, einum góðum en öðrum vondum. Svo fylgir spennandi atburðarás sem ég skal ekki greina hér frá. Myndin er tær snilld (á Terminator-kvarða) og fær hún hér fjórar stjörnur af fjórum, rétt eins og fyrri myndirnar tvær. Allir sem fíla Terminator eru hvattir til að sjá þessa mynd sem allra fyrst. Ekki bíða eftir að þessi komi á spólu!