Áfengi

Annars hefi ég heyrt tíðindi þess efnis að fólk geti pantað sér nánast hvaða áfengistegund sem til er í Heiðrúnu, útibúi ÁTVR í árbænum. Það þýðir að ég get orðið mér úti um Mythos og Rhaki, skyldi ég vilja halda grískt kvöld. Að ég tali nú ekki um Krusovich, hinn yndislega bjór frá tékklandi. Alltaf gott að hafa valmöguleika.

Myndavélavesen

Fékk Krítarmyndirnar aftur úr framköllun í gær og varð fyrir svolitlum vonbrigðum. Tvær heilar filmur voru ónýtar, þ.m.t. myndirnar frá Heraklion, Knossos og Agia Roumeli. Þar að auki voru flestar myndirnar sem ég tók í Samaria ónýtar. Þetta er í síðasta skiptið sem ég reiði mig á einnota myndavélar. Áður en ég fer til Prag í Nóvember (ekki alveg ákveðið en mjög líklegt) ætla ég að vera búinn að fá mér almennilega myndavél með aðdráttarlinsu og öllu tilheyrandi. Ég vil ekki þurfa að lenda í einhverju svona aftur.

Snilld

En er Þórir sá að þeir Óspakur gengu til hvalsins hét hann á menn að þeir skyldu eigi láta rænast. Hljópu þeir þá til öðrum megin. Gengu þeir þá frá hinum óskorna hvalnum og varð Þórir skjótastur. Sneri þegar Óspakur honum í móti og laust hann með öxarhamri. Kom höggið við eyrað og féll hann þegar í óvit. En þeir er honum voru næstir tóku til hans og kipptu honum að sér og styrmdu yfir honum meðan hann lá í óvitinu. En þá varð hvalurinn eigi varður.

Þá kom að Álfur hinn litli og bað þá eigi taka hvalinn.

Óspakur mælti: „Far þú eigi til Álfur,“ segir hann, „þú hefir haus þunnan en eg hefi öxi þunga. Mun ferð þín verri en Þóris ef þú gengur feti framar.“

Þetta heilræði hafði Álfur sem honum var kennt.

Tekið úr Eyrbyggja sögu.

Persónunjósnir

Í bananagreininni félagsfræði vorum við spurð „siðferðislegrar spurningar“. Spurningin snerist um það hvort það væri allt í lagi fyrir félagsfræðinga að njósna um fólk til að fá sem bestar upplýsingar. Er þá verið að meina hegðunaratferlisrannsókn á fólki, þ.e. hvernig fólk hegðar sér og hvort það fylgi einhverju mynstri. Svarið við spurningunni er einfalt. Nei, það er ekki allt í lagi að njósna um fólk til að fá „viðunandi niðurstöður“ sem munu enda ævidaga sína á baksíðu moggans. Sú réttlæting var færð til vegar að væri fólk spurt leyfis um hvort mætti rannsaka það myndi fólk bregða frá sínu „náttúrulega sjálfi“ og byrja að hegða sér í ósamræmi við venjulegar aðstæður. Yrðu þá niðurstöðurnar rangar og ómarktækar. Hverjum er ekki drullusama? Hvaða þörf er á því að rannsaka mannlegt eðli með földum myndavélum? Til að geta troðið þessu inn í tölfræði- eða líkindareikning? Til að birta einhverjar innihaldslausar prósentutölur í mogganum? Það er staðreynd að þessar svokölluðu „sannreyndu athuganir“ sem birtast gjarnan í mogganum eru ekki byggðar á afgerandi niðurstöðum tilrauna og þær eru nánast aldrei rökstuddar nægilega, hvað þá sannaðar. Þetta er það sem félagsfræði snýst um.

Hvílíkt yndi!

Ekki nóg með það að ég hafi eignast Stalker heldur hef ég líka orðið mér út um óvildarmann. Ekki veit ég hvers vegna en viðkomandi hefur hreytt einhverjum bannsettum móral framan í mig í allan dag. En gaman. Ég er farinn að efast um getu mína til að eignast vini í þessu musteri tjokkóanna.

Eftir þennan yndislega skóladag gerði ég mér leið niður í miðbæ Reykjavíkur (ekki Kringluna Bibbi) af tveimur ástæðum. Annars vegar þurfti ég að fara með filmurnar frá Krítarferðinni í framköllun, sem og ég gerði, og hins vegar þurfti ég að skipta tveimur enskubókum (þar sem ég fékk enskuna metna) í staðinn fyrir eðlisfræðibók. Ekki tókst mér þó það ætlunarverk sökum kvittunarmissis.

Að þessu loknu fór ég niður á Lækjartorg. Þar kom að mér róni, hafandi á hendi ásakanir þess efnis að ég væri fullur. Eftir nokkurn tíma tókst mér að losna við hann, án þess að komast að því hvað hann þóttist hafa fyrir sér.